30.8.08

Laugardagur til... einhvers?

Hið nýja skipulag, að leikföng voru að mestu útlæg ger út stofunni og bannfærð til gestaherbergis, er að svínvirka. Freigátan unir sér þar hið besta og þykist nú aldeilis einráð í ríki sínu. Svo rammt kveður að því að í morgun þegar stóri bróðir ætlaði að heiðra umráðasvæðið með nærveru sinni var hann fyrst vinsamlega beðinn að "skemma ekki neitt," og að því loknu að "skammast sín."

Í dag var síðan von á Huggu frænku í kaffi svo mesta horið var þrifið af þeim litlu og þau sett í eins peysur, svo það bæri minna á hvað þau væru rotinpúruleg. Móðurskipið náði meira að segja að ryksuga sæmilega í stofunni áður en frænkuna bar að garði.

Freigátan heyrði líka aðeins í ömmu-Freigátu í dag og bombarderaði hana með spurningum og pöntunum um samfylgd á róló, í sund og ýmislegt fleira. Pantaði líka að fá að fara með í heimsókn til langömmu. Svo fór hún með símann inn í dótaherbergi, til að sýna ömmu það. Hún er greinilega ekki alveg að átta sig á landfræðilegri afstöðubreytingu við ömmuna sína.

En í framhaldi á þessum skipulaxbreytingum erum við farin að velta fyrir okkur löngu tímabærum aðgerðum á baðherberginu. Aðallega vegna þess að ég er hrædd um að klósettið okkar fari alveg að gefa upp öndina. Eftir stutta skönnun á verði á svoleiðis hásætum sýnist mér að verið ættum alveg að geta gert svoleiðis án þess að verða alvarlega gjaldþrota. Jafnvel liggur fyrir að fara í örlítið frekari innréttingar á baðherberginu, í leiðinni. Ætlum að skoða málin og fara huxanlega í þetta einhvern tíma eftir áramót. (Ef dollan dugar svo lengi.)

Á morgun langar mig að komast í Kringluna og versla svo stórsér á helstu lagerum.

Í dag var líka stundað mikið eftirlit með tölvuleikjanotkun unglingsins.

Og svo var tekin örlítil pása til að horfa í myndavélina.

28.8.08

Undur!

Mig minnir að ég hafi lesið einhvers staðar að börn verði ekki almennilega til vandræða fyrr en þau verða unglingar. Nú er Smábátur orðinn heldur en ekki dimmraddaður, kominn fram úr mér í skóstærð og að ná mér í hæð. Og er á aldri sem kemur heim og saman við aldurinn sem fólk er venjulega á þegar hinn StórHættulegi unglingsaldur á að fara að bresta á.

Núna að loknu sumarfríi hefur vissulega borið á ýmsum stórmerkjum. En öll eru þau jákvæð og bara nokkuð stór skref í átt til sjálfstæðis í vinnubrögðum og ábyrgð á eigin strangheilbrigða lífstíl. Í kvöld, þegar umræddur kom úr sturtunni sem hann hafði alfarið skipulagt sjálfur og hannað tandurhreinan alklæðnað í framhaldi, komu síðan tvær setningar sem gerðu það að verkum að ég þurfti að athuga rækilega hvort mig væri að dreyma.

Setning 1: Ég þarf að fara í klippingu. !!!!
Síðan ég kynntist Smábáti hafa ferðir til hárskerðinga kostað japl, jaml, fuður, auk marglaga múta og hótana.

Setning 2: Hvar eru naglaklippurnar? Í framhaldinu settist Smábátur niður og skerti allan sinn naglakost, bæði á puttum og tásum. Hingað til hefur undantekningalaust þurft að benda honum á að neglurnar á honum myndu hugsanlega flokkast undir stórhættuleg vopnabúr, áður en hann tekur eftir að þær þarfnist e.t.v. snyrtingar.

Semsagt. Unglingafaraldurinn byrjar vel.

