11.10.08

Kreppa...... og slaka

Eftir kreppufárið síðustu viku er ljómandi fínt að eyða einum góðum veðurdegi inni í Bókhlöðu á námskeiði í neftóbaksfræðum. Nánar tiltekið, öflun og varðveislu munnlegra heimilda. Það er ljómandi. Maður veit ekki að umheimurinn sé til. Enda sýnist mér hann vera í helgarfríi frá kreppunni.

Var í gærkvöldi á stjórnarfundi hjá Bandalagi íslenskra leikfélaga. Þar bar nú ýmislegt nýstárlegt fyrir augu. Fundurinn í nýju húsnæði, ný ljósritunarvél sem kann að skanna fyrir utan nú það að þetta var minn fyrsti stjórnarmaður sem varamaður í stjórn en ekki ritari skrifstofu. Mikið var nú skrítið að sitja bara og drekka kaffið sitt á slíkum fundi og vera ekki að rita fundargerð jafnframt.

Já, það er gott að gera hluti bara eins og venjulega og losa sig út úr þessum hamfaralíkingum sem tröllríða öllu og öllum, sérstaklega ríkisstjórninni, þessa dagana. (Og mér finnst eiginlega óttaleg móðgun við alla sem hafa misst fjölskyldur sínar og raunveruleg verðmæti í slíkum.) Þetta fer alltsaman aldrei ver en á versta veg og það er langt í að við förum að sjá í botninn. Sérstaklega á meðan ríkisstjórnin hlustar ekki á hagfræðinga og hamast bara við að móðga fólk í útlöndum hægri og vinstri. Og, best að segja það einu sinni enn: Peningar smeningar. Þó ég sé búin að agnúast út í græðgisvæðinguna árum saman... sennilega bara síðan hún byrjaði, þá datt mér eiginlega aldrei annað í hug en að hún væri komin til að vera. Allavega ekki að ég ætti eftir að lifa að sjá hana drepast ofan í klofið á sér. Ég vona að menn nái sér fljótt og örugglega eftir áföllin sem nú eru að byrja að dynja yfir og sjái að sólin rís og hnígur sem fyrr, hvað sem gerist. Þá eru spennandi tímar framundan.

Tvennt langar mig að gera í dag. (Fyrir utan að halda áfram að sitja í bókhlöðunni í neftóbaksfræðunum með sérvitringasöfnuðinum.)
1. Mig langar að sjá það sem Snorri Hergill sagði um ástandið á Sky News í gærkvöldi.
2. Og ég hef aldrei á ævinni hlakkað jafnmikið til Spaugstofunnar.

Best að skreppa niður í kaffiteríu og gúlla í sig einhverju gómsætu.

10.10.08

Til hamingju með daginn!

Í dag er alþjóðlegi geðheilbrigðisdagurinn. Í dag erum við Rannsóknarskip líka búin að vera par í 4 ár. En hann er einmitt það geðheilbrigðasta sem ég hef gert. Í tilefni dagsins ætla ég að reyna að sýna óvenjumikið geðheilbrigði í dag. Enda eins gott að halda á spöðum og vera með á nótum í dag.

Nonni mágur er hjá okkur, en hann er að flytja til Liverpool í dag. (Vonum bara að hann sé nógu Danalegur til að Tjallarnir taki sæmilega á móti honum.) Seinnipartinn ætlar Ingamma líka að ræna Smábátnum og hann ætlar að skemmta henni um helgina. Í staðinn fáum við ömmu á Egilsstöðum til okkar. Sem er eins gott þar sem Móðurskipið er að fara á fund í kvöld, námskeið á morgun og annað hinn daginn.

Svo það er bara tjúllað að gera hjá okkur.

