13.9.08

Skenntilegt

hvernig þróunin hefur verið í laugardaxkvöldum í þessu lífi.

Man ekki eftir að þau hafi verið svo frábrugðin öðrum kvöldum í barnæsku.
Seinna urðu þau Aðal-Djammkvöldin.
Ennþá seinna urðu þau kvöldin til að slappa rækilega af og ná óvenjumörgum þáttum af einhverju.

Og núna, þegar þau litlu eru sofnuð á laugardagskvöldi, rek ég Rannsóknarskip í vinnuna og helli mér í lærdóm og Gletting. (Sem ku vera lærdómur líka. Er, jú, Rannsóknarverkefni A)
Klukkan orðin 10, ég búin að yfirfara 1 viðtal og tékka á allskonar í því og finna upplýsingar um tvo menn og einn bát og ætla að skoða smá myndir. Verst að mér finnst ég enga yfirsýn hafa.

Aðallega af því að mér er svo illt í tánni sem ég þrusaði í rúm Freigátunnar áðan.
Helvítisdjöfull.

12.9.08

Hefur Taggart alltaf verið svona?

Vont handrit. Illa leikið. Vondar klippingar.
Hefur þessum þáttum hraðfarið aftur eða var maður bara svona vítlaus einu sinni?

Ef ég væri ekki að hlaða haug af tónlist inn í tölvuna mína væri ég svo lönnnngu farin að sofa að það er ekki einu sinni neitt fyndið.

Annars er emmið á tölvunni minni laust.

Helgi!

Föstudaxkvöld byrjar vel.

Hraðbátur sofnaði snemma. Freigáta stefnir í svipað. Smábátur floginn norður.

Og í stað þess að eyða kvöldinu í sófanum og borða sultu ætla ég í lannnga gönguferð og borða svo gulrætur og í mesta lagi popp.

Bumban, undirhakan og feitu lærin eru farin að pirra mig aðeins. Feitu handleggirnir eru þó það versta.

Ætla líka að hjóla í jóga í fyrramálið.

11.9.08

Nóg komið!

Nú fer ég að vinna í að halda Hraðbátnum vakandi á daginn. Hann vaknaði sumsé klukkan 6 í morgun, í miklu stuði og þverneitaði að fara aftur að sofa. Móðurskipið drattaðist á lappir fyrir 7 og Freigáta og Rannsóknarskip skömmu síðar. Já, og Smábátur hefur tekið uppá þeim skemmtilega sið að vakna ævinlega sjálfur við vekjarann í sínum eigin síma! Og fær ríkulega launað í sjónvarpsglápi fram yfir fyrri viðtekinn háttatíma.

Allavega, til að gera þreyttan dag þreyttari eyddum við morgninum í að spóka okkur í Laugardalnum (með viðkomu á nýja Bandalaginu). Hraðbátur átti að sofa í spókinu en þverneitaði því. Meira spennandi að vera vakandi í strætó og æfa áhættuatriði í vagninum sínum á göngunni. Þegar heim var komið átti hann að vakna og Freigátan að sofa. Í staðinn láðist henni alveg að fara að sofa en hann fékk sér smákríu, áður en tími var komið á ungbarnasundið. Hin ósofna Freigáta fékk að fara í heimsókn til Huggu frænku á meðan Hraðbátur skemmti sér jafnvel í sundinu og síðast, þrátt fyrir svefnleysi.

En bæði litlun voru nú sofnuð fyrir hálfátta, gjörsamlega örmagna. Móðurskip vatt kvæði sínu í kross, tók til handargagns bláberjahelling sem Smábátur týndi ásamt ömmu sinni um síðustu helgi og sauð úr þeim sultu. Það er einfaldara en ég hélt. En árangurinn er enn of heitur til að vera kominn í ljós. En ég ætti greinilega að vera aðeins duglegri að geyma krukkur fyrir næsta ár.

Fór á generalprufu á Fýsn í gærkvöldi og er spennt að sjá hvernig dóma það fær. Er ákveðin í að reyna að vera duglegri að sjá leikhús í vetur en endranær. Asnalegt að eiga alltaf frímiða á allt og nota þá aldrei.

