29.12.11

2011

Er að horfa að niðursuðu úr Kastljósum ársins. Sjitt hvað mikið hefur verið þrasað. Blóðþrýstingurinn stefnir úr engu og yfir hættumörk. Á nýju ári ætla ég að hætta að „fylgjast með.“ Af heilsufarsástæðum. Ætla núna snöggvast að hefja ritun fréttayfirlits af innanheimilsvígstöðvum árið 2011.


Áramótunum var fagnað á Akureyrinni. Fljótlega uppúr þeim haldið aftur í bæinn. Ég byrjaði í einhverri geðbilun, Helgi dauðans var frumsýnd einhverntíma í lok janúar. Fljótlega urðu yngri börnin síðan 5 og 3 ára. Um leið og ég kom heim úr leikhúsinu hurfu Rannsóknarskip og Smábátur á sambærilegar vígstöðvar, annarsstaðar, fóru að æfa söngleikinn Hárlakk í Hagaskóla. Við hjónin brugðum okkur nú samt í orlofsferð til Edinborgar einhverntíma í febrúar. Áður hafði ég ákveðið að íbúðin okkar væri orðin of lítil (líklega vegna þess að ég var alltaf ein heima að taka til) svo Ránargötuskonsan var sett á sölu. Eitthvað hafa nú fasteignasalar misst móðinn við hrunið, sá sem talaði við okkur taldi allavega öll tormerki á því að okkur tækist að selja okkur uppúr skuldunum og var hinn fúlasti. Íbúðin fór á netið á meðan við vorum í Edínarborg, fyrsta símtalið kom á meðan við vorum enn á flugvellinum í Glaðskógum. Við tók tveggja sólarhringa stanslaus straumur fólks og við vorum búin að selja á fimmtudegi. Afhending hálfum mánuði seinna, staðgreitt uppúr skuldunum og gott betur, og möguleiki á að leigja fram á sumar ef okkur sýndist svo. Til þess kom þó ekki, í kringum fyrsta apríl (og daginn eftir frumsýningu Hárlakks, eða svo) fluttum við í Kópavog, á indæla sérhæð með haug af plássi, í eigu Ella frænda míns sem vantaði leigjendur. Hér fer nú aldeilis ljómandi vel um okkur, sko. Það er gott að búa í Kópavogi, og allt.

Börnin þurftu reyndar að skipta um leikskóla eftir sumarfrí en það rann nokkuð ljúflega niður, þó Freigátan tali stundum um ýmsa af gamla leikskólanum. Enda erum við alltaf á leiðinni þangað í heimsókn. Smábátur fær að klára Hagaskólann og er bara orðinn sérfræðingur í strætóleiðinni Kópavogur-Vesturbær Reykjavíkur. Hann var reyndar píndur í unglingavinnuna í Kópavogi hluta úr sumri, með afskaplega dræmum undirtektum, en seinni hluta sumars var hann í sveitavinnu í Eyjafirði og þótti fínasta slag.

Í sumar var síðan bætt við stórfjölskylduna. Sigurvin bróðir minn og Auður Ásbjörnsdóttir eignuðust dótturina Ásthildi Viktoríu þann 30. júnó og hefur hún náttúrulega verið í ógurlegu uppáhaldi hér á bæ og er næstum drekkt af ástúð og umhyggju þegar hún kemur í heimsókn.

Við vorum slatta fyrir eystan. Þar var í gangi unglingalandsmót. Því fylgja hoppukastalar. Þvílíkt og annað eins gríðarstuð! Ég skildi síðan liðið eftir og fór til Japan. Á ráðstefnu í Osaka. Flugið var dauðinn, ráðstefnan var skemmtilg. Ég var í viku að jafna mig eftir heimkomu.


Fór á aðra ráðstefnu í september og tók eiginmanninn með mér. Hún var í London. Einnig gaman. Og svo fórum við í slatta af leikhúsi og svona. Hreint ágætt og ljómandi.


Síðan erum við nú bara búin að vera heima og haga okkur. Mest. Reyndar er ég aftur komin á milljón í Hugleikinn. Skrifa og aðstoðarleisktýri einhverju sem verður frumsýnt í byrjun febrúar ef alheimurinn lofar. Svo það stefni í sömu geðveikina eftir jól eins og eftir þau síðustu!

Og Smábáturinn fékk spangir á tennurnar sínar, kortér í jól. Var fyrir norðan hjá föðurfólkinu sínu um jólin og fer með móðurfólkinu sínu til Flórída strax eftir áramót. Og ég fékk úkúlele í jólagjöf. Og er alveg óþolandi dugleg að æfa mig... finnst öllum hinum á heimilinu.
Áramótapartíið verður þokkalega undirlagt!

Og upp er runninn þriðji veturinn í doktorsnámi. Ber helst til tíðinda að ég held ég sjái fyrir endann. Það er að segja, líklega er ég hálfnuð. Tveir vetur eftir þennann ættu að duga. Tala nú ekki um ef mér tekst að láta leikhúsið nokkurn veginn í friði á meðan.


Í ár tókum við upp á þeirri nýbreytni að vera heima hjá okkur um áramótin. Enda erum við búin að vera svo löt að það liggur við andlátum. Þau yngri hafa eitthvað verið í leikskólanum. Kannski á morgun (30.) Fer eftir veðri. Það er spáð snjókomu, en talsvert hefur verið um svoleiðis og þurfti að moka bílinn rækilega út í dag. Hugga syss og ein vinkona hennar verða hjá okkur í gamlárspartíi og það verður nú stuð.

Næsta ár ætti síðan að hefjast með ógrynni af leti. Ekki með ferðalagi eins og venjulega. Heldur bara yfirgengilegu tjilli. Í einn dag. Síðan þarf að drífa Smábát til útlanda og æfingar hefjast á MILLJÓN!

25.12.11

Jólin

Jæja. Til skemmtunar fyrir ömmur og börnur kemur hér frásögnin af jólaundirbúningi, aðfangadegi og jóladegi í fínustu smáatriðum. Þeir sem ekki hafa gaman af langdregnum og díteiluðum frásögnum af börnum, heimili og öðrum hátíðarnormalheitum geta hætt að lesa núna.

Fyrstu helgi í aðventu var Rannsóknarskip norðan heiða, Móðurskip í stofufangelsi með afkomendurna og því voru aðventukassar uppgrafnir og jólað ógurlega. Þar sem við erum í áður ójóluðu húsi, og miklu stærra en síðast, kom ýmislegt á óvart. Nú eru til dæmis gluggasyllur úti um allt, talsvert fleiri gluggar en áður. Og svo voru báðar seríurnar ónýtar. Þetta leiddi til ferðar í Rúmfatalager og Byko með hæper börn og nokkur taugaáföll. Aðventað var nú samt, vel og vandlega, miklu fyrr en venjulega.
Helgina eftir fór móðurskip austur í 5 daga húsmæðraorlof. Það var byrjað á súkkulaðidagatölum en það gleymdist að kveikja á tveimur kertum á aðventukransinum.


Unglingurinn Smábátur kvartaði yfir því að hafa týnt barnagleðinni yfir jólunum. Þau litlu eru hins vegar ekki endilega farin að muna hvernig síðustu jól voru, né byrjuð að missa matarlystina yfir pökkunum viku fyrir jól. Svo þetta er allt mjög rólegt.

Síðustu helgi fyrir jól var bakað laufabrauð og síðan jólatréð sett upp ásamt jólaskrautinu eins og það lagði sig. Þegar ég var lítil var allt dauðþrifið áður en mátti taka upp eina einustu jólaskraustutlu. Veggir skúraðir, innanúr og ofanaf öllum eldhússkápum, tekið til í herbergum, yst sem innst, og skreytt á þollák. Jólatréð á aðfangadag. Við höfum endaskipti á þessu. Skreytum fyrst og þrífum svo á þollák. Og dáldið á aðfangadag. Það þýðir ekkert fyrr. Og eldhússkápar eru nú bara alveg látnir eiga sig sem og aðrir skápar.

Í mínu ungdæmi var skreytingum á þollák og aðfangadag reyndar ætlað að stytta biðina eftir jólunum en það var nú áður en DVD spilarar komu til. Reyndar var Freigátu svo nóg boðið þegar þau voru að horfa á mynd 2 í beit, bara í sjónvarpinu, á aðfangadag að hún spurði hvort ekki væri óhollt að horfa svona mikið á sjónvarpið. Hún fékk þau svör að á jólunum mætti stundum gera sumt sem væri óhollt.


Börnin voru geymd á leikskólanum til og með þolláx af áður óþekktu harðfylgi. (Og fá að fara þangað aftur strax á þriðja í jólum.) Þau voru nú samt bara nokkuð ánægð með það. Á nýja leikskólanum er nefnilega brekka og ógrynni af þoturössum. Börnin eru búin að læra að renna sér. Á 22. var unglingurinn farinn norður yfir heiðar til að eyða jólunum með föður sínum og hans fjölskyldu. Hann kemur aftur 29., rétt stoppar yfir áramótin og svífur svo til Flórída með móðurfjölskyldunni sinni. Svo þetta voru óvenjufáliðuð jól.

Semsagt. Þrif voru framin á þollák og aðfangadag. Á aðfangadag vaknaði ég snemma með ormagormunum og framdi hátíðarsiðinn að brasa súkkulaðimús, með tilheyrandi þeytarahljóðum, börnunum til ama og leiðinda þar sem þau voru að reyna að heyra aðfangadagsbarnaefnið. Þau verða óstjórnlega fegin ef við fáum okkur einhverntíma eldhús með veggjum. Eftir maraþon sjónvarpsgláps (barnanna) og matargerðar (mitt) lagðist ég í árvisst símavændi og slúður við eina vinkonu mína á Egilsstöðum. Svo var sparistellið drifið fram og Rannsóknarskip eldaði dýrindis lambalaæri. Hugga syss mætti með rauðvínsflösku sem við dreyptum á á meðan við rifum kjaft yfir lokahönd á matargerð. Allt eins með hefðbundnu sniði. Börn tóku ótrúlega duglega til við matarinntöku. Svona miðað við að þau eru almennt tortryggin á sjaldgæfan mat og síðustu tvö ár hefur Hraðbátur nærst eingöngu á laufabrauði yfir hátíðarnar.


Síðan var tekist á við aðalatriðið, pakkaopnun. Það var einkar ánægjulegt. Úr milljón pökkum fengu allir fullorðnir eitthvað fallegt sem og bækur sem þeir höfðu ekki lesið. Börnin fengur, taldist mér 6 leikfangapakka, hvort, og ekki tókst að setja allt í notkun á aðfangadagskvöld. Slatta af bókum, náttföt, íþróttagalla, geisladiska, hljóðbækur, DVD-myndir. Ólíklegt að takist að eyðileggja alltsaman fyrir nýjárið, í þetta sinn! Þó vafalaust geri menn sitt besta. Rannsóknarskip fékk óvenjumikið af golfdóti og er harla glaður. Ég fékk ukulele. (!!!!) Og heilsukodda. Og fjórar bækur. Og pæjuveski. Og ótrúlega margt fleira fínt. Annars hefur tíðkast í minni fjölskyldu að skiptast á listum yfir hvað okkur langar í/vantar og síðan tekur við gríðarflókið upplýsingaferli þar sem allir nema sá sem gjöfin var keypt handa þarf að frétta af hverjum hlut sem keyptur er. En ég hef komist að því að það eru óvæntu gjafirnar sem eru skemmtilegastar. Svo við Hugga syss ákváðum að hætta þessu rugli nú bara. Á næsta ári fá allir bara eitthvað og eitthvað, sennilega frekar exótískt og skrítið. Rannsóknarskip er að fara til Rúmeníu, Frakklands og kannski Tyrklands á næsta ári og ég kannski til Chile. Þannig að klárlega geta menn ekki einu sinni látið sig dreyma um hvað þá langar í/vantar í jólagjafir frá Rúmeníu/Frakklandi/Chile, hvað þá í apríl/júní/júlí.

Allavega. Núna á jóladagskvöldi eftir jólaboð hjá Huggu, annað hjá afa og ömmu Smábátsins og leifar af aðfangadagskvöldi í kvöldmatinn, er búið að taka öll leikföng í notkun. Lesa fleiri bækur og ég er búin að læra þrjú grip á ukulele. Gat þess vegna spilað og sungið „Loksins ég fann þig“ fyrir Rannsóknarskip í gærkvöldi. Nú er Rannsóknarskip farinn að lesa jólabækur fyrir börnin fyrir svefninn og ég ætti vitaskuld að vera að gúggla restinni af ukulelegripunum. En í staðinn er ég að horfa á Holiday. Í þriðja sinn á þessu ári, held ég. En, eins og ég sagði Freigátunni í gær, má haga sér eins óskynsamlega og mann lystir á jólunum.

Og ef einhver heldur að aðdráttaraflið í þessari mynd tengist Jude Law, þá skulum við bara hafa það á hreinu að hann hefur EKKERT í Jack Black!

Gleðileg jól!

