24.12.09

Gleðileg jól...

...og farsælt komandi ár...
...þökkum liðið...
...bestu jólakveðjur...
frá flotanum á Ránargötunni.

23.12.09

Er stemming í bænum?

Ég er ekki frá því að félag kaupmanna á Laugaveginum hafi gert einhverja ógurlega samninga við Kastljósið. Samkvæmt því er "svaka stemming" á Laugaveginum og menn "láta kuldann ekki á sig fá."

Ja, það var alveg stemming í friðargöngunni, sko. Magnað að hlusta á predikun Einars Más á Austurvelli. En kuldinn "fékk nú samt alveg á" menn, og í bakgrunninum á Kastljósinu sér maður nú aðallega fólk að flýta sér og viðmælendur eru með munnherkjar. Þetta er kannski líka svona "stemming" eins og þeir segja alltaf að sé á menningarnótt og 17. júní, þegar það þýðir að maður kemst hvorki afturábak né áfram fyrir fólki, sér engan sem maður þekkir og kemst ekki að til að sjá neitt sem mann langar.

Alltaf sama haugalygin í þessum fjölmiðlum. Á Þorláksmessukvöld er ekkert endilega "mesta stemmingin" í því að vera enn að versla.

Hér er bara verið að tjilla. Markvisst byrjað að seinka háttatíma yngri kynslóðarinnar "örlítið". (Stefnum á að fá hugsanlega að sofa alla leið til 8 á morgnana yfir hátíðarnar.) Rannsóknarskip rannsakar eftirrétti. Hann fær að sjá um það á aðfangadagskvöld, þetta árið.

Svakalega er jólalegt á Egilsstöðum. (Ef Kastljósið er þá ekki að ljúga því.) Og Kiddi Vídjófluga er nú alltaf heimilislegur. (Nú fer ég bráðum að grenja úr heimþrá.)

En hér er allt bara ferlega tilbúið. Smábátur er í útláni hjá afa sínum og ömmu og kemur heim á morgun. Við erum bara að bíða eftir því að The Nightmare Before Christmas byrji í RÚV (Ekki að hún sé ekki til hérna í tveimur eintökum og miiiikið spiluð allan ársins hring...) og ætlum að horfa á hana áður en börn verða barin í bólin.

Jólakortin fóru ekkert í ár.
Jólakveðja birtist hér einhverntíma á morgun eða hinn.

22.12.09

Jólafýla og meðvirkni

Ég las einn magnaðasta jólafýlupistil sem ég hef lengi séð, um daginn. Hann Björgvin Valur (sem mér finnst reyndar oftast snjall) vill meina að aðventan dragi fram dauðasyndirnar 7 í öllum.

Þetta viðhorf hef ég oft heyrt. Og einu sinni var ég líka mjög á þessari skoðun. Þangað til ég fór að skoða málið. Komst til dæmis að því að þetta ætti ekki við um sjálfa mig. Mér þykið aðventan alveg æðislegur tími, en ég leggst ekkert í leti, ét ekki yfir mig, eyði ekki um efni fram, frekar en endranær, og stunda á flestan hátt sömu lifnaðarhætti og venjulega. Ef eitthvað er dunda ég meira með börnunum mínum, ég tek reyndar til fyrir jólin... aðallega vegna þess að það er ekki vanþörf á, og svo reyni ég að komast á einhverja tónleika, bókaupplestur eða annað menningartengt, kannski, einhverntíma. Og þegar ég hugsa út í það þekki ég engan sem hagar sér á þann hátt sem jólafýlupúkarnir fjargviðrast yfir. Þekki engan sem ekki les jólabækurnar sínar upp til agna. Upplifir desembermánuð á óhömdu neyslufylleríi með sjálfsásökunar og stresskryddi.

Ég hef líka tekið eftir því að jólafýlupúkarnir undanskilja oftar en ekki sjálfa sig. Jólastressið sem allir eru að tala um býr líka aðallega í útvarpinu. Jú, það eru kannski margir í kaupfélaginu og kringlunni, síðustu dagana fyrir jól, en mér sýnast nú yfirleitt flestir vera glaðir, bara. Og gjafainnkaup held ég að snúist hjá fæstum um að græðga á visa allt flotta dótið sem þeir hafa séð auglýst. Mest gaman er að finna eitthvað einstaklega snjallt (og helst verðlagt innan skynsamlegra marka) handa hverjum, sem viðkomandi vantar og langar í, án þess að hann viti það. Svoleiðis gjafir er líka mest gaman að fá.

Staðreyndin er sú að neyslufíklar, í hvaða neyslu sem er, nota öll tækifæri til að ofneyta. Hvort sem menn eru alkar, kaupalkar eða átfíklar. Þeir nota aðventuna sem afsökun. Eins og alla aðra tíma. Og það verða þeir sjálfir að gera sér grein fyrir og díla við.

En svakaleg má nú vera meðvirkni samfélagsins ef menn vilja helst leggja niður aðventuna til að forða þeim frá freistni?

Takk fyrir ábendingarnar!

