16.12.05

"Svo þú ert svona blessunarlega á þig komin..."

Sagði dómkirkjuprestur við mig um síðustu helgi. Hefðum við ekki verið stödd í kirkjunni miðri með söfnuðinn allt í kring hefði ég nú sjálfsagt tjáð mig aðeins, á kjarngóðri íslensku, um mitt álit á blessunarlegheitum þess. Held sé að verða útséð um að ég botni í rómantíkinni við Ástandið.

Er hreyfihamlaðri en elsta ættmóðir mín. Bara tímaspursmál um hvenær ég fer að þurfa aðstoð við klósettferðir og sjálfsþrif. Úgh. Þurfti að hryggja Smábát með því að komast ekki að sjá leikritið sem hann var að leika í í skólanum sínum í morgun. En þar sem hann er með eindæmum dásamlegt barn þá færði hann mér bara jurtaseyði úr Nornabúðinni í eftimiðdaginn, og hunang með. Til að mér batnaði í bakinu. Hann Kafbátur má nú aldeilis standa sig vel frá fæðingu ef hann ætlar í einhverja samkeppni við barnið sem fyrir er á heimilinu í yndislegheitum.

Enda von á góðu þegar heimilisfaðirinn er svona mikill hvers manns hugljúfi og fyrirmynd mannkyns í einu og öllu. Nú get ég bara ekki sagt fleira fallegt í dag.

14.12.05

Fréttir af fjölskyldunni

Mikið snilldar uppeldisráð eru þessir jólasveinar. Smábátur gengur um þessa dagana gjörsamlega eins og hugur manns og önnur eins hlýðni, kurteisi og greiðvikni hefur nú bara ekki sést. Ekki síst þegar kemur að háttatímum. Jahér.

Rannsóknaskip (sem er ævinlega eins og hugur manns, allavega minn) dreymdi hins vegarí nótt að hann væri handtekinn fyrir sauðaþjófnað og þyrfti að borga 10 milljónir í sektir og fara í fangelsi. Það hlýtur að vera fyrir arfagóðu.

Sjálf er ég endanlega hætt að geta hreyft mig baun og er voða illt þar sem lappirnar væru teknar af mér, ef ég væri barbí. Þannig að ég ligg bara og hlusta á appelsínuhúðirnar vaxa á meðan ég er að skrifa texta á gamlan klassíker.

Og Kafbátur vex og vex. Er komin með alvarlega innilokunarkennd fyrir hans hönd að þurfa alltaf að vera svona allur samankrumpaður.

13.12.05

Jólaævintýrið

er að verða hið umfjallaðasta. Umfjall í Víðsjá í gær. Atriði í Stundinni okkar í fyrradag. Og síðan sérstakt gagg um hljómdiskinn með tónlistinni í Mogga daxins. (Þar sem var m.a. fyndin útlagning á trixi sem við brúkuðum eiginlega af illri nauðsyn til að láta Ebenezer sofa heilan dag, þar sem Íslendingar hefja ekki jólahald að morgni. Sniðugt.) Og svo verður eitthvað í Kastljósinu einhvern tíma fyrir jól.

Svo hafa menn víst eitthvað verið að láta orðbragð í sýningunni fara í siðferðið á sér. Þar sem sýningin er jú auglýst "fyrir alla fjölskylduna". En ég tek alveg á mig fullt af sök á því. Finnst miklvægt uppeldismál að kenna börnum að kjarngott alþýðublót, eins og horngrýtis, húmbúkk og skrattans, ef það heldur þeim þá frá enskuslettunum fokk og sjitt sem tröllríða málheimum þessa áratugina.

En það er víst ekki seinna vænna að hverja menn til að drífa sig. 4 sýningar eftir. 17., 18., 29., og 30. des. Allar kl. 20.00 í Tjarnarbíó. Miðapantanir hér.

Þetta helst

Þetta helst

Það er helst í fréttum að mér og félögum sem aldrei hafa skrifaði fyrir atvinnuleikhús var ekki fleygt öfugum út úr Leikskáldafélaginu á aðalfundi þess í gærkvöldi. Og það alveg án þess að ég gæti mætt til að ibba mig eða neitt. Enda, ætla þeir að vera að vitna í spakheit manns á heimasíðunni sinni, og henda manni svo bara út? Þvuh! Aukinheldur hélt ég að næstum allir stjórnarmenn þessara samtaka væru lærifeður mínir og/eða velunnarar. Hefði nú bara rétt ullað áðá ef þeir hefðu haldið þessum ósóma til streitu.