7.12.11

Umræður skrumræður

Við erum nýlega byrjuð að blogga. Enn nýlegar farin að tjá okkur á fésbók og farin að geta gert athugasemdir við fréttir. Að vera vitni að upphafi umræðuhefðar er mjög áhugavert, þó það sé auðvitað oft þreytandi. Spjallþráðaumræðan er ekki enn komin með hefðir, venjur, kurteisisreglur. Fólk lætur vaða, og getur það, nokkuð ábyrgðarlaust... ennþá. Og rökræðir. En þá rekst maður á hið fornkveðna, skoðanir eru eins og rassgöt, ein á mann.

Ég held að í upphafsringulreið þessa óheftandi samskiptaforms felist áhugaverðar uppljóstranir. Kannski ekki nýjar en meira áberandi en vitneskjan verður almennari.

Ég þoli ekki að lesa umræðuþræði. Ég gæti reynt að halda því fram að það væri vegna lélegrar málfræðikunnáttu umræðenda eða að umræðan væri "á of lágu plani," hvað sem það nú þýðir, en staðreyndin er sú að ég þoli ekki að sjá fólk rökstyðja skoðanir sem mér þykja fáránlegar, ömurlegar og mannskemmandi. En þannig þýðir náttúrulega ekkert að láta. Það sem er, bara er. Eins er hægt að rökræða sig bláan í framan. Maður er ekkert að fara að breyta skoðunum neins. Enginn fær hugljómun og frelsast frá asnalegri skoðun við að lesa umræður á DV eða Facebook.

Og rökræður?

Allir sem hafa einhverntíma tekið þátt í ræðukeppni vita að það er hægt að færa rök fyrir hvaða kjaftæði sem er. Einu sinni talaði mitt lið fyrir því að konur færu út af vinnumarkaðnum. Í annarri keppni vildu andstæðingarnir leggja niður jólin. Þannig æfa menntaskólanemar sig fyrir kjaftæðissamfélagið.

Ég held að við myndum okkur skoðanir fyrst. Byggt á tilfinningu. Eða hagsmunum. Allavega ekki með rökum. Við hengjum þau utaná eftirá. Þess vegna er oft gaman að setjast um borð í hugsanalestina, helst varðandi mál sem manni er ekki sérlega annt um. Eitthvað sem snertir mann ekkert mikið, persónulega. Þegar maður er orðinn flinkur getur maður gert slíkt hið sama við mál sem standa manni nærri og komist að því að það er margt í mörgu. Alltaf.

Ég fór til dæmis að hugsa um vændi. Þaðan fór ég yfir í líkamann sem söluvöru. Fór að hugsa hvort líkaminn sé ekki seldur þegar við skuldbindum hann til að mæta á ákveðnum tíma, á ákveðinn stað og vinna ákveðna vinnu 8 - 16 tíma á dag, 5 - 7 daga í viku. En það er innbyggt í kerfið að við gerum það. Atvinnan gengur fyrir öllu öðru sem við þurfum að gera. Alltaf. Engar undantekningar. Kerfið gerir ekki ráð fyrir því að við, börnin okkar eða aðrir nákomnir, veikist eða deyi. Þeir sem hafa heilsufar sem ekki leyfir að þeir vinni eins og vélmenni 8 tíma á dag 5 daga í viku, minnst, eru ekki tækir til atvinnu. Og þar með annars flokks í samfélaginu. Er mannslíkaminn kannski söluvara í fleiri en einum skilningi og það innbyggt í kerfið?
Semsagt, vændi er kannski "eins og hver önnur vinna." En "atvinnulífið" er þrælahald. Ég er ekki komin lengra.

Og þannig fór samtalið við sjálfa mig um vændi.

En það er gaman að fylgjast með netumræðunni þróast. Hún er líklega óþagganleg en allir eru þó að reyna að þagga niður í einhverjum öðrum þar. Að trompa þessa óþolandi einstaklinga með apalegu/fáránlegu/glæpsamlegu skoðanirnar. Ýmsar aðferðir eru í gangi. Rökræður, skítkast, troll... maður sér ýmsum brögðum beitt. Og enginn er að "vinna." Maður hefur tilhneigingu til að lesa frekar greinar frá skoðanasystkinum. Umræðan er jafnstjórnlaus. Hinir eru bara annarsstaðar. Líka saman í hóp.

Það er ekki hægt að setja yfir netumræðuna lög. Hakktívistasamtökin Anonymus hafa reyndar fundið leið til að taka niður síður andstæðinga en ef fjársterkir aðilar finna ekki upp leið til að þagga niður í þessu fjölhöfða skrímsli þá kemur að því að fólk þarf að bera ábyrgð á sjálfu sér innan netsamfélagsins. Það er gaman að vera alltaf brjálaður yfir einhverju, fullur "réttlátri" reiði yfir hvað allir eru miklir fábjánar. Í smá tíma. En ég hugsa að við verðum þreytt á því.

Og það þýðir ekkert að hnussa og fussa. Við verðum aldrei öll sammála.

Áhugaverðir tímar, þetta.

29.11.11

Aðventumenningarkæruleysisferð

Eins og það er nú skemmtilegt að skrifa doktorsritgerð, aðstoðarleikstýra og ala upp 3 börn, þá er ekki laust við að stundum verði maður ofurlítið þreyttur. Minn, þó, ef maður getur stillt sig um að fara á límingunum af stressi. Sem hefur gengið óvenjuvel.

Rannsóknarskip er þó búinn að vera að segja mér að ég ætti að fara einhverntíma í húsmæðraorlof. En þegar ég fer í burtu frá fjölskyldunni er ég venjulega á ráðstefnu, leiklistarhátíð eða fundi, gjarnan að halda ræður eða fyrirlestra, skrifa fundargerð... halda hátíðina... sem sagt, gera eitthvað. Og nú er ég með kvef, þannig að elskulegur eiginmaður minn ákvað að gefa mér flugpunktana sína svo ég geti skverað mér austur á land um rúmlega næstu helgi. Hringdi í mömmu í gærkveldi og hún las fyrir mig upp úr Dagskránni eitt og annað sem ég þarf að mæta á. Upplestur úr nýútgefnum austfirskum bókum í Safnahúsinu á fimmtudagskvöld, Stones og Bítlarnir í Valaskjálf (!) nýbúið að opna nýjan/gamlan pöbb, ábyggilega eitthvað um að vera í Sláturhúsinu. (Sem er menningarmiðstöð, sko.) Já, og aðventutónleikar í kirkjunni.

Það er nefnilega brjálað menningarlíf á Egilsstöðum. Ég bjó þar í 9 mánuði ársins 2003 og það var ekki flóafriður. Þess vegna finnst mér alltaf jafnfyndið að hitta fólk sem býr á Egilsstöðum og segir „það er aldrei neitt um að vera hérna...“ Émdi segja að það fólk læsi ekki dagskrána sína. Sumir bakka reyndar í að segja, það er ekkert um að vera FYRIR UNGA FÓLKIÐ, sko. Ég var líka grunnskóla og menntaskólanemi á Egilsstöðum. Brjálað að gera. Endalaust gaman. Leikfélög, skólaheimsóknir, ræðukeppnir, hljómsveitir... En ef menn vilja geta keypt sér skemmtun í þægilegum og notendavænum umbúðum, þá er ekkert víst að neinn nenni að standa í iðnframleiðslu á svoleiðis.
En til þess er Stöð 2 og feisbúkk.

Er allavega farin að hlakka massíft til. Þarf reyndar að láta eiginmanninn um að fara á jólaball með börnin og missi af einum kórtónleikum sem ég ætlaði á með dótturina. En verð bara að biðja menn vel og vandlega um að mynda hvert örstutt spor. Sjálf er ég kvefuð og úldin og er komin á eftir með slatta af einhverju sem tekur enga stund að gera og ætla að rigga upp einhverjum styrkumsóknum fyrir austan svona á milli þess sem ég heimsæki fólk og stunda menningarviðburði. Kem austur að morgni afmælis ömmu minnar og Mæju-mömm-ans-Aðalbjörns þannig að sá dagur fer í að koma Egilsstaðafrúm á óvart.

Reikna með að koma til baka með hlaðin batterí fyrir jólaundirbúning og lokaskrensið á leikriti Hugleiks (hvers nafn hefur ekki verið opinberað, en verður GOTT og frumsýnist í lok jan/byrjun feb.

8.11.11

Jóla! Jólajóla!

Eftir afmæli Rannsóknarskips, sem er 5. nóvember, finnst mér alveg passlegt að fara að hugsa um jólin. Segi ekki að það gerist neitt alveg strax en þegar ég fór í kringluna á sunnudag (degi of seint) til að kaupa afmælisgjöfina hans einsetti ég mér að hugsa líka um jólagjafir. Steingleymdi því síðan alveg en einbeittur brotavilji var til staðar.

Ég er alveg að fara að ná í allavega tvo jóladiska til að setja í bílinn. Jafnvel þrjá. Jóladiskar Sigurðar Guðmundssonar og Baggalúts eru bara allt of góðir til að hlusta bara á þá einn mánuð á ári. Ef ég finn diskinn úr Jólaævintýri Hugleiks getur vel verið að hann fái að koma með. Hann er nefnilega ekkert mjög jólalegur, nema lokalagið sem er svo jólalegt að mann svíður í jaxlana.

Ég er búin að heyra eitt jólalag í útvarpinu. Það var með Baggalút og fjallaði um rjúpnaskytterí.
Venjulega er Last Christmas með Wham fyrsta jólalagið sem ég heyri í útvarpinu. En venjulega finnst mér Pottþétt jól ekki viðeigandi fyrr en á aðventu. Þá má líka Maria Carey koma og jafnvel Barbara Streisand. Boney M. er hins vegar ekki viðeigandi fyrr en í desember.

Jólaóratoróur, jólasálmar og Hátíð fer að höndum ein með Þremur á palli er alltsaman alveg bannað þar til kannski í vikunni fyrir jól.

Á hverju ári ætla ég síðan að gera jólalegt heima hjá mér alveg viku fyrir jól, í síðasta lagi. Það heppnast aldrei. Núna er planið að vera heima um áramótin (sem hefur aldrei gerst utan einusinni þegar þau bar upp rétt fyrir fæðingu frumburðar, að talið var.) Þarf kona þá að baka sjálf?

Einhverjum þykja þetta kannske ótímabærar vangaveltur? En í mínum heimi tekur nokkrar vikur að koma hlutunum í verk... Takmarkið er að koma Sigurði Guðmundssyni og jóladiskum Baggalúts í bílinn áður en jólafasta hefst. Það er ekkert víst að þriggja vikna umþóttunartími dugi.

Svo, ef maður er jólafíkill, en vill halda því leyndu fyrir sjálfum sér og öðrum, þá er þetta tildæmis ekki jólalag!

24.10.11

„Fréttir“ ?

Ég er búin að vera að hlusta mikið á sjálfstæða fréttamiðla í útlöndum, undanfarið. Og svo fyrirlestra, fréttaskýringar, umræður og allskonar dót. Og heimildamyndir. Þvílíkan aragrúa að ég er ekki frá því að ég hafi loksins fundið kvikmyndaform sem ég endist til að horfa á. Um fjármálakerfið og framleiðsluhætti hvers konar, mótmælin í Bandaríkjunum, og núna síðast um Líbíu.

Þar eru nú aldeilis maðkar í mysunni, maður. Haldiði að Gaddafi hafi ekki ætlað að innleiða gullmynt fyrir arabaríki og Afríku? Og fara að gera heimamönnum kleift að draga fram lífið á olíugróða? Bara eins og Saddam Hussain! Þjóðnýta auðlindirnar! Að hugsa sér!!! PAKK!!!!!

Það liggur við að það sé hægt að gefa sér það, nú orðið ef það var ekki alltaf þannig, að ef NATO eða Bandaríkin vaða af stað með hernaðaríhlutun, þá snýst það um að halda olíuverðinu niðri. Og fjölmiðlarnir spila með, allir éta upp eftir þeim stærstu og fjármögnuðustu. Og ef fréttamenn ætla að fara að segja sannleikann eru þeir úthrópaðir sem "samsæriskenningamenn" og hvurveithvað. (Og í Líbíu voru þeir nú bara settir í stofufangelsi.) Wikileaks hefur þó verið betra en enginn þegar kemur að því að afhjúpa sannleikann í ýmsum málum. Og þeir eru alltaf að birta eitthvað....
(Bíddu... en það hefur ekkert verið í fréttunum!!!)

Annars eru fréttir, yfirhöfuð, miklu próblematískara fyrirbæri heldur en ég hef alltaf haldið. Hálftími þar sem sagt er frá öllu sem er að gerast í heiminum? Meira og minna því sama (af erlendu) og stjórnað er af „hagsmunaaðilum“ og peningapúkum sem geta þaggað niður hvað sem er. Og íslensku fréttirnar trufla engan sem á pening heldur. (Enda eins gott fyrir þá, þeir eru kærðir og dæmdir af hæstarétti mafíunnar til að borga þeim sem eiga peningana og hæstarétt allt sem þeir eiga ekki...)

