2.3.10

Um listamannalaun og atvinnuleysisbætur

Netheimar loga eftir orðaskipti tveggja Þráinna á Bylgjunni um listamannalaun. Það sem mér finnst merkilegast í umræðunni er að listamannalaunum er líkt við atvinnuleysisbætur, og það ku eiga að vera þeim til minnkunnar. Að listamenn séu „afætur“ á samfélaginu.

Eins og atvinnulausir, þá?

Það finnst mér endurspegla mjög alvarlegt viðhorf. Ekki til listamanna, heldur til atvinnulausra og þeirra sem þurfa að þiggja bætur í einhvern tíma fyrir að teljast ekki nothæfir sem dyggir þrælar Mammons og kapítalsins.

Ég hef tvisvar verið á atvinnuleysisbótum í einhvern tíma. Í bæði skipti í Reykjavík. Í bæði skiptin tímabundið og sá fyrir endann á tímabilinu áður en það hófst. En í bæði skiptin var það einkar óskemmtileg reynsla, sérstaklega hvað varðaði samskiptin við þá stofnun sem með þau mál hefur að gera. Ég lýsti síðara skiptinu á kjarngóðri íslensku hér.

Það hefur löngum verið það ljótasta sem hægt hefur verið að segja um Íslending að „það sé ekkert hægt að nota hann.“ Nútímaútgáfan af þessu viðhorfi er einhvern veginn á þá lund að það borgi sig ekki að gera neitt sem ekki skilar sér, til gerandans sem einstaklings og til samfélagsins, í beinhörðum peningum. Verk sem ekki borga sig, helst margfalt, og það á skömmum tíma teljast einfaldlega „ekki gagnleg“ og þar með einhvernveginn syndsamleg og næstum bönnuð. Heilbrigðis- og menntastofnanir skulu standa undir sér. Sá ávinningur sem felst í heilbrigði og menntun á sál og líkama skiptir engu í „hagkerfinu“.

Menningargildi og rannsóknir? Hamingjusamt og réttlátt samfélag?
Hvað er hægt að græða á því?

Síðasta sumar var ég á atvinnuleysisbótum og ákvað að líta á þær sem listamannalaun. Kláraði t.a.m. tvö handrit sem ég hef verið að vinna í, svona annað slagið, síðan ca. 2002. Verða þau einhverntíma einhverjum til gagns? Skila þau hagnaði? Eru þetta verðlaunastykki?
Það veit andskotinn.

Ég veit hins vegar að ef ég hefði eytt þremur mánuðum í að skammast mín í sálinni fyrir að vera ekki gagnlegur launaþræll er ekki víst að tilvera mín hefði skilað neinu nema ama og leiðindum þareftir.

Eru listamannalaun „glorified“ atvinnuleysisbætur?
Eða eru atvinnuleysisbætur kannski rangnefnd listamannalaun?

Peningarnir eða lífið? Eru peningarnir kannski lífið?
Er þrældómur hjá auðvaldinu það eina sem er þessi virði að vinna að?
Er glæpur gegn hagkerfinu að gera hluti án þess að hagnast á þeim?
Er glæpur hagkerfisins að borga fólki stundum fyrir annað en það sem skilar sér í beinhörðum innflutningstekjum á næsta ársfjórðungi?

Þarna er efinn.

Er hrunið kannski eftir?

Ég veit ekki hvað borgar sig að pæla mikið í ESB núna. Heldur ekki hvað þessi Icesave-samningur á eftir að gera fyrir neinn. Heldur ekki hversu lengi þeir sem nú maka krókinn halda þeim peningum. Eða hversu lengi hinir endurreistu íslensku bankar lafa.

Fréttir af efnahagsástandi í útlöndum eru nefnilega svolítið pre-hrun. Menn tala um samdrátt. Það eru samt litlar fréttir. Það er enn að hægja á öllum "hjólum efnahagslífsins" allsstaðar. Sum ríki eru orðin mjög skuldsett vegna ofneyslu á öllum lífsins gæðum. Og maður hefur svolítið á tilfinningunni að á bak við tjöldin séu menn að djöflast við að búa til Icesave-ískar reddingar á málum.

Kannski var íslenska hrunið bara formáli. Allt efnahagskerfi vesturheims byggir á mjög fúnum stoðum og reiknikúnstum sem eiga sér hvergi fótfestu í neinum raunveruleika. Dæmum sem ganga ekki upp. Ekki náttúruvísindum heldur félagsvísindum. Sem eru ágæt fyrir sinn hatt, en mjög ung og óreynd sem fræðigrein. Lögmál efnahagskerfanna og peningamálastefna, eins og við þekkjum þau, byggja ekki á sérlega langri reynslu. 100 til 200 ár, eða svo? Þess vegna hljóma fræðikenningar hagfræðinga og viðskiptafræðinga svona misvísandi. Það eru allir að einhverju leyti að giska.

Ég held það geti verið að vesturheimska hrunið sé eftir. Í Evrópu og Norður Ameríku er yfirbyggingin löngu búin að yfirkeyra grunnstoðirnar. Japan og Kína hafa ekki farið varhluta af þenslunni heldur. Og loftbólur hafa tilhneigingu til að springa.

Líkindin við ástandið á fyrstu árum eftir fyrri heimsstyrjöld eru mjög sláandi, hvað sem maður skoðar í sögunni. Og hvað gerðist 1929?

Ég held það geti verið að bráðum verði efnahagslega öruggast að búa í Afríku.

1.3.10

Styrkumsóknir!

Grrrrr ... rannsóknargildi ... rannsóknaráætlun ... Langalanga heimildaskráin ...

Merkilegt að mér finnst ég vera nýbúin að þessu. En eiginlega hlýtur að vera soldið síðan þar sem ég sé núna hversu feitt síðustu umsóknir sökkuðu. Pfff.

Eins gott að gera þetta almennilega núna.
Þá er séns í helvíti að þess þurfi ekki aftur allllveg strax.

Grrrr. ... sæk upp ... meira kaffi!