19.11.10

Uppris og Austurþankar

Fyrst í dag vaknaði ég nokkurn veginn eðlileg.
Hálfum mánuði eftir fyrsta í flensu.
Klukkan ellefu.
Búin að snúa sólahringnum alveg gjörsamlega við eins og unglingur í páskafríi.
Orðin hálfum mánuði á eftir með allt lífið, líka.
Og asnaleg af inni- og einveru.

Þá er að niðursjóða. Allt sem átti að gerast á þremur vikum þarf að gerast á einni. Ekkert víst að það verði neitt verra fyrir það.

Annars er ég með Egilsstaðaveikina. Það sem mig langar stundum að eiga heima þar. Ekki síst í kringum jólin. Ef það væri hægt myndi ég helst vilja fara austur svona í byrjun júlí, eða eftir skóla, og vera alltaf þar fram yfir áramót. Taka svo vorönnina í Hugleiknum og bænum. Samkvæmistímabilið. Eiga bara tvö heimili. Börnin ættu þá bara tvö sett af vinum og ef upp kæmi einelti eða vandamál væru þau hvortsemer alltaf alveg að fara að flytja.
(Enda, alltaf afar kúl að vera "nýr" eða "alveg að fara að flytja," eftir því sem ég best man, sem ól allan minn barnsaldur í sama húsinu.)

Akkurrekki?

Málið verður sett mjög alvarlega í nefnd þegar 40 millurnar úr lottóinu á laugardaginn verða í höfn.

15.11.10

Skreiðst

í vinnuna.

Er ennþá alveg eins og aumingi með hor og hósta og sleppu. Hefi enn einu sinni svarið þess dýran eið að vanmeta aldregi framar góða heilsu þegar hennar nýtur við. Og ætla þvílíkt út að hlaupa þegar þessu sleppir, hvernig sem viðrar!

Meðan ekki er hægt að gera annað en að lufsast um með hálfa meðvitund er síðan líklega best að reyna bara að gera eitthvað gagn með því. Nú þarf til dæmis að hjóla í doktorsritgerðina á milljón. Klára að vinna innganginn og ryðja helst útt uppkasti af einhverjum slatta af öðru fyrir jól. Og svo þarf að læra fyrir eitt próf... sem er reyndar mikið til skylt að efni þannig að það fellur ágætlega saman. Og svo smælkið... boða einn aðalfund, gera einn útvarpsþátt, æfa eitt leikrit, eða kannski tvö... Já, og svo er tími útdrátta að fyrirhuguðum fyrirlestrum næsta árs víst runninn upp!

Ég horfði annars á skemmtilegt rant Stephen Fry í gær. Við erum andlega skyld. Og ég er einmitt oft mjög fegin að ég skyldi hafa rambað á þann stórasannleik að vinnan manns sé, og þurfi að vera, skemmtilegri en skemmtun.

STEPHEN FRY: WHAT I WISH I'D KNOWN WHEN I WAS 18 from Peter Samuelson on Vimeo.