Ég frétti hvað er að gerast í gegnum fésbók, þessa dagana. Democracy Now, hinar og þessar greinar sem poppa upp annað slagið, hér og hvar. Stöku viðtal í Silfri Egils (ekki hálftíma hálvitanna í upphafinu, samt.) Ef ég heyri upphrópun eða fyrirsögn sem virðist fela í sér einfalda lausn á öllu í heiminum verð ég tortryggin og fer að skoða á bakvið... Venjulega er þetta ekkert nema framhliðin.

Fyrst og fremst veit ég þó, eins og Sókrates, að ég veit ekki neitt.
En er þó orðin þess vísari að síðasti staðurinn þar sem staðreyndir er að finna er í „Fréttum“.

5.10.11

Að stinga höfðinu í steininn

Þetta snýst um hvernig við skipuleggjum lífið í öruggar en ónáttúrulegar rútínur og, með því, höldum við því óvænta og kaótíska fjarri. Lífið er ekki fyrirtæki sem þarf að reka, það er leyndardómur til að lifa. Það er kominn tími til að rífa stimpilkortið, brjótast út úr verksmiðjunni og fara í stutta ferð út í hið ókannaða. Vinnan nær meira flæði ef hún er unnin með afslöppuðum huga.
(Eða eitthvað í þá áttina. Þýðing mín.)

Það er nefnilega það. Ljómandi gott spil í dag. Annars hef ég einmitt verið að hugsa um byggingametafórur. Mjög oft erum við ekki að byggja hús. En við látum eins og við séum að því. Einhverntíma, ca. 2008, sagði Baggalútur að ríkisstjórnin (þáverandi) hyggðist vinna á hruninu með útjöskuðum myndlíkingum. (Það var mjög fyndið. Þá vorum við líka alltaf úti á sjó hálfan fréttatímann.)

En svo erum við ekki nærri því alltaf að byggja hús þegar við látum eins og við séum að því. Við „leggjum grunninn“ að einhverju og næstum allt sem sagt er og gert „byggir á“ einhverju öðru. En þetta er alltsaman bull. Tíminn líður. Hann byggist ekki upp lórétt eins og hús. Og ef eitthvað er gert sem er ekkert endilega til að „byggja“ neitt á, er það verra? Að sama skapi, þó einhverju sé breytt, svona bara í skipulaginu, þá þýðir það ekki að það sé verið að „rífa niður“ eitt eða neitt. Ég held að byggingametafórurnar séu að drepa okkur...

Ég er að hugsa um að taka tilmælin „að hætta að stinga höfðinu í steininn“ bókstaflega og fara að taka eftir því hvernig og hvenær byggingalíkingar eru notaðar og athuga hvort þetta er kannski að skapa einhverja grundvallarskekkju í allri huxun.

Læt vita ef ég kemst að einhverju.
3.10.11

Erindi frá leikskáldastefnu

Var að fá hugmynd. Sem er heimskulegt að hafa ekki fengið fyrr. Ég er stundum að halda einhverja fyrirlestra sem fullt af fólki missir af. Oftast alveg næstum allir. Og er þá ekki vit í að birta þá bara hér?

Hér er allavega erindi mitt frá málþinginu á Grósku, leiklestrahátíð sem Félag leikskálda og handritshöfunda hélt 15. - 17. september.


Ég var beðin að tala aðeins um pólitískt leikhús.

Þannig er að ég er að gera doktorsrannsókn á pólitísku leikhúsi á Íslandi eftir hrun og þess vegna halda menn kannski að ég búi yfir einhverri þekkingu á fyrirbærinu. Þetta er að sjálfsögðu misskilningur. Á undanförnum tveimur árum hef ég lesið gríðarlega mikið um leikhús, nútímaleikhús, pólitískt nútímaleikhús, samtímamál, tungumálið, tungumálin, orðræðuna... Því meira sem ég les gerir ég mér betur grein fyrir því hvað ég veit lítið. Og reyndar líka því að enginn veit neitt. Sem er ágætt, þá þarf maður ekki að vera að burðast með neina minniháttarkennd yfir því.

Öngvu að síður, fjarri mér ætla að fara að láta tækifærið til að láta gamminn geysa um svo spennandi efni framhjá mér fara.

Ádeila er spennandi orð. Komið af því að deila á. Gagnrýna. Segja til vamms, um hvað sem vera má. Í samhengi bókmenntanna getur meira að segja verið að við eigum mismunandi tegundir. Til dæmis þjóðfélagsádeilu annars vegar og samfélagsádeilu hins vegar. Ég var að vesenast með skilgreiningar á þessu og komst að þeirri niðurstöðu að þjóðfélagsádeila lyti að því sem sneri að völdum og stjórnun í samfélaginu en samfélagsádeila þá frekar um að deilt sé á önnur samfélagsmein.

Svona skilgreiningar eiga samt ekkert heima í neinum formúlum og passa ekki í exel. Leikrit eru aldrei hreinræktuð annað hvort eða, heldur geta verði haldin snerti af hvorutveggja, ásamt ótalmörgu öðru.

Ég held að öll leikskáld finni annað slagið, ekki síst á Íslandi í dag, fyrir ákveðnum þrýstingi. Þið eigið að skrifa um þetta! Það vantar fleiri ádeilur á það hvernig allt er! Hvar eru ádeilurnar á bankamennina? Ríkisstjórnina? Auðmennina? Hugarfarið? Mér heyrast margir vera alveg gjörsamlega á hreinu hvað þarf nauðsynlega að gerast núna. Og það sem að okkur snýr, hvernig leikrit við ættum að vera að skrifa. Þegar ég er í stuði (og helst full) finnst mér ég vita það líka.

Ég held að mannkynið sé aldrei í meiri afturför heldur en þegar það er alviturt.

Enda erum við stödd á mjög spennandi hnignunartímum. Ýmsir telja að við séum að upplifa endalok heimsveldis ákveðinna hugmynda... þó allir séu mjög ósammála um hverjar hugmyndirnar séu. Svo ekki sé minnst á hvað gerist næst. (Eða hvað best væri að gerðist næst.) En mér finnst upplífgandi að minnast þess að eftir að alræði kaþólsku kirkjunnar lét undan í Evrópu miðaldanna tók endurreisnin við. Einhver brjálaðasta sprenging í listum og vísindalegum uppgötvunum sem við eigum heimildir um. Persónulega átti ég ekki von á að lifa Öld Alheimsfrekjunnar láta undan síga eins mikið og hún hefur þó gert. Svo þetta eru nú þegar meira spennandi tímar í hugmyndum og hugmyndafræðum heldur en ég átti von á að sjá, hvað sem það heitir sem nú er hugsanlegaað byrja að enda sín yfirráð.

Um stöðu leikskáldsins í hugmyndafræðilegu samhengi má spyrja margra spurninga. Ber okkur skylda til að skrifa um ákveðin mál? Eigum við að vera að jarða sumar hugmyndir en halda öðrum á lofti? Er einn altækur sannleikur um hvaða hugmyndir eru “hættulegar”? Er það sama hættulegt fyrir alla? Eigum við kannski að vera hættuleg? Er mögulega allt hættulegt? Getum við breytt heiminum og er eigum við að gera það? Er okkur treystandi til þess?

Skemmtileg þversögn í því að þeim sem telja sig þess umkomna er sennilega einmitt ekki treystandi til þess. Enginn er hættulegri en maður sem er viss.

Áróður er líka magnað fyrirbæri. Áróðursleikhús hefur oft verið notað með góðum árangri. Og ekki síst í dag, nema nú köllum við það almannatengsl og auglýsingar. Ef ádeilan spyr spurninganna þá kemur áróðurinn með svörin. Ádeilendum er gjarnan legið á hálsi fyrir að spyrja spurninga en koma ekki með svör. Já, við höfum það skítt en ef við hendum því sem er hvað fáum við í staðinn? Er spurt.

Mannskepnan er aldrei í innilegri sleik við vöndinn en þegar hún heldur að hún upplifir blekkinguna um öryggi.

Þeir sem telja sig hafa lausnina, eða vilja halda því fram, koma með áróðurinn. Allt væri fullkomið ef það væri SVONA. Bara kaupa svona pakkadíl. Dömur mínar og herrar, leitið ekki lengra, lausnin er ÞESSI. Einföld og þægileg eins og internetið. Mér er reglulega sagt að leikhúsið sé ekki að standa sig nú um stundir. Það bjóði ekki upp á nógu þægilegar lausnir. Komi ekki með svörin. Skemmti ekki nóg. Skilji menn eftir með óþægilegar spurningar en veiti engin svör. Og til hvers að vera að setja upp leiksýningar sem ekki “slá í gegn”?

Ég veit það ekki.

Nú þegar drekkum við og dópum til að þurfa ekki að upplifa raunveruleikann á rauntíma. Horfum á sjónvarpið, höngum á feisbúkk, étum okkur til óbóta... einn stærsti iðnaður jarðar er kenndur við afþreyingu. Þarf leikhúsið líka að vera dóp? Eigum við bara að að rorra í spikinu í þeirri þægilegu fullvissu að við vitum allt? Séum örugg og höfum ævinlega rétt fyrir okkur? Vitum upp á hár hvernig allt ætti að vera?

Þrátt fyrir að leikhúsið hafi vissulega svarað þessum kröfum tímans og sviðsetji oft og mikið efni sem leggur sig fram um að skemmta öllum og ögra engum (reyndar hægara sagt en gert á þessum óþolandi tímum þegar allir virðast hafa skoðanir) þá hefur leikhúsið samt á sér orð fyrir að vera stundum, og kannski oft, og kannski of, óþægilegt.

Við erum ekki á einu máli um hvað á að gera við leikhúsið. Eigum við að koma því fyrir á þægilegum púða í miðri flóru afþreyingarmenningar? Nútímavæða, komast að því hvað “fólk” vill? Selja, selja selja? Eða eigum við að að vera óþægileg? Sýna það sem fáir vilja sjá? Spyrja spurninga óendanlega margra svarmöguleika?

Auðvitað er þetta síðan ekkert annað hvort eða.

Ég hef líka heyrt því fleygt að „hefðbundin“ leikritun sé úrelt og dauð. Ekkert merkilegt komi neinsstaðar frá lengur nema úr leikstjóraleikhúsinu. Ef maður les leikhúsfræðin sem mest er haldið á lofti þessa áratugina mætti halda að hefðbundin leikverk væru hreinlega ekki sett á svið lengur. Ef maður athugar hvað er verið að leika á leiksviðum heimsins kemur síðan allt annað í ljós. Það er eins og fræðaheimur leikhúskenninga og raunheimur leikhússins sé ekki uppi á sama tíma, né hrærist í sama samfélagi.

Er leikritið dautt?

Skáldsagan drap ekki leikritið. Kvikmyndin drap ekki leikhúsið. Sjónvarpið drap ekki kvikmyndina og internetið drap ekki sjónvarpið. Fræðilega erum við ekki endilega að skoða leiksýningar sem bókmenntir lengur... ef einhver veit þá hver skilgreiningin á bókmenntum er. Við erum reyndar bara alls ekki á einu máli um merkingu og mikilvægi margra orða í dag...
En á meðan einhverjir nenna að skrifa leikrit... og ég held að ef þessi hátíð hefur sýnt fram á eitthvað þá hefur hún sýnt fram á að þeir eru til... heilu haugarnir... þá eru að verða til leikbókmenntir.

Og það sem er til er til. Það þýðir ekki að setja „computer says no“ á listform. Gömul eða ný. Vissulega er síðan hverjum frjálst að hafa skoðanir á því að sum listform séu betri en önnur, sum séu góð og vænleg, önnur skaðleg, leiðinleg, skemmtileg, og listina er svo sannarlega hægt að nota í ýmsum tilgangi. Jafnvel tilgangi sem einhverjum kann að þykja vafasamur.

Og við lifum á tímum höfðatölunnar. Mikilvægi verka er mælt í vinsældum. Miðasölu.
En er endilega betra að hafa engin áhrif á marga en mikil áhrif á fáa? Erum við að vinna vinnuna okkar ef við erum ekki að hugsa um framþróun mannkyns og samfélags? Ef við erum bara að reyna að vera dóp? Flóttaleið frá veruleikanum?

Leikhúsið heldur áfram að vera allskonar, eins og leikhúsfólkið.
Ég held kannski á meðan við heyrum að leikhúsið sé á villigötum séum við á réttri leið.
Þegar allir verða sáttir verður ástæða til að hafa áhyggjur.

28.9.11

Eftir Astrónómíunni!

Jæja. Stjörnuspekin og Zenið segja mér að ég sjái óvenjuvel hvað skiptir máli (og hvað ekki) í dag. Tarrottið segir að nú fari að bresta á með þvílíkri velgengni og hamingju. (Og hamingju hversdagsleikans, sem væri nú gaman að sjá.) Þá ætti ég alveg að vita það, innst inni, hvort er mikilvægara að tékka á teppahreinsivél fyrir sófana í dag eða hringja í mennina sem eru með tölvuna í eilífðarviðgerð. Já, og hvort er mikilvægara að hanga á internetinu og fylgjast með mótmælunum á Wall Street eða fara að grípa réttri hendi í raðskatið á sér og skrifa doktorsritgerð! Já, það þarf nú líklega ekki neitt sérstaklega góðan og gáfulegan dag til að fatta útúr þessu.

