6.5.06

Húff

Við Freigáta vorum að koma af bandalaxþingi. Það gekk eiginlega vonum framar. Reyndar villtist ég á leiðinni og ætlaði aldrei að finna helv... félaxheimili Seltjarnarness. En það gekk að lokum og Freigátan var bara frekar þæg, held ég. En þetta er nú skrítið þing. Aðallega lyktlega séð. Hérna áðurr fyrr hefði ég, á þessum tíma þings, átt að vera farin að lykta eins og öskubakki með smá kaffikeim, og huxanlega smá fyrirmatarbjór. Í staðinn er ég bara með ungbarnaælulykt og táfýlu.

Svo er óneitanlega pínu leiðinlegt að missa af hátíðarkvöldverði. En ég datt nú eiginlega alveg íða fyrir tvö ár á þinginu í fyrra. Var, enda líka, að drekka fyrir tvo, eins og síðar kom í ljós. :-/

Best að monta líka mitt heimafólk. Gagnrýni á þætti gærkveldsins var inni í daxkrá fundarins í dag. Freigáta leyfði mér reyndar ekki að hlusta á allt, en þó heyrði ég mágfólk mitt fá ágætisdóma og eins mitt leikfélag. Það eina sem þeir feðgar, Þorvaldur Þorsteins og Þorsteinn Bacmann höfðu út á Hugleik að setja var mín eigins leikstjórn. Og ég var ekki fyrr búin að klappa sjálfri mér á kollinn og raða aftur upp sjálfstraustinu á grundvelli reynsluleysis, að nýgræðingurinn sú ólétta í næsta húsi kom, sá og hreppti titilinn "Besta sýning hátíðarinnar" með frumraun sinni í leikstjórn og skriðtæklaði þar með undan mér þá afsökun. (Hefur enda talsverðan skriðþunga þessa dagana.)

En félagið má nú samt vel við una. Átti tvær sýningar af þremur sem útvaldar voru bestar. (Hefði kannski fengið fullt hús með skárri leikstjórn á Kratavari? Og kannski bara uppskorið úlfúð og öfund annarra félaga? Sko hvernig ég Pollýanna?)

Allavega, þetta var skemmtilegt. Og þá er bara að bíða eftir sms-i með upplýsingum um hverja Þjóðleikhúsið valdi sem sem Athyglisverðustu Áhugasýningu Ársins. Þar kemur Hugleikur líka til greina. Tvisvar.

5.5.06

Týpurnar

Ég hef gaman af listum of fólksflokkunum. Þess vegna ætla ég að setja hlekk á einn lista hjá Evu.

Þegar ég var lítil sá ég fólk í svarthvítu. Það var annaðhvort gott eða slæmt. Engin grá svæði.

Svo um unglingsaldur fór allt að verða meira og minna grátt. Asnar voru gjarnan skemmtilegri en aðrir.

Núna er ég komin í hring. Er helst á því að mannkynið skiptist alveg þráðbeint í ærlegt fólk og skítmenni.

Og listinn hennar Evu er alveg ljómandi til að bera kennsl á nokkrar tegundir skítmenna.

Smá myndir

Föstudagur, við Freigáta orðnar tvær heima og hún er að hamast við að þróa sér svefnröskun. Og hér eru myndir:


Varð bara að setja þessa. Af því að ég huxa að þetta sé væmnasti heimilishamingjuhroði í heimi.


Og Freigátan er að hamast við að læra að lesa. Ekki seinna vænna!

4.5.06

Kúl daxetning!

!

Plögg/skipulag

Það er annríki framundan.

Föstudagur 5. (á morgun): Margt smátt í Borgarleikhúsinu kl. 19.00.
(Þar sem ég þarf að vera með Freigátuna, einhvern veginn, þar sem Skip og Bátur verða farnir norður yfir helgina. Það er alveg nokkur ný level af skeríi sem ég er að upplifa við tilhuxunina að þurfa að vera með þriggja mánaða barn á stað þar sem má ekki heyrast neitt í því.)