9.10.08

Ha-Le-Lú-Jaaaaaa

Undanfarið hef ég nú alveg átt erindi upp á bráðamóttöku geðsviðs, held ég. Ég er að verða endanlega fullkomlega geðveik. Kveikjuþráðurinn í mér er enginn. Ég man ekkert hver ég er eða hvað mér fannst einu sinni skemmtilegt. Ég er alltaf með að minnsta kosti eitt barn í fanginu. Og þegar ég þarf að sinna öðru fer hitt að grenja. Undanfarna daga er ég líka búin að fara að grenja oft á dag. Og það hefur nákvæmlega ekkert með kreppuna að gera. Þvert á móti er það góðærið og manneklan sem er alveg að fara með mig inn á deild. En á morgun er smá glæta í svartnættinu því þá gerist það:

Freigátan byrjar í aðlögun á leikskólanum!!!

Guð láti gott á vita og ég vona að blessað atvinnuleysið komi í veg fyrir að ég þurfi nokkurn tíma að bíða eftir að koma barni að á leikskóla framar. Það hið sama ætla ég líka að nota til að skrifa sjálfshjálparbókina fyrir heimavinnandi húsmæður: 
Þegar mann langar frekar að skjóta sig í hausinn heldur en að setja í aðra þvottavél.

Að lokum tvö gullkorn frá Freigátunni. Á leiðinni á sundnámskeiðið í gærkvöldi vorum við snemma í því. Ég tók þess vegna smá rúnt um hverfið hennar Habbýar áður en ég fór á Hrafnistu. Þegar ég beygði inn í eina götu sagði ég, hálfpartinn við sjálfa mig:
Já, hérna er Skipasund.
Eftir smá stund heyrðist úr aftursætinu: Mamma, ég vil fara á sundnámskeið.
Ég: Ha? Já, við förum þangað bráðum.
Hún: En ég vil ekki fara í skipasund.

Á leiðinni út var farið að dimma, en samt var enn smá birta á himninum og þar hjúfruðu sig nokkur ský.
Freigátan: Nú eru skýin að fara að sofa. Þau eru með sæng.

8.10.08

Frá þeim sauðsvarta

Kæri Geir.

Ósköp ertu nú dramatískur þessa dagana. Og ógurlega er þetta nú allt saman erfitt. Og mikið er nú landið og allur hinn vestræni heimur kominn nálægt heljarþröminni. Þegar forsætisráðherrann manns kemur í beina útsendingu oft á dag, með tárin í augunum og öndina í hálsinum, þá liggur nú bara við að maður trúi þessu líka.

Ef þú hlustar vel heyrirðu hins vegar tvöhundruðþúsund manns yppa öxlum.

Ég fann nefnilega aldrei fyrir góðærinu þínu. Ég þurfti nú bara að spara og lifa af litlu og láta hýruna endast fyrir nauðsynjum í góðærinu eins og öllum þeim ærum sem á undan fóru. Ruglaði lánsfé ekki saman við eigið fé. Var þar að auki ekkert sérstaklega lánshæfur í lánabrjálæðinu. Ég sé ekki fram á að finna mikið fyrir hinu mikla hruni margburaturna fjármálaveldisins.

Það er ljóst að á næstunni verður kannski minna um vöruframboð og þjónustu. Það er allt í lagi mín vegna. Ég sá hvort eð var aldrei fram á hafa efni á að nýta mér allan fína góðærislúxusinn. Ég kann að taka slátur og sjóða sultu. Ég gerði mér alveg grein fyrir að fyrr eða síðar kæmi að skuldadögum. Þó það virðist vera að koma þér ferlega mikið á óvart.

Margir koma til með að missa vinnuna. En heima hjá mér er eitt barn sem ekki kemst inn á leikskóla vegna manneklu. Maðurinn minn vinnur myrkranna á milli við miklu meira en 100% kennslu vegna kennaraeklu. Áðan gengum við framhjá alpólskum götuvinnuhópi sem trúlega er á leið úr landi með næsta flugi vegna gengisfalls krónunnar. Blessað atvinnuleysið lúrir kannske á bak við næsta horn, albúið að gefa mér tækifæri til að klára nokkur leikrit. En ég er ekki farin að sjá það ennþá.