Góðar fréttir, líka, að það er búið að laga kaffivélina! Í gærmorgun gerðust hreinlega engin hugvísindi. Alvarlegt mál.

Annars var Lundúnaferðin skemmtileg og gagnleg. Ég frétti af nokkrum greinum og bókum sem ég ætti að lesa... hitti nokkrar akademískar rokkstjörnur og svona. Sagði öllum frá Besta flokknum. Öllum fannst það nú fyndið... Næst þegar ég fer á ráðstefnu þarf ég að vera með eitthvað reglulega uppskrúfað og fræðilegt. Svona sem gæti drepið hest. Annars tekur fræðasamfélagið aldrei mark á mér.

Svo lítur bara út fyrir stuttverkahátíð í Færeyjum eftir ca 3 vikur! Hvar ég ætla að verða með Ljóð fyrir 9 kjóla og eitthvað fleira, kannski, svona. Þetta verður ferlega lítil og falleg hátíð, í Nólsoy. Skoðunarferð í Götu á sunnudeginum. Þó ég sé með ferðaþreytu þá er nú aldrei neitt verulega leiðinlegt að koma til Færeyja. Og prógrammið verður sjálfsagt ekkert brjálæðislega stíft. Svo ég er að vona að það verði smá afslappelsi í þessu.

Svo er einn leikhúsfræðinjarðískur vinur minn að flytja frá New York til London og þarf að millilenda á Íslandi í heilan sólarhring. Honum þótti það nú frekar skítt, þar til ég sagðist myndu ættleiða hann, hafa hann heima hjá mér (unglingurinn verður akkúrat í ferðalagi) og svo ætla ég að sýna honum mótmæli og A Band on Stage, sem verður á Rósenberg um kvöldið. Jafnvel eitthvað leikhús, ef nenna verður. Ég hugsa að þetta verði hin besta skemmtan. Ég hef oft hugsað sem svo að þessi náungi hefði nú gaman af að hitta fjölskylduna mína og leikhúsgengið. Gaman-gaman.

Og þar sem "hugsun mín er óvenjuskýr" og ég veit alveg hvað skiptir máli, er best að vinda sér í yrðingarammana. (Já, þeir eru til. Ég skóp þá. Eða er að því.)

Byltingin lifi!

16.9.11

Áhugaverðir tímar


Megir þú eiga áhugaverða ævi segir einhver útlensk bölbæn. Ég held það sé vegna þess að þegar tímarnir verða áhugaverðir má maður hvorki vera að því að pissa, kúka, þrífa sig eða sofa. Mér líður dáldið þannig. Þarf að stelast heim í dag áður en ég sæki krakkana til að komast í sturtu og setja í vél.

Held ég sé líka búin að komast að því hvers vegna ég var með kinnholusýkingar í allan fyrravetur. Loftræstidæmið hérna í miðjum glerkastalanum er ógeð. Nú er ég með hverfandi kvef, en eftir klukkutíma hérna inni er ég komin með stíflað nef og hausverk. Svo fór ég að horfa upp í loftdæmið fyrir ofan hausinn á mér. Og það er nú bara alveg ógeðslegt, satt að segja.

Ég held að við eigum eftir að komast að því að loft er nauðsynlegt fyrir fólk. Og þá bara venjulegt útiloft. Loft er ekki lengur loft þegar það er búið að liggja í einhverjum "stokkum".  Allavega. Ef ég verð hausinn á mér stíflast aftur þegar ég kem heim frá London, þá ætla ég að prófa að skipta um borð og færa mig frá óbjóðnum. Annars langar mig líka, ef einhver kraftaverk skyldu nú einhverntíma gerast í fjármálum, að taka bílskúrinn hans Ella frænda á leigu líka og búa mér til skrifstofu í einu horninu á honum. Með engu interneti, en þar sem ég get haft eins hátt eins og mér sýnist og spilað og sungið á milli ritgerðaskrifa. Það væri nú osom.

Og nú er allt á síðustu metrunum, einhvernveginn. Lesið úr 8 leikritum á Grósku í gær. Það var gaman. Úr 10 í viðbót í kvöld, þ.á.m. mínu. Ekki verður það nú öldungis leiðinlegt heldur. Og á morgun verður eitthvað lítið og sætt málþing um stöðu leikskáldsins. Þar ætla ég að framsegja allt sem mér dettur í hug. Og mikið verður nú gaman seinnipartinn á morgun þegar ég verð búin að því. Þá get ég einbeitt mér að því að hafa áhyggjur af hálfþýsku egghöfðunum sem ég ætla að messa yfir í London á fimmtudaginn.

Maður lifandi. Áhugaverðir tímar, aldeilis.

15.9.11

Bðeee

Ferlega erfitt að hunska sér að verki þessa dagana. Ég kenni um myndinni sem ég horfði á í gær (The Shock Doctrine) og byltingarkastinu sem ég er í, í framhaldi af heimsókn Chomskys, Vandana Shiva og fleiri snillinga. Mig langar alls ekki neitt að vera að reyna að skrifa einhverja "gáfulega" fyrirlestra, heldur bara að hreiðra um mig og lesa Empire eftir Hardt og Negri, horfa aftur á allar Zeitgeist myndirnar og
óverlóda af TED-fyrirlestrum. Pikka upp vögguljóð róttækrar móður, skrifa í Risastóru Bókina um Allt (sem er ekki enn í smíðum) skrifa geðbiluð ádeiluleikrit og gera síðan byltinguna. Bara sisvona.

Við eyðum miklum tíma í að forðast að upplifa hann. Tímann, semsagt, bara svona á þeim tíma sem hann líður. Mér finnst ég alltaf vera að reyna að láta hann líða hraðar... eða hægar. Held ég þurfi að halda áfram að vinna í að komast til Montpellier með allt liðið í júní. Suður-Frakkland var fyrir mér existensíalísk upplifun þar sem ég lærði listina að gera ekkert og láta sig berast með straumnum. (Enda segir kínverska stjörnuspekin að það vanti vatn í persónluleikann minn. Ég held það geti vel verið. Ekkert nema eldur og eldiviður, hérna inni.)

Nú eru orðin 10 ár síðan ég var að berjast við að læra að ganga á frönsku (í staðinn fyrir að vera alltaf æðandi fram úr öllum og þurfa tvær sturtur á dag út af flýtisvita) og verða ekki geðbiluð í óralöngum biðröðum (einfalt, maður tekur með sér bók) og ég er að verða búin að gleyma þessu aftur. Allt þarf ævinlega að gerast NÚNA. Enda er ég búin að vera þreytt og stressuð frá því að ég man eftir mér. Samt alltaf eitthvað skemmtilegt og spennandi að gerast, sko. En þreyttur og stressaður nýtur maður alls ekki neins.

Og nú þarf ég að hringja á leikskólasvið Kópavogsbæjar.
Best að njóta þess alveg í tætlur...

14.9.11

Frestun á fresti...

Stjörnuspá - 14. september 2011
fyrir 4. apríl 1974

Andrúmsloftið er frekar dempað og tilfinningar þínar kaldar. Samskipti geta því verið frekar stíf og kallað á vinnu. Það er best að halda sig til hlés og vinna í friði, frekar en að fara út á lífið, eyða peningum eða fást við viðskipti. Þetta er dagur raunsæis og varkárni. (Venus 90 gráður Satúrnus) Þetta væri nú alveg í ljómandi lagi ef maður nennti einhverju. Fráfarandi flensa á líklega sinn þátt í því. Og svo var ég líka búin að harðákveða að skrifa upp eitt viðtal en komst svo að því að ég var með diktafóninn en ekki heddfón sem passar í hann og ekki heldur snúru sem passar til að færa dótið yfir á tölvuna (sem ég ætti líka löngu að vera búin að gera. Ekkert sniðugt að geyma einhver 10 viðtöl bara á oggulitlum diktafóni sem getur týnst, dottið í gólfið, verið stolið eða orðið fyrir kaffislysi hvenær sem er.


En, setningin sem ég hangi á þegar kvíðaröskunin ætlar allt lifandi að drepa: There is more to life than being on top of things!


Svo nú get ég ekki gert það sem ég var búin að ákveða. En ég get haldið áfram að vinna í þrennu. Fræðilegi inngangurinn að ritgerðinni minni er í þróun. Ég á eftir að fara betur í orðræðugreininguna og yrðingarammana sem ég er að búa til, svo er ég með góðan bunka af bókum sem ég þarf að glugga í, vitna í og lesa í. Brýnna og meira aðkallandi er þó að reyna að klára framsöguna sem ég ætla að flytja á málþingi um "stöðu leikskáldsins" á vegum leikritunarhátíðarinnar Grósku í Norræna húsinu á laugardaginn. Já, og klára fyrirlesturinn sem ég er að fara að halda á einhverri alveg viðbjóðslega gáfulegri ráðstefnu í London eftir rúma viku.


Já, þetta er allt jafnsvalt og það hljómar, ef ekki svalara. Og í byrjun vikunnar vann ég heilmikið í báðum þessum "ræðum". Og var meira að segja nokkuð ánægð með mig. En nú þori ég ekki fyrir mitt litla líf að opna þau aftur eða lesa þau. Vegna þess að þau gætu sökkað. Eða kannski sökka þau og ég sé það ekki. Eða... eða... Bðeeerrrgh. Þetta er ástæðan fyrir því að maður frestar helst því sem maður ætti alls ekki að fresta. Og svona er þerapían mín, þegar ég er alveg að gera sjálfa mig vítlausa: Skoða stjörnuspána (sem segir venjulegast eitthvað ömurlegt) skoða tarotspá dagsins (sem boðar venjulega hamfarir, skilnað, dauðsfall og þvíumlíkt) skoða síðan Zen-tarot spil dagsins (sem gefur manni ævinlega eitthvað einstaklega gott heilræði sem maður fer síðan ekki eftir) og skrifa síðan eitthvað út úr rassgatinu á mér hérna. Það er svo skrítið að það er allt í lagi þó það sé ekkert „merkilegt.“ Bara fréttir af barnahori, pirringur yfir einhverju eða upptalning á því sem er fyrirliggjandi... þegar ég er búin að senda eitthvað ekki-neitt-neitt út í heiminn er auðveldara að opna frestunarskjölin og reyna að gera eitthvað.


Já, og áður en maður gerir það er mjög góð regla að drepa á internetinu. Bara með því að slökkva á vafranum (þetta er asnalegt orð. Af hverju ekki vafraranum?) tekst mér stundum að láta Fésbókina í friði alveg fram yfir hádegi, jafnvel.


Ókei. Einntveirog...

1.9.11

Tölvó

Þegar mikið og brjálað er að gera er um að gera að taka sér frí í heilan dag og hanga heima yfir tölvuviðgerðum. Það er svo gefandi.

Staðan er þannig að fartölvan mín er endanlega dáin. Hefur ekki verið kveikt á henni um hríð, og nú tekur hún alls ekkert við sér. Enda Gyða löngu búin að rífa af henni o-ið og u-ið svo hún ætti að vera löngu farin í varahluti.

Litla Toshiba gerpið sem við keyptum í fyrra er greinilega ekkert að ráða við það sem við viljum láta hana gera og ofhitar á sér, líklega skjákortið, og vill oft ekkert við mann tala. Hún þarf í viðgerð.

Það sem dagurinn fór í var að koma ævagamla turninum okkar í gagnið, aftur. Og það gekk eiginlega alveg furðanlega. Reyndar þurfti að setja upp nýtt vírusvarnar/viðhalds-dæmi og uppfæra öll prógrömm alveg gríðarlega mikið og oft. (Í gærkvöldi installaði greyið 49 uppfærslum, áður en hún fór að sofa.) En ég er nokkuð bjartsýn á árangurinn, bara. Það eina sem hún kvartar yfir er að hún segist ekki hafa nóg vinnsluminni. Svo ég er að spekúlera í að fjárfesta bara í einu svoleiðis og skipta um, eða bæta við, eða hvernig sem þetta virkar. Ætli það sé nokkuð svo hræðilega mikið mál? Jafnvel spurning um að gá hvað voru mörg "RÖM" í fartölvunni sem er dáin? Hún er jú alveg nokkrum árum yngri en sú gamla, í allefall.

Og þrátt fyrir þessar tilfæringar er Rannsóknarskip að hugsa um að fá sér Almennilega fartölvu. Með sæmilega stórum skjá og heilum haug af RÖMum. Verði hægt að laga þetta alltsaman, og bæta einu við, þá verða á heimilinu, að fermingartölvu Smábátsins meðtaldri, 3 PC lapptoppar, 1 turn... auk þess sem ég á náttúrulega Macbook sem ég skil aldrei við mig. Og hana þarf aldrei að laga. Og stýrikerfisuppfærslur kosta skít á priki. Og um leið og ég nenni að bæta fleiri gígabætum í hana, þá ætla ég að kenna henni að keyra Windows (eða að ég fer auðveldu leiðina og hætti í negravinnunni sem krefst þess að ég hafi aðgang að Windows, yfirhöfuð) og þar með hætti ég PC ruglinu alfarið.

