12.11.04

Í tilefni af umræðu á Varríusi um þjóðsönginn, og komment dr. Sigga um Íslendinga sem syngja hann fullir í útlöndum datt mér í hug lítil saga.

Þannig var að einu sinni, þegar ég var útlendingur, datt Íslendingamafíunni, þáverandi, í Montpellier að breggða sér á karókíbar sem einhver hafði rekist á fyrir tilviljun. Þangað ráfuðum við eitt kvöldið, fylktu liði, og ætluðum nú aldeilis að skemmta okkur og öðrum. Á leiðinni löbbuðum við m.a. í gegnum tóma verslanamiðstöð (Pólígonið) og skemmtum öryggisvörðum með upphitunarsöng...

...komum reyndar til baka ekki mjög löngu síðar eftir að okkur hafði verið fleygt öfugum út af karókíbarnum. Í ljós kom, sem sagt, að Frakkar taka karókísöng talsvert alvarlegar en 10 fullir Íslendingar og kunnu alls ekki að meta flutning Reynis og Aðalsteins á... hvaða lagi sem það nú annars var. Neituðu að úthluta okkar borði fleiri lögum (og misstu fyrir vikið af því að heyra í Sveppa, síðar söngleikjastjörnu) og gáfu kurteislega, en eilítið þurrlega, til kynna að nærveru vorrar væri ekki óskað. Svo héldu Frakkar á hvítum skyrtum áfram að þruma ballöður, reyndar meira af góðum vilja en óþrjótandi hæfileikum.

Þannig fór um sjóferð þá.

Þegar við vorum síðan á leiðinni til baka í gegnum Pólígonið, hálf-flissandi og pínulítið skömmustuleg, þá urðu öryggisverðirnir voða glaðir, enda örugglega leiðinlegt hjá þeim í vinnunni, og spurðu hvort við ætluðum ekki að syngja meira. Við fengum samtaka hugstrump og byrjuðum einum rómi á Þjóðsöng Íslendinga og kyrjuðum hann á leiðinni í gegn. Komumst að því að hljómburðurinn í tómu Pólígoninu var hrein snilld, auk þess sem það tekur akkúrat tímann sem það tekur að labba í gegnum það að syngja þjóðsönginn. Stoppuðum á stéttinni hinu megin til að leggja áherslu á lokatónana.

Skemmst frá því að segja að við það rjátlaðist af okkur skömmin og þjóðrembingurinn tók völdin að nýju.

En við fórum aldrei aftur á þennan karókíbar, enda ekki víst að okkur hefði verið hleypt inn.


Þetta var smásaga daxins.

Gleðilega helgi og ég vona að menn njóti hennar jafn vel og ég hef huxað mér að gera.

Óver end át.

10.11.04

Mikil tíðndi og góð í bloggheimum.
Hér er Dr. Siggi!
Sé hann velkominn í linkasafnið.
Öppdeit

Þegar 24 dagar voru í afhendingu á heimilinu mínu setti ég fram nokkur markmið. Rétt að gera úttekt á því hvernig málin standa.


1. Ég þarf að komast að því hverjir hafa búið á hanabjálkanum mínum, helst frá upphafi (a la Sesselja Agnes, fyrir þá sem þá bók þekkja) og helst vil ég að Þórbergur Þórðarson hafi leigt þar sem fátækur námsmaður. Mun allavega bera þær sögur út.

Skemmst frá því að segja að segja að sú rannsóknarvinna er ekki hafin. Frétti samt fyrir tilviljun að Sigga Birna bjó einu sinni í íbúðinni minni í smá tíma. Það er nú bara nokkuð merkilegt!

2. Fyrir kraftaverk mun ég hætta að reykja, eiga alltaf margar tegundir af te og gera jógaæfingar á morgnana. Eignast allskonar baðdót með blómailmum og fara í kertaljósaböð í tíma og ótíma með innhverfri íhugun.

Hmmm. Reyki stanslaust, um alla íbúð og aðallega í rúminu. Enn hefur hvorki te né baðdót komið inn fyrir þröskuldinn. Jógaæfingar hafa verið hverfandi. En kertaljósaböð eru á sínum stað, svona þegar tími vinnst til, en yfirleitt með púrtvínsdrykkju og reykingum og rómantískum órum, frekar en íhugun.

3. Mun ekki detta íða um helgar, sökum nálægðar við miðbæinn, heldur sitja heima í nýja ruggustólnum, hlusta á rás 1 eða klassíska tónlist og prjóna, eða lesa eitthvað af merkilegu bókunum sem hingað til hafa bara verið snobbað hilluskraut.