Þannig að, Geir minn, þú þarft kannski að "útskýra fyrir börnunum" í þinni fjölskyldu að þau fái ekki næstu kynslóð að playstation um leið og það kemur á markaðinn. Að það verði ekki nýr bíll úr kassanum á hvern ungling sem verður 17 ára og að jólagjafirnar í ár verði kannski undir fimmtíuþúsundkallinum. Heima hjá mér þarf ekki að útskýra nokkurn skapaðan hlut. Nema þá helst að börnin þurfi ekki lengur að fá frekjuköst yfir öllu draslinu í auglýsingunum sem þau fá ekki. Ef Guð (sem blessar alveg örugglega Ísland) lofar mun draga úr framboði og auglýsingum á óþarfa. Knús og kossar, upplestur úr góðum bókum og tími til skrafs og ráðagerða eru ekkert að klárast á mínu heimili og það er það sem skiptir mín börn mestu.

Ég þarf heldur enga sérstaka samstöðu eða viðhorfsbreytingu. Ég missti nefnilega ekkert sjónar á raunverulegum verðmætum og gildum lífsins. Ég var alltaf með það algjörlega á hreinu að allt það besta sem lífið hefur upp á að bjóða er ókeypis og að hamingjan er hvorki til sölu né kaups. Hið svokalla góðæri virðist hins vegar hafa gert marga menn vítlausa og mörg börn frek. Farið hefur fé betra og veri það bara um kyrrt hjá andskotanum til eilífðarnóns.

Svo, Geir minn, slappaðu bara af. Reyndu að bjarga því sem bjargað verður. Lestu bókina "Hver tók ostinn minn?" Ég vona að konan þín kunni að taka slátur. Hafðu ekki áhyggjur af því að orðstír Íslands bíði hnekki í útlöndum. Álit útlendinga á okkur, montrössunum sem reyndu að kaupa alheiminn, gat ekkert versnað. Svo er ég hvort sem er ekkert að fara að komast til útlanda næstu árin svo ég finn ekkert fyrir þessu.

Reyndu nú bara að taka þessu með ró. Hlustaðu á hagfræðinga og fjármálaspekinga. Og hafðu ekki taugadrullu yfir mér. Ekki hafðirðu áhyggjur af að ég væri útundan í góðærinu og þetta er nú asnalegur tími til að byrja á að muna eftir tilvist minni. Ég á eftir að gera heilmikið grín að ykkur, góðærispésunum, en þolið það nú alveg. Mér finnst mjög skemmtilegt að sjá ykkur hérna ofan í skuldahítinni hjá mér. Ekki er ég nú alfullkominn eða laus við örlítinn hefndarhug eftir kjaftæðið og lygarnar um "uppganginn" sem þú hefur boðið mér uppá undanfarin ár.

En almennt finnst mér bara gaman að þið skuluð vera komnir hingað niður á jörðina til mín. Vona bara að lendingin verði ykkur ekki að fjörtjóni og að bráðum áttið þið ykkur á því að hrun veldis Mammons á eingöngu eftir að verða okkur öllum til góðs.

Virðingarfyllst,
Sauðsvartur Almúginn

7.10.08

Öld Alheimsfrekjunnar Öll?

Þó menn séu búnir að vera ógurlega dramatískir síðustu daga og tala eins og heimurinn sé að farast NÚNA þá held ég að þetta sé upphafið af breytingum sem sauðsvartur almúginn sjái á næstu mánuðum eða árum. Bjólfarnir töpuðu einhverjum tugum milljarða í dag. Ef menn eiga tugi milljarða finnst mér þeir nú bara hafa gott af að tapa þeim.

Þeir síðustu verða fyrstir. Bílbeyglan sem er gömul og beygluð er þó allavega skuldlaus. Kennaralaunin eru kannski ekkert spes, en Hagaskóli er vonandi ekki á leið á hausinn. Vonum það besta með Lánasjóð íslenskra námsmanna.

Svo gerði ég stuttlega vörutalningu á heimilinu í dag. Niðurstaðan var sú að ef kaupgeta heimilisins fer niður í ekkert nema lífsnauðsynjar, þá eigum við samt allt of mikið af drasli. Og þrátt fyrir þessi 150 kíló sem fóru í Rauða Krossinn í haust eiga allir á heimilinu meira af fötum en þeir komast yfir að nota.

