13.11.09

Duddururuddudduuuu!

Farin á haustfund Bandalax íslenskra leikfélaga norður í Eyjafjörð.

Er að reyna að teygja eitthvað á ritgerðardrögum áður en ég fer.
Náði góðum árangri með auknu línubili, áðan.

En er ferlega sybbin. Yngsti sonurinn ku vera með gin og klaufaveiki og hélt foreldrum sínum heilmikið selskapinn í nótt. Hann fór til læknis í morgun en mátti að því loknu fara á leikskólann. Því miður. Ég væri alveg til í að við værum bara saman að leggja okkur núna. Í staðinn þarf ég að vera um helmingi gáfaðri en ég er, skrifa eitthvað gáfulegt um módernisma og fara í heilan haug af tímum um Brecht og Þætti úr menningarsögu og þrusa síðan heim, reyna að komast framhjá valkvíðanum og pakka einhverju niður, og svo bara uppí flugvél. Á föstudeginum þrettánda.

Ætla að vera dugleg að rífa gítara af fólki og æfa mig á þeim fyrir norðan.

Og reyna að ná knúsi af Eló minni og óska henni til hamingju með fertugsafmælið sem hún á á sunnudaginn.

Mér finnst ekki hafa komið "eðlileg" helgi síðan einhverntíma í fyrra.

12.11.09

Er erfiðara, betra?

Íslendingar snobba fyrir erfiði. Ef eitthvað er "vinna" þá er það "gagnlegt" og þar af leiðandi gott og mannbætandi. Fyrst á manni að finnast vinnan erfið. Það er grundvallarskilyrði fyrir því að maður sé "að gera gagn" og "eitthvað af viti." Svo má maður svo sem reyna að hafa gaman af því, ef maður endilega vill.

Æijá, það er ekki skrítið að við þurftum að bryðja öll þessi þunglyndislyf.
Ég vona að þetta viðhorf sé á undanhaldi. En ég sé það víða.
Erfiðara nám er kúlla. Eins heyri ég menn enn metast um fjölda vinnustunda á sólarhring. Og er þá greinilegt að magn er mikilvægara en gæði.

Mér gengur ævinlega betur með það sem ég finn ekki fyrir að sé vinna. Það sem mér finnst gerast algjörlega að sjálfu sér, ég á erfitt með að bíða eftir að fá að byrja á á morgnana og slíta mig frá, hvað sem klukkan er. Þegar ég dett ofan á eitthvað svoleiðis verður yfirleitt úr því eitthvað ferlega skemmtilegt sem ég fæ gríðarlegt lof fyrir, jafnvel verðlaun eða massafínar einkunnir. Eins og leikrit. Töskur. Eða sum skólaverkefni. Það sem mér finnst þó mikilvægast er að þetta eru þau verk sem ég er ánægðust með í sálinni. Margt af þessu ber umbunir í sjálfu sér. Eins og fjölskyldan mín sem ég fæ aldrei nóg af að leika við. Og öllum líður vel saman og eru hamingjusamari fyrir vikið.

Þegar ég ákveð hins vegar að eitthvað sé "vinna" eigi bara að vera "erfitt" og "gagnlegt" (svo ekki sé nú minnst á ef eina markmiðið er að græða peninga) þarf ég fljótlega að fara til læknis, fá geðlyf og fara í geðmeðferð.

Svoleiðis verkefni eitra ævinlega fyrir mér allt lífið.

Ekki svo að skilja að ég geti ekki stundað einhvers konar "vinnu". Gert það sama dag eftir dag, árum saman, jafnvel. En áhuginn og ánægjan af því þarf að vera frumhvatinn til þess. Ef það fer að verða erfitt, leiðinlegt, ja, eða "bara vinna" þarf ég að snúa mér að öðru.

11.11.09

Hrunamannaskattur

Allir brjálaðir yfir sköttum, og svona. Í gærkvöldi sá ég svo hvað þetta þýðir í peningum.
Og hnussaði.
Enda er ég svo ógurlega lánsöm að hafa engar tekjur til að borga skatta af.

Í hrunósköpunum man ég að ég velti fyrir mér hvort yrði til nógur matur. Hvort fluttar yrðu inn bleyjur eða hvort ég þyrfti að skipta yfir í tauið. Hvort það yrði hægt að hafa heitt vatn og rafmagn. Hamfaralíkingarnar voru þannig að þetta hljómaði allt eins og grunnþarfir væru í hættu.
Og nú ku "kreppan" vera "skollin á" og "með fullum þunga". Hmmm. Jú, ég hef ekki fundið nýja túttu af ákveðinni tegund á stútkönnu sonar míns, í svolítinn tíma. Það er nú allt og sumt.

Já, einhverjir eiga erfitt með að borga af húsnæðunum sínum. En manni sýnist það nú eiginlega vera auðleysanlegt sýndarvandamál. Allavega ráða bankar við að afskrifa milljarða af "eigendalausum" skuldum stóreignamanna hist og her. En það má ekki afskrifa skuldir hjá venjulegu fólki. Þá verða allir hinir, sem ekki eru í vandræðum, arfabrjálaðir. Ég skil ekki alveg þá rökfræði. Græði ég ef fullt af fólki fer á hausinn? Tapa ég einhverju þó skuldir "venjulega fólksins", peningar sem aldrei voru til nema í sjúkum dagdraumum Hannesar Hólmstens, verði afskrifaðar?
Svo þetta snýst nú eiginlega bara um sama vandamálið og áður.
Græðgi og græðgi.
Auðmenn standa enn undir nafni.
En á meðan þeir ganga lausir og stjórna meirihluta af verslun og viðskiptum í þjóðfélaginu, er samt skiljanlegt að fólk sé pirrað á því að þurfa að borga nokkurn skapaðan hlut.