Önnur undur: Meðan litlu horgemlingarnir sváfu báðir í einu í dag fór ég að vinna á milljón í leikriti.
Það er ekki það sem ég sótti um styrk fyrir.
Það er heldur ekki það sem séns er að verði sett upp, jafnvel næsta sumar.
Né heldur það sem er sennilega rosalega góð samtímahugmynd akkúrat núna.

Það er sjálfsprottni arfinn sem hefur verið í einhverri tilviljanakenndri þróun síðustu 6 ár og neitar að sofna í möppu eins og fleiri tonn annarra hugmynda.
Kannski þetta verði að einhverju.

Skipulaxdagar!


Nú nældu litlu krakkarnir sér í eitthvað smá hor (bara pínu, engar drepsóttir eins og í fyrra) svo í dag er annar dagur í inniveru hjá okkur. Og það gæti haft geigvænlegar afleiðingar í för með sér. Í gær fór ég nefnilega að skipuleggja heimilið. Huxaði mig í einn hring og var búin að eyða gríðarlegum fjármunum í Góða hirðinum/Rúmfatalagernum/Ikea, í huganum. Huxaði svo annan hring og sá þá að besta leiðin til að redda sér plássi væri líklega að henda dóti og nota svo draslið úr geymslunni til að redda sér í skipulaginu.

Svo gestarúmið fór í Góða hirðinn í gær. En gestir, örvæntið eigi, ég á samanleggjanlegt gestarúm niðri í geymslu sem verður notað fyrir einn. Ef svo koma hjónafólk eða þanneigin verður fjárfest í uppblásanlegu gestarúmi, sem einnig getur geymst í geymslunni á milli gesta.

Allt dótið Freigátunnar og Hraðbársins er annars bara flutt í plássið sem gestarúmið tók. Svo hættan á að fljúga á hausinn um dúkkuvagna og smábarnadót hérna í stofu-eldhúsinu hefur snarminnkað.

Og í anda þeirrar uppgötvunar að hendingar séu besta leiðin til að fá meira pláss ætla ég að rífa bekkinn úr þvottahúsinu... í staðinn fyrir að nenna að endurinnrétta það. Annars ætla ég nú bara að bjóða út verkið í þvottahús-baðherbergið mitt. Einhvern tíma þegar ég verð orðin rík.

27.8.08

Það er þegar orðið ljóst

að ég er að gera allt annað en það sem ég var búin að einsetja mér. Ég var alveg harðákveðin í því að nú á haustönn ætlaði ég EKKERT að gera annað en að vera heima með Hraðbát og skrifa leikrit þegar tími gæfist. En, húllahúpp, Glettingur er talsvert langt frá að vera tilbúin, ég datt eitthvað inn í að þýða aftur ("hættið" í vor breyttist í langt sumarfrí) og er svo að huxa um að taka málstofu og ritgerð í náminu, til að hala mig upp í full námslán. Og er þegar að verða gráhærð (ari) af stressi og það er ekki einu sinni kominn september.
Það er sumsé peningagræðgin sem er að fara með mig vestur úr því.

Og það gengur ekki.

Ætla að hætta þýðingum frá og með laugardegi. Og ætla að taka málstofu í skólanum, en ekki að taka ritgerðina á móti neitt sérstaklega alvarlega. Gletting klára ég þegar Freigátan verður byrjuð á leikskóla.

Aukatíma og útivistarleyfi fá svo hálfskrifuðu leikritin og leikfélagið.
En það liggur nú við að ég sé líka að klúðra skipulaginu á því.

Til dæmis:
Mig langar á námskeið í tónlistarspuna í leikfélaginu.
En mér finnst ég ætti frekar að leikstýra einþáttungi.
En langar jafnvel enn frekar að leika bara, ef einhver vill mig.

Og leikritin.
Er búin að sækja um styrk fyrir eitt.
En byrjaði að skrifa annað um daginn sem séns er að ég ætti að klára í vetur.
Langar samt mest að vinna í því þriðja sem er reyndar búið að vera í smíðum, af og á, síðan 2002.
En hef á tilfinningunni að ég ætti að vera að skrifa það fjórða, sem er nýleg hugmynd.

