4.2.05

Eyddi gærkvöldinu, hálfsofandi, í að horfa á sósíófóbana í American Idol. Í smásálarfræðilegum pælingum. Fullt af fólki var búið að telja sjálfu sér trú um að það gæti sungið og orðið poppstjörnur. Alltaf dreymt um að verða söngvarar. Allir sögðust hafa sungið frá því í frumbernsku og eiga engan annan draum í lífinu en þann að verða Ædol. Vá hvað það hlýtur þá að vera mikið af frústreruðu fólki í Ammríku.

Enda brugðust margir undarlega við þegar dómnefnd var ekki sammála þeim um ágæti hæfileikanna. (Þó svo að ljóst væri, algjörlega, að þeir gætu það ekki.) Er ammríski draumurinn með allri sinni yfirgengilegu sjálfsánægju kannski orðinn að einhverri borderline persónuleikaröskun?

Og nú standa fyrir dyrum inntökupróf í Leiklistardeild Listaháskóla Íslands. Og sósíófóbarnir farnir að láta á sér kræla á spjallinu á leiklistarvefnum og farnir að tala, fyrirfram, um klíkuskap. En aldrei slíku vant eru leikaranemar farnir að svara fyrir sig, og það finnst mér skemmtilegt.

Mér finnst þessi umræða alltaf jafn skrítin. Og hún kemur alltaf upp. Auðvitað er taugaveiklandi að fara í þessi próf, ef ég man rétt. Maður verður óskaplega skrítinn í orði og æði á meðan maður er að bíða eftir helv... upphringingunum.

Það liggur nú samt alveg ljóst fyrir hvers vegna fólkið sem stráir um sig samsæriskenningunum eftirá kemst ekki inn í leiklistarskólann. Ég held menn þurfi að vera sæmilega sterkir á geðinu til að vera í þessu námi og sósíófóbar hafa líklega lítið í það að gera. Kannski ætti valnefnd hreinlega að hafa kommentarétt, svo sem eins og í ædolinu. Hún gæti þá bara hreinlega sagt þeim sem eru vond leikaraefni frá því og útskýrt hvers vegna. Kannski myndu þá einhverjir finna köllun sína annars staðar.

Annars held ég að staðreyndablinda á eigin hæfileikaskort sé komin úr tíðaranda alheimsfrekjunnar. Ammríski draumurinn hljóðar uppá það að hver sem er geti "slegið í gegn" í hverju sem honum sýnist ef hann bara trúir nógu mikið á það. Þetta er síðan náttlega bara tómt kjaftæði. Menn getur alveg langað allan skrattann sem þeir hafa ekki baun af hæfileikum í. Og ef menn eyða ævinni í að einblína á það þá geta þeir alveg misst af allskonar sem hentar þeim betur. Og svo náttúrulega þetta með huxanavilluna sem felst í því að lífið sé alls ekki þess virði að lifa því nema menn "slái í gegn" í einhverju.

Og svo er náttlega inn að vera artí og frægur. Með öðrum orðum, leikari eða söngvari. Alveg burtséð frá því hvort mönnum finnst í raun og veru gaman að leika eða syngja. Auðvitað fá menn gjarnan mikið lof og klapp á rassinn þegar vel gengur, en að sama skapi eru menn rifnir á hol þegar þeir leika/syngja illa. Og svo sýnist ævinlega sitt hverjum. Þess vegna hlýtur valnefnd leiklistardeildar að vera nokkur vandi á höndum að greina hafrana frá sauðunum, þ.e.a.s. þá sem raunverulega langar í þessa menntun frá þeim sem hafa látið blekkjast af hæpinu og halda það bara.

Ég er allavega dauðfegin að valnefnd hafði fyrir mér vitið á sínum tíma. Mér hefði leiðst í leiklistarskólanum, finnst ekki ÞAÐ gaman að leika. Hins vegar hefðu menn mátt láta sér detta í hug dramatúrgíubraut fyrr. Þar hefði nú huxa ég verið gaman. En núna nenni ég ekki að sækja um í annað BA.

2.2.05

Vér ítrekum:
Hver tók ostinn minn, eftir Báru Sigurjónsdóttur verður flutt af Lúðrasveit Reykjavíkur í Borgarleikhúsinu í kvöld klukkan 10. Mæti allir sem vettlingi geta valdið og misstu af síðast.

Sjálf veld ég reyndar engum vettling, vegna leikæfingar.

Í gær var haldinn fyrsti félagslegi samhristingur í Aðfaranæturhópnum, gerðumst við þaulsetin á Andarunganum, hinum ljóta, og varð af því hin besta skemmtan. Svo góð, meiraðsegja, að ég þurfti að sækja bílinn minn niður í bæ í morgun. Aldrei skyldi maður vera á bíl. Það er óttalegt vesen.

Og í vorum híbýlum er ekki lengur ein einasta rússnesk ljósakróna! Hann Árni minn sveiflaði skrúfjárninu í gær og setti upp ljós fyrir mig. Eins og að drekka vatn og án þess að mæla æðruorð. Rannsóknarskipið er hetja mánaðarins, eins og reyndar flestra mánaða hingað til og hér eftir. En nú þarf hann víst að fara heim til sín, annað hvort í kvöld eða fyrramálið og það verður nú Ljótan. Og verður þá heldur ókátt í höllinni þar sem ólíklegt er að ég nái að berja hann augum aftur fyrr en einhvern tíma hérumbil um páska.