Er reyndar búin að hlusta helling á rásir 1 og 2. Það kemur til af fjarvistum sjónvarps. Og búin að prjóna. En bækur eru ýmist ofan í kössum eða enn fjarverandi. Og ég held ólifnaður hafi verið stundaður flestar helgar, þó ekki af neinni sérstakri nálægð við miðbæinn, heldur í Færeyjum og á öðrum undarlegum stöðum. Um helgina verður það t.d. Akureyri.

4. Mun ekki fleygja mér eins og örvæntingarfull lóðatík fyrir fætur fyrsta mannvesalings sem lítur á mig tvisvar, heldur bíða Alveg Róleg, með Reisn, Innri Kyrrð og Æðruleysi, eftir Hinum Eina Rétta. (Einhvern tíma geri ég svo tékklista yfir hvaða kröfur H.E.R. skal uppfylla.)

Það var ekki komin nein reynsla á þennan biðtíma þegar Rannsóknarskipið kom til sögu. Hvað þá komið á einhvers konar ástand reisnar, innri kyrrðar eða æðruleysis. Og hann var sennilega fyrstur til að líta á mig tvisvar og, já, held ég hafi svei mér þá gert allt sem ég ætlaði ekki, samkvæmt þessu markmiði. Gott mál. Algjörlega þess virði.

5. Á meðan ég bíð mun ég eyða afgangs orku í að skrifa Ódauðleg Meistaraverk og stefna á Nóbel. Ævinlega óaðfinnanlega tilhöfð.

Pah! Er komin með tölvu. Búin að nota hana til að horfa á 6 & the city. Á sloppnum.


6. Ég mun baka og elda af hjartans lyst, eins og hver önnur aðalpersóna í Snjólaugarbók og halda fámenn og innileg matarboð með exótískum smáréttum og heimpekilegum rökræðum um listir og menningu. Gjörning þennan mun ég jafnan fremja íklædd jarðarlituðum þægindaklæðnaði með viðeigandi lýsingu og tónlistarvali.


Já, einmitt. Ísskápurinn er búinn að vera krónískt tómur síðan ég flutti, sem og íbúðin öll, þannig að ekki hafa hin exótísku matarboð átt sér stað. Mig langar mikið að geta staðið við þetta, einhverntíma, en fyrst verður að vera hægt að bjóða mönnum sæti. Guðmá hins vegar vita hvenær það gerist.

Sem sagt, 1 Artífart Miðbæjarrotta, coming up!

Rrrright... eða bara enn ein efnishyggjurottan sem eyðir flestum vökustundum í vinnuna og lífsgæðakapphlaupið. Það er annað hvort í ökkla eða eyra.

Held sé óhætt að segja að langt sé í land með ansi margt á þessum ágæta markmiðalista, og sumt úrelt. Er að huxa um að bregðast við því með því að gera bara nýjan.
Í gær var dagur stórinnkaupa. Eyddi ótrúlega miklum peningum í tvo hluti.

En nú get ég líka kúrt í nýja sófanum mínum og leikið mér að nýju tölvunni minni þangað til bíllinn losnar af spítalanum og getur sótt það sem eftir er af draslinu mínu. Það er nú eiginlega alveg 160.000 króna virði. Kemur líka til með að stytta þessa tvo daga þangað til ég hitti Rannsóknarskipið mitt.

Vona að unglingar heimsins sjái sóma sinn í því að láta skrifstofuna mína í friði í dag.

9.11.04

Eins og lauslega var minnst á í færslu hér í gær, þá ákvað ég á ákveðnum tímapunkti að verða ekki kennari. Það var nú aldeilis eins gott.

Í morgun hefur vaknað úr dvala sem aldrei fyrr undirliggjandi óbeit á unglingi hvers konar. Og það er greinilega komið kennaraverkfall. Og það mætti halda að það hefði verið auglýst einhvers staðar: "Unglingar miðbæjar sameinist! Allir á Bandalagið að "skoða", fikta og rusla til og trufla heiðvirt fólk í vinnunni!"

Mér finnst börnum og unglingum eigi að vera bannaður aðgangur að verslunum, skrifstofum og hálf-opinberum stofnunum til tvítux. Nema í fylgd með fullorðnum sem eru þá með þau í bandi.

Sérstaklega strákum. Karlmenn ættu ekki að vera eftirlitslausir fyrr en eftir 25 ára aldur.

Hefði ég orðið kennari væri ég orðin geðveik og þó svo að gull og grænir skógar kæmu til í samningum komandi þá gætu ekki milljón villtir hestar dregið mig að þessu starfi.

Og annað sem ég þoli jafnvel minna: Unglingar sem koma 10 mínútur yfir 1, áður en ég hef náð að stinga af. Grrrrrrrr...

Hef sjaldan fundið fyrir jafn sterkri og óbeislaðri óbeit. Finn hjá mér mikla þörf fyrir að vera ókurteis.

