21.1.06

+8

Já, honum Godoti leiðist ekki Jóðlífið. Fer að sækja um fyrir hann sem ævifélaga í Allt of langt gengið.

Nú er hann orðinn vatsberi. Talsvert loftkenndari og óútreiknanlegri persónuleiki þannig að nú fyrst er ómögulegt að segja upp á hverju hann tekur... Kannski líklegri til að verða kvenkyns sem því nemur?

Og hann missti af stórskemmtilegum fótboltaleik í dag. Rannsóknarskip fór með mig í langan bíltúr með holum og hraðahindrunum í dag til að reyna að láta hann ná leiknum á morgun. Ekki lítur það nú út fyrir að ætla að hrífa neitt.

Annars hefði þessi helgi nú verið hin ákjósanlegasta. Smábátur í láni hjá ýmsum ættingjum og við bara hérna tvö að dingla okkur, bæði komin í þýðifrí og hefðum ekkert betra að gera en að skreppa aðeins uppá fæðingardeild. En Kafbátur GO er greinilega þegar farinn að þróa með sér hegðunarveilur.

20.1.06

Godot

Af gefnu tilefni hefur verið skipt um örnefni á Kafbátnum.

Óska landsmönnum öllum annars gleðilegs Þorra, sérstaklega þeim sem ætla að blóta honum í kvöld. (Sem mig grunar að séu m.a. foreldrin mín.)

Í tilefni daxins ætlum við að panta pizzu. Þjóðarrétt heimsbyggðarinnar.

Tor

Kafátur steinsvaf í mónitornum á meðan við Rannsóknarskip spiluðum kotru. Undir lokin tóxt þó að fá hann til að vakna nógu mikið til að gefa frá sér nokkur geðvonskuleg spörk til að sýna fram á að hann væri bara alveg við fulla heilsu.

Var annars að skoða bíóauglýsingar áðan og komst að því að sjaldan hafa verið jafnmargar myndir í sýningum, eða að koma, í einu sem ég hef viljað jafn afgerandi EKKI sjá. Ég vil ekki sjá Harry Potter 4. Hálfvitalegt að ætla að niðursjóða þá bók í eihverja 3 tíma. Glætan. Það sama á við um Memoirs of a Geisha. Og Pride & Prejudice, auk þess sem Jennifer Ehle og Colin Firth ERU Elizabeth og Darcy, og ekkert í heiminum á eftir að pína mig til setja einhver önnur andlit á þær persónur. Átti þá útgáfu einu sinni á spólum sem ég spilaði í gat og er nýbúin að eignast það aftur á DVD.

Er hjartanlega sammála Steven King-ísku vinnuaðferðinni. Sumar myndir komast bara ekkert upp með að vera mikið minna en 6 tímar. Og valda því alveg. Man t.d. eftir maraþonáhorfi á The Stand á sínum tíma, sem engum leiddist yfir. Og mér finnst heldur ekkert að efnið setji neitt ofan fyrir að heita sjónvarpsþættir frekar en kvikmyndir. Mörgum "efnum" hentar það nú bara hreinlega betur.

Annars er ég hálfsofandi og veit ekkert hvað ég er að huxa núna.
Gleðilega helgi.

+7

Í dag er afmælisdagur Láru ömmu minnar. Það myndi nú sjálfsagt gott á vita að eignast barn á afmælisdegi hennar, sem fæddi 16 stykki og fór létt með. En ekkert bendir til þess að það sé að fara að gerast. (Enda uppástendur unnusti minn að barnið skuli heita Bóndi, fæðist það í dag.)

Erum á leiðinni í mónitorinn. Það verður nú gaman að heyra í honum Kafbáti. En hann verður nú sjálfsagt bara sofandi, var með fótboltaæfingar á lifrinni minni, berjandi mig í botnlangann og nagandi á mér brisið í alla nótt. Og Rannsóknarskip vakti líka í alla nótt að klára þýðingu þannig að það eru sybbin hjónaleys sem eru að fara að villast um Landspítalann.

Og í kvöld verður gripið til þess þrælskemmtilega örþrifaráðs að horfa á The Descent. Mér skilst að sú mynd gæti alveg komið einhverju af stað.

19.1.06

Eitt fynd...

Um daginn var ég að taka upp úr einhverjum kassa. (Já, ég er ennþá að klára að flytja.) Í honum var svona eitt og annað heimilislaust. M.a. tarotspilin mín. Árni tók þau til handargagns og sagði: Svona verður fæðingin! Og dró... djöfulinn!
Og varð svolítið kindarlegur á svipinn.

Mér finnst reynar líklegt að það spil eigi við um mikinn meirihluta fæðinga. Svona akkúrat á meðan.

+6

Þá er kominn dagurinn sem hún Berglind spáði. (Það fer nú að verða fámennt eftir í veðbankanum.) Í dag átti líka merkilegur maður sem hét Eiríkur Stefánsson, og var fjölskylduvinur hjá afa mínum og ömmu, afmæli. Allt virðist þetta nú bara ætla að koma fyrir ekki.

En í dag ætlar að heimsækja mig hún Stefanía móðursystir mín, á hverrar sjötuxafmæli ég sveikst um að eiga barn, þann föstudaginn 13. síðastliðinn. maður fer að hafa ýmislegt að svara fyrir.

Og ef helgin verður fyrir valinu er víst best að ljúka sér af fyrir kl. 16.00 á sunnudaginn. Annars er ekki víst að Faðirinn verði viðstaddur þar sem þá mun hefjast "Leikur Ársins" og fæðist barnið á meðan á honum stendur þarf það víst að heita í hausinn á þeim sem skorar næst þeirri mínútu. (Þó það verði Djíbril Cisse...)