Hvernig væri að setja á nýjan skatt?
Hrunamannaskatt.
Þar sem hrunvaldar þurfa að borga hundrað prósent skatta af öllu sem þeir græddu í góðærinu. Hverja krónu. Og það á jafnt við um menn í viðskiptalífi, pólitík og óvirkum eftirlitsstofnunum. Þetta eru þeir sem hafa ekkert nema gott af því að vera aðeins slyppir og snauðir á atvinnuleysisskrá. Láta sér að kenningu verða og skammast sín.
Svo má taka tímann á því hvað þeir verða lengi að kjafta sig upp úr súpunni og aftur farnir að selja landanum og heimsbyggðinni himin og jörð fyrir fúlgur.
Þetta eru nefnilega snillingar.

10.11.09

Kreppufýlan og KSÍ

Ég hef verið að greina nýja rödd í kreppuhjalinu. Hún hefur svo sem alltaf verið til staðar, en virðist færast í aukana. Nefnilega rödd fýlupokans. Hann hefur alltaf allt á hornum sér. Dæmir og fordæmir ríkisstjórnina og aðra sem eru að reyna að taka til eftir sukkið, finnst allir sem tjá sig vera annað hvort sjálfstæðismenn eða útrásarvíkingar og berist góðar fréttir sér hann sig samt knúinn til að taka þátt í umræðunni með svartagalli um að "Íslendingar séu"svona eða hinsegin og "það breytist aldrei neitt hér." Fyrir utan nú að "réttast væri að fara bara". (En fer svo aldrei neitt.) Það nýjasta er Þjóðfundurinn og stjórnlagaþing. Mér er fullkomlega óskiljanlegt hvernig menn geta látið tilraunir til löngu tímabærra samfélagsumbóta fara í taugarnar á sér.

Ég hef velt þessari geðvonskulegur umræðulínu fyrir mér. Hérna sýnist mér ekki vera beinlínis réttlát reiði í gangi. Engin krafa um makleg málagjöld. Ég velti því lengi fyrir mér hvort þarna væri á ferðinni einhvers konar "öfug sálfræði", þ.e.a.s., dulbúin hvatning, þar sem menn myndu bregðast við ef lýst væri vantrausti... en mér finnst það svolítið langsótt.

En nú held ég að ég sé búin að fatta þetta.

Það er bitra pakkið sem lætur svona. Þeir sem voru alveg að fara að græða á góðærinu. Hafa svosem ekki tapað neinu, nema draumnum um að vera ógeðslega ríkur. Manni með kreppufýlu finnst ógeðslega fúlt að bólan hafi sprungið. Honum var alveg sama þótt góðærið hafi verið gervi, hann vildi græða á því. Hann þolir ekki Nýja Ísland og þráir aftur gamla Ísland, með kampavíni, kavíar, ójöfnuði og sukkveislum. En það sjónarmið er einhvern veginn ekki inn. Þess vegna situr hann úti í horni, haugbitur, og agnúast út í allt og alla. Honum finnst ekkert neitt betra núna. Honum fannst allt betra eins og það var.

Svo það er ástæða fyrir því að raddir kreppufýlupúkanna pirra mig ósegjanlega.
Ég er hjartanlega ósammála þeim.
Ég er með kreppukæti.

---

Ég veit ekki hvort maður á einu sinni að byrja á KSÍ. Viðtalið í Kastljósinu í gær var allavega ein snyrtilegasta rassskelling sem framin hefur verið á íslensku spillingarpakki. Besta hugmyndin sem ég hef heyrt í framhaldinu er að ryðja þessum köllum úr stjórn, öllum sem einum, og láta stelpurnar taka við batteríinu. Enda eru það þær sem eru að meika það í boltanum, þessi árin, miklu meira en kallarnir.

Þessir háu strípikallar geta þá bara slegist í hóp kreppufýlupúka og látið sig dreyma um gömlu, góðu dagana þegar var bara beinlínis sjálfsagt að menn færu á strípibúllur og fyllerí á kostnað íþróttahreyfinga.

Fyrir Lottópeningana, btw, sem áhugaleikhúshreyfingin og aðrar áhugamannahreyfingar fá t.d. ekki að njóta hér, líkt og gerist í Noregi og Danmörku. Nei, þá er nú betra að þessir peningar fjármagni fylleríisferðir einhverra kalla í útlöndum.

Ég kalla eftir Nýja Íslandi í málið.

9.11.09

Hver vill verann?

ATTAC-samtök voru stofnuð á Íslandi í gær. Vel þess virði að skoða fyrir þá sem hafa áhuga á að peningahaugarnir dreifist á fleiri hendur.

Zeitgeist-hreyfingin er síðan vettvangur fyrir þá sem vilja peningahaugana burt, svona yfirhöfuð, og byggja hagkerfin á þeim jarðargæðum sem við þurfum raunverulega á að halda.

Var aukinheldur á stórskemmtilegu Complete Vocal námskeiði um helgina, og kann nú að syngja algjörlega. Lenti svo á stórskemmtilegum fyrirlestri hjá Herbalife-gaur í gærkveldi.

Annars hef ég engan tíma til neins. Ligg yfir Weimar-lýðveldinu. Það var nú spennandi. Fyrst kom hroki og stríð, svo kom hrun, þá byltingartilraun sem listamenn og hugsjónamenn leiddu en skilaði ekki tilætluðum árangri.
Þá kom þjóðremban og svo, í fyllingu tímans, Hitler.
Þetta hljómar nú eitthvað kunnuglega.

Hver pant vera Hitler?