30.8.11

Um heiminn

„Þetta er dagur til að brjóta upp rútínuna og forðast ábyrgð (slíkt pirrar þig).“ segir í stjörnuspánni minni í dag. Kannski var ekki góð hugmynd að ákveða að hleypa Rannsóknarskipi í golf seinnipartinn? Annars ætla ég að brjóta þvílíkt upp rútínuna og prófa að djúpsteikja skötusel í kvöldmatinn. Að japönskum Tempura-hætti. Gæti virkað...

Svo er ég að lesa flóknara efni en ég hef gert lengi. Það er alveg gaman. En gengur auðvitað brjálað hægt. Það vantar íslenskt orð yfir "challenge." Mér finnst hvorki áskorun eða ögrun ná því alveg; en það er þetta með að gera eitthvað sem er eiginlega erfiðara en maður getur. Ég held að mörgum mannskepnum finnist það spennandi. Að glíma við eitthvað sem er næstum ekki hægt. Komst að þessu þegar ég var að horfa á The Devil Wears Prada á leiðinni frá Japan. Og fór að pæla í þessu með New York. Þetta er að verða einhvers konar sammannlegur draumur hins vestræna heims. "If I can make it there I'll make it everywhere," söng Frank Sinatra og það er eins og þetta hafi orðið að möntru. Ef maður vill sigra heiminn fer maður til New York.

Þá er spurningin hversu mikið þessi söngur hans Sinatra hafði að segja í því að gera New York að þessum "challenging" stað. Er betra að búa þar en annarsstaðar? Ég hef aldrei komið þangað en skilst að þar sé skítkalt á vetrum, heitt eins og í helvíti á sumrum, allt of margt fólk og stórhættulegt sumsstaðar. En hvað veit ég? Samkvæmt því sem ég hef upplifað með eigin augum, í gegnum sjónvarpið, leysast allir glæpir þar meira og minna vandræðalaust og allir eru alltaf á kaffihúsum eða í "lunch" og eru fyndnir. Enginn vinnur nokkurn tíma í vinnunni og allir eru fyndnir þar líka. Já, svo eru eiginlega alltaf einhver rómantísk intríg.

Og hér í vestuheimskunni ku vera best að búa. Margt fólk frá fyrrverandi Austur-Evrópu og öðrum heimshlutum er til í að selja líkama og sál til að komast hingað. Svo lítur maður í kringum sig, horfir á stressið, skuldirnar, offituna og ofneysluna á öllum sviðum og hugsar:
„Í alvöru?“

Mig er farið að langa til að læra arabísku. Og prófa að búa í Mið-Austurlöndum. Eða Suður-Ameríku. Eða í Afríku. Eða einhversstaðar utan hins vel-auglýsta vesturheims. Einfaldlega til að athuga eitt: Er í raun og veru best að búa í vesturheimi, eða er þetta bara gott PR?

29.8.11

To nenn or not?

Fyrsti dagur í fræðagrúskinu var í dag. Var næstum búin að bræða úr heilanum. Kom heim með svima og hausverk og örugglega engan blóðþrýsting. Fór út að hlaupa. Stutt. Var samt næstum dáin. Lagði mig svo vel og vandlega. Samt ennþá með engan þrýsting og andarteppu.

Búin að skrá mig í fit-pilates og börnin í íþróttaskóla. Langar að missa 10 kíló í vetur og hætta alveg endanlega að vera feit. Mikilvægasta skrefið í þá átt er klárlega að hætta að vera alltaf étandi.
Hvað gerir maður í staðinn? Prjónar?

Negravinnan í kvöld.

Hvað er með statusíska bloggið?
Feisbúkk að kenna.

Óverendát.

23.8.11

Er Framsóknarflokkurinn fótboltalið?

Jæja, þá ýmist hrauna menn yfir Guðmund Steingrímsson, eða Framsóknarflokkinn, eða hvurttveggja. Þetta minnir mig mest á þegar fótboltalið í ensku selur einhver frægan. Þá byrjar þetta: „Isss, hann söööökkaði hvortsemer!“ frá þeim sem halda með liðinu, „Neeeei, liðið söööökkaði!“ frá þeim sem keyptu manninn og „Issss, þetta söööökkar alltsaman!“ frá þeim sem halda með einhverju allt öðru liði.

En þetta eru ekki þessir skylmingarþrælar nútímans sem við köllum fótboltamenn sem hér um ræðir. Heldur íslensk stjórnmál. Sem útskýrir líklega hvers vegna ég skil ekki ölduganginn. Aldrei almennilega fattað íslenska pólitík.

Maðurinn gekk úr einum flokk í annan sem honum þótti hann eiga meiri samleið með. Á tímum mikilla breytinga. Síðan breyttist ýmislegt í eftirmálum hrunsins, Framsóknarflokkurinn tók mjög einarða stefnu í ýmsum málum og Guðmundur og fleiri eru, þannig séð, landlausir í pólitík. Það er alveg satt. Umhverfisverndunar- og ESB-sinnar í mið- og hægrinu eiga í rauninni engan flokk. Samfylkingin nær þessu fólki ekki vegna þess að (þó Össur virðist hafa verið búinn að gleyma því í fréttunum áðan) þá var Samfylkingin tilraun til að sameina vinstriflokka. Og það er nú bara grundvallarmunur á því að vera vinstrisinnaður eða hægrisinnaður.

Mér finnst þetta skiljanlegt. Það er alveg eðlilegt að flokkar skilgreini sig upp á nýtt eftir að efnahagur landsins hefur hrunið. Og þó svo að margir reiðifíklar spani sig reglulega upp í „ekkert-hefur-breyst“-haminn, (aðallega vegna þess að spillingin er alveg eins og peningar eru ennþá bara til hjá þeim sem eru sumari en aðrir) þá er ýmislegt samt að taka miklum breytingum. Bara til dæmis það að núna tökum við eftir spillingunni, rífum dáldið kjaft yfir henni og étum ekki óhroðann úr elítunni algjörlega hráan eins og sushi, samanber það sem gekk og gerðist 2007. Það hefur breyst.

Það er líka ekki bara nýtt að stöku stjórnmálamaður fylgi sinni sannfæringu, mér finnst eiginlega nýtt að stjórnmálamenn hafi sannfæringu. Og það gleður mig.

Það er eins og það pirri menn að Guðmundur ætli kannski að stofna nýjan flokk. (Eða kæti þá sem halda að hann „taki fylgi frá“ hinum eða þessum... setjiði „skori marki hjá“ í staðinn og við erum aftur komin í fótboltann.) Ég er alls ekki að skilja hvers vegna. Þarna vantar klárlega flokk. Það er örugglega slatti af fólki á þessari skoðun. Og hvert hafa þessir fáu og risastóru, foringjahollu skrímslaflokkar komið okkur, svo sem?

Helst vildi ég fá að kjósa einstaklinga á þing. Bara eins og á Stjórnlagaþingið. Það næstbesta er að annarhver þingmaður stofni flokk fyrir næstu kosningar. Svo mætti Gnarrinn koma og jafnvel fleiri snillingar, hver með sinn Bestaflokk, þannig að gjörsamlega ómögulegt verði að stofna neinn meirihluta til að múlbinda nokkurn mann og þá þurfa menn loksins að fara að hugsa um hvað þjóðinni er fyrir bestu, þarna inni á þinginu, í stað þess að dingla bara aftan í einhverjum sækópatískum formanni sem er síðan kannski bara að hugsa um eigið raðskat.

Og þó þeir geri það allir, ja, 63 raðsköt hljóta að eiga sameiginlega hagsmuni með fleiri þegnum þjóðarinnar en fjögur.

Jamm og já.
Áfram Höttur!

22.8.11

NEI!

Það var ekki auðvelt að læra að segja nei. Næsta skref er að segja nei við sjálfa mig. Núna vill leiðbeinandinn minn að ég fari að skrifa ritgerð. Kennslustyrkurinn sem ég var að fá er ekki háður því að ég kenni nógu mikið (eins og ég hélt) heldur því að ég kenni nógu LÍTIÐ og skrifi nógu MIKIÐ.

Svo, ókídók.

Þá er komið að því að fórna rækilega. Ég ætla (líklega, nema ég missi mig á síðustu stundu) að skrópa á leiklistarhátíðina Lókal. Skráði mig líka úr einstaklega spennandi kúrsi í Gamanleikjum hjá Terry Gunnell. Sem var hræðilega erfitt, rannsóknin mín er bara að fara í allt aðrar áttir og ég get líklega ekkert notað það sem er í honum. Og svo er það bara að djöflast í skriftir og lestur og meiri skriftir. Og mögulega einhver viðtöl. Og allskonar.

Svo þarf ég að fara að hunskast út að hlaupa. Það gerist ekkert nema maður hreyfi sig. Helst mikið. Allavega nóg.

Og svo er alveg nauðsynlegt að éta passlega og sofa nóg. Hvíla sig rækilega og halda hvíldardaginn alveg snarheilagan.

Ókei?

Ókei.

12.8.11

Dagur 6 og 7. Vélmenni, Karókí og Kyoto.

Jó!

Síðasti ráðstefnudagurinn rann upp. Ég fór á eintómar skrítnar málstofur. Fyrst um gríðarlega furðulegar ofur-nútímaóperur, svo á leiklistarsögumálstofu (þar sem hinn íslenski fyrirlesturinn var, Magnús Þór Þorbergsson að tala um fyrstu Shakespeare-uppfærslurnar á Íslandi) og síðan málstofu um vélmennaleikhús sem ég fór síðan að sjá. Android/robot. Þar sem vélmenni lék annað hlutverkið. Sem sagt, geminoid sem var eiginlega alveg eins og maður. Eða, þ.e.a.s., kona. Svoooo margir Buffy-þættir, og kvikmyndir svifu fyrir hugskotsjónum. Ekki síst Bladerunner, sem er að hluta til tekin í Osaka. (Þannig að maður hefði nú haldið að menn ættu að vita betur þar en að vera að þróa vélfólk?) Allavega, bráðum þarf semsagt ekki lengur leikara eða leikstjóra, bara góðan forritara. ;D Þetta var talsvert krípí.

Um kvöldið var síðan kveðjuveislan. Hún var haldin í svona "gestastofu" þar sem heimssýningin nítjánhundruðsjötíu og eitthvað var haldin. Ofboðslega flott og klassí, endalaust mikið af mat og drykk og flínkir sushigerðarmeistarar bjuggu til sushi á staðnum. Það var flott. Endaði á flugeldasýningu þar sem allir voru boðnir velkomnir til Santiago í Chile að ári. Jámjám.

En þetta partí var ekki nema svona 2 tímar og þegar við komum aftur í bæinn um tíuleytið var haldið í mikilvægt verkefni. Japan er upprunaland karókísins. Ferð á slíkan stað er klárlega ekki ómikilvægari en að sjá Noh-leikhús. Viðleitnin bar árangur, 8 manns skunduðu saman inn á karókístað. Þar fær hver hópur sér (og vel hljóðeingangrað) herbergi með allskonar græjum og lista yfir öll lög sem maður hefur heyrt um. Svo er svona dyrasími, og í hann talar maður til að panta bjór. (Sem var oft gert.) Við ætluðum að vera þarna í 2 tíma... þeir urðu fjórir, og gríðarleg tilþrif voru sýnd. Í einsöng sem samsöng. Þetta var bara með því minna leiðinlegu sem fyrir mig hefur komið. Er enda búin að vera með Big in Japan með Alphaville á heilanum síðan. Og samlandi minn kom út úr skápnum sem Elvis Presley og Kananum í hópnum þótti sýnt að ég ætti að leggja fyrir mig kántrísöng... sem ég veit nú ekki alveg um. Allavega, Complete Vocal tæknin var alveg að gera sig. (Ég vissi að hún myndi koma sér vel, einhverntíma.)

Eins og skiljanlegt er þá var heilsan kannski ekki alveg eins og best verður á kosið morguninn eftir. Og það var HEITT. Það var reyndar heitt allan tímann, en þennan morgun var HEEIITTTT. Að afloknum lokaumræðum og smá kynningu á næstu ráðstefnu tókum við nokkur þá einstaklega heimskulegu ákvörðun að fá okkur indverskan í hádeginu. Það var einstaklega heimskulegt og bætti ekki á líðanina neitt sérstaklega.

En það var enginn tími til að velta sér upp úr því vegna þess að næst á dagskrá var hálfs dags skoðunarferð um Kyoto. Hálfur dagur þar sýnir manni svo sem ekki mikið. En við náðum að fara á í tvö svona... musteri eða tilbeiðslustaði eða þannig og borða svo á fínum veitingastað. Maður þyrfti líklega viku í Kyoto. Ég er búin að pakka niður öllum upplýsingunum mínum, þannig að ég held ég verði bara að skrifa nánari úttekt, með myndum og svona, þegar ég kem heim.

Núna ætti ég eiginlega að leggja mig smá. Eftir 2 tíma þarf ég að tékka mig út af hótelinu. Síðan þarf ég að drepa einhverja 7 tíma áður en kemur tími til að fara á flugvöllinn. Ég hef hugsað mér að finna einhverja vandlega loftkælda verslunarmiðstöð og athuga hvort ég get ekki komið einhverjum fjármunum í lóg. Öllum finnst allt dýrt í Japan... nema Íslendingum og Norðmönnum. Í gær fann ég júkötur (svona japanskir sloppar) á rándýrum ferðamannaprís... sem er svona 7000 kall. Það fannst mér nú ekki mikið. Svo ég er að spá í að finna svoleiðis í venjulegri búð.

