27.1.10

Bara Eitt Barn

Þegar maður eignast 3 börn á 2 og 1/2 ári fær maður sjaldan að prófa þann lúxus að eiga bara eitt barn í heilan dag. Og yngri börnin tvö fá næstum aldrei að hafa neitt eða neinn í friði fyrir hvoru öðru. Nema kannski helst ef þau eru veik. Og þá er skemmtanalífinu takmörk sett. En á meðan þau eru á sitthvorum leikskólanum kemur þetta fyrir.

Aðskildir starfsdagar, nefnilega.

Og svo skemmtilega vildi til að Freigátuleikskóli var með starfsdag einmitt í dag, daginn fyrir afmælið hennar. Gert var mikið plan. Um leið og við nenntum að klæða okkur (sem var ekki mjög snemma) drifum við okkur niður í bæ og tókum strætó í Kringluna. Hvers vegna strætó? Það er svo gríðarlega mikið sport. Freigátan hafði mikinn áhuga á fólkinu sem kom og fór og stundum komu athugasemdir. Sem betur fór var konan sem sat fyrir framan okkur nýfarin út úr vagninum þegar barnið sagði, stundarhátt: "Þessi kona var nú ekkert mjög falleg!"

Í kringlunni krúsuðum við búðir af miklum móð. Keyptum afmælisgjafir handa Hraðbátnum, sem á afmæli eftir viku, og ungu dömunni sjálfri, sem var ekkert mál að gera þó hún væri með þar sem hún var alltaf að skoða eitthvað annað. Hún fékk líka slatta af fötum. Sem veitti ekki af. Aðallega tvennar tuskubuxur með breiðri teygju, en daman er með afar krónískan rótararass. Svo fékk hún húfu og vettlinga sem hún varð ástfangin af í Next.

Svo keyptum við bökunarvörur. Aðallega í Kalla kanínuköku.

Þá vorum við orðnar klifjaðar og bankareikningurinn orðinn talsvert léttari og fengum okkur ís (hún) og cappuchino (ég) áður en við fórum heim. Tókum strætó alla leið heim sem þýddi að við tókum 14 næstum á milli endastöðva og vorum lennnngi að. En það var nú í lagi. Nóg að spjalla og yndisleg hverfi að keyra um. (Ég ætla á fasteignavefinn og skoða póstnúmer 104 og 108 í kvöld.)

Þegar við komum heim bökuðum við tvær kökur. Og gaman var nú það.

En það besta af öllu var að geta eytt óendanlega miklum tíma í að spjalla bara við litla miðjubarnið. Það verður að viðurkennast að stóri og litli eru ansi góðir í að ná af henni athyglinni, sérstaklega þarf hún oft að víkja fyrir þeim litla. Nú höfðum við óendanlega mikinn tíma til að spjalla, syngja á almannafæri, taka góðan tíma í að skoða allt sem henni datt í hug og spjalla meira. Hún er á "af hverju"-aldrinum. Það gengur á með spurningaregni allan daginn ef hún fær færi á því. Svo sagði hún mér nokkrar sögur. Hún gerir líka miiiikið af því. (Uppáhaldssagan mín er ennþá sagan um kúkana sem fóru saman í frí í kúkaflugvélinni og fóru til kúka-Egilsstaða.)

Unga skáldkonan verður 4 ára á morgun.
Ég myndi setja inn mynd af henni, en, því miður, tölvan með öllum myndunum er í hvíldarinnlögn hjá Apple.is.

26.1.10

Það sem böggar mig við þennan Ásbjörn...

Semsagt, þennan sem Helgi bakaði í Kastljósinu.
Semsagt, sem borgaði sér arð úr fyrirtæki með neikvætt eigið fé.
Semsagt, sem meira að segja ég, sem hef ekki einu sinni áhuga á fyrirtækjarekstri, veit að má ekki.
Semsagt, sem segist ekki hafa vitað að hann mætti ekki borga sér arð úr fyrirtæki með neikvætt eigið fé.

