8.11.08

Kúala Lúmpúr, aftur í tímann og kreppuspeki.

Nú eru gömlun mín í Kúala Lúmpúr í dag. Á morgun fljúga þau til Hanoi. Þau eru í ævintýraferð um Víetnam og Kambódíu í tilefni þess að hafa verið gift í 40 ár. Brúðkaupsafmælið þeirra verður einmitt daginn eftir að þau koma aftur til landsins en þá eru þau búin að panta ofurmatarboð með öllum barnaskaranum en sú norska verður einmitt á svæðinu þá líka. Þetta finnst okkur stórsniðugt. Þau eiga nú alveg inni hjá okkur að við gefum þeim að éta og við Hugga syss tökum þá kannski æfingaspinn á einhverjum eftirrétti fyrir aðfangadagskvöld.

Pabbi og mamma voru annars að rifja það upp áður en þau fóru að þegar þau voru ung unnu þau í banka. Með pabba og mömmu hennar Svandísar. Þá var sko ekki séns að fá víxil í bankanum sem maður vann í. Og þótti yfirhöfuð ekkert sniðugt að vera að lána fólki peninga. Þau bjuggu í bílskúrnum hjá afa og ömmu á meðan þau byggðu íbúðina sína. Neðri hæð í þríbýli þar sem þau búa ennþá. Einhver lán fengu þau nú að taka á meðan þau voru að byggja en það var fyrir verðtryggingu svo verðbólgan át lánin þeirra á nó tæm og þau stóðust alveg freistinguna að drífa í að taka meiri og hærri lán til að byggja stærra og flottara hús þegar sá fyrir endann á því. Eru því búin að eiga heimili sitt skuldlaust síðan um nítjánhundruðáttatíuogeitthvað og ferðast nú eins og landafjandar um allar trissur og hafa efni á því. 

Heppni? Snilld? Sitt lítið af hvurju, sennilegast.

Svo ólu þau börnin sín upp í aðhaldi og afturhaldssemi í fjármálum og vöruðu stranglega við óþarfalántökum. Þess vegna vorum við öll óttalegir nískuplebbar í góðærinu. Og verðum líklega ekkert mjög gjaldþrota í kreppunni. Heppni og tilviljun? Algjör. Annars á nú alveg eftir að koma í ljós hvar fasteignamarkaðurinn stendur og hvar lánin okkar enda í þessu vaxtabrjálæði. Kannski erum við þegar orðin gjaldþrota. En alveg er ég til í að leigja íbúðina mína af Íbúðalánasjóði eða Landsbankanum eða einhverjum. Verst að vera nýbúin að taka sameignina í gegn og láta mála að utan. Svo framarlega sem ég bý einhversstaðar þarf ég ekkert að eiga húsnæðið mitt. Leigumarkaðurinn á Íslandi hefur bara alltaf verið alveg á pari við, ef ekki dýrari, heldur en það er að borga af húsnæðislánum fyrir húsnæði af svipaðri stærð. Kannski breytist það núna þegar offramboð er orðið á húsnæði allsstaðar. Það væri nú mikið gott og vel.

Annars þurfti að gera hlé í þessari vangaveltu miðri. Hraðbátur er búinn að vera lasinn og hefur eitthvað verið að toga í eyrun á sér svo við ákváðum að skreppa með hann á læknavaktina, svona til öryggis. Og drengur greindist með bullandi eyrnabólgu í báðum eyrum og er kominn á pensillín. Freigáta er með astmakvef og er á pústi. Smábátur er með plástur á stórutánni. Gerði í síðustu viku heiðarlega tilraun til að feta í blóði drifin fótspor Rannsóknarskips frá sumrinu og rífa af sér tánögl í einhverjum íþróttum. Slapp þó með skrekkinn þar sem doktornum þótti ekki ástæða til að taka nöglina af.

Kreppa? Já, kannski. Við erum alveg örugglega að fara að eiga minni peninga. Og meiri skuldir. Og kannski ekki einu sinni íbúðina okkar. En mér finnst nú samt mikilvægara að krakkarnir séu nokkurn veginn í heilu lagi. Alin upp við heilbrigt gildismat. Og svoleiðis uppeldi verður alveg örugglega auðveldara í framkvæmd núna eftir hrun heldur en í góðærinu ógurlega þegar við vorum afturúrkreistingsplebbar. Núna erum við allt í einu þvílíkt Inni. Skemmtilegt.

Nú er Smábátur farinn í sumarbústað með afa sínum, ömmu og frænda. Rannsóknarskip er að horfa á fótbolta í annarri tölvu. Þau litlu eru komin í bókaormaleik frammi á gangi og eru búin að yfirgefa Brúðubílinn sem mallar í sjónvarpinu.
Og allt er í himnalagi.

Það er farið að dimma og ég er komin í jólaskap.

