21.11.09

Ójá!

Margt gæti maður nú tjáð sig um. Hið nýþvegna nafn Búnaðarbankans, leiksýninguna og tónleikana sem ég fór á í gærkveldi. Nokkrar mergjaðar gubbusögur eru ósagðar frá vikunni og svona. Já, og svo er ég komin með söluleyfi á Herbalife, ef einhvern langar í.

En einhvern veginn held ég ekki athygli við nokkurn skapaðan hlut nógu lengi til að forma setningar sem eitthvað vit er í. Þetta með viðutan prófessorana, Vandráð og svoleiðis, sem eru alltaf í sitthvorum skónum, mæta í vinnuna í náttfötunum ranghverfum og svona, mig er farið að gruna að í þessu sé algjörlega sannleikskorn.

Ég er strax farin að eiga ferlega erfitt með að fylgjast með. Svona í daglega lífinu. Veit sjaldnast hvort ég er að fara eða koma og er oft "dottin út" í miðju samtali og man ekki hvar það byrjaði. Ég get hins vegar alveg einbeitt mér þegar ég er í vinnunni. Þar er ég í einhverjum súperfókus og les og skrifa fræði eins og vindurinn. Og finnst það meiraðsegja gaman. En oft er alveg hunderfitt að láta heilann í sér ná utanum það sem maður er að lesa eða huga. Og það gæti verið mergurinn málsins. Þegar maður teygir svona mikið á heilanum á ákveðnu sviði þá virðist eitt og annað týnast.

Eins og að muna hvað maður var byrjaður að gera eða hvert maður er að keyra. Það er ekki umhverfisvænt hvað ég er oft búin að keyra einhverja vitleysu þessa dagana. Svo hef ég sjaldnast einu sinni grun um hvar ég lagði bílnum. Fyrir nú utan þegar ég gleymi að ég var á honum og er komin hálfa leið heim, labbandi. Já, og í gær fór ég í leikhús og skildi lyklana bara eftir í svissinum. Í ólæstum bílnum. Honum var samt ekki stolið. (Eðlilega.)

Ég er nú að vona að þetta lagist þegar verkefnafargani linnir í annarlok. Annars er bara eins gott að allir í kringum mig séu svakalega þolinmóðir, þessa dagana.

Aldrei að vita hvenær ég man næst eftir að blogga...

17.11.09

Oj

hvað það er orðið ógeðslega dimmt og kalt á morgnana. Og eftir þrjá mánuði... verður það ennþá svoleiðis. Ég er komin með leið á að hanga á feisbúkk og allir fréttavefir eru að sökkva í næstum sömu ládeyðu og lágkúru og fyrir Hrun. Semsagt, hef ekkert gaman af internetinu, lengur.
Hvað á maður þá að gera? Vinna bara?

Jæja... veitir svosem ekkert af.