8.10.10

Föstudagur!

Og í dag ætla ég bara að vinna fram að hádegi. Fyrirlestur með einhverjum þrælmerkilegum gaur (sem ég man ekki hvað heitir í svipinn og nenni ekki að fletta upp) í Tjarnarbíó um hádegið. Fer með kúrsi sem ég er í, ekki síst til að sjá inn í Tjarnarbíó eftir allt uppáflikkelsið. Ferlega verður það nú kósí.

Annars veit ég ekki hvort einhver breikþrú gerast núna fyrir hádegið. Er eiginlega með allt á stoppi þangað til ég verð búin að hitta leiðbeinandann minn á þriðjudaginn. Þarf samt að halda áfram að lesa Postdramatic Theatre. Sem er reyndar aftur byrjað að hafa þau áhrif að það sem mig langar mest að fjalla um í ritgerðinni minni eru upplestur Rannsóknarskýrslunnar í Borgarleikhúsinu og framboð Besta flokksins. Sem leiklistar- ellegar performans-fyrirbæri. Það verður kannski bara hryggjarstykkið í dæminu?

Svo er ég að plana svakalegt útihlaup eftir fyrirlestur og kaffihúsakjaftæði með bekknum mínum. Ætla stóra hringinn hvað sem tautar og raular. Er orðinn hundleið á að vera svona úldin og með október og ætla að reyna að hlaupa hann úr mér.

Svo þyl ég eins og möntru: Ég ætla ekki að hafa skoðun á neinu í dag. Ommmmm.

7.10.10

Snúið

að reyna að sneyða framhjá pólitíkinni þessa dagana. Það er búið að segja ýmislegt gáfulegt undanfarna daga. Og jafnmargt vitlaust. Og það gengur alveg þvers og kruss á flokkslínur. Ég var til dæmis sammála Bjarna Ben í hádegisfréttunum. Ég held nefnilega að ríkisstjórnin þurfi að fara að ákveða hvort hún er markaðshyggju- ellegar velferðar og ganga svo alla leið í aðrahvora áttina. Alveg sama hvor leiðin er farin, ca. helmingur Íslendinga flýr land. Ekki mikið atvinnuleysi eftir það... En þetta tvístig er ekki að hjálpa neinum, held ég. Annaðhvort verða bankarnir bara að fá að vaða uppi og henda öllum út úr skuldakofunum sínum, eða þá að ríkið verður að hirða þá tilbaka og afskrifa draslið. Annaðhvort að sitja með þennan gjaldeyrisvarasjóð og vona að markaðurinn reddi þessu, eða eyða honum í skuldir, heilbrigðis og menntakerfi og framkvæmdir á vegum ríkisins.

Sjitt hvað er erfitt að halda sig frá bölvaðri tíkinni.

Annars er október kominn. Ég er krónískt syfjuð og löt. Sem þýðir bara eitt. Maður verður að taka í rassgatið á sér og reyna að hunskast út að hlaupa um helgina. Eða kannski bara labba? Þrusa uppá Esju með börn og buru í góðviðrinu á sunnudaginn? Er það deler?

Svo er jafnvel pæling að við frestum Kanadaför um 1 ár, frá 2012 til 2013. Nokkur munur á því? Heimsendir 2012 og sólstormur 2013? Það munar hins vegar milljón hvort Hraðbátur verður enn á dagvistunaraldri eða hvort hann verður orðinn 5 ára sem skilar honum inn í hið ljómandi skólagjaldalausa grunnskólakerfi Kanadamanna. Þá er líka orðinn séns í helvíti að ég verði orðin PhD sem gæti breytt einhverju uppá vesturheimska starfs/náms möguleika mína. (Því guð forði því nú að maður fái sér almennilega vinnu eins og allt eðlilegt fólk.)

Já, svei mér þá ef þetta er ekki bara hugstrump.

Því þrátt fyrir þessa útgjaldaminnkun kostar þetta nú dáldið. Einhverjar millur í skólagjöld fyrir Rannsóknarskipið og gott er að geta haft aðeins rúmt um sig þegar maður er í landi sem maður kann ekki á. Og kannski getum við skrapað saman aðeins meiri péningum á þremur árum en tveim. Tíminn líður nefnilega ansi hreint hratt, á gervihnattaöld.

Var með október í morgun og nennti engan veginn í skólann fyrr en eftir hádegi. Til háborinnar skammar, auðvitað, en nú er kennarinn með nýjasta uppkast að ritgerðarfjáranum og ég þarf „bara“ að vera að lesa og grufla. Þetta tekur allt gríðarlega langan tíma. Svo kemur þetta svona í skrykkjum. Allt í einu fattar maður uppá einhverju sniðugu og skrifar haug. Daginn eftir fattar maður að það er allt í ruglinu og hendir því aftur. Og svona gengur þetta. Enda útskrifast héðan aldrei neinn.

Já, svo er heimaverkefni fyrir leikritunarnámskeið! Hjá Þorvaldi Þorsteins! Sem ég er búin að skrópa í tvo fyrstu tímana af og ætla að ullast til að mæta loksins í á laugardaginn!

Best það gera ÞAÐ!

6.10.10

Skoðanirskoðanir

Hroðalega fór skoðanaveikin alveg með gærdaginn. Sennilega væri búið að margfalda almenn afköst í þjóðfélaginu ef menn gætu bara hunskast til að fella niður allar skuldir af íbúðarhúsnæði. Sennilega yrðum við enga stund að vinna upp "tapið" af því, þar sem þá gætu allir farið að vinna í vinnunni.