7.11.08

Eftirá

Hraðbáturinn er alveg að fara að ganga. Hann hífir sig upp á öllu og öllum og stendur oft uppréttur án þess að halda sér neitt mikið í, á sleipum sokkum á parkettinu eða flísunum eða hverju sem fyrir verður. Freigátan var líka farin að standa uppvið á hans aldri en hún hallaði sér upp að og ríghélt sér fram undir eins árs aldur. 

Þessi munur hefur sennilega með húsnæðismál fjölskyldunnar að gera. Þegar Freigátan var á svipuðum aldri, fyrir 2 árum síðan, bjuggum við enn á pöllunum á Tryggvagötunni. Þar var gólfið harðara og allt í stigum þannig að hún fékk eiginlega ekkert að hreyfa sig um og var látin halda sig á mottunni í stofunni. Hraðbátur hefur hins vegar alltaf verið frjáls ferða sinna um alla íbúð og það munar líklega því um jafnvægið.

Annars eru einmitt að verða 2 ár síðan við keyptum þessa ágætu íbúð. Sem okkur líkar svona líka ljómandi vel við. Og ég vona að við missum ekki í hópgjaldþroti komandi mánaða.

En samt.

Það væri svo sem ekki ónýtt að vera bara enn í leiguhúsnæði og láta útborgunina fitna enn meira á verðtryggðum reikningi og horfa á húsnæðisverð lækka um 46%
Ætli gamla íbúðin mín á Vitastígnum fari ekki aftur að fara niður í 8 milljónirnar sem ég keypti hana á árið 2004?

Stuð að vera vitur eftirá.

Annars er ég svo mikið kreppuskáld að ég fæ marga innblástra og fullt af andagiftum á hverjum degi í þessum hrynjanda öllum saman. Verst að ég má ekki neitt vera að því að skrifa. Glettingur fer síðustu metrana í lokafrágang til prentunar um helgina og svo fer að koma ritgerð og próf! (Já, ég þarf að taka svona skriflegt, fjögurra tíma próf. Hef ekki þurft þess í örugglega 10 ár og veit ekki hvort ég kann að skrifa lengur.)

6.11.08

Og eitt enn... og fleira

Er hægt að taka upp evru í staðinn fyrir krónu?
Má það án þess að ganga í Evrópusambandið?
Ef einhverjir aðrir vildu taka upp íslenska krónu, væri það bannað?
Réðum við því? Eða Geir? Eða Davíð?

Er sniðugt að taka upp evrur?
Þarf að vera fljótandi gengi?
Getur það ekki farið með krónuna endanlega til helvítis?
Hvað gerist ef gengið á evrunni verður þá milljón?

Bandarísk vinkona mín segir að kreppan allsstaðar sé Bush og afnámi hans á einhverju regluverki í Wall Street að kenna og Obama eigi eftir að reddissu. Er það?

Erum við ekki bara í mikkklu dýpri skít en nokkur vill viðurkenna?

Mér finnst við öll vera á ís með eldi undir. Enda dreymdi mig það um daginn.

Ég bara spyr eins og fávís kona...

Er stýrivaxtahækkun skilyrði frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum eða ekki?
Hver eru skilyrði fyrir láni Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, nákvæmlega?

Nákvæmlega hverjir fengu skuldauppgjöf frá viðskiptabönkunum sem þeir vinna í?
Og hvað mikið?
Í hvað fóru peningarnir?
Vinna sömu aðilar í ríkisbönkunum nú?

Til hvers er verið að "bóka" á ríkisstjórnarfundum ef enginn má vita hvað fer fram á þeim?
Eiga kjósendur ekki skýlausan rétt á því að vita hvað ríkisstjórnin er að bauka?
Sérstaklega á tímum sem þessum?

Á virkilega að redda málunum eingöngu með því að taka lán?
Hafa menn ekkert lært?
Þurfa ekki aðrar aðgerðir að vera í gangi hérna innanlands?
Hvað eru atvinnuleysisbæturnar háar?
Er það virkilega satt að þær séu núna 80% af launum með hámarki, en engu lágmarki?

Og hvenær má fara að leita að sökudólgunum?
Þegar þeir verða búnir að fela þjófstolna landsframleiðslu síðustu ára ennþá betur?
Væri ekki nær að finna peningana þeirra og láta þá borga heldur en að skuldsetja þjóðina inn í eilífðina?

Þyrfti þá ekki að gera það NÚNA?!?!?

5.11.08

Plebbar á Holtinu!