Rannsóknarskip er að taka ofurvel til, til að eiga inni fyrir að keppa á golfmóti grunnskólakennara á morgun. Já, ég er að fara í skólann... er ekki búin að læra! Mjööög hallærislegt að mæta ólesin í málstofu. Það er beinlínis ætlast til að maður viti eitthvað og finnist eitthvað og tjái sig um það í óhófi.

Er að láta mig dreyma um að fá að sofa framyfir sexleytið í fyrramálið.

10.9.08

Síðasti Morgunn í Heimi.

Við ákváðum að fara út og gefa öndunum í morgun. Ekki verri aðferð en hver önnur til að eyða síðasta morgninum í heiminum. Hraðbátur gerði sér lítið fyrir og stóð upp í fyrsta sinn. Er greinilega áhættufíkill og gerði það um borð í barnavagninum sínum, á ferð.

Eftir að öndum og sílamáfum hafði verið gefið gamalt brauð ákvað Móðurskipið að ná í stúdentaskírteinið sitt meðan heimsbyggð stæði. Enda bara velkomið að heimurinn endi á meðan maður stendur í lönnnnngu röðinni við upplýsingaborðið á Háskólatorgi.

En skilríkið náðist í Móðurskipsvasann og við ákváðum að taka stefnuna á hinn verðandi leixkóla Freigátunnar í leiðinni heim. Svona ef ske kynni að við næðum þangað aftur. Eitthvað er nú að glaðna yfir hljóðunum í leixkólafólki. Verið að ráða og svona, þannig að það fer kannski hugsanlega að koma að því að Freigátan geti byrjað. (Ef svartholið lofar.)

Og heim erum við komin. Löngu búið að kveikja á hraðlinum í útlöndum og veröldin stendur enn, nú eftir hádegið. Annars var ég að lesa mér til á öðrum bloggum og skilst að heimsendis sé næst að vænta uppúr 21. október. 

Og þá verður nú Glettingurinn minn vonandi bara kominn út.

9.9.08

Í nánd?

Í fréttatímanum gekk maður undir manns hönd við að segja mér að það yrði örugglega EKKI heimsendir á morgun. Sem gerir það að verkum að ég er mikið að velta fyrir mér hvort það verður heimsendir á morgun. Minnir þó, eftir því sem ég best man af svartholsfræðum, að ef heimurinn ferst svoleiðis gerist það mjög hratt og maður hefur líklegast ekki hugmynd.

Og hvað gerist þá næst?

Í tilefni þessara þanka hafði ég kvöldgönguna af andlegra taginu og ráfaði í ljósaskiptunum um regnvotan Hólavallakirkjugarð við Suðurgötu. Varð hvorki vör við afturgöngur né ástarfundi.

Og er líf eftir dauðann?

Enn sem fyrr er ég á þeirri skoðun að ég nenni ekki að mynda mér skoðun á því. 
Ætla bara að sjá til – á morgun.

Og hér má sjá hverju þarf að koma í verk áður.

Skeiðar Sinanna

Ekki ætla framtennur hraðbátsins að koma kvalalaust úr kafinu. Lítill svefn í nótt og Móðurskipið orðið að drepast úr sinaskeiðabólgu eftir barnaburð næturinnar og búin að vera handlama með ungana innandyra, hálfbrjálaða, í allan dag.

Og ég hef lengi ætlað að tjá mig um sinaskeiðabólgur. Ég hef alltaf átt við þann kvimleiða kvilla að stríða og fer það hraðversnandi með aldri og auknum barnaburði. En þetta er alltaf sagt að sé BARA sinaskeiðabólga, rétt eins og þetta sé bara eitthvað sem maður á að hrista af sér. En þetta er bara skíthundvont. Ég hef meira að segja verið únliðsbrotin og það var ekki nærri því jafnvont. (Sem er einmitt ástæðan fyrir því að ég fór ekki til læknis fyrr en góðum 2 dögum seinna. Hvernig geta brotin bein verið minna vont en BARA sinaskeiðabólga?) Og svo fer þetta ekki nema maður geri ekkert. En hver hefur nú tök á því? Ekki hef ég nokkurn tíma á ævinni getað gert ekkert til að jafna mig á BARA sinaskeiðabólgu. Djöfulsdjöfull.