8.11.04

Í nýju íbúðinni minni held ég að búi andi morgunhana. Þar vakna ég alltaf löngu á undan vekjaraklukkunni og er iðulega búin að reykja hressilega í rúminu áður en ég þarf að fara á fætur. (Sem minnir mig á það, verð að fara að fá mér náttborð. Bara tímaspursmál hvenær ég sulla niður úr öskubakkanum.)

Svo þegar ég loxins druslast á lappir finn undantekningalítið ég hjá mér einhverja áður óþekkta þörf fyrir að BORÐA MORGUNMAT! Hefur ekki gerst síðan einhvern tíma í kringum 1986.

Hreiðurgerðin er alveg að fara með mig. Ég vaska stanslaust upp, fyllist óstjórnlegri kátínu þegar ég þarf að nota nýju þvottavélina mína og hugsa mikið um gluggatjöld. Það fer hins vegar dáldið í pirrurnar á mér að vera bíllaus þessa dagana og geta þess vegna ekki nálgast hina ýmsu húsmuni sem bíða mín út um allan bæ. (Svo maður minnist nú ekki á allt sem er ókeypt í Ikea og Rúmfatalagernum.)

En um leið og drossían losnar af langlegudeild verður tekið til við innréttingar af miklum móð og reynt að standa við eitthvað af stóru orðunum varðandi hittingar ýmsar í húsakynnum vorum.
Eins og hún Elísabet, vinkona mín og verðandi mágkona, minntist á í kommenti hér að neðan átti Árni nokkur Friðriksson afmæli á föstudaginn. Henni þótti greinilega viðeigandi að það fengi umjöllun hér þannig að það er best ég svali nú forvitni haugs manna og tjái mig aðeins um tilvist téðs Árna.

Og, nei, við erum ekki að tala um rannsóknarskipið.

Þannig bar við að hausti ársins 1993 að ég fór austan til langskólanáms og lá leiðin til Akureyrar þar sem ég hélt, fyrir misskiling, að ég ætlaði að verða kennari. Þar lágu leiðir okkar Árna fyrst saman, vorum saman í bekk fyrstu önnina. Snerum þó bæði af villum okkar vega, hann hætti um áramót, ég um vorið.

Haustið 1994 ákvað ég síðan að yfirvinna óbeit mína á höfuðborgarsvæðinu, flutti þangað og hóf nám í bókmenntafræði. Og ákvað að ganga í leikfélag sem ég hafði heyrt að væri skemmtilegt. Fyrsti maðurinn sem ég rakst á þegar ég mætti á minn fyrsta fund í Hugleik var einmitt Árni þessi sem ég kannaðist við frá Akureyri. Hann var þá farinn að nema ensku í sama skóla og ég og við lékum saman í fullt af leikritum hjá Hugleik, og ég held við höfum líka setið saman einhverja kúrsa í skólanum, næstu 3 árin. Annars man það enginn svo ofboðslega gjörla, vorum ekkert að taka eftir tilvist hvors annars sérstaklega.

Þá skildu leiðir, en árið 1999 kynntist ég Elísabetu systur hans á leiklistarskóla bandalagsins. Varð okkur vel til vina og varð henni tíðrætt um mannkosti þessa bróður síns og þótti rétt og skylt að við stöllur gerðum tilraunir til að mægjast. Taldi ég öll tormerki á því þar sem við Árni vorum jú búin að þekkjast lengi og ekki hafði gneistað svo mikið sem örlítið þar á milli, undir neinum kringumstæðum. (Honum leiddist meira að segja svo mikið að þurfa að leika að hann væri skotinn í mér í einu leikriti að hann ákvað að hætta að leika! Í því leikriti fékk hann reyndar líka að giftast Unni Gutt, sem hlýtur nú að hafa bætt það eitthvað upp.)

Var svo kyrrt um hríð. Ég þvældist um útlönd og Austurland og frétti lítið af þeim systkinum.

Þangað til svo bar við að ég þurfti að mæta til haustþings á Akureyri í október síðastliðnum. Undirrituð var nú reyndar ekki mikið fyrir mann að sjá. Rétt svo hætt að rjúka úr rústunum eftir síðasta mann sem hafði gjört nokkurn óskunda í voru sálartötri. Hitti ég alltént þar fyrir hann Árna minn (og hina harðákveðnu systur hans sem enn hugði okkur mægðir) og urðu það miklir fagnaðarfundir. Svo miklir að með okkur Árna blossaði upp rómantík hin mesta og hefur varla slitnað beinlínusamband við norðurland síðan.

Þar með hefur trú vor á lífið, ástina, pörun og eilífa rómantík verið endurvakin af þvílíkum krafti að annað eins hefur ekki sést eða heyrst og ég er á leiðinni norður um helgina. Hitti hann Árna minn Friðriksson (ekki rannsóknarskipið) eftir fjóra daga!