29.4.11

Konunglegt brúðkaup.

Ég hafði nú ekkert sérstaklega hugsað mér að horfa á þetta brúðkaup. Mundi eftir brúðkaupi Díönu og Kalla sem einhverrar langrar og leiðinlegrar beinnar útsendingar, a la koma Keikó, Fisher eða sambærilegt.

Átti aukinheldur að vera á fundi klukkan 10.

Svo var ég í vinnunni. Og guðfræðingurinn við hliðina á mér með innsýn í kirkjuhefðarlegu hliðina. Og ég narraðist og nörraðist.

Fór í framhaldinu og hugsa um undarleg utanafheit í sambandi við athöfnina "að horfa á konunglega brúðkaupið." Margir hafa ekkert gaman af því, auðvitað. Engan áhuga á þessu fólki, kirkjuhefðunum, konunglegum hefðum eða neitt. Enda, hvað segir það um mann? Ég velti fyrir mér hvort ég væri plebbi af því að ég horfði á konunglega brúðkaupið. Ég er nefnilega ferlega and-royal. Finnst alls ekki siðferðilega rétt að hafa fólk eins og sýningargripi í búrum frá fæðingu . (Þó það séu gullbúr.)

En, allavega. Þetta var ekki eins skelfilega langt mig minnir að brúðkaup foreldra brúðgumans hafi verið. Og þarna var margt áhugavert. Tónlist, sálmaval, ritningalestur... og ótal túlkunarmöguleikar á öllusaman, eins og í öllu leikhúsi.

Ég er náttúrulega öll að pæla í performance þessa dagana. Og þetta var sýning. Eftir mjög nákvæmu handriti sem gríðarlega margir sjá. Því er áhugavert að skoða hvað er í þessu.

Ræða biskupsins fannst mér merkileg. Það væri gaman að bera hana saman við ræður í fyrri konunglegu brúðkaupum. Mér fannst áhugavert þegar hann sagði brúðhjónunum að veita hvort öðru ákveðið athafnafrelsi vitnaði hann í skáldið Chaucer, máli sínu til stuðnings.

Þetta tengist því sem ég er mikið búin að vera að pæla í. Það er þetta með rökstyðjum og réttlætum með orðatiltækjum og eða svölum setningum eftir skáld. Þetta er mjög merkilegt þar sem það að það skuli vera til svöl eða skemmtileg leið til að segja eitthvað... þýðir ekki að það sé eitthvað sannara, eða réttara að segja það.

Allt sem stuðlar er satt, sagði Ármann Guðmundsson einu sinni. (Setning sem stuðlar sjálf og styður því eigin fullyrðingu.) Í nútímanum er rökleikni upphafin. Rökstuðningur er upphaf og endir alls, tilfinningarök eru ekki rök og staðreyndir eru staðreyndir, hvernig sem þær eru settar fram.

Samt er það þannig að ótrúlega oft, þegar menn ætla að segja eitthvað merkilegt, þá þarf að stuðla, vitna í, orðatiltækja... annars tekur enginn mark á manni! Orðanna hljóðan held ég að hafi meiri áhrif en flest annað í mannlífinu, stjórnmálunum, samfélaginu í dag. Að vera vel máli farinn er kannski eitt af því mikilvægasta, sem ákvarðar stöðu manna í þjóðfélaginu, hvað kemst til leiðar og hvað ekki.

Er einmitt búin að vera að hugsa um trúða í stjórnmálum. (Öll í besta flokknum þessa dagana.)

Fékk smá hroll í gær þegar ég fattaði annan íslenskan stjórnmálamann sem komst til valda með ekki ósvipuðum aðferðum.

Fyrsta orðið sem hann sagði í sjónvarpi var: Drulla.

Hann gerði usla í stjórnmálum þess tíma með því að vera af röngum ættum fyrir valdhafa í sínum flokki.

Varð borgarstjóri.

Sigraði sitjandi formann í formannskosningum og varð flokksformaður.

Varð forsætisráðherra.