Talað er um að við séum á leiðinni 30 ár aftur í tímann, svona í lífsstíl. Ó, mæ, goooood, kannski getum við ekki lengur eytt í hvað sem okkur langar í. Börnin mín koma kannski einhvern tíma til með að vita dóta sinna tal. Kannski verða leikjatölvurnar á heimilinu ekki mikið fleiri en þegar er orðið. Og mér finnst það fínt.

Umræðan er þegar farin að valda mér nostalgíu. Orð sem maður hefur ekki heyrt í háa herrans tíð. Verðbólga. Viðskiptahalli. Gjaldeyrisskortur. Og örugglega bráðum, atvinnuleysi.
Ég finn nú bara lykt af soðinni ýsu.

Hérna er ágætisúttekt á atburðarásinni og ástandinu.

Og hérna er bloggið sem gerir hagkerfisfræðin í þessu öllu saman allt að því skiljanleg.

Jæja, best að reyna að fara að koma einhverju skikki á heimilið
Það er búið að skipta Davíði út fyrir endursýningu á Singing Bee og Hraðbátur kominn inn á bað, fyrir eigin vélarafli. Það er líklega hans lengsta ferð, til þessa.

Nýjustu tölur

Við Hraðbátur létum okkur kreppuna engu skipta og fórum í mælingar og sprautun í morgun. Hann reyndist vera orðinn 69 cm langur og 8,73 kg að þyngd. Svo fékk hann sprautu í rassinn, varð brjálaður og fékk svo að fara heim til sín að sofa. En Móðurskipið fékk að fara sem einstaklingur í mömmujóga. Það var ynnnndislegt.

Hraðbátur virðist nú eitthvað vera að gera sér grein fyrir að harðnað hafi á dalnum. Allavega stóð hann upp áðan, í fyrsta skipti utan vagns, til þess að reyna að ná abt mjólkinni sem systir hans var að borða. En þetta þurfum við víst að gera. Standa upp af rassgötunum og reyna að bjarga okkur.

Svo hef ég verið að hugsa málið. Núna eiga þeir best sem eiga eignir sínar skuldlausar, treysta ekki bönkum og geyma allt sitt undir koddanum.

Nú held ég við ættum að hætta að gera grín að Jóni á Kelduhólum...

Mea culpa?

Landsbankinn virðist vera gjaldþota. Kaupþing ekki.
Skuldirnar mínar búa í Landsbankanum. Peningarnir í Kaupþingi.
Tilviljun?

6.10.08

Gullkorn

Rannsóknarskip: Ég skil ekki hvernig þeir nenna að tala við Guðna Ágústsson. (Þögn, þögn, þögn.) Hann talar svo hægt.

Ég dó úr hlátri.

Þennan skilja aðeins þeir sem hafa talað við Rannsóknarskip...

Vorum annars að borða kreppumat. Frá McDonalds. Og í pípunum er að leyfa Smábátnum að stunda eitthvað eitt fokdýrt áhugamál í vetur. Nú erum við algjörlega ofaná með okkar námslán og kennaralaun og ætlum að halda áfram að haga okkur eins og grilljónamæringar. Sparifé ku vera nokkuð seif, á svona "venjulegum" reikningum, og manni er nú frekar mikið sama hverjum mar borgar húsnæðislánin manns. Þeir bjartsýnustu tala meiraðsegja um vaxtalækkanir, svo, bara, jihú.

Annars átti Svavar Knútur komment daxins á Fésbókinni, held ég: 
"er ekki fullur af ótta og kvíða... Hættið þessari dramatík, þetta eru bara peningar." 
Eins og talað út frá mínu hjarta. Peningar smeningar.

Og mér finnst ponku gott að Sjálfstæðisflokkurinn þurfi að þjóðnýta fjármálakerfið og aftukalla einkavinavæðinguna. Verst að einkavinirnir eru farnir með alla peningana úr landi og sjást aldrei aftur. Bara verst að Framsóknarflokkurinn skuli ekki sitja í súpunni með honum.

