25.11.04

Ég er ekki manneskja til að gera leikskáldin ómerk orða sinna. Svona almennt.

Mér gengur samt illa með setningurna "Hell hath no fury like a woman scorned." Fjúrían er bara svo gífurlega fljót að gufa upp eftir hvert Scorn, að það er eiginlega vandræðalegt. Ég hef gripið til þess ráðs að setja fótboltalið Scornara á svartan lista. Og fagna svo ógurlega þegar þau tapa. Nýlega bættust Liverpool og FH þannig á lista sem fyrir innihélt Tottenham og Glasgow Celtics.

(Og það breytir engu þó rannsóknarskipið sé líka í flota Liverpool. Ef lið eru á listanum, þá bara eru þau það. Óafturkallanlega.)

Um daginn komst ég síðan að því, mér til mikillar kæti, að undirmeðvitundin hjálpar til við þetta verkefni. Þegar ég kom heim með sjónvarpið mitt og DVD-spilarann, eftir að hafa keypt frekar randomlí, þá tók ég eftir því að hvorutveggja var af tegundinni United.

Múhahahaha!

(Þetta skilja sennilega bara þeir sem vita hverjir eru erkifjendur hverra í enska boltanum, en örlög annarra eru bara að skilja ekki málið.)

24.11.04

Ætlaði að bíða þangað til á morgun með að plögga, en, fyrst ég hef tíma.

Á morgun verður frumsýnt nýtt verk hjá Hugleik/Leikfélagi Kópavogs. Það heitir

Memento Mori

Mér verður eiginlega frekar orða vant þegar ég á að fara að plögga það og lýsa. Finnst ég eiginlega vera hálfgildings ódómbær, en held samt að ég sé búin að verða vitni að einhverju ótrúlegu fæðast þarna undanfarnar vikur. Til marks um það:

- Ég vildi gjarnan eiga meiri heiður af þessari sýningu en ég síðan reyndist koma í verk. (Nokkrar setningar í handriti sem sennilega eru teljandi á fingrum annarrar handar.) Það er bara... eitthvað við þetta.

- Ég er búin að fylgjast með æfingum, eins og ég hef getað, og hef séð nokkur rennsli í nokkurn veginn fullum skrúðum núna undanfarið. Skemmst frá því að segja að það hafa verið með betri klukkutímum lífs míns. Ætla að sjá generál núna á eftir, frumsýningu á morgun og væri til í að sjá allar sýningar sem sýndar verða á þessu verki. Það er bara... eitthvað við það.

- Í hvert skipti sem það er að fara að byrja rennsli þá hlakka ég til. Svona eiginlega alveg eins og þegar ég var 5 ára og afmælið mitt var alveg að fara að byrja. Eða jólin. Eins og ég segi... það er eitthvað... við það.

Tekið skal fram að ég hef næstum aldrei nennt að sjá sýningar oft, ekki einu sinni þær sem ég hef skrifað sjálf.

En þessi, já, það er eitthvað... við hana.

Mæli allavega með henni. Held þetta sé örugglega eitthvað... merkilegt.
Gvendr heitr maðr og er Erlingsson. Vann sá sér það helst til frægðar (svona allavega hjá mér) að leika smá í Fáfnismönnum og búa í sama húsi og ég á tímabili. Svo hef ég rekist á hann á vergangi annað slagið.

Varríus var búinn að grafa upp bloggið hans fyrir nokkru og þar var ég að lesa langhund um kvikmyndahandrit sem gerði það að verkum að samviskubit tók sig upp, vegna grófs uppdráttar af Ungir menn á uppleið, ðe múví, sem liggur einhvers staðar ofan í kassa hjá mér og hefur ekki enn farið til þeirra sem það pöntuðu á sínum tíma (3 árum síðar).

Allavega, ég rak augun í að téður Guðmundur er með link á mig, þannig að, hér er hann.
Eyddi deginum í búðum. Misgeðvond. Smá yfirlit yfir hverjar þeirra henta geðvondum og hverjar EKKI.

Sjónvarpsmiðstöðin er dásamleg búð. Það eru yndislegir sölumenn sem hafa fullan skilning á því ef maður vill tæknivæða íbúðina sína fyrir lítið. Eru ekki að reyna að selja manni neitt sem maður hefur ekki efni á og maður þarf ekkert að bíða eða hanga. Og þeir eru með heimsendingarþjónustu á sjónvörpum fyrir litlar og bakveikar konur. Hreinasta dásemd.

