20.7.07

I

Það byrja 9 leikrit, yfir 10 blaðsíðum, í handritasafni Bandalaxins á I. Þar af byrja 3 á Ill... eitthvað, 2 á Indíána...eitthvað, svo er eitt er eftir Hugleikara og annað eftir Laxness.
Einhverfunni í mér líður mjög vel með þessar upplýsingar.

Eftir vinnu koma Rannsóknarskip og Freigáta og sækja mig og svo brunum við norður í land. Vonandi verður síðan ekki rigning fyrir norðan á morgun, hvað sem spár segja, svo við Freigáta getum leikið okkur í kirkjugarðinum á meðan brúðkaup stendur yfir. (Legg ekki á viðstadda að hafa hana inni.)

Ég kem síðan í bæinn á mánudagskvöld, á undan hinum, með Harry Potter í fórum mínum og reikna með að verða úr jarðsambandi að mestu þá vikuna. Ef Harry endist ekki því lengur en venjulega er meira að segja ekki ólíklegt að einhver hálfskrifuð leikrit fái að finna til tevatnsins!

19.7.07

Hversdegirnir

Hef alveg steingleymt að monta mig af líkamsræktinni ógurlegu, undanfarið. En eftir hlé vegna einstæðni og utanlandsferðar í júní er ég aftur farin að fara þrisvar í viku eins og ekkert c! Og það eru liðnir alveg... margir mánuðir síðan ég byrjaði á þessu og botninn virðist bara ekkert ætla að detta úr. Þokkalega kúl.

Hjóltíkin hefur hins vegar fengið að vera mest inni í sumar. Góði hjólastígurinn meðfram sjónum er enn lokaður vegna helv... tónlistarhúsbyggingarinnar, og án hans er leiðin í vinnuna óskaplega upp á við. Ekki það að ég hafi ekki alveg gott af því. En samstarfsfólk og viðskiptavinir hafa ekkert til saka unnið svo ég reyni að skilja svitalyktina eftir heima. Huxa mér hins vegar gott til hjólarinnar þegar ég byrja í skólanum. Nokkurn veginn slétt þangað.

Í blöðunum í morgun las ég að nú eru vítleysingarnir farnir að leka lokasíðunum úr Harry Potter á netið. Mér finnst það nú eiginlega alveg að byrja á öfugum enda. En ég myndi alveg lesa fyrstu blaðsíðurnar ef ég kæmist í þær. Rannsóknarskip ætlar kannski að kaupa HP7 handa mér á Akureyri um helgina, svo ég þegi á meðan hann fer í golf. Á morgun förum við þangað. Svo kem ég líklega heim á undan þeim feðginum. Ég þarf að vinna en þeim liggur ekkert á.

Ótrúlega mörg leikrit byrja á H. En næstum engin á I.

18.7.07

Smáfrétt og orðskýringar fyrir venjulegt fólk

Hún Ágústa Skúla varð fertug í gær. Ekki fékk hún nú að gera það í friði, heldur mættu um 40 manns heim til Hrefnu með heljarinnar pottlökk og svo var afmælissöngurinn veinaður á vesalings gömlu konuna þegar hún haltraði grunlaus inn um garðshliðið. Skemmtilegur hittingur sem varð svolítið eins og krossóver á milli Bandalaxþinx og Skóla. Ekki var nú leiðinlegt að sjá aðeins framan í Mementógengið áður en það leggur upp í langferðina til Suður-Kóreu.

Þessi málsgrein gæti líklega eins verið á rússnesku, fyrir marga samborgara.
Höfum orðskýringar:
Ágústa Skúla: Óskaplega ástsæll leikstjóri sem hefur m.a. unnið með gífurlega stórum hluta áhugaleikara á Íslandi á síðustu árum við uppsetningar leikrita auk þess sem hún hefur haldið fjölda námskeiða um allt land.
Hrefna (Friðriksdóttir): Leikskáld og Hugleikari og vinkona Ágústu sem hefur m.a. skrifað og unnið tvær sýningar með Ágústu, síðast leikritið Bingó sem Hugleikur og Leikfélag Kópavogs sýndu síðastliðið vor.
Bandalaxþing: Aðalfundir Bandalax íslenskra leikfélaga, haldið einu sinni á ári. Þar hittast áhugaleikarar frá öllu Íslandi, ræða lífsins gögn og nauðsynjar, kjósa yfir sig stjórnir og faðmast ógurlega.
Skólinn: Leiklistarskóli Bandalax íslenskra leikfélaga, var haldinn í 11. skipti í ár. Stendur í 10 daga í júní, hefur hingað til verið haldinn á Húsabakka í Svarfaðardal. 3-4 námskeið í leiklist, leikstjórn og öðru leikhústengdu haldin samhliða. Um 50 manns koma saman, gista í pínkulitlum herbergjum með táfýlu a nóttunni og læra leiklistartengt á daginn. Og faðmast ógurlega.
Mementógengið til Suður-Kóreu: Memento mori er leikrit sem áðurnefnd Hrefna skrifaði og áðurnefnd Ágústa leikstýrði árið 2004. Uppsetning þessi tókst með eindæmum vel og hóf stykkið sigurför sína um heiminn á Leiklistarhátíð á Akureyri 2005, færði síðan aðeins út kvíarnar í fyrra og fór til Færeyja, og nú ætla menn endanlega að missa sig og fara á alþjóðlega leiklistarhátíð IATA (Alheimssambands áhugaleikfélaga) í Suður-Kóreu. Þau fara í næstu viku og eru búin að lofa að vera dugleg að skrifa dagbók á alnetinu, sem ég mun linka á.

