8.6.06

Hár saman

Fór í klippingu í morgun. Að rúningu lokinni var ég orðin talsvert létthöfðaðri. Og allt í einu var Hugrún syss komin í spegilinn. (Reyndar náttlega aðeins yngri og sætari ;-)

Og hér er allt á seinna taugaáfallinu að undirbúa útlegð sumarsins sem hefst á morgun. Sjitt hvað það er mikið eftir.

7.6.06

Í nótt

dreymdi mig að ég byggi í glerhúsi.

Ætti kannski að hætta að kasta grjóti?

6.6.06

Hugleiðingar á degi skepnunnar

Bubbi á afmæli.
Hann á nú alveg eitt og eitt gott lag.
En ég er ekki viss um að það sé gott að elska hann.

Mér er svo sama um Framsóknarflokkinn.

Í dag sóttum við um húsaleigubætur. Það er bara búið að standa til síðan í ágúst sl.
Og margt fleira á listanum kláraðist líka í dag, og er það vel.

Og ég er búin að panta mér tíma í róttæka afhárun höfuðs míns á fimmtudaxmorgun. Það er allt að detta af hvortsemer. Ég ætla að fá mér alveg ofurstutt hár.

Freigátan er búin að uppgötva að hún hefur nokkuð kraftmikla rödd, og getur framleitt með henni ótrúlegustu hljóð. Þessa dagana liggur hún löngum á gólfinu og skrækir eins og reiður máfur. Og í kvöld reyndi ég að byrla henni útrunninni þurrmjólk. Hún vildi hana ekki. Skiljanlega.

Annars er ég öll að drepast í mjöðmunum og bakinu og almennt bara öllum hjörum líkamans. Síðasti jógatíminn er á morgun og svo er planið að vera dugleg í sundinu fyrir norðan og reyna að komast í höfuðbeina- og spjaldhryggsleiðréttingu hjá honum Eymundi fyrir austan. Þar með er ég búin að "gera eitthvað í þessu" alveg hringinn í kringum landið. Svo er ég farin að finna einhverjar undarlegar perversjónir hjá mér í þá átt að spekúlera voða mikið í mataræði og enda örugglega sem einhver gulrótarsafadrekkandi, lífrænt ræktandi, holier than thou, jógaspíra. Sem ég hef einmitt gjarnan fyrirlitið svo innilega, í laumi.

Já, maður veit aldrei hvaða fyrirlitning á eftir að bíta mann í rassgatið.

Og hví ritræpan?
Tja, kannski af því að ég var að byrja að trappa niður geðlyfin?

5.6.06

Dauðans leti

Við erum búin að vera alveg fáránlega löt í dag. Sérstaklega miðað við að við gerðum lista yfir allt sem þarf að gerast áður en við förum í útlegð á föstudag. En þá er ferðinni heitið norður í Svarfaðardal, svo í Eyjafjörðinn, þá austur, og það er eiginlega ekki ætlunin að koma aftur fyrr en í byrjun ágúst. Þann fjórða ágúst, föstudag fyrir verslunarmannahelgi, ætla ég svo að byrja að vinna aftur. Já, sveimérþá, þetta er bara að verða búið. Og ég er ekki búin að neinu sem ég ætlaði að gera í fæðingarorlofinu. Djöfuls. En, ég kem þó til með að klára eitt leikrit. (Ætlaði reyndar að klára þrjú.)

Jæjajæja. Best að horfa á einn Angel áður en Smábátur kemur heim af ættarmótinu.

4.6.06

Gaman!

Í gær var afmælisdagur Magnúsar Grímssonar. Og Huldu Hákonar. Og Guðrúnar frá Lundi. Og ný Hugleixhefð fæddist. Minnisvarði um Magnús Grímsson var heimsóttur (sem er ekki ný hefð, heldur gömul) svo var farið í Álafosskvos, grillað og fráfarandi formaður leystur frá störfum með smávegis viðhöfn. Þar með er komin á hefð fyrir að halda stjórnarskiptagrill á afmælisdegi Guðrúnar frá Lundi. Þar mun einnig haug af kartöflusalati fórnað á altari heilagrar Tamöru, en hún ku vera nýr verndardýrlingur svangra og/eða áklósettþurfandi Hugleikara.

Undirrituð skrópaði hins vegar á djamm sem búið var að blása til á Keltikk Kross, í framhaldinu, í tilefni af afmæli hálfnöfnu minnar Jennýjar Láru. Ég nenni bara ekki að fara á pöbba nema hafa það að augnmiði að drekka allavega þrjá bjóra, og ég nenni helst ekki að drekka svo mikið á meðan ég er á geðlyfjum. En klárast nú sennilega bara í þessum mánuði, eða næsta. Og þá verður nú aldeilis hægt að...

Og gleðilega hvítasunnu. Það er bara skítaveður!