Síminn er annað mál. Ég hef þurft að eiga mikil samskipti við símabúðir, bæði Símans og Og vodafone undanfarið út af alls konar símaævintýrum og áður en maður fer inn í svoleiðis þarf maður að sækja frönsku biðraðaþolinmæðina. Maður þarf að bíða í hálftíma minnst. Sama hvenær dax maður er á ferðinni. (Enda var ég næstum búin að hjóla í unglingsgreyið sem ætlaði að reyna að troðast fram fyrir mig í röðinni.) Svo þegar maður loxins kemst að er yfirleitt ekki hægt að afgreiða það sem maður ætlaði að fá (breiðbandið var "ekki til") og starfsmenn geta lítið leiðbeint manni. Um, t.d. hvernig internet maður á að fá sér. Skítapleis.

Rúmfatalagerinn er... misjafn. Ég hef verið að þvælast uppi í Holtagörðum, stundum þarf maður að bíða smá þar og svo er líka ekkert alltaf allt til sem mann vantar. Rúmfatalagerinn í Skeifunni er hins vegar allt annað mál. Þar fæst allt og hægt að leika sér klukkutímum saman, ef maður þorir þangað. Persónulega er ég með ofnæmi fyrir Skeifunni. Ég veit aldrei í hvaða átt ég má keyra eða beygja, lendi alltaf í vandræðum með að finna búðirnar sem ég er að leita að og þegar ég finn þær á ég alltaf í vandræðum með að finna stað fyrir bílinn.

Húsasmiðjan úti á Granda er líka snilldarbúð. Hún er opin lengi og um 7-leytið á kvölin er næstum enginn þar. Þar fæst allt sem maður getur þurft að nota, svo sem hamrar og naglar og súperglú.

Ég sem sagt bætti mjög rækilega við draslið í íbúðinni minni í gær og nú er eins og Annþór hafi komið þar við. Svo fór ég að leika mér með súperglú í gær, ætlaði að líma saman ýmsa skrautmuni sem hafa orðið fyrir hnjaski í flutningunum. Var reyndar svo mikið að horfa á nýja sjónvarpið mitt að ég límdi aðallega saman á mér puttana og gleraugun við hárið.

Í dag þarf að taka til. Ójamm.

23.11.04

Mamma mín hefur sennilega fengið yfirnáttúrulegt veður af og hefur frestað hingaðkomu sinni fram á fimmtudag. Ég verð sem sagt ein að geðvonskast um gardínu- og sjónvarpsbúðir í dag. Fer sennilega best á því.

Til þess að reyna að koma skapinu í lag hef ég huxað mér að eyða allavega 50.000 kalli í lífsgæði og prjál.
Man, ég er orðin skammdegisgeðvond. Held þetta heiti ekki þunglyndi, lítur miklu meira út eins og venjuleg geðvonska.

Í morgun er einn viðskiptavinur, ein ljósritunarvél og faxmaskínan búin að pirra mig ógurlega og klukkan er ekki orðin 11. Í gær pirraði einn leikfélagsformaður mig svo mikið um morguninn að ég gat ekki sofnað um kvöldið. Held sé kominn tími á að fá sér milljón sjónvarpsstöðvar í gegnum breiðband, internet heim og reyna svo að halda sig frá mannlegu samfélagi fram á vor.

Og í dag ætlar hún móðir mín með mér í gluggatjaldaleiðangur. Öjmingja konan, hún veit ekki hvað hún er að fara út í.

Verð að reyna að ná einhverri stjórn á þessu fyrir fimmtudag svo ég hræði nú ekki Rannsóknarskipið út í hafsauga.

22.11.04

Skammdegið er farið að fara í pirrur mínar. Mér finnst myrkur leiðinlegt. Til að reyna að sporna við þróun niður í alsvartasta skammdegisþunglyndi keypti ég mér jóladagatal. Með súkkulaði. Og er að reyna að koma skipulagi á líf mitt.

Í gær ferðaðist t.d. eitthvað af pjönkum mínum til míns heima, úr geymslum systra minna. Mikil ógrynni átti ég af drasli sem ég var búin að gleyma. Bíllinn er enn á inniskónum, en stefnir á naglana í dag. Að því loknu hef ég huxað mér að festa kaup á sjónvarpi, gluggatjöldum og tæknivæðingu heimilisins í formi heimasíma, heima-internets og ógrynni sjónvarpsstöðva í formi breiðbands. Svo þarf ég aldrei aftur að fara út.

Þessu skal öllu lokið áður en Rannsóknarskipið kemur í bæinn á fimmtudag.

Og talandi um fimmtudag, þá hyggja menn á að frumsýna Memento Mori, samstarfsverkefni Hugleix og Leikfélax Kópavox. Virðist ætla að verða hin ágætasta sýning, en verður ekki sýnd mjög oft í þessari hrinu. Veit ekki ennþá nákvæmilega neitt... eiginlega, nema að það mál er bráðum að verða búið þannig að maður fer að geta verið stöku sinnum heima hjá sér, með góðri samvisku.

Það verður nú aldeilis munur.