Og hvað er með að ríkið myndi tapa á því? Eiga ekki bankahelvítin þessi lán? Sem afskrifa milljarða og skila hagnaði?

Nei, ég ætla ekki að byrja.
Verð að reyna að gera eitthvað í dag.

Það sem fyrir liggur er að lesa eina bók. Nokkuð vel. Fyrr en ég veit nokkuð nákvæmlega hvað stendur í því merkisrit Postdramatic Theatre eftir Hnas-Ties Lehmann gerist ekkert af viti í minni vinnu.

Anda inn.

Anda út.

Slökkva á Fésbók og fréttamiðlum.

Amen.

5.10.10

Jamm

Ég er ekki að nenna að blogga um pólitík. Pólitíkin mín er orðin svo yfirgripsmikil að ég er að leggja drög að bók sem verður talsvert þykkri en doktorsritgerðin mín og tekur til mannkyns alls frá upphafi þeirrar skepnu og til vorra daga og alræða fanta og sækópata á öllum tímum.

Nú búum við við grímulaust auðræði og allt á eftir að verða miklu miklu verra áður en það byrjar að verða betra. Þeir sem vilja skrimta ættu að athuga hvort þeir eiga ekki einhversstaðar landskika þar sem er hægt að rækta kartöflur, hafa nokkrar hænur og jafnvel eina kú.

Ég er annars með hausverk. Búin að vera lengi. Veit ekki hvað það á að þýða. Kannski er stressið loxins að ná í skottið á mér aftur. Hef annars hvorki fengið vöðvabólgu eða stresshausverk síðan ég bjó í Frakklandi, lærði að labba hægt, gera lítið og standa í biðröðinni á pósthúsinu.

Jamm, líklega kominn tími til að flytja úr landi aftur.

Yngsti fjölskyldumeðlimurinn, sem ævinlega hefur verið meðfærilegur og hvers manns hugljúfi, hefur tekið upp nýja ósiði. Nú reynir hann að fá sínu framgengt með hávaða. Hreinlega orgar hástöfum þar til hann fær það sem hann vill. Og auðvitað verður honum alveg kápan úr því klæðinu, sérstaklega fyrir 8 á morgnana. Seinnipartinn er svo reynt að halda í hemilinn á því, og gengur misvel.

Jamm, líklega kominn tími til að flytja úr landi þar sem börn læra víst ekki aga á Íslandi.

Enda ekki von á góðu þegar fyrirmyndin hangir á internetinu og ekki byrjuð á vinnunni sinni þegar klukkan er að verða hálfellefu.

Jamm og já.

4.10.10

Gloppótta bloggritúalið

gefur góða mynd af því hversu mikið ég er í vinnunni þessa dagana. Síðasta vika fór í horið og þar með er ég opinberlega komin 2 vikur á eftir áætlun. Aukinheldur hefur bæst við einn fyrirlestur og hugmynd að öðrum til að sækja um að komast á eina ráðstefnu, þannig að október fer í uppvinnslur og aukaverkefni. Þannig er þetta bara.

Annars var ég með ormana á Egilsstöðum um helgina. Var alveg búin að gleyma hvað Héraðið er gjörsamlega gargandi brjálæðislega fagurt í haustlitunum. Alveg væri ég löngu flutt... ef ekki væri fyrir eineltið í skólanum og endalausu fjárans minniháttarkenndina í bæjarbragnum. Egilsstaðabúar eru nefnilega and-Þingeyingar. Það er ekki bara bannað að vera montinn, það er líka bannað að hafa áhuga á einhverju og vilja gera vel það sem maður gerir. Tala nú ekki um að reyna að finna uppá einhverju nýju og stunda framfarir. Þá eru menn að „þykjast vera eitthvað“ og eru plaffaðir niður! Samt ekki opinberlega, það gerist yfir kaffibollum á bakvið eldhúsgardínur. Og svo er einelt. Og allir jafnnojaðir.

Það er reyndar hægt að komast í kringum þetta. Til dæmis með því að búa í gamla bænum, helst á Laufásnum, og senda börnin í skóla norður í Fellabæ eða inn á Hallormsstað.

Ég velti því oft fyrir mér hvort hægt væri að finna flöt á því að búa á Egilsstöðum. Sérstaklega þar sem krakkarnir alveg elska að vera þar og nálægt við afa og ömmuhjónin væri vissulega plús. Ekki veit ég reyndar hvort unglingurinn myndi vilja vera þar, en það er þarna auðvitað ágætis menntaskóli, sem Rannsóknarskip gæti kannski kennt í... og svo er þetta nú allt í frekar fjarlægri framtíð. Kannski er stærsta spurningin hvað ég myndi gera þar. Þyrfti eiginlega að vera orðin alveg sjálfbær rithöfundur og fræðimaður. En verður maður ekki hálfgeðbilaður á að reyna það, þarna? Svo er auðvitað hin hugmyndin okkar Rannsóknarskips... að stofna bókabúð/forlag. Þarna væri nú sennilega alveg hægt að forleggja og selja eina og eina bók, sosum. Tómt atvinnu- og íbúðarhúsnæði í ferkílómetravís.

Neinei. Nú erum við komin dáldið inn í framtíðina. Planið er að vera hér þennan vetur og næsta og síðan næstu tvo þaráeftir í Vancouver. Sennilega alveg nóg að vera búinn að skipuleggja sig fram til 2014.

En það er nú gaman að eiga sér allskonar draumóra.

Best að skrifa eitthvað gáfulegt um Postdrama, snöggvast.