20.10.06

1000!

Þetta er þúsundasta færslan á þessu bloggi! Það hlýtur að þýða eitthvað.

Ef ég myndi púlla Varríus núna og eyða blogginu mínu með manni og mús, þá færu 1000 færslur í gúanóið. Kannski maður ætti að fara að huxa til þess að seifa þetta einhversstaðar?

Erum á leiðinni að gera tilboð, brunum síðan heim og þrusum okkur Gyðu austur. (Við fljúgum klukkan 4.) Alltaf skal manni nú detta í hug að gera allt sama daginn.

Allavega, góða helgi, ég kem til með að eyða henni að mestu leyti inni á Iðavöllum og verð sennilega óverendát fram á mánudag.

19.10.06

Annað kvöld

Var að klára að pakka. Við Freigátan fljúgum austur á morgun. Hún ætlar að eyða helginni í að skemmta ömmu sinni á meðan ég vinn í leikritinu mínum með Leikfélagi Fljótsdalshéraðs. Hvernig ég ætla að fara að því að koma sjálfri mér henni og tölvunni í heilu lagi um borð í flugvél og pína síðan Freigátuna til að vera kjura í klukkutíma, er... tja, best að brenna þann kross þegar ég kem að honum.

Fasteignadagbókin
Eftir miklu umhugsun um ónýtu íbúðina var eiginlega of margt að henni til að huxa meira um hana. Hún var:
- Ónýt
- Ekki nógu skemmtileg til að mig langaði að "gera hana að minni"
- Eiginlega of langt frá skólanum hans Róberts
- Og svo fóru að berast fregnir af allskonar glæpónum sem ku vera búsettir í grenndinni

Semsagt, hún er úti í kuldanum.

En núna áðan fengum við skyndihugdettu um að skoða eina í nágrenni okkar sjálfra. Sú íbúð er reyndar örlítið minni, en betur staðsett á alla kanta, ekkert sérstaklega ótnýt, nema hvað það er dáldið búið að ganga parketið til, og eiginlega bara... með öllu sem okkur langar í, held ég. Sennilega gerum við tilboð á morgun. Sennilega bara nokkuð gott, meiraðsegja. Við erum bara nokkuð skotin í henni þessari.

Þunglyndisdagbókin
Í morgun gerðist hið ótrúlega ómögulega. Ég vaknaði og var ekki vitundarögn syfjuð. Dagurinn var eins og aðrir bara, en heimurinn fórst aldrei. Ekki þegar ég fattaði að ég hafði klúðrað geðveikt illa eða neitt. Og ekki þó það væri mikið að gera og það fór merkilega lítið í stressurnar á mér að ég er að fara að ferðast á morgun með Freigátuna. En það hefði nú verið aldeilis líkt mér að gera allavega smá heimsenda úr því. En innra með mér var ég alveg pollróleg og ekki baun ómöguleg.

Merkilegt. Þetta er ég búin að vera að gera:

Ég er ekkert búin að vera að taka mark á því þegar ég held að ég sé sybbin. Bara sofa um 8 tíma á nóttunni og ekkert rugl.
Ég er búin að vera að nördast svolítið um þunglyndi og meðferðir við því. Bara svona lesa mér til um einkenni og yfirborðslegt um meðferðir. Ekkert heví, en ég er ekki frá því að það hafi virkað aðeins að lesa aftur og aftur hver einkennin eru... Ekki það að maður viti það svosem ekki en... einhvernveginn finnst mér það hafa síast betur inn.
Og svo er ég búin að vera að (og nú kemur klisjan) huxa jákvætt. Eiginlega bara leiðrétta sjálfa mig þegar mér finnst allt ómögulegt og sérstaklega ég. Þá hef ég vandað mig að hugsa um að það sé til dæmis órökrétt að mér finnist heimurinn vera að farast af því að ég gleymdi að kaupa lýsisperlur eða allt sé ómögulegt, og sérstaklega ég, af því að það sé ekki gjörsamlega allt á hreinu í lífi mínu.

Um daginn, reyndar fyrir akkúrat viku síðan, var ég ógurlega þreytt eitthvað eitt kvöldið. Mikið að gera daginn eftir og mér fannst þetta allt eitthvað svo ógurlega erfitt. Þá ákvað ég að reyna að hlakka til alls sem ég þyrfti að gera daginn eftir. Gerði þá stórmerkilegu uppgötvun að allt sem ég var að fara að gera daginn eftir fannst mér skemmtilegt. Ég hékk í þessari hálfuppgerðu tilhlökkun alla nóttina og daginn eftir og skemmst frá því að segja að dagurinn varð hinn skemmtilegast í langan tíma. Síðan er ég búin að vera að minna sjálfa mig á, þegar mér ætlar að fara að finnast eitthvað erfitt, að mér finnst þetta venjulega stórgaman. (Vill til að mestallt sem ég þarf að gera í lífinu þessa dagana er stórgaman og ég hef ekki einu sinni tíma til að sinna öllu sem mér þætti gaman að gera.) En þarna held ég að ég hafi snúið svolítið við. En ég átti alls ekki von á svona mikilli breytingu með einhverju svona... huxi. Hef miklu meiri trú en áður á hugrænu atferlismeðferðinni. Ætla að bögga lækninn minn í viðtalstímanum hans fyrramálið.