Svo eigum við víst nýja ungfrú heim. Mér er nú eiginlega alveg sama. En það rifjast alltaf upp fyrir mér þegar einhver íþróttakarlremba sem ég kannaðist einhvern tíma við sagði að þetta væri nú eina íþróttin sem ætti að LEYFA kvenfólki að keppa í. Allt hitt væri nú bara peningaaustur á takmörkuðum fjárráðum íþróttahreyfingarinnar, í tóma vitleysu. Nokkuð af kvenfólki var viðstatt og stökk það upp á nef sér, allt sem eitt. Úr varð mikill hávaði.

En stærsti kosturinn við þennan gífurlega sigur finnst mér hafa verið að sjá aðeins framan í hana Hófí í Kastljósinu í gær. Mér finnst hún alltaf ógurlega heilbrigð, eitthvað, með lappirnar á jörðinni. (Og mikið gasalega hefur hún nú haldið sér miklu betur en hún Linda Pé.)

En mitt þjóðarstolt er alveg til friðs fyrir þessu. Það þarf enga titla til að segja mér að á Íslandi eru sætasta fólk í heimi. Enda, ég meina, hafiði séð útlendinga?!?

11.12.05

Snarheilagt

Fórum í messu á þessum þriðja sunnudegi í aðventu, aðallega til að hlusta á Smábát lesa jólaguðspjallið í helgileik. Það gerði hann með miklum sóma, og nú eru að sjálfsögðu uppi mikil áform um að gera úr honum prest. Við sama tækifæri sáum við sr. Hjálmar sýna einstaka rósemi við að hafa stjórn á kirkjugestum og þátttakendur í prógrammi daxins, en meðalaldurinn var trúlega einhversstaðar fyrir neðan 10 ár, á meðan hann skírði einn Bárð. Varð huxað til bróður míns sem ungur afneitaði því auknefni sínu, og glotti að kvikindisskap foreldranna að ætla ekki einu sinni að gefa barninu séns á að brúka eitthvað annað.

Annars veit ég ekki hvernig nafngiftir á Kafbát enda eiginlega. Faðir hans neitar gjörsamlega að tjá sig um slíkt af alvöru, og það síðasta sem ég heyrði var annað hvort Jón Múli eða Gabríel Daníel.

Svo var fæðingardagurinn 28. des. að gerast snöggtum líklegri. Það verða allavega átök á heimilinu ef marka má fótboltadaxkrána.

Legsúrnun

Er orð daxins. Heiðurinn af því á hann Bibbi í kommenti við síðustu færslu. Þetta er svo dásamlega viðbjóðslegt orð að það er mesta furða að uppfinningamenn íslenskra læknaorða yfir meðgöngukvilla skuli ekki hafa klínt þessu á eitthvað ástand. Hef einmitt mikið furðað mig á því að menn skuli ekki hafa reynt að finna skárri orð yfir ýmislegt sem tengist þessu ástandi.

En, nei. Eins og þetta sé nú ekki alltsaman nógu mikill viðbjóður fyrir, þá þarf þetta alltsaman að heita eitthvað leg-slím-ógeðs-viðbjóður. Og, einmitt, mesta furða að ekki skuli vera til ástand sem heitir Legsúrnun. Það væri svo eftir þeim sem fundu upp orð eins og: Legslímuflakk, slímtappi og grindargliðnun. Og svo ætlar þetta lið í hinu orðinu að fara að messa yfir manni um "kraftaverk nýs lífs" og hvað ha? Og segja það bara næstum í sömu setningu og þeir tala um slím og gliðnanir? Ekki skrítið að illa gangi að selja manni þá rómantík.

En ég kann Bibba miklar þakkir fyrir þetta orð. Gott að kunna allavega eitt ógeðslegt orð sem er ekki sjúkdómsheiti í alvöru. Þeir hafa þá ekki notað þau alveg öll.