Jæja.
Sof.

10.8.11

Dagur 5. Japanski dagurinn

Í gær var japanskasti dagurinn minn til þessa. Hann byrjaði á því að ég þorði í fyrsta sinn að smakka japanskan morgunmat á hótelinu. Það er reiktur fiskur í honum og svo setur maður hrátt egg og sojasósu út á hrísgrjónin sín og svona. Það var fantagott. ("Western style" morgunverðurinn er ekki alveg að gera sig. Enda Japanir engin brauðþjóð. Hef heldur ekki séð neinn feitan... það er að segja af innfæddum.)

Síðan var meira ráðstefn. Aðalfyrirlestrar um morgununn voru báðir alveg fantaæðislegir. Fyrst talaði Petra Kuppers, hún er áhugaleikari og er í hjólastól. Þýsk, starfar við háskólann í Michigan. Hún rannsakar, og talaði um, áhugaleikhús og leikhús fatlaðra, sýndi okkur myndir af æðislegum sýningum, og ég talaði við hana og sagði henni frá Halanum, seinna. Svo talaði Paul Rae sem starfar við háskólann í Singapúr um eyjamenningu og heimsmenningu og var alveg ferlega áhugaverður líka.

Svo var new scholars panell, þar fór ég að sjá Gender negotiations, eða kynjafræðistöff, meðal annars fyrirlesturinn hjá Bestaflokksaðdáanda, (fyrir) sem ég rakst á hérna. Mjög merkilegt. Í hádeginu var síðan hádegisverðarboð fyrir new scholars. Það er fyrir alla sem ekki hafa lokið doktorsnámi og þar er líka stjórn samtakanna og svona. Góóóóður matur þar. Síðan fór ég í eitt seminar um pólitík. Þar töluðu eintómir gamlir refir og það var nú stuð. Þeir vita fullt.

Í seinna kaffinu hélt ég áfram með japanska þemað, fór á tedrykkjuserimóníu. Bætti um betur með því að hætta á að pissa í japanskt klósett í sömu pásu. Það var... áhugavert.

Síðasta málstofa dagsins var fjölþjóðlegur panell um femínisma. Fyrirlestrar frá Bandaríkjunum, Japan, Indlandi og Bretlandi. Og líflegar umræður á eftir. Af því að umræðan fór eitthvað þangað þá tjáði ég mig aðeins um karlahóp femínistafélagsins á Íslandi. (Eftir nokkur heiladauð innlegg um hvort femínismi/kvenréttindabarátta sé eitthvað fyrir karlmenn.) En þetta var mjög gaman.

Um kvöldið var Noh-leikhús. Sem mér fannst skemmtilegt, aftur, en átti mér fá skoðanasystkin, aftur. Óvenju fjölmenn bjórdrykkja eftir heimkomu á óvenjufjölmennum bar. En Japanir eru sniðugir, loka börunum sínum og henda manni út um ellefuleytið, þannig að við erum alltaf komin heim á skikkanlegum tíma.

Jæja.
Síðasti ráðstefnudagurinn!

Dagur 4. Rokkstjarn!

Í gær byrjaði ráðstefnan. Á morgnana er alltaf einn svona "allsherjarfyrirlestur" sem allir mæta á, og þennan morgun voru líka allar velkomnuræðurnar. Fráfarandi formaður samtakanna, Brian Singleton, talaði sem og skipuleggjandi alls dæmisins hér í Japan Yasushi Nagata. Svo var Mori Mitsuya með fyrirlestur. Ég verð að viðurkenna að ég hlustaði ekki reglulega vel á hann, enda var fyrirlesturinn minn í málstofu sem byrjaði strax á eftir. Semsagt, klukkan 11 hófust málstofur (sem eru þrjár á dag, 1 og hálfur tími hver) og ég var með fyrirlestur í einni þarna strax ásamt tveimur Eistum. (Haha, var bara að fatta núna að það er fyndið.)

Allavega, það var alveg sæmileg mæting, (ekkert rokkstjörnu, en samt) og okkur Gnarrinum tókst alveg sæmilega upp. Allavega er alveg fullt af fólki búið að þurfa ferlega mikið að tala við mig um fyrirbærið og svona. Annars erum við, nokkur, búin að tala heilmikið um hvað jafngildir rokkstjörnu í akademísku samhengi, og erum komin með þvílíkan metnað, eitthvað. Eftir að þessu var svona yndislega afl0kið fórum við og fundum japanskan hádegisverð í einhverju mötuneyti og svo var njarðað frekar. Eftir hádegishlé var það sem kallað er "new scholars forum". Málstofur þar sem fólk í doktorsnámi er og fær aðeins að tala í tíu mínútur, í stað þeirra tuttugu sem við fáum við "stórukrakkaborðið". (Ég hefði getað verið í því, en nennti ekki til Japan fyrir 10 mínútur.) Ég fann náttúrulega eitthvað pólitískt, þar sem var m.a. mögnuð úttekt á byltingunni í Egyptalandi.

Í síðustu málstofu dagsins fór ég síðan á fyrstu málstofu sem tengist vinnuhópi sem félagar mínir voru að stofna um leikhús og trúarbrögð. Ferlega gaman, einn fyrirlestur um bandaríska gyðinga, annar frá Íran og sá þriðji frá Nígeríu. Hroðalega skemmtilegar umræður og þegar ég kom út var ég í smá stund að rifja upp hvar ég var.

Þá var trillað beint út í rútu, og brunað í opnunarboð ráðstefnunnar. Hún var í áhugaleikhúsi útúr bænum. í Nose Ningyo Joruri Theatre hvar etið var frá sér sem mest vit, síðan fengum við stutta brúðuleiksýningu. Í ætti við Bunraku. Nema amatör. Það sást alveg. Hins vegar fengum við að fikta í brúðunum í þessu leikhúsi. Það var sko gaman!

Svo var bjórsession. Þar fréttum við Kim frá Danmörku að við hefðum verið með BESTU abströktin þegar við sóttum um fjármögnun frá hátíðinni til ferðarinnar og það hefði aldrei verið nein spurning um að við fengjum að koma. Fyrir því var hæfævað dáldið. (Og rokkstjarnað.)

Besta uppgötvun dagsins var samt sú að á föstudaginn er ekki laugardagur. Sem þýðir að ég kemst í skoðunarferð til Kyoto, sem ég hefði ekki komist í ef allt hefði verið eins og ég hélt. Svo í miða í hana var fjárfest.

Það var heitt þegar við komum og síðan hefur bara hitnað og hitnað. Vill til að ráðstefnuskólinn er prýðilega loftkældur. (Jafnvel einum of, á stundum. Já, ég á von á kvefi á hverri stundu.) Og tímamismunurinn virkar þannig á mig að ég vakna á hverjum morgni um hálfsex. Svo það er best að halla sér.

Dagurinn í dag kemur á morgun.
Meikar sens?

8.8.11

Dagar 2 og 3. Allskonar furðuleikhús

Dagur 2 byrjaði alveg nógu snemma. Eins og komið hefur fram. En samt nógu seint til þess að ég missti af helminnum af vinnuhópnum mínum. Aðallega vegna þess að það fækkaði í honum úr 17 fyrirlestrum í 6 vegna Fukushima-noju. (Sem er nú heldur en ekki asnalegt vegna þess að við erum svo langt í burtu að jarðskjálftinn fannst ekki einu sinni hér, hvað þá geislunin.) Hvað um það, ég náði 3 af 6 fyrirlestrum þar og síðan var haldið á Buraku-sýningu. Það er fyndið brúðuleikhús með sögumanni, sem syngur söguna eiginlega. og undirleik á shamishen. Sem er hljóðfæri sem hljómar falskt en er það ekki. Í stuttu máli frömdu ástföngnu hjónin morð og harakiri í lokin og allir ánægðir. Alveg ferlega gaman að sjá. Hér er nörd um Bunraku.

Í dag, dag 3, var ég í "fríi" vegna þessarar fækkunar í vinnuhóp, en notaði það gríðarlega vel. Fann allavega einn banka hvar ég get tekið út pening. Það tók mikið pappísrflóð og ég fæ ekki að taka út mikið á sólarhring. Svo mál morgundagsins verður að finna hraðbanka sem er til í kortin mín eða annan svona stórbanka nálægt háskólasvæðinu. Sem er alveg trikkí vegna þess að nú gerist prógrammið strengra með hverjum degi.

Allavega, aftur að deginum í dag. Mætti um 11.30 upp í háskóla til að fara í leikhús. Hljómaði spennandi. Leikhús sem ævinlega er alfarið kvenkastað og sé maður of hávær um ágæti þessa leikhúss (ef maður sé fullorðin kona) ku kona fá á sig lesbíustimpil. Spennandi?
Tjah... hefði maður haldið.
Vitiði hvað? Það er hægt að setja 100 konur á svið... í öllum fötunum og án nokkurs klámívafs, og sneiða samt alfarið hjá öllu görlpáveri og vera með tjúllaða karlrembu í gangi. Þetta er sumsé japanskt glimmerleikhús, alveg brjálað vinsælt... Og allar stúlkurnar sem eitthvað kveður að í melódramatískum (og VONDUM) söngleikjunum eru í karlmannsgervi. Til að bæta gráu ofan á svart eru leikkonurnar, allar hundrað, ÆÐISLEGAR. En mig langar mest að leita uppi alla listræna stjórnendur sem og leikhússtjórnendur og eigendur og berja þá fast með skóflu. Sérstaklega tónlistarhöfund og þann sem ákvað að sinfóníuhljómsveitinn undir sviðinu ætti að hljóma eins og lyftutónlist... eða nei, frekar þennan sem ákvað að leikritið ætti að vera þetta ömurlega sem frændans samdi... eða kannski búningahönnuðinn sem bar ábyrgð á öllu geðveika glimmerinu... Úr vöndu að ráða.

Fyrirbærið heitir Takarazuka. Hér er tíser úr heimildamynd um fyrirbærið.

Um kvöldið varð aftur ponkulítið gaman. Artfart með kóreisku sviðslistakonunni Kim Manri sem fékk lömunarveiki þegar hún var lítil, varð mjög hreyfihömluð og hefur gerð sér hreyfilistform úr því. Sýningin hér Uri Omoni eða „Mamma mín.“ Hún var nokkuð hæg og ég verð að viðurkenna að ég pávernappaði aðeins inn á milli, en þetta var flott og gaman að heyra Lambið hinsta (öðru nafni Last Rose of Summer) í lokin.

Eftir sýninguna fundum við litháenska stelpu og leituðum svo uppi veitingastað þar sem við átum japanskt og drukkum bjór til miðnættis. Sem er orðin einskonar hefð...

6.8.11

Dagur 1. Flugþreyta dauðans?

Ég hef ekki hugmynd um hvað ég vakti lengi í gær/fyrradag. Ferðin Reykjavík-Helsinki-Istanbul-Osaka gekk að óskum. Svona fyrir utan það að þegar hingað var komið tókst okkur að fara öfugu megin út úr neðanjarðarlestarstöðinni og villast í klukkutíma. Ja, eins og menn gera... Ég var að ferðast með tveimur vinum mínum og írönsk kona sem við þekkjum fann okkur að lokum og gat lóðsað okkur á hótelið. Þá var búið að loka öllum veitingastöðum (í Japan ku það gerast um áttaleytið) svo við fengum okkur bara eitthvað mjög „dodgy“ japanskt á brautarstöðinni áður en við fórum á hótelið og í gríðarlega langþráða sturtu. Við létum þó ekki deigan síga alveg strax, fórum aftur út og tókst með harðfylgi að finna japanskan bar í nágrenninu þar sem við fengum okkur smá bjór og sake og spjall fyrir mjög langþráðan svefn.

Að ég hélt.

Ég hunskaði mér nú ekki í bælið fyrr en klukkan eitthvað hálftvö að staðartíma og bjóst við að sofa eins og grjót, að minnsta kosti til morguns. En, nei. Mín vaknaði klukkan hálfsex. Alveg glað. Enda sé ég núna (þegar ég gefst endanlega upp og sest við tölvuna klukkan hálf átta) að klukkan er hálfellefu að kvöldi á Íslandi. Líklega er sú klukka bara enn í gangi.

Japanska hótelherbergið er ógurlega lítið og sætt. Klósettið er gríðarlega tæknilegt, með allskonar tökkum. Og svo er voða mikið af allskonar dóti hérna. Meira að segja tæki og tól til teframleiðslu.

Ég ætla að hitta fólkið mitt núna klukkan 9 í morgunmat og síðan ætlum við að reyna að finna út úr hvernig við komumst í háskólann þar sem ráðstefnan er. (Ákváðum að við myndum ekki einu sinni reyna að ná "skutlunni" sem færi þangað klukkan 8. Yrðum örugglega ekki vöknuð. Hahaha) Þar reikna ég með að við nálgumst ráðstefnugögnin okkar og ég ætla að sitja eitthvað á fundum með vinnuhópi um pólitískar sýningar.