18.10.06

Kvöld

Ég þakka fegurðina í kommentunum við síðustu færslu. Mér finnast lesendur mínir líka allir fallegir og skemmtilegir að nenna að lesa mig. :-)

Var að horfa á Americas Next Top Model. Jade pirrar mig. Alltaf þegar ég er alveg að fara að halda með henni þá gerir hún eitthvað svo forkastanlega heimskulegt að ég get það ekki. Í kvöld ætlaði hún að þykjast fara að grenja fyrir framan dómarana. Hálfviti.

Við skoðuðum annars alveg viðbjóðslega íbúð í dag. Hún er vel staðsett, með háu brunabótamati, á lágu verði, flott sameign, barnvænt umhverfi, en, ómægod. Ég er alls ekki kreðsin á hvernig ég bý, en þarna inni þyrfti að skipta um ALLT. Gólfefni, hurðir, innréttingar, það er bara alveg svakalega fátt sem ég myndi láta í friði. Spurning daxins er, ættum við að bjóða hroðalega lágt í hana, láta svo slag standa, ef því yrði tekið, og búa í henni ógeðslegri þangað til við sjáum hvernig greiðslurnar fara með okkur og eyða síðan peningum annað slagið næstu árin í að "gera hana okkar" eins og konan sagði? (Takið eftir að ég segi peningum, ekki tíma. Það er alveg á hreinu að við erum ekki að fara að nenna að gera eitt einasta handarvik sjálf. Við erum ekki svo nennin eða smíðin. Helst myndi ég vilja láta bjóða í allt draslið í einu og gera það síðan á meðan við værum í sumarfríi fyrir norð-austan)

Hvað ættum við að gera?
Kostar svosem ekkert að gera tilboð...

Hmmmmm... huxhuxhux... bræð-úr-heila...

Held ég nenni ekki að pæla í þessu í kvöld. En gaman væri að heyra að fólk myndi ráðleggja í stöðunni?

Rannsóknarskip á leiklistarnámskeiði. Við Harry Potter ætlum snemma í rúmið.

Virkni

Ýmislegt að ske. Minni á tónleik Lúðrasveitar Reykjavíkur í kvöld þar sem meðal annars verður flutt verkið "Spaugelsi" eftir hina norskmenntuðu systur mína, Báru Sigurjónsdóttur.

Ég fór á fund í gær og ætla að leikstýra einhverju jólalegu fyrir jóladaxkrá Hugleix sem verður í Þjóðleikhúskjallaranum í byrjun desember. Mér finnst óskaplega gaman að vera farin að undirbúa jólin...

Erum sennilega að fara að skoða íbúð á eftir, þar sem mér virðist ég ætla að fá einu þjónustufrekjunni minni sinnt. Ég vil nefnilega að fasteignasalar sýni mér íbúðir. Ég nenni ómögulega að eiga að standa í því sjálf að hafa samband við eigendur eða leigjendur og heimta að fá að vaða inn á heimili þeirra. Ég vil að fasteignasalar komi allavega tímasetningu á viðburðinn, helst komi sjálfir og sýni þegar eigandinn er ekki heima. Þetta fannst mér líka langbesta tilhögunin þegar ég var sjálf seljandi. Fasteignasalar eiga að vera með allar upplýsingar, hafa góða þjálfun í þessu, og svo erum við líka að borga þeim alveg hreint morðfjár, gangi salan í gegn.

Mér er meinilla við að hringja á fasteignasölu út af íbúð og fá bara símanúmer hjá einhverjum "Guðmundi" úti í bæ. Hvað ef "Guðmundur" er einn af þeim sem virkar alltaf fúll í síma? Hvað ef hann er akkúrat að kúka þegar ég hringi í hann? Nei, þetta finnst mér að fasteignasalinn eigi að gera fyrir mig.

Og nú hringdi ég á fasteignasölu í morgun, konan tók niður nafnið mitt og númerið og hvenær mér myndi henta að skoða, og sagðist síðan ætla að hafa samband við mig. Ég er þegar orðin hrifin af viðkomandi fasteignasölu. (Um leið og ég lagði á mundi ég reyndar að ég hafði gleymt símanum mínum heim... en það er nú önnur saga.)

Þessa dagana er ég að reyna að glíma við þann hluta þunglyndisins sem segir manni að maður sé ómögulegur. Sem og allt sem maður gerir og er. Allt neikvætt um sjálfan mann er tekið mjööög alvarlega á meðan maður álítur hrós vera annað hvort óekta eða tilkomið af fáfræði viðkomandi. Ég huxa að þetta sé það skaðlegasta af kvillanum. Að finnast maður alltaf vera að gera allt illa. Þó maður sé kannski að gera fullt af hlutum hrrrroðalega vel, þá getur maður huxað til þess að maður gleymdi nú reyndar að taka úr þvottavélinni í morgun... og þar með er maður orðinn mislukkaðasti einstaklingur heims. Hreint ekki neitt rökrétt við þessa röksemdafærslu. Meiri geðveikin.