Eru ekki til lyf við athyglisbresti?

26.8.08

Ókei.

Í síðustu viku hlóð ég yngri börnunum í barnavagninn og lagði upp í langferð í Háskólann til að skrá mig í eins og einn kúrs. En sá er einmitt kenndur þegar Rannsóknarskip getur verið heima, er leikhústengdur, svo allt gott með það.

Nema að þegar að hinu fína upplýsingaborði háskólatorx kom reyndist ekki opnað fyrir skráningar fyrr en í næstu viku. Þ.e.a.s. þessari. En þegar þar að kæmi væri hægt að skrá sig í kúrsa á internetinu.

Glaðbeitt gerði ég mér ferð inn á háskóla ugluna mína í gær. Hvar ég komst að því að það væri hægt að skrá sig í kúrsa þar, NEMA, ef maður væri skráður í útskrift á yfirstandandi skólaári. Sem ég er.

Eftir að hafa látið ormana rústa Bandalaxskrifstofunni í síðasta sinn í morgun ráfaði ég alla leið út í háskóla, í annað sinn, í þeim tilgangi að skrá mig í þann hinn sama kúrs. Fékk, á hinu sama upplýsingaborði þær upplýsingar að í tilfelli sem mínu væri best, maklegast og réttvísast, að skrá sig í gegnum tölvupóst.

Er komin heim og börnin eru óvenju... lífleg, skulum við segja, þannig að ég er ekki enn farin að senda þennan póst.

Er líka alvarlega farin að velta fyrir mér hvort alheimurinn er að reyna að segja mér eitthvað...

25.8.08

Ormarnir sofa

báðir í kór. Einstaklega sniðugt að láta þá gera það í smá stund á hverjum degi. Gæti gert kraftaverk í þá átt að Móðurskipið haldi geðheilsunni á dögum, eða jafnvel vikum, komanda.
Við komum nefnilega við á hinum verðandi leikskóla Freigátunnar í leiðinni úr gönguferð morgunsins og fengum þær fréttir að ekki væri enn búið að ráða starfsmanninn sem þarf til að passa hana. (Og 5 aðra óbyrjaða krakka.)

Svo, langar ekki einhvern að drífa sig í að fara að vinna á leixkólanum Drafnarborg? Oggulítill leikskóli með 33 börnum. Og þau eru öll sæt og fara sækkandi með þeim verðandi.
Ef engan langar í þessa stöðu, langar þá kannski einhvern að passa Freigátuna kl. 10.15 - 11-30 á þriðjudaginn og/eða fimmtudaginn svo við Hraðbátur komumst í mömmujóga? Já, og kannski frá svona 14-15, líka á fimmtudaginn svo Hraðbáturinn geti hafið sundnámskeiðið sem ég var að skrá hann á um daginn? Freigátan er mjög meðfærilegt barn... þarf bara helst að fá að ráða öllu.

Það er sumsé allt vetrarskipulagið að skella á, en fer forgörðum komist mið-ormurinn ekki bráðum að í leikskólanum sínum. Svo ekki sé nú minnst á hann Gletting sem er allur í biðstöðu. Ekki var mér búið að detta í hug að það væri slæm hugmynd að sleppa hendinni af leikskólaplássinu á Ægisborginni síðasta vor. 

Smábátur er á fyrsta "eðlilega" skóladeginum sínum. Vaknaði eins og stálfjöður í morgun og hefur samþykkt þann ráðahag að hann gæti Hraðbátsins á morgnana á meðan ég skýst með Freigátuna yfir götuna á leikskólann. (Þegar þar að kemur. Eða ætti maður að segja ef?)

Og í þeim þönkum, best að skrá sig sneggvast í einn algjörlega óþarfan kúrs í Hásklanum. Af því að maður hefur jú eeeehhhkkerrt að gera.

Viðbót: Sé eftirá að ég var ekkert að taka fram að ég þarf þessar passanir ekkert fyrr en í næstu viku. Það er ekki fyrr en þá sem brestur á með mömmujóga og sundnámskeiðum.