19.1.08

Bara djamm!

Fékk tilfelli af hreiðurgerð í dag (eftir að hafa sofið fram að hádegi) og áður en ég vissi af var ég búin að endurskipuleggja bæði skrifstofuna og svefnherbergið og breyta öllu þar og finna slatta af barnadóti í geymslunni sem var ekki búið að finna. (Nema ekki mjaltagræjurnar...) Að sjálfsögðu er kannski of mikið sagt að "ég" hafi gert alla þessa hluti, sem slík, en ég ákvað þá og Rannsóknarskip notaði kunnáttu sína frá "já elskan" námskeiðinu í gærkvöldi og gerði algjörlega allt sem ég vildi.

Og poggufötin eru komin í fæðingardeildartöskuna. Reyndar ekkert annað.

Eftir síðdegislaggningu fór ég á frumsýningu á Útsýni eftir Júlíu Hannam hjá Hugleik í Möguleikhúsinu. Mæli alveg með henni
Lenti meira að segja aðeins í frumsýningarpartí, alveg til ellefu!
En nú er líka kominn tími á tólf tíma napp.

18.1.08

sof

Svaf til hálftólf. Það er auðvitað stórmerkilegt að maður skuli ennþá geta sofið eins og skata, og eins lengi og aðstæður mögulega leyfa, á 9. mánuði óléttu. En það get ég, mjög hamingjusamlega. Og er á leið í bumbusund. Og fæ að vera á bílnum.

---

Fórum í parajógatíma í kvöld. Nú er Rannsóknarskip orðinn enn betri í að segja "Já, elskan" og þaraðauki búinn að fá gott námskeið í að nudda á mér lappirnar. Hugga móða og Freigátan skemmtu sér heima í boltaleik á meðan og hlustuðu á 16 ára afmælið á efri hæðinni. Núna er verið að henda því öllu út, og ég er að huxa um að fara í bað.

Ég pakkaði ekki niður í sjúkrahústöskuna í dag, eins og ég ætlaði, en ég keypti allavega oggulítil snuð. Sem gengur vonandi betur að láta Dugguna nota en Freigátuna.

17.1.08

Guð í Alnetinu

Smábáturinn tjáði mér yfir morgunmatnum í morgun, eftir vini sínum, að ef maður spilaði Pókemonlagið afturábak gæfi að heyra zatanískan boðskap. Ekki nóg með það, heldur var boðskapurinn orðrétt sá sami og sögusagnir gengu um, í minni æsku, að heyrðist ef maður spilaði Zeppelin-smellinn Stairway to Heaven, afturábak.

Í þann tíð var ég að vinna með slatta af ofsatrúuðu fólki í sumarbúðum Þjóðkirkjunnar á Eiðum, sem sumt hvert var alveg með hlönd fyrir hjörtunum yfir þessari sögusögn og óttaðist að hafa þegar beðið skaða af áheyrn lax þessa. Það bar við um þessar mundir að sr. Pétur Kristjánsson, nú Óháðasafnaðarprestur og faðir Pétrískunnar, vísiteraði. Málið var borið undir hann og hann hafði eftirfarandi um það að segja:
Það fer illa með plötur að spila þær afturábak.
Frekar snjall kall.

Ég heyrði þá kenningu reyndar seinna að þessum orðrómi hefði verið komið af stað af sölumönnum rafmagsgítara sem voru orðnir þreyttir á að heyra þetta glamrað, mis-illa, daginn út og inn. Spuringin hvort hitt er ekki bara komið frá foreldrum sem eru orðnir leiðir á Pókemon-laginu?

Ég sagði Smábátnum að þessi þjóðsaga hefði nú líka gengið í mínum ungdómi og sendi hann í skólann, með stórum minni áhyggjur af Zatni og félögum.
Vinurinn ku hafa haft þessar upplýsingar af Jútúb á internetinu.

Smábáturinn hefur ekki aðgang að alneti heimsins heima hjá sér. Enda er hann og hans 11 ára félagar nú bara rétt að byrja að sigta lygar foreldranna frá sannleikanum (jólasveininn og co.) en eru að hinu leytinu ennþá ógurlega auðtrúa, sérstaklega á ótrúlega og ólíklega hluti sem þeir hafa eftir einhverjum óljósum heimildum og utanaf sér.

Ég held að á meðan menn eru ekki búnir að koma sér upp sjálfvirkri kjaftæðissíu og tortyggni gagnvart upplýsingum sem hljóma ólíklega eigi menn alls ekki neitt erindi á alnetið nema undir ströngu eftirliti.

Skrifaði hún. Á alnetið.

16.1.08

Æi, já

Svo sá ég ógurlegan bókmenntafræðinjarðisma á auglýsingu um eitthvað partí hjá félagi bókmenntafræðinema.
Nefnilega:
Be there or be deconstructed

Ég hristist af kjánahrolli vel fram yfir miðjan tíma.

Ofurdagur

Var mun sprækari í dag og spriklaði yfir snjó og torfærur alla leið í skólann, jógað og sundið. Reyndar með ofurlítilli aðstoð frá Strætó. Og held ég sé bara alveg sæmileg eftir. Hélt reyndar að barnið myndi detta úr mér í einhverri glennuæfingunni í jóganu í dag, en það slapp til svo það lítur út fyrir að ég láti afmælisdaginn hennar Heiðu í friði áfram.