Í dag langar mig að prjóna eitthvað.

17.10.06

Braskið

Gerðum tilboð í íbúð í gær, en gömlu og gráðugu hjónin sem áttu hana vildu víst fá meiri péning. Issss.
Annars finnst mér ekkert verra að hafa afsökun til að stunda fasteignaklámið aðeins lengur. Það er samt ýmislegt fyndið við hann. Eins og til dæmis allar hálflygarnar sem menn setja á fasteignavefinn.

Því er til dæmis gjarnan haldið vandlega leyndu ef íbúðin er í kjallara eða á jarðhæð. Sem er svolítið erfitt þegar maður er einmitt að leita að. Svo er það einhver undarleg árátta að setja bílastæði í bílastæðahúsi inn í fermetrafjölda íbúðar. Sem er auðvitað bara kjánalegt. Við getum ekki neitt búið í 65 fermetrum, þó bílastæðið sé 30 fermetrar. Ættum við kannski að hafa hjónaherbergið á bílastæðinu? Eða kannski bara stofuna? Hmmm.... efni í einþáttung? Kannski meira svona Spauxtofuskets.

Í gær var brjálað rok og kalt og ég var sjóbarin þegar ég kom hjólandi heim. Í dag þorði ég ekki að hjóla í vinnuna af því að það var hálka. Af því tilefni labbaði ég og gekk því niður Laugaveginn eftir hádegi. Það var nú aldeilis hættulegt. Það eru komnar geðveikt margar nýjar búðir. Og þegar maður er ekki einu sinni með barnavagn til að halda sér í þá getur maður sko alveg eytt útborgun í íbúð í vesturbænum á einni ferð. (Ég gerði það ekki, samt.)

Tókum okkur pásu í dag frá íbúðaskoðunum til að komast yfir höfnunartilfinninguna. Tékkum kannski á einhverju á morgun.

16.10.06

Það er svo margt...

Búin að eiga aðgerðaríkan morgun. Við erum að fara að skoða íbúð í dag sem við ágirnumst nokkuð. Skoðuðum eina um helgina sem við héldum að við ágirntumst, þangað til við skoðuðum hana. Sjáum til hvað kemur í ljós.

Er líka búin að tala við leikstjórann minn fyrir austan. Er að fara að höfundavinna þar í leikritinu, sem mér heyrist eiga að heita sínu upprunalega nafni, Listin að lifa. (Sem er það sama og tímarit eldri borgara heitir, tjáði amma mín mér í gær.) En, semsagt, er að fara austur á föstudag og verð við strangar æfingar þar fram á sunnudag. Tek Freigátuna með mér, svo amma-Freigáta getur farið að hlakka til.

Svo er viðtal við okkur Varríus í sunnudaxmogganum. Þar er einn fyndinn og rangur misskilningur. Þeir sem geta spottað hann fá grundvallar-krasj-gráðu í Hugleiksfræði.

Svo er systir mín tónskáldið komin til mín og ætlar að vera alla vikuna. Hún er að huxa um að reyna að týna saman húsbúnaðinn sem hún á hjá mér, auk þess að tónskálda úti um allan bæ. Það er verið að fara að spila eitthvað eftir hana á tónleikum í Neskirkju á miðvikudagskvöldið klukkan hálfátta.

Og svo birtist víst eitthvað eftir systurina blaðamanninn í fréttablaðinu á hverjum degi... Það er sumsé alltaf eitthvað "eftir" okkur allsstaðar. Ætli pabbi sé ekki hættur að reyna að safna í fjölmiðlaumfjöllunarmöppu afkomendanna?

15.10.06

Dobbúl fítjör

Ég er alveg hrroðalega léleg við að horfa á bíómyndir. Sem er náttlega til skammar þar sem ég er gift kvikmyndanörra og heimilið er nánast veggfóðrað í myndum á vídjó og DVD-formi. Þess vegna kom ég sjálfri mér og alheiminum mikið á óvart þegar ég horfði alveg á næstum tvær myndir í gærkvöldi.

Sú fyrri var Bride and Prejudice. Þurftum reyndar að geyma síðasta hálftímann af henni til seinni tíma þar sem börnin þurftu að komast í rúmið einhverntíma. Þetta var fyndin mynd. Bollywood lítur út fyrir að vera skrítinn staður. Þetta minnti talsvert á mörg Hugleixverk. Nema ég er ekki alveg viss um að þessi hafi verið að grínast.

Þegar barnarotanir höfðu verið framdar horfðum við á Stepford Wifes. Þvílík snilld. Og þvílíkur fábjáni sem datt í hug að það væri sniðugt að endurgera hana. Sé alls ekki þörfina á því.

En ég varð fyrir svo miklum áhrifum að ég bakaði í dag.