10.6.05

Á svona dögum

er ekki laust við að óvenju miklir brestir séu í minni geðprýði.

Í dag byrjar Skólinn í dalnum Svarfaðar og ekki laust við að nokkrir manns hafi lagt lykkjur á leið sína til að nudda manni uppúr því að vera ekki að fara þangað. En, þar sem ekki er höfundanámskeið þetta árið er ég nú ekkert að farast úr öfund.

Og í dag er líka síðasti dagur fyrir leikfélög til að skila styrkumsóknum þannig að allir stjórnarmenn leikfélaga eru með kvíðakast í dag og flestir hafa séð ástæðu til að hringja og deila því með okkur, enda erum við náttúrulega til þess.

Og á svona dögum sjá auðvitað margir ástæðu til að vera með allskyns vesen á síðustu stundu og fólki í útlöndum þykir við hæfi að senda okkur sminksendingar sem reynast síðan vera vel marineraðar í under makeup base.

Og dagurinn er rétt að byrja!

Maður á nú bara ekki til neitt sérstaklega mörg orð.

Góða helgi!

9.6.05

Mæ God

Ég er greinilega bara í tómu klúðri með fréttir af komandi stórhátíðum. Ég ætlaði víst að fara að halda því fram að sölutjald það sem Hugleikur starfrækir í bænum á 17. júní sé til fjármögnunar leikferða, en það er nú bara alveg hreint haugalygi. Tjaldið er víst lönnngu orðið til fjármögnunar Hugleix almennt. Svo það sé nú á hreinu. (Varaformaðurinn víst ekki alveg með á nótunum)

Annars er bara snemma morguns og ég man ekki ennþá neitt hvað ég ætlaði að gera í vinnunni í dag. En að er ekki nema von að mar sé sybbinn. Mig dreymdi að ég sæi 4 tíma langa leiksýningu hjá Leikfélagi Hafnarfjarðar. *Geisp*

8.6.05

Kræst!

Í þarsíðustu færslu olli ég greinilega misskilningi. Svo rétt er að ég árétti áður en fleiri missa legvatnið, þetta sem ég er farin að undirbúa varðandi jólin er leikfélagstengt.

Við erum ekki að tala um brúðkaup eða barneignir. Ef ég væri að opinbera svoleiðis, þá væri ég að opinbera það, ekki vera með einhver hint og hálfvitagang. Svoleiðis fjalla ég eingöngu um leikhús.

Guðlast...?

Nú liggur Stúdentaleikhúsið undir nokkru ámæli þessa dagana þar sem menn þar voguðu sér að benda þjóðinni á þá staðreynd að við værum farin að tilbiðja Mammon meira en guð. Þetta vilja sumir alls ekki vita og nú síðast hafa menn verið að hefja á þessu máls á spjalli leiklistarvefjarins. (Og ég gat ekki á mér setið að svara, þó mér þyki þessi umræða út í hött og eiginlega alveg fyrir neðan mína virðingu. Svona er það bara þegar maður kann ekki að halda kj...)

En í því samhengi þá datt mér í hug að það er líklega eins gott að Gunnar Eyjólfsson og aðrir fanatíkerar hafi ekki séð Sálir Jónanna ganga aftur hjá Hugleik á sínum tíma. Verkið sem hófst á hinum fagra söng "Þetta er Helvíti". Ég er hrædd um að einhverjir hefðu fengið geðbólgur og gengið út strax í upphafsatriði.

Í framhaldssamhengi rifjaðist upp fyrir mér lokaerindi lokasöngs hinna víðförlu Sálna, en það er greinilega ógleymanlegt:

Leggist tjón á lífið, hjón
líkt og flónanna.
Þá örlög þjóna sér þín sjón
á sálum Jónanna.

Já, það er ýmislegt sem hefur oltið út úr sjúkum hugarheimi hins tilnefnda Sævars Sigurgeirssonar. Og það með innrími.

Fræga fólkið

Þá er búið að tilnefna til Grímu. Og tilnefndir sem leikskáld ársins eru m.a. Ármann, Toggi og Sævar og leikstjóri Ágústa Skúladóttir. Jahér hvað maður fer að geta neimdroppað, maður. Þessar fréttir hafa nú aðallega þau áhrif á mig að mér finnst sökka jafnvel enn meir að geta ekki verið á skólanum í Svarfaðardalnum. Það mætti segja mér að það yrði dáldil stemming í setustofunni á afhendingarkvöld. Reyndar gæti ég huxanlega snapað mér miða á viðburðinn sjálfan, kannski, en ég er bara ekkert viss um að það sé jafn gaman.

Annars hitti ég Hugleik í gær. Tvisvar.
Er orðin varaformaður hans. Ætla ævinlega að gera allt vitlaust um leið og formaðurinn bregður sér burt.

Og þetta árið mun ég halda þjóðhátíðardaginn heilagan með gamla laginu. Með því að standa í tjaldi Hugleix einhvers staðar niðri í bæ og selja börnum sykursjokk og frekju. Til fjáröflunar fyrir millilandaflakk félaxins. Það verður nú skemmtilegt afturhvarf til fortíðar. Var að reiknast til að ég hef ekki verið í sambandi við umheiminn á 17. júní síðan einhvern tíma fyrir Frakkland.
Stuuuð.

Og svo er ég farin að undirbúa jólin.
Hvaðþáverðurveitnúenginn, nema ég og mínir!

7.6.05

Það er...

soldið mikið geðveikt að gera.
4 dagar í Leiklistarskóla Bandalaxins.
15 dagar í Leiklistarhátíð Bandalaxins.
Umþaðbil fimm millímetrar eftir af geðheilsu minni áður en ég þarf róandi.

Og hvernig skyldi standa á því að leikfélagið mitt verður yfirleitt geðveikt á sama tíma og vinnan? Undarleg tilviljun.

Get ekki bloggað um neitt af viti í dag.
Síminn er líka örugglega alveg að fara að hringja.