Annars verður verkefni dagsins að finna millistykki sem lætur evrópskar rafmagnsklær passa í japanskar innstungur, sem eru eins og bandarískar.

Svo er leiksýning í kvöld. Sem við förum á beint frá skólanum. Ég held ég nenni ekki að dröslast með hálfbatteríislausa tölvuna í dag þannig að ég verð ekkert aftur í "sambandi" fyrr en einhvern tíma seint í kvöld... sem er líklega bara á morgun, að íslenskum tíma.

Gsm síminn minn virkar ekki hérna, en ég leigði mér annan, og við öll hérna, svo við gætum verið í sambandi ef við týnumst. Sem er alveg líklegt.

Jæja, japanskt bað!

3.8.11

Japan: Bráðum!

Þetta var sumarfrí. Það var afar óbloggsamt. En þýðingarmikið. (Þ.e.a.s. með miklu af þýðingum.) Nú er ég komin frá Austlandinu og á leiðinni talsvert lengra austureftir á föstudaginn. Asnalega mikið að gera þegar maður er svona einn og yfirgefinn heima hjá sér. Fullt af undirbúningi og stressi við að reyna nú að gleyma engu heima, svo finnur maður ekkert, eins og tildæmis hlaðarann að æpottinum, og hvernig á maður svo sem að vita hvað manni á eftir að detta í hug að nota í einhverju fáránlegu landi þar sem maður skilur ekki einu sinni skiltin?

Þar ku vera viðbjóðslega heitt og rakt úti, en svo er klikkuð loftkæling innandyr þannig að líklega er kvef alveg fyrirsjáanlegt. Hinir sem ég er í samskiptum við og eru að fara á þessa ráðstefnu sitja með sveittan skallan við að stytta fyrirlestrana sína en minn er líklega ekkert of langur. (Bara vondur... segir samviskubitið yfir að hafa ekki verið í allt sumar að skrifa hann og ferðastressið.)

Er búin að setja eitthvað af fötum ofan í tösku, er að reyna að skilja pláss eftir fyrir verslunaræði á fjórum flugvöllum og mögulega líka í verslunum Osaka sjálfum. Þyrfti að gera órstjórnlega margt. Er ekki að nenna neinu. Gæti sofið endalaust. Sófakartaflast samt út í hið óendanlega. Í staðinn fyrir að taka reglulega vel til, eins og ég lofaði.

Allt þarf að gerast á morgun.
Andvarp.

Ætla að vera dugleg að skrifa hér allt skemmtilegt sem gerist í Japan.

23.6.11

Sumarleysa?

Ég fylgist þessa dagana með hitatölum af Austurlandi með umtalsverðum hryllingi. Ef þetta snýst ekki þegar hundadagar byrja erum við að tala um 1993 all over again. Og það var nú ljóta skítasumarið. Og hví skyldi mér ekki vera sama, búandi suðvestanmegin í blíðunni? Jú, eini tíminn þar sem ég hef hugsað mér eitthvað til útivistar í sumar verður austanmegin á landinu, ca. seinnipartinn í júlí. Fúlt ef það verður bara slydda...

Annars er ég að reyna að finna vinnugírinn. Gengur samt ekkert sérstaklega. Það er allt að trufla mig. Til dæmis ætla ég til tannlæknis í dag, mér til skemmtunar og yndisauka, og ætla með litlu ormana í klippingu á morgun. Stóri ormurinn er í Danmörku síðan í gær og verður í viku. Rannsóknarskip spilar golfmót og fer á tónleika í dag, svo Móðurskip þarf að standa sig. Í gær var rúmlegur dagur. Vegna hjartsláttarrugls. Sosum viðbúið að svoleiðis tæki sig upp í kjölfar skólastressins.

Og nú: Anna í Grænuhlíð!

21.6.11

Ferðabrjál

Jæjah. Mjög hressandi viku útúr samhengi lokið. 10 dagar af einkahúmorskum félagsskap, námi og kjaftæði eru alveg skemmtilegir. En þá er að finna aftur þennan daglega riþma sem kemur hlutunum í verk. Hann er nú aldeilis ekki sjálfgefinn. Sérstaklega ekki þegar hann stendur ekki yfir nema í 2 vikur, og þá verður þrusað í sumarbústað í burtinu. Og fyrir þann tíma þarf bara allur fj... að gerast.

Annars er allt að gerast. Talaði við flórídanskan mann áður en ég fór sem er að safna í bók um íslenskt leikhús í nútímanum. Ef hann skrifar það sem ég vill get ég vonandi notað bókina hans eitthvað, komi hún út á næstu 1 - 2 árum. Næst á dagskrá er að hella sér í þýðingar og byrja á fyrirlestrinum fyrir ráðstefnuna í Japan. Önnur ráðstefna í London í september hefur líka verið staðfest og þá ætlar Rannsóknarskip með mér og úr því ætlum við að gera öldungis leikhúsfyllerí. Aukinheldur var áðurnefndur eiginmaður að fá styrk í Kómeníusarverkefni þannig að hann fer tvisvar til Tyrklands og einu sinni til Rúmeníu (eða öfugt) á næstu 2 árum. Þar að auki er skólinn hans að plana skólaheimsókn í byrjun júní að ári. Þá ætla ég með, ef ég mögulega hef efni á, og stunda almennan gleðskap á meðan þau skólaheimsækja. ferðaplan mitt næstu mánaða lítur þá svona út (alveg fyrir utan ferðir Rannsóknarskips eins síns liðs):

Júlí - Þurranes í Dölum (og mögulega smá Patró) - Eyjafjörður - Egilsstaðir (og smá Borgarfjörður E og örugglega víðar)
Ágúst - Osaka
September - London
Október - Færeyjar

Og svo verður alveg kyrrt um hríð, fyrir utan árlegt jólaflakk, þangað til:

Júní, Montpellier. Og svo líklega mögulega Skólinn sem ég var að koma af.

Og vitiði hvað? Mér finnst ekki einu sinni sérlega skemmtilegt að ferðast!
Geðbilun.

7.6.11

Varúð! Femínismi!

Vinur minn sem ég umgekkst mikið á árum áður hafði afar leiðinlegan, og dónalegan, ávana. Ef hann hafði ekki áhuga á umræðuefninu þá átti hann til að segja: „Jájá. Getum við talað um eitthvað annað?“ Þetta varð alltaf hálfgerður samtalsstoppari. Afar dónalegt gagnvart þeim sem höfðu sýnt á ófyrirsynju að leyfa umræðum að fara í einhverja þá átt sem téðum vini mínum var ekki að skapi. En aldrei minnist ég þess að við höfum sett ofan í hann vegna þessa.

Eftir á að hyggja sagði þessi maður aldrei neitt þessu líkt nema í hópi kvenna. Ég minnist þess aldrei að hafa heyrt hann setja svona ofan í við neinn af karlkyns vinum okkar. Og kannski er stærsta spurningin hvers vegna við þoldum þetta. Hvers vegna við bentum honum aldrei á að þetta væri ókurteisi.

Og það var ekki eins og þessi maður talaði alltaf og ævinlega eingöngu um hluti sem ég hefði áhuga á. Óneinei. En maður hlustar samt. Það er bara kurteisi. Ef manni leiðist ógurlega ef yfirleitt lítið mál að leiða talið að öðru, án þess að vera dónalegur.

Mér datt þetta í hug áðan þegar ég var eitthvað að tjá mig á fésbók vinkonu minnar, þvældist reyndar aðeins frá umræðuefninu, og annar fésbókarvinur minn þótti maklegt og réttvíst að benda mér á að ég væri komin í „húsmóðurgírinn.“ Ó! MÆ! GOD! Hvílík hneisa!

„Nei, nú ertu farin að tala um pólitík.“ Fær maður það einhverntíma? Nei. Maður virðist aðeins vera á villgötum í umræðunni þá og því aðeins að umræðan snúist um eitthvað sem almennt hefur á sér kvenna-stimpilinn.

Gífurmargir fésbókarvinir mínir karlkyns tjá sig af miklum móð um börnin sín og heimilishaldið. Sumir reyndar um fátt annað. Við eigin statusa og annarra innlegg. Ég held að það sé rétt hjá mér að ENGUM manni myndi nokkurn tíma detta í hug að benda þeim á villu síns vegar, og bregða þeim um að vera komnir í „húsmóðurgírinn.“

Það er svo merkilegt að þó jafnrétti sé að mörgu leyti næstum náð er eins og að í almennu samtali virðist mörgum minni þörf á að sýna konum þá kurteisi og virðingu sem þeir sýna karlmönnum, alveg umhugsunarlaust.

Vér konur berum líka alveg okkar ábyrgð í þessu máli. Ef við hefðum einhvern tíma rætt þetta við vin okkar, í gamla daga, er ég nokkuð viss um að það hefði ekki þurft að gera það nema einu sinni. Þar sem við gerðum það ekki er ekkert víst að hann sé enn búinn að átta sig á þessu. Kannski ekkert endilega stórt skref fyrir mannkynið, eða neitt, en það flísast alveg slatti útúr sjálfsálitinu ef maður fær, svona jafnt og þétt yfir ævina, alltaf nokkrum míkrógrömmum minni virðingu af þeirri ástæðu að maður var svo óforsjáll að fæðast með píku en ekki typpi.

Femínismi: Sú byltingarkennda hugmynd að konur séu fólk...

26.5.11

Sjeik og Sveikspír

Það er eins og mig minni að einhverntíma hafi ég haldið að um þetta leyti yrði nú orðið aldeilis öldungis pollrólegt hjá mér og ekkkkkkkert að gera. En svoleiðis er það nú víst aldrei, á Íslandi. Einhverntíma ætla ég að fá mér „fræðimannsíbúð“ í Montpellier, vera það heilllllengi og gera nákvæmlega (næstum) ehhhhkkkkkert. Mögulega skrifa smá á morgnana og slæpast síðan seinnipartinn af innnnlifun.

En þannig stendur nú hnífurinn í kýrrassgatinu núna að um helgina verður margboðuð einþáttungadagskrá hjá Hugleiknum, sem að þessu sinni er með þema. Gengur fyrirbærið undir nafninu Gamli, góði Villi, og verður held ég bara með því betra sem hefur verið á boðstólnum Lagt verður út af Skakspjótinu og verkum hans á 9 mjög mismunandi vegu, eftir því sem mér hefur heyrst, og kunnugir segja að þar reki hvur snilldin aðra. (Allavega reka snilldirnar tvær sem ég leikstýri hvor aðra alveg út í horn...) Sýningar á herlegheitunum verða í Hugleikhúsinu á Eyjarslóðinni klukkan 16.00 á sunnudag og klukkan 20.00 á mánudag. Afar takmarkað sætaframboð svo mönnum er ráðlagt að panta.

Og hví þessi undarlegi sýningartími á sunnudag, spyrja kannski einhverjir? Þá er komið að hinu. Þannig er að titilinn Athyglisverðustu áhugaleiksýningu ársins, af hálfu Þjóðleikhússins hlaut Freyvangsleikhúsið og mun á sunnudagskvöldið sýni hina margrómuðu sýningu Góði dátinn Svejk á stóra sviði Þjollans. Það ku vera að verða uppselt.

Í gær fór ég ekki fet. Svaf til 10 og var síðan alein heima hjá mér. Fór út að haupa og sinnti talsverðu af heimilisstörfum, og lagði mig offfft. Er ekkert mikið betur haldin af alheimslangþreytunni í dag. Þarf að fara að komast í einhvers konar frí... en það virðist nú alltaf eitthvað koma í veg fyrir svoleiðis lúxusheit.

Var til dæmis að átta mig á því að það er rúmur hálfur mánuður í brjálaða leikstjórnarnámskeiðið á Bandalagsskólanum! Hvernig stendur á því að þetta gerist alltaf? Og í millitíðinni á eitt og annað að gerast. Svona samkvæmt öllum áætlunum.

16.5.11

Mamma mín er morgunsvæf kona. Eða var það allavega þegar hún var yngri. Þess vegna vandi hún okkur á að vaka aðeins frameftir og vakna þegar okkur sýndist. (Sem var nú samt alltaf einhverntíma fyrir hádegi.) Þegar hún fór að vinna gerði hún það eftir hádegi, þannig að leikskólatíminn okkar hófst aldrei fyrr en klukkan 13.00. Þegar ég var lítil var heldur ekkert bull um einsetna skóla. 6 - 9 ára var maður bara í skólanum eftir hádegi.

Þetta varð til þess að ég var orðin 10 ára þegar ég þurfti fyrst að fara að vakna á ókristinlegum tíma á morgnana. Þá fékk ég vekjaraklukku. Ég og pabbi og Hugga vöknuðum um miðja nótt, borðuðum morgunmat og fórum í vinnu og skóla. Yfirleitt án þess að nokkur segði orð. Mamma og litlu krakkarnir sváfu lengur. Þetta var fínt.

Mér varð svona hugsa til þessara dásemdartíma í morgun þegar við þurftum að rífa öll börnin upp á afturendunum fyrir 8. Öll dragúldin eftir júróvísjónruglið, og demba þeim í skólana sína, hvort sem þeim líkaði betur eða ver. (Þeim yngsta líkaði það sérstaklega ver. Hann þarf svo að fara að komast í sumarfrí og geta verið heima hjá sér og hagað hlutunum eins og hann vill.)