En nú er Rannsóknarskip kominn heim og farinn út með ormana svo það er best að fara að gera ekkert og sofa í leiðinni.

8.9.08

Menning... (?)

Annað kvöldið í röð sofna þau litlu fyrir allar aldir og nú gripu Rannsóknarskip og Smábátur tækifærið og brugðu sér á X-Files. Ákvað að athuga hvað væri framundan í leikhúsunum svo maður gæti nú gert eitthvað af viti næst. Ef þau litlu ætla að leggja þessa snemmsvæfni eitthvað í vana sinn. Það sem er verið að sýna á næstunni, og mig langar að sjá, eru Engispretturnar í Þjóðleikhúsinu (sem ég get reyndar líklega ekki séð fyrr en ca. 4. okt.) og Fýsn í Borgarleikhúsinu. Ég veit ekki hvort ég myndi nenna á Fló á skinni eða Ástin er diskó. Kannski samt, svona ef ég hefði ekkert annað að gera.

Og mér skilst ég vera ein af afar fáum sem er ekki rétt ánægð með Mama Mia. Sko. Það getur vel verið að þessi söguþráður haldi alveg vatni. Þetta gæti verið ágætis, hálfvitleysisleg, gamanmynd. Abba-tónlistin passar bara ekkert inn í hana. Henni er algjörlega þröngvað þarna inn með töngum og þumalskrúfum. Það er vissulega hressandi að sjá mynd þar sem fólk brestur í söng og dans annað slagið. En mér finnst nú að uppbyggingin að því þurfi líka að vera sæmilega "líkleg." Og það eru heilmiklar sagnir og sögur í mörgum Abba-textunum og ég get ekki varist þeirri huxun að þetta hefði nú verið hægt að gera betur. Spurning um að bíða í svona 30-40 ár eftir að moldiviðrið gangi niður og reyna þá aftur? Eða ekki.

Fór í heimsókn á nýja Bandalagið á Suðurlandsbraut. Það er í göngufæri við Laugarnesveginn, svo þetta er spurning um að flytja í Teigana eða Lækina. Reyndar ágætisskóli, skilst mér, Laugarnesskólinn. Og stutt í Laugardalslaugina... já best að athuga hvað er á sölu í 105. Kannski eftir tvö til fjögur ár. Ef ekkert almennilegt verður í boði á Hallormsstað eða Hrafnagili. Eða ég verð ekki ennþá orðinn rithöfundur í fullu starfi. Ókei, framtíðarplönin eru orðin svo margslungnum skilyrðum háð að ég er hætt að botna í þeim sjálf.

Og við fórum í heimsókn á Leikskólann Verðandi í morgun. Fengum loðin svör. Víst er búið að ráða tvo starfsmenn. En annar getur ekki byrjað fyrr en í lok mánaðarins. Jæjajæja.

Og hvað gerir maður þegar maður er allt í einu svona einn heima í reiðileysi? Er þetta ekki spurning um að taka til, brjóta saman þvottinn og gleypa svo allt aukaefnið úr The Wire í einum bita? Sveimér ef ekki...

7.9.08

Sunnudagur ofursins

Áttum árangursríkan dag. Ég afþýddi ísskápinn og Rannsóknarskip boraði upp hillum, ljósi og spegli í herberginu okkar. Hann fór líka með Freigátuna í leikhús að sjá Einar Áskel. Til að toppa alltsaman svæfðum við þau litlu á mettíma fyrir hálfátta og ég vatt kvæði mínu í kross og fór í bíó að sjá Mama Mia. Sem er nú aldeilis vont "leikrit". En fyndið að sjá James Bond syngja, samt.

Svo er bara að koma ný vika og góðu fréttirnar eru þær að í Mogganum í dag sá ég auglýst eftir heilum haug af leixkólakennurum, nema hvað leixkóli Freigátunnar var ekki á listanum, aldrei slíku vant. Ætla að fara í heimsókn á morgun og njósna um stöðuna. Þori varla að vona að Freigátan farið að losna úr leiðindunum heima hjá okkur Hraðbáti sem ég er farin að hafa áhyggjur af að séu að valda henni varanlegum geðtruflunum.