Vandlifað.

18.1.06

+5

Jæjajæja. Mæðraskoðun í gær og allt í þessu glimmrandi velstandi. Ég er með næstum engan blóðþrýsting og barnið er með fínan hjartslátt og öflugar hreyfingar og ég gæti sjálfsagt gengið með í ár, eins og mamma han Jackie Chan er sögð hafa gert.

En, allavega, ljósmóðirin sem tók við mér eftir áramót hefur allan tímann staðið á því fastar en fótunum að ég myndi ganga viku til 10 daga framyfir. Og stendur enn við það og nú lítur út fyrir að hún hafi bara rétt fyrir sér. Fer í mónitor á föstudag, sem mér finnst mjöööög spennandi.

Annars átti Halldóra langamma afmæli í dag, en ólíklegt þykir mér að nokkuð gerist í tilefni þess. Enda er búið að tileinka henni aðra mjög merkilega manneskju, hana Halldóru litlu Malín sem er að brillera í leiklistarskólanum.

Og nú fer að styttast í að barnið æði úr steingeit í vatsbera. Það minnkar nú kannski líkurnar á því að það verði ferkantaður bókhaldari og viðskiptafræðingur eins og ég var einhvern tíma búin að spá.

17.1.06

Mikill ógurlegur gargandi snillingur

er hann nú annars hann Gunnar Hersveinn. Er alltaf að glugga annað slagið í Gæfuspor, bókin hans sem ég fékk í jólagjöf. Það er mikið góð og falleg bók og nærandi fyrir sálina. Hef lengi verið þeirrar skoðunar að það hafi verið mikil lukka að komast í kynni við þennan ágæta mann á menntaskólaárunum og ég held að heimspekikúrsinn sem ég tók hjá honum hafi örugglega verið það gagnlegasta sem ég lærði í menntó.

Enda alveg arfasniðugt að láta fólk á þeim aldri hittast einu sinni í viku til að hnakkrífast um heimsins gögn og nauðsynjar. Og þar að auki hrikalega gaman, ef ég man rétt. Ekki skal ég nú halda því fram að við höfum almennt orðið þrælflínk í gagnrýninni huxun og endurskoðun skoðanamyndana á þessum hálfa vetri, en ég held þetta hafi örugglega verið fínn upphafsreitur í þeirri þroskun.

Og heimspekilegir þankar á fallegu nótunum eru mjög gagnlegir í slagsmálum við kvíðaköst og þunglyndi. Jámjám.

+4

Getraun:

Af hvaða skemmtilegu plötu er þessi setning:
Þetta fer nú að verða svolítið þreytandi. Út með þig!

Best að skreppa í mæðraskoðun, segja farir sínar ósléttar og spyrja hvað þetta eigi eiginlega að fyrirstilla.

Annars, best að búa sig undir að 10 dagar gætu verið eftir enn, fyrst háhrín Heiðunornarinnar hreif ekki. Held samt stundum að ég hafi bara misst af þessu. Ekki fattað að þetta væru þeir verkir, og hreinlega gleymt að ýta. Eins hef ég áhyggjur af öllu, stóru og smáu, ef Kafbátur hreyfir sig ekki í tvær mínútur samfleytt er ég búin að vekja hann í áhyggjukasti. Hann kemur til með að fæðast mjög svefnvana og geðvondur. Eins ferst heimurinn ef Smábátur er ekki í fullkomlega hamingjusömu jafnvægi öllum stundum, ef ég gleymi einhverju eða týni, eða bara... ef eitthvað.

Er séns að fæðingarþunglyndið komi á undan fæðingu?

16.1.06

+3

Drídrídrí og drædrædræ.
Afmælisdagurinn hennar Heiðu runninn upp og lítið skeðst. Komin í endanlegt frí frá öllu í lífinu og hef nú enga ástæðu til að fara á fætur fyrr en ég þarf á fæðingardeildina.

En það er komin einhver geðvonska í mig og nú er HEIMURINN AÐ FARAST í hvert skipti sem eitthvað smottrí kemur upp á. (Eins og að tveir símar hringi í einu eða að ég finn ekki eitthvað STRAX.)
Úffpúff. Ekki öfunda ég Rannsóknarskip ef þessu heldur lengi áfram.

Best að reyna að halda bara áfram að sofa og vera með sem minnsta meðvitund.

15.1.06

+2

Fékk morgunmatinn í rúmið. Og nenni helst ekki að hreyfa mig þaðan fyrr en ég er búin að klára þessa þýðingu. Sem verður væntanlega sú síðasta sem ég tek að mér í bili, er loxins búin að skrá mig í frí frá því í nokkrar vikur.

Eitthvað fór aðeins af stað í gærkvöldi, ekkert mikið, en nóg til þess að nú má ég ekki lengur fara í grindhvalasund. Hér eftir kem ég sem sagt alfarið til með að haga mér eins og forréttindapíka, gera nákvæmlega ekkert nema liggja og klóra mér í öllum 80 kílóunum. En einhverjar jarðhræringar eru nú farnar að vera til vitnis um það að eitthvað gerist trúlega innan viku. (Sorrí, Bibbi minn.)

Elsku Rannsóknarskipið mitt og Smábáturinn standa sig prýðilega við þjónustu í hvívetna. Fer létt með að ná 90 kílóum ef þetta heldur lengi svona áfram.

En, best að spýta í lófana og klára síðustu vinnuna í marrrgar vikur! (Ja, allavega alveg... 3.)