Erum við kannski bara í ruglinu með þetta? Mig langar allavega í svona tveggja ára leyfi. Dingla mér ógurlega. Sofa eins og ég þarf. Og hanga.

Ég hef annars enduruppgötvað sjálfa mig sem morgunhana. Ég held það hafi gerst í Frakklandi. Þar fór ég að vakna klukkan 7. Fara í göngutúr og fá mér baneitrað franskt expressó einhversstaðar og fara svo heim og skrifa ritgerð, læra og eitthvað. Svona fram til 10 eða 11. Einhvern tíma að deginum var tekin rækileg síesta og heilmikill tími fór í að hanga með vinum sínum. Tekið skal fram að síðan ég bjó í Frakklandi hef ég verið laus við heilmikið af stresskvillum sem ég var haldin áður en ég fór þangað.

En ég er samt farin að finna fyrir þessu aftur. Ef allt gerist ekki á RÉTTUM TÍMA þá FERST HEIMURINN!

Þegar ég er á Egilsstöðum er allt rólegra. Þá erum við líka vitaskuld alltaf í fríi. Enginn þarf að fara á leikskólann. Þar er líka alltaf ein amma til tax svo verkin dreifast meira. Og svo er svo stutt í allt. Yfirleitt er bílnum lagt þegar við komum austur og hann ekki snertur nema þegar þarf að fara út í sveit eða niður á firði.

Og af hverju þessar vangaveltur?

Ég er alltaf eins og kýrnar á vorin. Þarf að komast út. Þegar vorhori sleppir (sem kemur ævinlega um viku eftir að hlýnar, sérstaklega ef það gerist snögglega) þá fer mig að langa óstjórnlega mikið úr samhengi. Út á land, til útlanda... það er mjög heppilegt að ég er alla jafna í skólakerfinu þannig að lífið skiptir alltaf um gír á þessum tíma. Yfirleitt er nú samt einhver bið á að maður sleppi úr samhenginu. Spurning um að fara að skipuleggja utanlands eða út á lands ferðir seinnipartinn í maí?
Svo fæ ég líka gjarnan tónlistaræði. Fæ nokkur lög á heilann sem ég verð að kenna sjálfri mér að syngja og spila.

En nú er víst ekkert rugl í boði. Bilað að gera á öllum sviðum lífsins, framvinduskýrsla að fæðast, þarf að fara til leiðbeinanda, svo ég fái námslán, fyrirlestur á hádegisfundi hinn daginn, sjúkrapróf á leiðinni til yfirferðar, og einhverjar ritgerðir.... og þá taka sumarverkefnin við. Lokahönd á textann í bókina um hana Soffíu mús og svo þýðing... og lestur 11 leikrita fyrir leikstjórnarnámskeið.

Sko! Það er nákvæmilega þetta sem ég meina! Svona hagaði ég mér aldrei í Frakklandi!
Þarf, geðheilsunnar vegna, að fara að tímasetja útflutning.

6.5.11

Artífartbörnin

Smábátur syngur og dansar í Hörpunni á barnamenningarhátíð þann 15. maí, næstkomandi. Það er daginn eftir Júróvísjón. Þá verður flutt þar einhvers konar bræðingur úr söngleiknum Hárlakki sem framinn var í Hagaskóla fyrr í vor, við ógurlegan fögnuð. Hann er einnig að bíða eftir að fá að heyra hvort hann mun leika í kvikmynd í sumar. Nokkuð stórt, skilst mér.

Sá elsti er sumsé bara búinn að meikaða. Þarf ekki að orðlengja það. (Enda urðum við dáldið stolt þegar við komum einhverju sinni á sýningu í Vesturbæjarskóla, þegar hann var þar, þá um 10 ára eða svo, og sáum að hann hafði skrifað einhversstaðar að hann ætlaði að verða Hugleikari þegar hann yrði stór. Stolt stund. Enda lék hann sinn fyrsta einleik hjá því leikfélagi skömmu síðar.)

Þau yngri hafa líka verið að sýna efnilega takta í einhvers konar listhneigð.

Við Freigátan vorum að ræða um sumarið. Hún sagði: „Þá ætla ég bara að láta mig dreyma gula liti því sumarið er allt í gulu. Núna dreymir mig bara hvítt því það er vindurinn.“
Eh... ókei. Efnileg í artífartinu.

Bróðir hennar, Hraðbátturinn, átti líka merkilega innsetningu um daginn. Systir hans var að horfa á einhverja Barbímynd, sem hann hafði nú takmarkaðan áhuga á, svo hann kom fram þar sem ég var að vesenast. Þar setti hann tóma óhreinatauskörfu á hvolf. Ofan á hana setti hann lítinn Ikea stólkoll. Þar ofan á setti hann lokið af óhreinatauskútnum. Þar ofan á raðaði hann ýmsu smálegu, m.a. naglaklippum og tannstönglum. Svo fór hann á bak við þetta alltsaman og sagði, með bjagaðri röddu: „Einu sinni var kall. Hann var inni í húsinu sínu og borðaði svo mikið að hann varð allt of stór.“ Svo kom hann fram fyrir og sagði (með eðlilegri rödd) „Þetta var leikrit.“

Ef fólki finnst við hjónin artífarta yfir okkur? Bíðiði bara!
Yngri börnin okkar eiga eftir að verða einhverjir algjörlega óskiljanlegir skúlptúra-hljóðmyndar-innsetningalistamenn!

5.5.11

Vor

Takmörk dagsins eru tvenn.
Að reyna að nenna að fara yfir eins mörg próf og ég mögulega get... (Af 100 mögulegum) Og reyna að éta ekki of mikið.
Já, og drekka ekki kaffi. En ógeðslega mikið vatn. Einhversstaðar í bakhöfðinu langar mig að taka smá ávaxtakast og aðlaga mataraæðið pínu (og mjókka kannske ofurlítið?) áður en skólinn byrjar.

Nú eru að verða 2 ár liðin frá átakinu "byrja að skoða hvað maður étur og hreyfa sig eitthvað." Það virkar alveg. Í ljós kom að það er mikilvægt fyrir mig að hreyfa mig helling, til þess að ég hafi orku í alla kyrrsetuvinnuna og haldi draslinu gangandi. Hins vegar hefur í ljós komið að maður brennir alveg fáránlega litlu.

Ergó: Ef maður ætlar að breyta um lögun hefur það allt að gera með hvað maður lætur mikið af mat (og matarlíki) í smettið á sér. Það skiptir ekki einu sinni sérstaklega miklu máli hvað það er. Bara að éta ekki í óhófi. Dáldið einfalt. Eða hvað?

Nei, ekki einfalt. Ég er brauðfíkill. Alveg kreisí í allt með saltbragði. Ég drekk eiginlega aldrei gos og get átt súkkulaði þangað til það skemmist... En brauð og brauðtengt get ég étið endalaust. Og sérstaklega á kvöldin.

Og annað sem ég átti ekki von á að fatta. Það er óstjórnlegt mikilvægi þess að hvíla sig nóg. Þegar maður verður þreyttur, tala nú ekki um langþreyttur, þá er svo stutt í ílöngun í allskonar orkusprengjur og óæti. Ég þarf helst að hunskast í bælið fyrir ellefu. Svo ég detti ekki íða.

Leiðin fram hjá þessu eru vatn í óhófi, og ávaxta og grænmetiseign. Ég kaupi vínber, litlar gulrætur og epli, þegar mér finnst vera komið gott af óhollu kvöld-áti. Fyrstu kvöldin í afvenjun raða ég í kringum mig allskonar hollu. (Svo endar með því að ég hætti að nenna því. ;)

Hjólaði annars heim úr vinnunni í gær. Það gekk ágætlega, þangað til keðjan datt af. En það hjól (verslað af konunni sem var að flytja út úr íbúðinni á neðri hæðinni á 5000 kall fyrir nokkrum árum) ætti alveg að duga okkur í bili. Stefnan er að vera með skiptiskipulag á hjóladæminu, annað hjóli í skólann á morgnana og hitt keyri með börnin, svo skiptum við og sá sem hjólaði um morguninn keyrir og sækir seinnipartinn. Þessi hjólatúr tekur annars enga stund. 20 - 30 mínútur.

Jæja. Búni bunkinn af prófum er ennþá miklu lægri en eftir-bunkinn.

36 dagar í skóla!
(Ætla samt ekki að verða eins og skólafíklarnir í gamladaga, sko. Vantar bara alvarlega eitthvað viðmið í þessum yfirferðarleiðindum.)

29.4.11

Konunglegt brúðkaup.

Ég hafði nú ekkert sérstaklega hugsað mér að horfa á þetta brúðkaup. Mundi eftir brúðkaupi Díönu og Kalla sem einhverrar langrar og leiðinlegrar beinnar útsendingar, a la koma Keikó, Fisher eða sambærilegt.

Átti aukinheldur að vera á fundi klukkan 10.

Svo var ég í vinnunni. Og guðfræðingurinn við hliðina á mér með innsýn í kirkjuhefðarlegu hliðina. Og ég narraðist og nörraðist.

Fór í framhaldinu og hugsa um undarleg utanafheit í sambandi við athöfnina "að horfa á konunglega brúðkaupið." Margir hafa ekkert gaman af því, auðvitað. Engan áhuga á þessu fólki, kirkjuhefðunum, konunglegum hefðum eða neitt. Enda, hvað segir það um mann? Ég velti fyrir mér hvort ég væri plebbi af því að ég horfði á konunglega brúðkaupið. Ég er nefnilega ferlega and-royal. Finnst alls ekki siðferðilega rétt að hafa fólk eins og sýningargripi í búrum frá fæðingu . (Þó það séu gullbúr.)

En, allavega. Þetta var ekki eins skelfilega langt mig minnir að brúðkaup foreldra brúðgumans hafi verið. Og þarna var margt áhugavert. Tónlist, sálmaval, ritningalestur... og ótal túlkunarmöguleikar á öllusaman, eins og í öllu leikhúsi.

Ég er náttúrulega öll að pæla í performance þessa dagana. Og þetta var sýning. Eftir mjög nákvæmu handriti sem gríðarlega margir sjá. Því er áhugavert að skoða hvað er í þessu.

Ræða biskupsins fannst mér merkileg. Það væri gaman að bera hana saman við ræður í fyrri konunglegu brúðkaupum. Mér fannst áhugavert þegar hann sagði brúðhjónunum að veita hvort öðru ákveðið athafnafrelsi vitnaði hann í skáldið Chaucer, máli sínu til stuðnings.

Þetta tengist því sem ég er mikið búin að vera að pæla í. Það er þetta með rökstyðjum og réttlætum með orðatiltækjum og eða svölum setningum eftir skáld. Þetta er mjög merkilegt þar sem það að það skuli vera til svöl eða skemmtileg leið til að segja eitthvað... þýðir ekki að það sé eitthvað sannara, eða réttara að segja það.

Allt sem stuðlar er satt, sagði Ármann Guðmundsson einu sinni. (Setning sem stuðlar sjálf og styður því eigin fullyrðingu.) Í nútímanum er rökleikni upphafin. Rökstuðningur er upphaf og endir alls, tilfinningarök eru ekki rök og staðreyndir eru staðreyndir, hvernig sem þær eru settar fram.

Samt er það þannig að ótrúlega oft, þegar menn ætla að segja eitthvað merkilegt, þá þarf að stuðla, vitna í, orðatiltækja... annars tekur enginn mark á manni! Orðanna hljóðan held ég að hafi meiri áhrif en flest annað í mannlífinu, stjórnmálunum, samfélaginu í dag. Að vera vel máli farinn er kannski eitt af því mikilvægasta, sem ákvarðar stöðu manna í þjóðfélaginu, hvað kemst til leiðar og hvað ekki.

Er einmitt búin að vera að hugsa um trúða í stjórnmálum. (Öll í besta flokknum þessa dagana.)

Fékk smá hroll í gær þegar ég fattaði annan íslenskan stjórnmálamann sem komst til valda með ekki ósvipuðum aðferðum.

Fyrsta orðið sem hann sagði í sjónvarpi var: Drulla.

Hann gerði usla í stjórnmálum þess tíma með því að vera af röngum ættum fyrir valdhafa í sínum flokki.

Varð borgarstjóri.

Sigraði sitjandi formann í formannskosningum og varð flokksformaður.

Varð forsætisráðherra.

Varð seðlabankastjóri

(Setti Ísland á hausinn)

Er ritstjóri Morgunblaðsins.

Og þessa sigurgöngu virðist helst mega rekja til ákveðins orðfæris. Máltækja, stundum heimasmíðaðra og almennra "skemmtilegheita." (Ef maður er með svona miðaldra-kalla-húmor.)

Sviðsetningin.

Ég er ekki frá því. Hvort sem okkur líkar betur eða ver. Það eru sviðsetningar sem stjórna heiminum í dag.

Umbúðirnar, ekki innihaldið.

Jájá, þetta fjallaði alveg um brúðkaup Villa og Kötu.
Til hamingju, þau.