Hann er eitt af þrennu.
a) Að segja satt og því næstum óleyfilega vitlaus. Og finnst hann eiga að fá fyrirgefningu glæpanna þar sem hann vissi ekki hvað hann gjörði, þegar hann fékk sér 20 milljónir sem hann mátti ekki taka.
b) Að ljúga og þess vegna alveg fáránlega óheiðarlegur og svo algjörlega siðfatlaður að honum finnst hann eiga að komast upp með það vegna þess að aðrir hafa gert verra.
c) Sitt lítið af hvoru.

Látum nú alveg vera að hann hafi skafið innanúr fyrirtækinu sínu peninga sem voru ekki til. Það er alveg rétt hjá honum. Þetta eru ekki peningar miðað við það sem er búið að stela frá þjóðfélaginu. Og hann stal þeim frá sjálfum sér.

En á þessi gaur að ákveða hvað á að gera við rannsóknarskýrsluna? Maður sem er annaðhvort alveg sauðvitlaus eða snaróheiðarlegur eða hvorutveggja?

Er það virkilega hæfasta fólkið sem hið háa Alþingi hefur uppá að bjóða?

25.1.10

Asnalegir niðurskurðið allsstaðar

Því meira sem ég hugsa um þetta, því asnalegra finnst mér það.

Ókei, það þarf að skera niður í heilbrigðis og menntakerfi. Hvaða vitglóru sjá menn í því að byrja á að skera lægstlaunuðustu (og mikilvægustu) "starfmenn á plani" eins og skólaliða og ræstingafólk, og senda það út í atvinnuleysið? Sama sparnaði væri alveg örugglega hægt að ná með því að saxa eitthvað á launin hjá toppum og millistjórnendum, sem btw voru þeir einu sem sáu einhverjar launahækkanir í "góðærinu".

("Ritstjóri" Morgunblaðsins setur hrunið innan gæsalappa, ég get hvorki haft hann sjálfan né "góðærið" utan þeirra.)

Kvikmyndagerð á undir högg að sækja. Allt sem heitir menningarmál. RÚV. Og allstaðar er byrjað að skrapa saman aurana á meðan krónunum er kastað sem aldrei fyrr.

RÚV.
Nú fíla ég Júróvísjón. En ég held að almennur skilningur myndi ríkja á því þó við tækjum ekki þátt, svona í blákreppunni. Allavega ekki með fokdýrri undankeppni í beinni. Mér finnst Spaugstofan líka skemmtileg. Og hafa gengið algjörlega í endurnýjun lífdaga við hrunið. En hún er líka alveg fokdýr. Og það sem meira er, mennirnir sem framleiða hana munu hreint ekki ganga atvinnulausir þó henni sé slaufað um óákveðinn tíma. Kastljósið er stundum ágætt. En stundum er það líka bara endurtekið stagl um það sem er nýbúið að vera í fréttunum. Þurfum við það 5 daga í viku? Og Útsvarið. Skemmtilegt. En er ekki séns að lifa án þess í smá tíma? Bara svona rétt þangað til við höfum efni á að halda það aftur? Og hvað með toppana 10 uppi í turni sem enginn veit hvað gera í vinnunni og eru með helminginn af hallanum í árslaun?

Ég held að við þurfum frekar fullmannaða fréttastofu, nægan fjölda þáttagerðarfólks og aukið svigrúm í ódýrari dagskrárgerð. Og svæðisútvörp, takk fyrir. Miðstýrðu fréttirnar eru höfuðborgarmiðaðar. Fólk þarf líka að fá fréttir af því hvað er að gerast í næsta nágrenni. Og morgunvaktina aftur á Rás 1, takk fyrir. Að KK ólöstuðum, hann má vera á öðrum tíma.

Bara tímaspursmál hvenær maður sækir um starfið hans Páls...