Reyndar lítur út fyrir öld annríkis á næstunni, ný aukaverkefni eru að skjóta upp kollunum hér og þar og sum hver hafa þau deddlæn. Líklega fer að koma tími á að kaupa skrifborðsstól og rigga upp heimaskrifstofunni, sem hingað til hefur verið notuð til að þurrka þvott.

1.2.05

Það er bara kominn febrúar! Allt í einu! Það er alveg að koma sumar!

Var að þvælast um Hugleixvefinn í gær og fann þar fagran söng míns einkatenórs, og annarra. (Ef grannt er hlustað má greina hljómfagra heiðríkju Rannsóknarskipsins, innan um Rúnar Togga og Sævar.)

Það er helst í fréttum að í gær fjárfesti ég í ryksugu, til að gleðja móður mína.

Og svo heyrði ég einn góðan á leikæfingu í gærkvöldi.
Heyrt í saumaklúbbi:
Kona: Heyriði, stelpur, vitiði hvað? Við erum þrettán! Alveg eins og dvergarnir sjö!

Orð daxins er fordild.

31.1.05

Og nú þarf að plögga smá. Fyrir þá sem af misstu í síðustu umferð:

Sinfónían Hver tók ostinn minn? eftir Báru Sigurjónsdóttir verður flutt (ásamt fleiru) í Borgarleikhúsinu miðvikudagskvöldið 2. febrúar klukkan 22.00. Tónleikarnir eru hluti af Myrkum músíkdögum. Verkið er frumraun höfundar á tónsmíðasviðinu og er byggt á amerísku sjálfshjálparbókinni "Who moved my cheese?"

Aðeins er áætlaður þessi eini flutningur. EVER. Svo ef menn vilja verða vitni að þessu, drífa sig núna!

Og

Sýningar eru að hefjast aftur á Memento Mori. Gjöriðisvovel.
Komin að norðan og gerði góða ferð.
Hitti Rannveigu, vinkonu vora, og yngri son hennar sem er nýfæddur og fagur eftir því. Hann gerði móður sinni þann greiða að fæðast á afmælisdegi eldri bróður síns, þannig að hún Rannveig getur látið nægja eitt stórt barnaafmæli á ári í framtíðinni. Það er náttúrulega frekar snjallt.

Svo eyddi ég náttúrulega helginni í góðu yfirlæti hjá Rannsóknarskipinu mínu og Smábátnum og hafði þann fyrrnefnda meðferðis í bæinn.

Fyrir helgi átti ég líka langt og merkilegt samtal við systur mína, þá er elur manninn fyrir austan þessa dagana. Hún var uppi á háa c-inu, aðframkomin af samfélagslegri óþægð og skoðanagleði um hvað betur mætti fara fyrir austan. Þetta varð mér talsvert umhuxunarefni. Svona varð ég einmitt á því að búa á Egilsstöðum um tíma. Það varð mér einhvern veginn allt að skoðunum. Ég var hoppandi yfir bæjarmálunum, menningarhúsmálunum, að gamla mjólkurstöðin skyldi eiga að verða að verkfræðistofu, og svo mætti áfram lengilengilengi telja. Hefði ég haldið áfram að búa á Egilsstöðum hefði ég verið komin út í bæjarpólitík og í svona fimmtán nefndir að fáum árum liðnum. (M.ö.o., orðin faðir minn.) Það var eiginlega talsverð hvíld í því að flytja síðan aftur í höfuðstaðinn þar sem manni er slétt sama um næstum allt sem kemur manni ekki alveg þráðbeint við.

En hverju skyldi sæta þessi skoðanaveiki sem vér frenjur fáum þarna á heimaslóðum? Til að byrja með lét ég fara í taugarnar á mér slydduhátt Hérastubba. Menn höfðu jú alveg skoðanir, en flestir virtust takmarka tjáningu þeirra við kaffibollaraus og stöku baktjaldamakk. Fáir skrifuðu reiðar greinar (um neitt sem máli skipti) eða rifust í Svæðisútvarpinu. Fljótlega komst ég síðan að ástæðu þessa. Í svo litlu samfélagi getur maður nefnilega illa snúið sér svo mikið sem í hálfhring án þess að vera búinn að stíga ofan á tærnar á einhverjum. Og þar sem allt manns félagslíf og... tja bara líf, er undir fáum einstaklingum komið, þá eru þeir hlutfallslega margir sem maður vill ógjarnan pirra. Þannig fara skoðanir manns fljótlega að lenda í meira og meira mæli ofan í kaffibollunum.

Í framhaldi af þessu vangaveltum nú fór ég að spekúlera meira í stöðu brottfluttra. Ég hef ekki legið á þeirri skoðun minni að afskiptasemi slíkra af sinni fyrrverandi heimabyggð sé óviðeigandi og eflaust illa séð á svæðinu. Eða hvað? Þurfa kannski brottfluttir einmitt að vera málpípur fyrir þá sem ekki geta tjáð sig sökum nálægðar við menn og málefni á staðnum? Held svei mér þá að það geti verið að ég þurfi að skipta um skoðun og mæla með því að börnin beini sjónum sínum einmitt heim í Hérað og ibbi sig.

Þetta var hreppapólitík daxins.