Og þá vita það allir.

17.7.07

Allir geraða!

Þetta árið virðast litlu systur minnar kynslóðar ætla að sjá um barneignirnar, en litlu systur Heiðu og Berglindar ætla að fjölga sér með haustinu. (Ekki mín, til að fyrirbyggja allan misskilning.) En næsta ár ætlar eldri kynslóðin að hrista af sér slyrðuorðið og taka þetta með trukki. Siggadís og Einsi hafa opinberað væntanlega fjölgun í janúarlok, eftir margra ára pásu beggja vegna. Fyrir vissi ég um ein hjón, á okkar aldraða reki, sem ég þekki í Montpellier.

Svona byrjar aldrei án þess að komi skriða.
Best að fylgjast grannt með bloggum næstu mánuði.

Og best að halda áfram í handritasafninu með H.

16.7.07

Hálfvitaplögg vesturum

Rak augun í að þann 20. júlí munu Hinir Ljótu Hálfvitar spila í félaxheimilinu á Patrexfirði. Skora á stórfjölskylduna mína þeim megin að drífa sig og sína, alla sem eina, þar sem á ferðinni er hreint stórkostleg stórsveit sem mér segir svo hugur um að ættingjar mínir westra, og þeirra fylgdarlið, hefðu mikið gaman af.

Nú eru þeir búnir að gefa út disk. Sem ég hef nú svo sem ekki mikið verið að plögga, þar sem ég ætla helst að geta brúkað hann í jólagjafir til þeirra sem ekki eru innstu koppar í búri. En ég er búin að eignast hann og hlýða á með mikilli innlifun. Og Freigátan fór mikinn í dansi og heddbangi.

Nú hafa örlög mín lenngi verið að vera jafnan stödd einhvers staðar annars staðar á landinu en Hálfvitarnir ljótu, og sýnist mér á prógramminu þeirra að svo ætli áfram að verða enn um sinn. En þá er nú ljómandi gott að eiga diskinn góða og geta spilað hann sungið með, svona á meðan maður blússar um þjóðvegina, ævinlega í öfuga átt við hina Hálvísku Hljómsveitarútu.

Svo vona ég bara að þeir haldi áfram, sem lengst og mest. Ekki síður í útgáfustarfseminni en tónleikahaldi. Því auk þess að semja eins og brálæðingar, lag á dag, liggur við að manni sýnist, veit ég til þess að eitthvað af þeim á um 20 ára birgðir af uppsöfnuðu efni sem minnst hefur ratað í hljóðritanir.

Nennið þið Vitar!

Dandalaveður

Mikil ógurleg svakablíða er búin að vera, og er enn, hér á suðvesturhorninu. Nei, þetta hljómar nottla bara eins og lygi. Svo hélt ég að hún ætlaði að fylgja okkur norður um næstu helgi, en þá er bara spáð rigningu bæði þar og hér. Þetta hlýtur nú bara að vera einhver della.

Fórum á rúntinn um Snæfellsnesið á laugardaginn. Það var svaka gaman, æðislegt veður, en næst tökum við með okkur tjald og eina viku, eða svo.

Rannsóknarskip og Freigáta hafa huxað sér til sunds núna fyrir hádegið, en hér sit ég og bakast í vinnunni, en er reyndar alveg megadugleg. Er að verða búin að skrá öll ný og nýfundin handrit í safnið. (Nema helv... einþáttungana. Djö... Hugleikur... sá bunki er alltaf eitthvað svo... blekkjandi...) Sé samt fram á að geta huxanlega komist langt með allsherjaryfirferð mína um hillur og skráningar handritasafns áður en Ármennið mætir til leix.

Það væri nú skemmtó.