Laugardagur 6. -sunnudagur 7.: Bandalaxþing úti á Seltjarnarnesi. (Í félaxheimilinu. *fliss*)
(Þar ætlum við Freigáta líka að vera. Ef einhver kann gott ráð til að láta smábörn hvorki heyrast né sjást má hann gjarnan láta mig vita. Geng ekki með neinar ranghugmyndir um að barnið mitt hafi leyfi til að trufla af því að það sé svo sætt. Myndi ekki hafa hana með mér ef Rannsóknarskip væri í bænum eða að ég væri ekki eini maturinn hennar.)

Sunnudagur 7.: Lokasýning á Systrum í Möguleikhúsinu. Reyndar skilst mér að það sé orðið uppselt, eða alveg að verða, þannig að þeir sem ætla þurfa aldeilis að drífa sig að panta. (Ég ætla að vera það, Freigátulaus.)

Þriðjudagur 9. og fimmtudagur 11.: Hugleikur með tónlistardaxkrá í Þjóðleikhúskjallaranum.

Föstudagur 12.: Aðalfundur Hugleix.

Húff. Ég verð svaka fegin þegar næsta vika verður búin.

Freigátan fór til læknis í dag og fékk sprautu og fór ekki að grenja eða neitt. En nú er hún með smá hita og ég er með smá ofurmæðrunarveiki. Ætla samt að hætta á að fara í burtu í hálftíma og hafa oggulitla æfingu á Kratavari.

3.5.06

Nýir hlekkir...

Aðeins búin að vera að róta í linkunum. Vek athygli á "nýju" fólki. Nú hefur blogg Hjörvars bæst í linkasafnið, en hann véluðum við hjónin í Hugleik um daginn, með sameiginlegu átaki. (Rannsóknarskip hringdi í hann og ég leikstýrði honum.) Og frumraun hans má einmitt sjá á einþáttungahátíðinni Mörgu smáu sem er í Borgarleikhúsinu á föstudaxkvöld og hefst klukkan 19.00. Mun þar kenna gífurlega margra grasa, m.a. gefa að líta frumraun Nönnu í leikstjórn, frumraun Sverris mágs míns í leikritun og frumraun Jóns mágs míns á sviði. Þar að auki er þátturinn sem ég leikstýri önnur af tveimur frumraunum höfundar hans, Sigurðar H. Pálssonar, á þessum ritvelli.

(Sigurður sá er ekki hið frönskumælandi ljóðskáld sem hefur látið landanum leiðast með Parísarhjólinu og öðrum bókmaenntahroða. Þessi er hins vegar mikil poppstjarna í eyrum okkar sem munum eftir ofurgrúppunni Mosa frænda. Og ef hann hefur átt einhvern þátt í textasamningu "Kötlu köldu" eða "Ástin sigrar" þá hefur textagerð hans náttlega slegið þvílíkt í gegn. Mér þótti texti "Ástin sigrar" sá albesti og fyndnasti í öllum heiminum þegar ég var um 14 ára. En þetta var nú útúrdúr...)

Einnig er ég búin að bæta í hlekkjasafnið dagbók Ingibjargar Hjartardóttur, leigusalans míns, en hún og hennar maður, hann Ragna skjálfti, eru að þvælast um útlöndin þessa mánuðina og hér má sjá hvað þau eru að bedrífa.

Svo var Nornabúðin að opna innihaldsríkan vef um daginn og hann er kominn í hlekkina. (Og skamm á mig að vera ekki búin að hlekkja á hana fyrir löngu, ég er náttlega fastagestur í þessari ágætu búð. En svona fer nú fæðingarorlofsletin með mann.)

Annars, Freigátan virðist hafa jafnað sig á gubbunni. Reyndar heyrast einstöku sinnum skruðningar innan úr henni ennþá, en hún virðist ekkert láta það á sig fá. Fórum í jóga í morgun og það var gífurlegt stuð sem endranær. Og á morgun á hún að fara í þriggja mánaða skoðun og fá sprautu. Það verður nú aldeilis skemmtilegt.

2.5.06

Sko...

Mér finnst ég nú alveg endilega eiga að tjá mig um eitthvað í dag. Veit bara ekki hvað það ætti að vera. Ég hef heyrt því fleygt að konur með börn á brjósti segist vera með "brjóstagjafarþoku" þar sem þær hætta að muna eða vita nokkurn skapaðan hlut. Ég held þetta sé frekar heilaleti sökum fæðingarorlofs. Þessa dagana er ég byrjuð að finna heilann í mér sofna. Held það komi til af of mörgum ísettum þvottavélum, of mörgum ítilteknum herbergjum og hvers konar röðun. Það flóknasta sem heilinn í mér hefur þurft að læra undanfarna 3 mánuði er sjónvarpsdagskráin.