Varð seðlabankastjóri

(Setti Ísland á hausinn)

Er ritstjóri Morgunblaðsins.

Og þessa sigurgöngu virðist helst mega rekja til ákveðins orðfæris. Máltækja, stundum heimasmíðaðra og almennra "skemmtilegheita." (Ef maður er með svona miðaldra-kalla-húmor.)

Sviðsetningin.

Ég er ekki frá því. Hvort sem okkur líkar betur eða ver. Það eru sviðsetningar sem stjórna heiminum í dag.

Umbúðirnar, ekki innihaldið.

Jájá, þetta fjallaði alveg um brúðkaup Villa og Kötu.
Til hamingju, þau.

25.4.11

Útvarp Kópavogur...

veðurspá.

Ég spæ því að eftir tvö norðaustansumur í röð verði brakandi blíða á norður og austurlandi alla hundadagana í sumar. (Frá ca, júlíbyrjun fram undir ágústlok.) Og síðan áfram, auðvitað, þar sem hauststillurnar búa mjög gjarnan fyrir austan. Hins vegar er ég hrædd um að fljótlega fari að kólna þar eystra þar í bili, og verði skítviðri fram undir, eða yfir, Jónsmessu.

Þetta með sumarblíðuna gæti síðan svo sem klikkað. Ég var að rifja upp hitabylgjupáskana á Egilsstöðum 1993. Blíðan hélst alveg eitthvað áfram. Ég man að við dimmiteruðum í brakandi blíðu. Á leiðinni í síðasta prófið mitt í Menntaskólanum á Egilsstöðum festi ég hins vegar bílinn á Lagarásnum og þurfti að skilja hann eftir og hlaupa á milljón gegnum snjóskafla á kirkjuleiðinni til að meika það í prófið. (Þýsku 403, ef eg man rétt.) Sumarið varð síðan alveg fullkomlega ömurlegt. Hitinn fór varla nokkurntíma í tveggja stafa tölu og það var OFT slydda. Sumarið kom eftir 20. ágúst. Þá var ég flutt til Akureyrar. Þeir sem fluttu til Reykjavíkur mættu beint í haustrigningar og fengu ekkert sumar. Þannig var það nú.

Þess vegna spái ég, hokin af veðráttureynslu, skítaveðri eystra og nyrðra, frá miðjum maí að júnílokum, en af meðfæddri bjartsýni spái ég því að rétt snúist í hundadögunum.

Reykjavíkursumarið er síðan eiginlega alltaf eins. Þarf ekkert að spá um það. Hitinn verður 10 - 15 stig og ýmist rigning eða sól. (Meira af rigningu en sól ef spá mín um suðvestlæga hundadaga gengur eftir.)

Annars veit ég ekkert hvernig sumarið verður. Planið er að vera viku á Húnavöllum og læra að leikstýra. Síðan þyrfti ég að fara vestur (á Patreksfjörð) norður (í Eyjafjörð) og austur (aðallega í Egilsstaði) og myndi nú alveg vilja stoppa dáldið á hverjum stað. Vera svo mætt í bæinn í tæka tíð fyrir Japan. 4. ágúst. Inn á milli þarf ég svo að taka slatta af viðtölum og þýða Önnu í Grænuhlíð. Og svo er ég að spá í að gera kannski einhverja útvarpsþætti... Kannski bara eitthvað í sambandi við allt þetta flakk? Eða verður kannski alveg nóg að gera?

Í allefall verður þurrkatíð í fjármálum. Líklega ekki króna af innkomu fyrr en vaxtabætur hrynja inn í ágústbyrjun, já og svo styrkir vegna Japansferðar, löngu eftirá, seinna í ágúst. Og ferlega væri nú gaman ef það færi ekki alveg allt í yfirdráttardrauginn.

Hérna megin við páska er sumarið fáránlega skammt undan. Og maí er alltaf ferlega stuttur mánuður, einhverra hluta vegna. Og ferlega þyrfti maður nú að haska sér út að hlaupa eftir þessa páska ofeldisins.

Bara er veðrið vildi nú vera svo vænt að fara að haga sér...