Hmmm

Allir í vinnu hjá fjármálaeftirlitinu?

Dammdammdammdammmmmm

Hvað ætli Geir ætli að segja? (Í fyrstu tilraun gerði ég frojdjan ritslipp og skrifaði "Davíð.")

Ætli það sé búið að selja bankana fallvötnin og framtíðina á fimmtíukall og Kínverjar komi og sæki góssið á morgun? Eða ætli hann haldi bara áfram að þvæla um einhverjar "aðgerðaáætlanir" og "viðbrögð" og eitthvað sem ég skil ekki baun í og er alveg fokkíng skítsama um. (Eins og til dæmis hver á hvaða banka. Það er ekki einu sinni fyndið hvað mér er mikið sama hver á þá.)

Eða kannski fáum við bara evruna á morgun! Það verður nú heimilislegt.

Annars er Baggalútur kominn með aðgerðaáætlun.

En þetta er nú spennandi... Ég er alveg viðbúin að falla í yfirlið. Þó ég skilji ekkert sem hr. Haarde segir annað en "Góðir Íslendingar."

Það er nú búið að vera skemmtilegt að búa í þessum lofkastala sem hann Davíð byggði á sandinum. En öll partí taka enda. Líka þau sem Elton John spilar í.

Svindl

Þegar það er búið að looooofa manni pakka. Stórum Aðgerðapakka. Annars fari hreinlega Allt til Andskotans. Og svo er bara "ekki þörf" á honum!

Mæli með því að á jólunum fái Geir H. Haarde enga pakka. Hann hefur enga þörf fyrir þá.

Annars var ég að senda efnisyfirlitið og ritstjóraþusið af Glettingi í umbrotsmanninn (og þar með er allt farið sem ég þarf að gera utan einnar ferðar á sniglapóstinn) og er svo gríðarlega hamingjusöm að ég tek ekki nokkurn skapaðan hlut alvarlega í dag. 
(Dauðann og djöfulinn. Annað er hjóm.)

5.10.08

Er að horfa á kreppuna

Hún er í sjónvarpinu. 
Sennilega endar með því að við verðum að éta marmarann af gólfinu í höfuðstöðvum Kaupþings. En fjölmiðlamenn mega víst alls ekki segja frá því.

Hann Egill er að hræra soldið vel í þeim í dag.

Issss. Það er nú örugglega margt hægt að gera verra heldur en að verða gjaldþrota.
Og núna er helvíti fínt að vera háseti á bát. Eða eiga Eve Online! Eiga góðan Evrureikning eða þýða fyrir erlend fyrirtæki. Og Siffa bró finnst örugglega gaman núna. Honum finnst skemmtilegast í öllu heiminum að tala um hagkerfið. Gósentíð í fréttunum fyrir hans smekk.

En mér finnst svindl að þeir sem máttu éta það sem úti fraus í "góðærinu," svo það kæmi ekki verðbólga, eru núna allt í einu "á sama báti" og ofurlaunafávitarnir sem silgdu öllu í strand (og eru væntanlega löngu búnir að koma sínum persónulegu eignum út landi) og verðum "öll að standa saman" til að grafa efnahagskerfið upp úr skítnum.

Mér finnst, sama hvað Pétur Blöndal segir, það eiga einmitt að finna sökudólgana núna. Hengja þá og flengja á opinberum vettvangi, taka af þeim peningana sem þeir eru búnir að græða á öllu saman, skipta algjörlega um forkólfa, ráðamenn, aðgerðir og aðferðir (þjóðnýta miklu meira og hætta að hafa sjónvarp á fimmtudögum) og athuga hvort tiltrú útlendinga á íslenska hagkerfið eykst ekki í kjölfarið. Það er nú báturinn sem mér finnst maklegt og réttvíst að sigla.

PS. Og tíu mínútum síðar kom Jónína Ben í Silfrinu og sagði nákvæmlega það sama. Hmmmm...