10.12.09

Byltingin lifi!

Ómar Ragnarsson og Teitur Atlason spara mér ómakið að fjalla um helv... vinstri/hægri/snú kjaftæðið sem er vaðandi um allt í umræðunni þessa dagana.

Það er fáránlegt að hrunsvöldum sé í alvörunni að takast að fá ótrúlega marga almenna borgara til að vera (eða ætla öðrum að vera) ýmist með Sjálfstæðismönnum eða Útrásarvíkingum „í liði“.

Langflestir Íslendingar eru heiðarlegt fólk sem vill sjá hér annað og betra þjóðfélag á alla lund. Langflestir eru vaknaðir af dvalanum og eru að mynda sér sínar skoðanir á því ástandi sem „góðærið“ gat af sér. Þar að auki eru ýmis stórmál sem margir eru að endurmeta afstöðu sína til þessa dagana, til dæmis, náttúruvernd, stóriðja, Evrópusambandið, NATÓ, Obama, skattamál, velferðarmál, og svo mætti lengi telja, (ég ætla ekki einu sinni að nefna fokkíng Ísbjörgu) sem ganga svo þvert á allar flokkslínur að ekki er samstaða innan flokka um þær, og getur ekki verið.

Sem gerir nákvæmlega það að verkum að það þarf að gera fleiri byltingar.

Það er búið að gefa fjórflokknum allan séns í heimi. Hann virkar ekki. Hægri/vinstri á ekki lengur við nema í örfáum og smáum málaflokkum. Allir vilja redda þessu. Nema þeir sem enn sitja við kjötkatlana eins og ekkert hafi í skorist og hamast nú við að skipa lýðnum í fylkingar á móti sjálfum sér.

En í nýjum mótmælum á Austurvelli sé ég upphafið af nýrri byltingu. Þar hefur mönnum tekist, rétt eins og fyrir ári, að draga saman nokkur grundvallaratriði sem við erum flest sammála um. Hinn raunverulegi klofningur er á milli hrunsvalda og þjóðar og stjórnvöld virðast bæði máttvana og rígbundin á klafa úrelts skipulags sem heldur glæpalýðnum allsstaðar undir pilsföldunum.

Mér finnst alveg ljóst að við þurfum að halda áfram að berja á nýju ári. Kveikja í jólatrénu og allt það. Vill til að við sömdum ansi gott lag í fyrra og ætti ekki að verða skotaskuld úr að semja annað og róttækara.

Byltingin lifi!

Rörasaga

Af því að ég veit að einhverjar ömmur og frænkur bíða í ofvæni eftir fréttum að eyrnaheilsu yngsta fjölskyldumeðlimsins verða hér afrek morgunsins færð í annála, nokkuð nákvæmlega.

Friðrik hinn ungi vaknaði árla morguns en varð harla foj yfir að fá ekkert að drekka. Sama hvað hann heimtaði og grenjaði þá varð hann að vera fastandi þar til búið yrði að pípuleggja fyrir hlustir honum. Þetta þótti honum hið versta mál, en hefur honum þótt um ansi margt nú um nokkuð langa hríð.

Rétt fyrir níu mætti ég með hann, enn nokkuð grjótfúlan, upp í Handlækningastöð í Glæsibæ. Þar batnaði skapið nú nokkuð, ekki síst fyrir tilstuðlan Bubba Byggis dótsins á biðstofunni. En Adam var ekki lengi í Paradís og mótmælti harðlega þegar hann var dreginn inn á einhverja viðgerðarstofu. Sem betur fór var svæfingaferli bara sett í gang hið snarasta og drengur meðvitundarlaus.

Ég fór fram á biðstofu og þetta var búið innan 5 mínútna. (Ég hélt hálfpartinn að það hefði verið hætt við.) En drengurinn var kominn með rör í eyrun og búinn að losna við heilan lítra af slími sem læknirinn fann þar innanhúss. Hann spurði hvort drengurinn hefði ekki verið búinn að vera illa pirraður. Sem hann er búinn að vera. Kannski ekki endilega miðað við önnur börn, en miðað við eigið skapferli sem hann hefur beina leið frá föður sínum. Læknirinn sagði að hann ætti að heyra betur, sofa betur og verða almenn glaðari eftir að hafa losnað við allt þetta úr hausnum.

Læknirinn var farinn þegar sjúklingurinn vaknaði. Þá birtist einhver öskrandi umskiptingur sem hafði allt á hornum sér þangað til við vorum komin niður í bakarí og hann fékk kókómjólk. Það var þó strax greinilegt (þegar hann var þagnaður) að honum þóttu öll hljóð merkileg. Ég tók líka eftir því þegar ég var að tala við hann á leiðinni heim hvað ég var búin að venja mig á að tala hátt þegar ég talaði við hann.

Þegar heim kom hélt ég áfram að gefa honum allar mjólkurvörur sem hann gat í sig troðið, í gleði minni, þrátt fyrir magapínur undanfarinna daga. Hreinsaði svo samviskuna með LGG. Líklega verður karma mínu þó refsað með kúkasprengju seinna í dag. Drengur er farinn að brosa út að eyrum, eins og maður hefur ekki séð vikum saman og dundar sér syngjandi. Hann virðis þegar vera farinn að verða sjálfum sér líkur.