Síðasta fyrirspurn bar gríðarlegan árangur, tillögur hrönnuðust inn á facebook og eftir ýmsum leiðum. Þessi rannsókn verður nú auðleyst ef ég get brúkað samfélagið svona, til leiðbeiningar þegar mér sýnist.

Upp er annars runninn síðasti dagurinn í vinnunni. Ég hef grun um að við Palli Skúla séum ein á háskólasvæðinu í dag. Ég ætla að klára drögin að þessum kafla sem ég ætla að smíða í janúar, senda leiðbeinanda, og kalla það svo gott fyrir jól.

Ekki þarfyrir að jólin eru alveg komin heima hjá mér. Eftir að pakka inn nokkrum gjöfum og kaupa í matinn. Litlu ormarnir eru á leikskóla í dag en fá frí frá og með morgundeginum til 8. jan. Þá ætlum við loksins að lufsast aftur að austan.

En hlaupaveðrið hefur víst yfirgefið austfirðinga, svo ekki er víst að maður taki neina hringi á íþróttavellinum í þessu stoppi. Í staðinn ætla ég að vera ferlega dugleg og fara út á eftir, helst líka á morgun og alla jóladagana. Stefni á að missa svona 2 kíló um jólin. Ég er ekki klikkuð. Þetta er svolítið útpælt. Einu sinni fór ég nefnilega út að hlaupa fljótlega eftir morgunverð með amerískum pönnukökum, beikoni, sírópi og öllu tilheyrandi. Skemmst frá því að segja að ég hef sjaldan átt jafnlétt með að hlaupa 10 kílómetra. Gjörsamlega full af orku.
Svo planið er að vera dugleg að nota hitaeiningarnar um jólin.

Fyrir austan má síðan reikna með að það þurfi talsvert að leika við ormana úti í snjónum. Þau eru alla jafna mjög dugleg að leika sér úti, en þegar á Austurlandið kemur keyrir yfirleitt virkilega um þverbak. Þar eru hundar og kettir á hverju strái, ömmuróló, Steinaróló, leikskólaróló, já, og svo bara að þvælast út um allt að leita að fleiri hundum, köttum og rólóum.

Það er sem sagt ekki stefnt á nein sérstök rólegheit um jólin. Enda, nóg gert af því að sitja á rassinum á þessu ári.

Jæjah, best að kláretta!

21.12.09

Ef leikhúsnörrar vildu vera svo vænir að auka mér leti?

Ég fékk alveg hreint hroðalega góða hugmynd... að mér finnst, allavega.
Ég er að drafta kafla um orðræðugreiningu í rannsóknina mína sem ég ætla að ljúka við í janúar. Er búin að viða að mér efni úr nokkrum áttum, með nokkrum mis-mismunandi aðferðafræðum, aðallega til að greina einhverskonar valdboð eða valdastrúktúr í orðræðu.

Ofboðslega góða hugmyndin gengur útá að velja einn leiktextabút, einhvern vel samfélagsádeiluþjappaðan, eða ekki, íslenskan, frá allra síðustu leikárum, og brúka hann sem dæmi og beita þessum aðferðum á hann í gegnum allan kaflann.

Spurning dagsins er: Hvaða textabút, úr hvaða leikriti, ætti ég að nota?
Ég er búin að hugsa mig um í heilar 5 mínútur... og það er bara ekkert komið.

Einhverjar tillögur?

20.12.09

Að versla ekki við glæpamenn

Best að skrifa skýrslu um hvernig hefur gengið að versla ekki við neins konar glæpamenn fyrir jólin. Jólagjafir eru nánast allar komnar í hús og hjásneiðing hefur gengið vel.
Tveir pointerar: Á Suðurlandsbraut 8 er verslun sem heitir Extrakaup. Þetta er aðallega dót, en heilmargt af því mjög skemmtilegt og kostar lítið. Til dæmis ljómandi búð byrir jólasveina...
Svo er það jólabúð UNICEF á Laugavegi 42 uppá annarri hæð. Flottir hlutir og maður veit að ágóðann fær ekki einhver ríkur (eða hálfgjaldþrota glæpahundur) í vasann.

Jólamatarverslun verður síðan gerð í Krónunni og Nóatúni. Ekki að ég búist við að Kaupásmenn séu minni glæpamenn en Hagamenn, en einn er munurinn. Ég veit ekki hverjir þeir eru. Ég hef aldrei haft nokkurn einasta áhuga á því hvað Jóhannes í Bónus eða hans slekti gerir við sig, en einhvern veginn hefur öll þeirra tilvist troðið sér inn í vitneskjulíf sitt. Aðallega í formi þess sem þeir hafa veifað oflífinu og eyðslunni, í gegnum fjölmiðlana sína, framan í skítblankt smettið á mér í gegnum tíðina. Mér var svosem sama. Þangað til ég komst að því að þetta voru peningar minnar framtíðar, sem þeir voru að bruðla með.

Svo nú versla ég við Kaupás. Þangað til Högum hefur verið skipt upp í frumeindir sínar og eignarhaldi á ótrúlega marga. Þá verður Kaupás sveltur.
Verslanakeðjur eru handbendi Zatans.