24.2.05

Fleira mágfólk. Hér er Sverrir. Hann þýðir rauðu seríuna. Ég er ekki að ljúga.
Þá vantar bara einn sem heitir Þórður og þá er systkinaflotinn kominn allur. (Nema Rannsóknarskipið sem má ekki vera að því að blogga þar sem hann er stöðugt upptekinn við smíðar rómantískra sms-a mér til kætningar.)

Ætla að búa til sér bloggaraflokk með flotanum, það skal þó tekið fram að þau blogga ekki sérstaklega oft. Enda ættareinkenni að huxa sig veeeel um áður en menn tjá sig.
Hatar Guð homma?

Ég hef vaxandi áhyggjur af trúarofstæki Bandaríkjamanna. Sá í sjónvarpinu mínu um daginn fullt af fólki þar í landi sem gjarnan mótmælir við jarðarfarir samkynhneigðra og tilkynnir aðstandendum það á fullu blasti að hinn látni sé farinn til Helvítis. Og þykist bara í fullum rétti, enda er ennþá bannað að vera hommi í slatta af fylkum hinna sameinuðu furstadæma norður ammríku. Og þetta þykist vera að FRELSA heiminn? What?

Enda, ef ég man rétt mínar biblíuskoðanir á unglingsárum þá var nú tekið sterkara til orða um margt annað en samkynhneigð. Til dæmis á að taka óhlýðin börn af lífi og menn mega ýmislegt við óþægar eiginkonur.

Og svo stundar þessi þjóð dauðasyndirnar eins og hún fái borgað fyrir það. Til dæmis gluttonar hún sem engin önnur, sem á henni sér. Ég sá til dæmis í þessum ágætis þætti 200 kílóa konu syngja "God Hates Fags" hástöfum. Það er í eitt af fáum skiptum sem ég hef hent prjónunum mínum af öllu afli í sjónvarpið og íhugað mannrán og líkamsmeiðingar.

En ég hef áhyggjur af þessu, ég verð bara að segja það. Og þegar restin af heiminum fær nóg og fer loxins í allsherjarstríð við Bandaríkjamenn (sem er að verða tímaspursmál að óbreyttu), þá verðum vér "sódómistar" á Íslandi mjög röngu megin við víglínuna.

Herinn burt!

23.2.05

Nú er ég gengin af trúnni.
Það er að segja, ég er gengin af þeirri trú að maður þurfi stundum að hafa það slæmt til að geta haft það gott inn á milli. Það reyndi maður að nota þessa rökheimsku á mig í morgun, og ég áttaði mig á því sjálfri mér til skelfingar að ég trúði þessu einu sinni.

Nei, dramarúnkið er úrelt. Ég veit alveg hvenær ég hef það gott án þess. Ólán þarf ekki að rifja upp nema maður þurfi að Pollýannast á einhvern skítinn sem maður hefur sjálfur komið sér í eða heimurinn hendir í mann.
En ég er hætt að vaða í honum viljandi. Betra er að reyna að krækja fyrir ef maður getur.

Þetta var sjálfshjálp og smásálarfræði daxins.

PS. Þessi færsla var hálfgert sjálfsrúnk, en eins og leikstjórinn sagði um daginn, það getur vel verið gaman að rúnki, sérstaklega ef maður stundar það sjálfur.

22.2.05

Er búin að komast að ýmsu í dag.

- Það er hægt að senda fólk í sprautun á Íslandi, þurfi það að skipta um kynþátt.
- Það er engin einföld leið til að taka strætó úr Síðumúla í Vatnagarða.
- Það er ekki jafn einfalt og það virðist í fyrstu að búa til marokkóskan fána.
- Ef rafmagnsljósið byrjar að loga stanslaust í bílnum manns, borgar sig að fara með hann strax til læknis. Ekki bíða þangað til hann deyr allt í einu, einhvers staðar útí bæ. Það er vesen.
- Það borgar sig ekki að skilja veskið sitt eftir einhvers staðar langt í burtu, þegar bíllinn manns er dáinn einhvers staðar úti í bæ. Ávísun á ýmis ófyrirséð vandræði.
- Vínber geta verið fyndin.

Þetta eru alltsaman miklar staðreyndir.

21.2.05

Verð að taka undir með Ylfu. Þetta er skemmtilegt.
Var svo uppnumin af rómantík að ég gleymdi að rapportera afspyrnuskemmtilegt föstudaxkvöld. Það hefur verið til siðs undanfarið að koma saman í heimkynnum Fangoríu á föstudaxkvöldum og horfa á Ædolið. Þetta hafa jafnan verið hinar stóískustu skemmtanir, skrafað, prjónar, geispað og síðan, nema leið hafi legið á einhverja tónleikana, farið heim.

Síðasta föstudaxkvöld gerðust hins vegar undarlegir hlutir. Hvort sem um var að kenna "lifandi tónlistarmönnum" í ædolinu, eða því að söngvarar höfðu "oxið" (hvorutveggja úr orðabanka Bubba), þá endaði kvöldið á hamslausu áti á frosnum jellósjotts frá áramótum og gífurlegum tilþrifum í singstar!

Ýmis atvik voru meiraðsegja fest á filmu.
Gleðilegan konudag, í gær.

Ég held ég hafi ekki munað eftir bóndadeginum. Allavega gerði ég örugglega ekkert með hann. Ekki dag Valentínusar heldur, nema að lesa um frumlegar valentínusargjafir Ylfu og Sævars. (Sævar gaf konunni sinni 20 marka barn, sem hún þurfti að fæða sjálf, og Ylfa sendi manninn sinn í vönun.) Mér datt ekkert frumlegt í hug.

Til þess að konudagurinn færi nú ekki sömu leið ákvað ég að þrífa klósettið mitt í tilefni daxins og prjóna úr óvenjubleiku. Hvorttveggja fannst mér kvenlegt. Í gærkvöldi hringdi síðan síminn minn, sem þarf líka stundum að þykjast vera dyrabjalla. Útifyrir stóð söngkona sem hafði haft þau forréttindi fram yfir sjálfa mig að hafa fengið að þreifa á manninum mínum á konudaginn. Hún var með pakka handa mér. Því fylgdi myndarlegt, þykkt og rómantískt bréf.

Þar með er Rannsóknarskipið mitt búið að koma mér tvisvar til að grenja af tómri rómantík, án þess að vera nokkurs staðar nærri í eigin persónu. Hér með ætla ég að monta mig, ég á besta mann í heimi! Hann er í einu og öllu til fyrirmyndar og eftirbreytni.

Viðbót: Rétt að taka það fram að smábáturinn sýndi víst verkefninu líka talsverðan áhuga og áréttaði rétt minn til konudagsgjafar á sínu heimili í tvígang. Ekkert að uppeldinu á bænum heldur.