Pabbi og mamma voru annars að rifja það upp áður en þau fóru að þegar þau voru ung unnu þau í banka. Með pabba og mömmu hennar Svandísar. Þá var sko ekki séns að fá víxil í bankanum sem maður vann í. Og þótti yfirhöfuð ekkert sniðugt að vera að lána fólki peninga. Þau bjuggu í bílskúrnum hjá afa og ömmu á meðan þau byggðu íbúðina sína. Neðri hæð í þríbýli þar sem þau búa ennþá. Einhver lán fengu þau nú að taka á meðan þau voru að byggja en það var fyrir verðtryggingu svo verðbólgan át lánin þeirra á nó tæm og þau stóðust alveg freistinguna að drífa í að taka meiri og hærri lán til að byggja stærra og flottara hús þegar sá fyrir endann á því. Eru því búin að eiga heimili sitt skuldlaust síðan um nítjánhundruðáttatíuogeitthvað og ferðast nú eins og landafjandar um allar trissur og hafa efni á því.
Heppni? Snilld? Sitt lítið af hvurju, sennilegast.
Svo ólu þau börnin sín upp í aðhaldi og afturhaldssemi í fjármálum og vöruðu stranglega við óþarfalántökum. Þess vegna vorum við öll óttalegir nískuplebbar í góðærinu. Og verðum líklega ekkert mjög gjaldþrota í kreppunni. Heppni og tilviljun? Algjör. Annars á nú alveg eftir að koma í ljós hvar fasteignamarkaðurinn stendur og hvar lánin okkar enda í þessu vaxtabrjálæði. Kannski erum við þegar orðin gjaldþrota. En alveg er ég til í að leigja íbúðina mína af Íbúðalánasjóði eða Landsbankanum eða einhverjum. Verst að vera nýbúin að taka sameignina í gegn og láta mála að utan. Svo framarlega sem ég bý einhversstaðar þarf ég ekkert að eiga húsnæðið mitt. Leigumarkaðurinn á Íslandi hefur bara alltaf verið alveg á pari við, ef ekki dýrari, heldur en það er að borga af húsnæðislánum fyrir húsnæði af svipaðri stærð. Kannski breytist það núna þegar offramboð er orðið á húsnæði allsstaðar. Það væri nú mikið gott og vel.
Annars þurfti að gera hlé í þessari vangaveltu miðri. Hraðbátur er búinn að vera lasinn og hefur eitthvað verið að toga í eyrun á sér svo við ákváðum að skreppa með hann á læknavaktina, svona til öryggis. Og drengur greindist með bullandi eyrnabólgu í báðum eyrum og er kominn á pensillín. Freigáta er með astmakvef og er á pústi. Smábátur er með plástur á stórutánni. Gerði í síðustu viku heiðarlega tilraun til að feta í blóði drifin fótspor Rannsóknarskips frá sumrinu og rífa af sér tánögl í einhverjum íþróttum. Slapp þó með skrekkinn þar sem doktornum þótti ekki ástæða til að taka nöglina af.
Kreppa? Já, kannski. Við erum alveg örugglega að fara að eiga minni peninga. Og meiri skuldir. Og kannski ekki einu sinni íbúðina okkar. En mér finnst nú samt mikilvægara að krakkarnir séu nokkurn veginn í heilu lagi. Alin upp við heilbrigt gildismat. Og svoleiðis uppeldi verður alveg örugglega auðveldara í framkvæmd núna eftir hrun heldur en í góðærinu ógurlega þegar við vorum afturúrkreistingsplebbar. Núna erum við allt í einu þvílíkt Inni. Skemmtilegt.
Nú er Smábátur farinn í sumarbústað með afa sínum, ömmu og frænda. Rannsóknarskip er að horfa á fótbolta í annarri tölvu. Þau litlu eru komin í bókaormaleik frammi á gangi og eru búin að yfirgefa Brúðubílinn sem mallar í sjónvarpinu.
Og allt er í himnalagi.
Það er farið að dimma og ég er komin í jólaskap.