Átti aukinheldur að vera á fundi klukkan 10.
Svo var ég í vinnunni. Og guðfræðingurinn við hliðina á mér með innsýn í kirkjuhefðarlegu hliðina. Og ég narraðist og nörraðist.
Fór í framhaldinu og hugsa um undarleg utanafheit í sambandi við athöfnina "að horfa á konunglega brúðkaupið." Margir hafa ekkert gaman af því, auðvitað. Engan áhuga á þessu fólki, kirkjuhefðunum, konunglegum hefðum eða neitt. Enda, hvað segir það um mann? Ég velti fyrir mér hvort ég væri plebbi af því að ég horfði á konunglega brúðkaupið. Ég er nefnilega ferlega and-royal. Finnst alls ekki siðferðilega rétt að hafa fólk eins og sýningargripi í búrum frá fæðingu . (Þó það séu gullbúr.)
En, allavega. Þetta var ekki eins skelfilega langt mig minnir að brúðkaup foreldra brúðgumans hafi verið. Og þarna var margt áhugavert. Tónlist, sálmaval, ritningalestur... og ótal túlkunarmöguleikar á öllusaman, eins og í öllu leikhúsi.
Ég er náttúrulega öll að pæla í performance þessa dagana. Og þetta var sýning. Eftir mjög nákvæmu handriti sem gríðarlega margir sjá. Því er áhugavert að skoða hvað er í þessu.
Ræða biskupsins fannst mér merkileg. Það væri gaman að bera hana saman við ræður í fyrri konunglegu brúðkaupum. Mér fannst áhugavert þegar hann sagði brúðhjónunum að veita hvort öðru ákveðið athafnafrelsi vitnaði hann í skáldið Chaucer, máli sínu til stuðnings.
Þetta tengist því sem ég er mikið búin að vera að pæla í. Það er þetta með rökstyðjum og réttlætum með orðatiltækjum og eða svölum setningum eftir skáld. Þetta er mjög merkilegt þar sem það að það skuli vera til svöl eða skemmtileg leið til að segja eitthvað... þýðir ekki að það sé eitthvað sannara, eða réttara að segja það.
Allt sem stuðlar er satt, sagði Ármann Guðmundsson einu sinni. (Setning sem stuðlar sjálf og styður því eigin fullyrðingu.) Í nútímanum er rökleikni upphafin. Rökstuðningur er upphaf og endir alls, tilfinningarök eru ekki rök og staðreyndir eru staðreyndir, hvernig sem þær eru settar fram.
Samt er það þannig að ótrúlega oft, þegar menn ætla að segja eitthvað merkilegt, þá þarf að stuðla, vitna í, orðatiltækja... annars tekur enginn mark á manni! Orðanna hljóðan held ég að hafi meiri áhrif en flest annað í mannlífinu, stjórnmálunum, samfélaginu í dag. Að vera vel máli farinn er kannski eitt af því mikilvægasta, sem ákvarðar stöðu manna í þjóðfélaginu, hvað kemst til leiðar og hvað ekki.
Er einmitt búin að vera að hugsa um trúða í stjórnmálum. (Öll í besta flokknum þessa dagana.)
Fékk smá hroll í gær þegar ég fattaði annan íslenskan stjórnmálamann sem komst til valda með ekki ósvipuðum aðferðum.
Fyrsta orðið sem hann sagði í sjónvarpi var: Drulla.
Hann gerði usla í stjórnmálum þess tíma með því að vera af röngum ættum fyrir valdhafa í sínum flokki.
Varð borgarstjóri.
Sigraði sitjandi formann í formannskosningum og varð flokksformaður.
Varð forsætisráðherra.
Varð seðlabankastjóri
(Setti Ísland á hausinn)
Er ritstjóri Morgunblaðsins.
Og þessa sigurgöngu virðist helst mega rekja til ákveðins orðfæris. Máltækja, stundum heimasmíðaðra og almennra "skemmtilegheita." (Ef maður er með svona miðaldra-kalla-húmor.)
Sviðsetningin.
Ég er ekki frá því. Hvort sem okkur líkar betur eða ver. Það eru sviðsetningar sem stjórna heiminum í dag.
Umbúðirnar, ekki innihaldið.
Jájá, þetta fjallaði alveg um brúðkaup Villa og Kötu.
Til hamingju, þau.