Í framhaldinu má hann fara í leikskólann á morgun og þarf að fá smyrsl í eyrun 2svar - 3svar á dag fram á sunnudag. Þá eiga eyrnabólgur framtíðar ekki að valda öllum þessum ósköpum og magaheilsunni vonandi bjargað frá fleiri pensillínkúrum. Sem er eins gott. Ég vigtaði manninn í morgun og hann er orðinn 10 kíló. Var 12 í haust. Hann er sem sagt búinn að léttast um einhver 15% af líkamsþyngd sinni og er kominn niður í þyngdina sem hann var í þegar hann var um 8 mánaða gamall. Enda er hann kominn með mjög vannæringarlegt yfirbragð og verður settur á Herbalife nú þegar og mataður á mæjónesi og rjóma til skiptis öll jólin.

8.12.09

Jóladagskrá Hugleiksins

Þá er líklegast rétt að byrja að plögga.

Á sunnudax og mánudaxkvöldið verður jóladaxkrá Hugleixins, sem þetta árið heitir Jólahrun, haldin hátíðleg á í Hugleikhúsinu að Eyjarslóð 9. Þar verður m.a. á boðstólnum nýtt verk eftir sjálfa mig í leikstjórn höfundar. Og flutningi Jóns Gunnars og Lubba Klettaskálds.

Eins og ég hafi ekki þá þegar reist mér hurðarása um axlir taugaveiklunar og stressss er ég líka eiginlega hálfpartinn búin að segjast ætla að syngja.

Einnig verður á dagskrá verk eftir Rannsóknarskipið í leikstjórn Harðar S.Dan.

Svo við stelum þarna alveg heilmikið af senum. Og þetta verður sjálfsagt bara gaman. Og örugglega alveg þess virði að mæta, ef menn nenni.

Persónulega stressar þetta dæmi mig talsvert meira en allt akademískt álag þessa dagana.

Af hverju gerir maður þetta alltaf?

Listi yfir allt gott á Íslandi í dag

1. Eva Joly
2. Færri auglýsingar.
3. „Markaðurinn“ er ekki lengur að troða sér allsstaðar inn í fréttir og allskonar og drepa mann úr leiðindum.
4. Það er aftur hægt að fremja listir og menningu án þess að vera sponseraður af stórfyrirtæki.
5. Kreppujól eru fallegri, betri, yndislegri og hlýrri að innan heldur en góðærisjól.
6. Það er ekki lengur plebbalegt að vera á kvínandi kúpunni. Það er kúl.
7. Kreppuhlátur er innilegri og fallegri (þó hann sé örlítið örvæntingarblandinn) heldur en græðgis- og greddulegi góðærishláturinn.
8. Fólk er duglegra að gefa í hjálparstarf þó það eigi enga peninga.
9. Sérstaki saksóknarinn sem ætlar að setja alla vondu ríkukallana í fangelsi.
10. Á næsta ári er séns að við þurfum aldrei aftur að heyra orðið „Icesave.“

Eftir góða ábendingu bara verð ég að benda á eitt enn.

11. Ísland er nú McDonalds-frítt land! Húrrah!

Og þetta er bara rétt að byrja!
Við verðum öll miklu fátækari á næsta ári! Líklega borgaralega óhlýðnari og kveikjum í bönkum og stórfyrirtækjum ef ríkið verður ekki nógu snöggt í snúningum við að hirða það af gjaldþrota ríkuköllum!
Jeij!

Heilsufréttir

Í dag er Smábátur heima með gubbuna sem Hraðbáturinn var með um helgina. Þá eru allir búnir að fá hana nema Freigátan. Ég byggist alveg eins við símtali frá leikskólanum hennar ef ég hefði ekki gleymt símanum heima.

Freigátan var annars fyndin í morgun. Í jóladagatalinu hennar var mynd af engli.
Ég: Hvað er nú þetta?
Hún: Kona.
Ég: En... hún er með vængi. Hvað er hún þá?
Hún: Álfur.
Ég: Er hún ekki engill?
Hún: Mamma. Englar eru ekki til. !!!

Habblaha. Eru álfar kannski menn? Ja, þeir eru allavega til, skv. trúarbragðakerfi dóttur minnar. Ekki englar.

Hraðbátur er í leikskólanum, en hann fékk þann úrskurð hjá eyrnalækninum í gær að það væri vökvi í eyrunum hans og hann fær rör í þau á fimmtudaginn. Ef hann verður ekki kominn með eyrnabólgu áður. Eða hlaupabóli. Ef ég væri með símann byggist ég líka fastlega við símtali úr leikskólanum hans.

En ég er ekki með símann. Og er meiraðsegja að fara í PRÓF á eftir. Frekar gaman að lenda í því á síðustu og verstu tímum, en til vill að einn kennarinn minn er óttalegur sérvitringur og vill endilega láta menn taka próf alveg á MA og doktors og hverjusemer. Hann lét mig líka taka próf fyrir u.þ.b. ári síðan. Ég var skeptísk. Þangað til ég fékk 9. Svo nú er ég bara syngjandi kát, ætla að læra voða vel um hann Brecht og massetta!