Mig er farið að langa í súkkulaði í tíma og ótíma og þá sjaldan ég þarf að gera eitthvað sem krefst þess að ég brúki á mér höfuðbúnaðinn og/eða fari út úr húsi, nenni ég því helst ekki. (Og, já, ég er enn á geðlyfjum.)

Það mest spennandi sem ég geri þessa dagana er að horfa á Dr. Phil. Í gær píndi hann einn strákræfil í meðferð. Í dag talaði hann við nokkrar heimskar stelpur á aldrinum 21-27 ára sem voru miður sín yfir að vera ekki giftar eða trúlofaðar. Ein hafði gengið svo langt að velja sér kjól, og hring, og skipuleggja veisluna í smáatriðum... og hún átti ekki kærasta. Og hún var 23 ára og hafði áhyggjur af því að enginn myndi nokkurn tíma vilja giftast henni. Og hverjir voru mest að koma þessum ranghugmyndum inn hjá stúlkuvesalingunum? Jú, mæður þeirra. Bandaríkjamenn eru geðveikir.

Skoh, mér tóxt að hafa eina fordómskennda skoðun. Jeij!

Held ég ætti að skrifa smá leikrit og gá hvort heilastarfsemi tekur við sér.

Nokkru síðar:
Byrjaði að vinna pínku, en þá vaknaði Freigátan. Setti nýtt með í öskri og gubbaði síðan hálfri líkamsþyngd sinni yfir mig. Þar með hefur henni einu sinni orðið misdægurt og mér varð ekki kápan úr því klæðinu að ætla að endurvekja mér heilastarfsemi.

Ó-well. Best að fara að horfa á 6 and the city.

30.4.06

Hinn ljóti lúxus...

Rannsóknarskip og Smábátur bruggðu sér í leikhús, á Þetta mánaðarlega, í tilefni frídax verkamanna (og grunnskólabarna) á morgun. Í fjarveru nokkurs sem ég nennti að horfa á í sjónvarpi (eitthvað menningarklám á frönsku í RÚV, úgh) fór ég í annað mánaðarlegt, að fara í gegnum föt Freigátunnar, pakka niður of litlu, og taka upp úr "ofstóru" kössunum það sem allt í einu passar. Tók líka í leiðinni mikla og óþægilega ákvörðun.

Eftir því sem sú litla þýtur í gegnum stærðirnar, þá er alltaf eitthvað af fötum sem "óvart" er aldrei notað. Mig er farið að gruna óþægilega hvers vegna. Þess vegna er ég búin að stofna hann. Ljóta kassann. Öðru nafni Kassa Hinnar Vondu Samvisku. Hann er fullur af fötum sem ég hef ekki nennt að klæða Freigátuna í vegna þess að mér þykja þau LJÓT. Þetta eru alltsaman notuð föt (kæru gestir, ekki óttast að gjafir ykkar séu í þessum kassa, hún sjálf hefur ekki fengið neitt ljótt ;-). Enda er engin ástæða til að brúka ljót föt á prinsessuna, sem á trúlega 365 alklæðnaði af hinum álitlegustu klæðum.

En í ljóta kassanum hvílir, ásamt öllum ljótu fötunum, mín vonda samviska. Ekki hendir maður þessu. Þá er maður ekki að huxa um vesalings allsberu börnin í útlöndum. (Eða á Íslandi, ef út í það er farið.) En ef ég gef þetta nú í einhvers konar hjálparstarf? Er ég þá ekki að sýna af mér hryllilegan hroka? Að reikna með að aðrir vilji klæða börnin sín í föt sem mér þykja of ljót á mína litlu ofdrekruðu orma? Er ég þá að dæma annarra manna börn til sálarskaða af sinnepsgulu og margþvegnu? Hvað skal gjöra? Er einhver leið til að lenda ekki beint til Helvítis fyrir þetta, hvernig sem maður snýr sér?