Nú hrynja vígin hvurt af öðru. Bankarnir dottnir í ríkið, ríkið dottið á hliðina. Og þjóðin með. Ja, ríkukallarnir virðast reyndar ennþá eiga péninga til að kaupa fjölmiðla og svona, en láta lítið fara fyrir sér.  Og í kvöld hrundi enn eitt vígi ríkukallanna. Það komu venjulegir alþýðuplebbar á Hótel Holt! Og það á miðvikudagskvöldi! Ef menn hlustuðu vel mátti heyra alla púka Mammons emja og væla yfir vanhelguninni.

Þetta gerðum við hjónin nú samt, af skömmum okkar. Reyndar var þetta ekki svona skyndihugdetta, eins og ríkukallarnir fá örugglega stundum þegar þeim dettur í hug, á miðvikudaxkvöldi, að skreppa og éta á Holtinu. Í júlí gerðist það nefnilega að bankinn minn... fyrrverandi... sem sagt... sjálfstæði ekki-ríkisbankinn sem hann er núna heldur auðsjúgandi svikamillan sem hann var, að leggja niður kreditkortið mitt. Nýju var troðið upp á mig ásamt allskonar dóti. Eitt af því var ávísun á fjórréttað á Holtinu fyrir tvo fyrir tíufúsundkall. Gilti til 1. des. Þegar var ákveðið að fara á 36 ára afmæli Rannsóknarskips sem er einmitt í dag. Pössun var naglfest í ágúst. Svo skemmtilega vill nefnilega til að foreldrar mínir eru í löngu skipulögðu stoppi á leið sinni til Víetnam og Kambódíu. Fjörutíu ára brúðkaupsafmælisferð.

Sem sagt, við fórum á Holtið í kvöld. Hvað sem tautaði og raulaði. Og hóstaði. Þar var nú aldeilis tómt. Þegar við komum voru tvær eldri og heldri dömur að borða. Hvort í sínu lagi. Okkur þóttu þær nú forvitnilegar. Ég ætla að skrifa tvö samhliða eintöl uppí þær. Svo fóru þær. Hvor í sínu lagi. Þegar við vorum að klára (annars frrrábæra máltíð með íkveiktri belju og allskyns) undu sér inn tveir jakkafatakallar. Ætluðu bara að droppa inn. Með níu manna hóp. Alveg örugglega glæpamenn og útrásarvíkingar með hlaðin gullkort af stolnum peningum og afskrifuðum lánum. (Eða löggiltir endurskoðendur. Mér skilst að þeir séu nýju ríkukallarnir og græða stórfé á að fela peningana sem gömlu ríkukallarnir náðu ekki að koma til útlanda.)

Við plebbar átum svo vel og rækilega að sennilega þurfum við ekki að næra okkur aftur fyrr en eftir kreppu. Og skömmuðumst okkar ekki baun við að vanhelga hin helgu vé Yfirstéttar með nærveru vorri, ódýrum fötum og miklu betri mannasiðum en ríkir plebbar sýna nokkurntíma. Svo fórum við í Skífuna og versluðum nokkra vel valda geisladiska á fúsundkall hvern. Ég verslaði sándtrakkið af Cabaret bara til að eiga lagið Money (makes the world go around.) Um daginn var ég nefnilega að labba kreppta Laugaveginn og þá komu í röð, Money með Pink Floyd og Money, Money, Money með Abba. Ég er að huxa um að búa til peningaplaylista í ípottinn minn. Í minningu Góðæris heitins.

4.11.08

Hor

Ojæja. Freigátan send heim af leikskólanum í dag, slöpp og með suð í lungunum.  Tími hefur verið pantaður hjá lækni síðdegis. Við Hraðbátur erum enn rotinpúruleg og hóstandi þó skárri en í gær held ég. Pantaði samt Rannsóknarskip heim úr vinnunni þegar litlu pestargemlingarnir voru orðnir tveir.

Verst að við ætluðum öll að fara og verða sjónvarpsstjörnur í dag, en veðrið er nú þannig að ekki er víst að viðrað hefði til kvikmyndatakna á róló hvort sem er.

En miðað við síðasta vetur er svo sem ágætt að sleppa fram í nóvember án þess að þurfa að fara með neinn til læknis. Þetta kvef verður vonandi bara vonn off.

3.11.08

Sótt

Ég og hinn níu-mánaða-í-dag Hraðbátur erum sloj.
Svo mjög að Rannsóknarskip er heima í dag til að sjá um okkur. Ég meika ekki einu sinni að setja mynd af honum í tilefni daxins.
Verðum vonandi nokkurn veginn fótafær á morgun. Sem er eins gott þar sem afinn og amman að eystan eru að koma í heimsókn á leið sinni til austurlanda fjær.

Sýningar gengu annars með eindæmum vel um helgina fyrir pakkfullu húsi og fengu fínar viðtökur. Held ég. Víðast hvar. Og nú er þeim lokið og verður aldregi endurtekið.

Hélt ég gæti verið á löppum en hef líklegast rangt fyrir mér. Ætla að slaga aftur í rúmið.