Það verður skemmtilegt í námskeiðinu um David Mamet sem ég byrjaði á í dag. Ekki leiðinlegra að hann verður kenndur í fjarkennslu svo upptökur af öllu því fróðlega sem Regalinn segir í tímum verða aðgengilegar á kennsluvefnum mínum. Svo maður ætti að geta fylgst afbragðsvel með úr fjarskanum. Það lítur líka ágætlega út með að klára hina kúrsana án þess að mæta í tíma. Þá er bara að vona að Ofurlitla Duggan verði dugleg að sofa svo Móðurskipið geti lært og lært og lært.

Rannsóknarskip, Smábátur og Freigáta fóru út í búð. Með snjóþotu. Móðurskipið fékk heimaverkefni á meðan. Á að elda pakkasúpu. Og hangir svo bara og bloggar og glápir á Dr. Phil.

Skammskamm.

15.1.08

Svefndagur

Var í morgun svo hræðilega illt víða í allri mér og var þaraðauki bíllaus og treysti mér ekki til að vaða snjóinn í strætó. Svo ég fór bara aftur að sofa. Eftir alveg svakalega innri baráttu samt, langaði hræðilega í skólann. Var reyndar ekki alveg búin að gera upp við mig hvorn tíman ég ætlaði í, á að vera á tveimur stöðum í einu á milli 10 og hálftólf á þriðjudögum. Svo ég ákvað að vera bara á þeim þriðja. Vona að með þessu móti verði ég nógu spræk til að komast í skólann, jógað og sundið á morgun.

Fer annars alveg að verða svartsýn á að ég verði aftur almennilega rólfær. Kannski er þetta bara spurning um að halda einhvern veginn út það sem eftir er. Sem er, einmitt í dag, aldrei meira en 6 vikur. Ætla nú samt að gá hvort sjúkraþjálfarinn getur ekki gert eitthvða fyrir mér og reyna kannski að fá mér nuddtíma.

Mig langar nefnilega svoooo til að geta mætt í skólann fram að fæðingu.

Annars er þvílík skipulagning í gangi. Á föstudaginn ætla ég að pakka í sjúkrahústöskuna. Þá eru akkúrat 37 vikur og betra að vera við öllu búinn. Á föstudaginn gerist ýmislegt fleira, Smábáturinn fer norður og við erum að fara á parakvöld í meðgöngujóganu á föstudaxkvöld sem gengur undir yfirskriftinni "Já elskan". Þar sem barnsfeður læra nudd og allskonar fæðingarhjálpartrix. Og að fram að fæðingu eða lengur skal öllum umkvörtunum hinnar verðandi móður ansað með yfirskriftinni.

Þar er Rannsóknarskip reyndar ljósárum á undan. Er auðvitað aldrei neitt annað en yndislegheitin og er búinn að hlaða á sig meira og minna öllum heimilisstörfum og umsjón barnanna, ofan á það að mennta unglinga allan daginn. Og svo stjanar hann við mig, segir "já elskan" í tíma og ótíma og er líka duglegur að koma mér út úr húsi, í leikhús og allskyns, þegar ég ætla að verða of löt til að hunskast á síðustu stundu. Sem er mjög mikilvægt. Maður hangir líklegast alveg nóg heima hjá sér í vor. Svo, eins og segir í laginu: Það er allt í lagi, ég á svo góðan mann...

Hins vegar gerðist það einhvern tíma á seinnihluta síðustu fæðingar að hann lofaði að verða alveg hrrroðalega alminilegur við mig í tvö ár. Og tók þetta algjörlega upp hjá sjálfum sér. Og nú er Freigátan að verða tveggja ára, þannig að samningurinn er líklega að renna út... sennilega vissara að kveinka sér eitthvað í næstu fæðingu líka, sem verður líklega nokkrum dögum síðar, svo maður eigi séns á að negla annan díl.

14.1.08

Ofurlítil Duggan - Spár og spekúleringar

Elísabet mágkona setti fram nokkuð flókna og tvíbenta spádóma í kommentakerfið um daginn, og spáði því að Duggan yrði drengkyns og kæmi í heiminn 4. febrúar. En sagðist um leið hafa litla trú á eigin hugboðum um svona mál, hennar hugboð segði henni að barnið yrði stúlka og myndi fæðast um eða eftir miðjan mánuð. Ég ætla að túlka þetta sem svo að ELó spái því að fæðist barnið fyrir "ásettan" verði það drengur, en stúlka láti hún eitthvað bíða eftir sér.

Það getur þá væntanlega brugðið til beggja vona ef Hulda Sónar Hákonar hefur rétt fyrir sér og hún fæðist á fyrirframumspáðum degi, þann 8. febrúar. En Hulda ku hafa með spádómi þessum hafa verið að sverma fyrir flottri kennitölu. 080208. Og þar með er krílið orðið í stíl við dóttur Hugleixformannsins sem mig minnir að sé fædd 070207.

Rannsóknarskip slær því annars slagið fram að barnið muni fæðast á afmæli Freigátunnar þann 28. janúar. Þar með er komin svakalega góð nýting á einn dag, eins og Rannveig Þórhalls gerði um árið, en mig minnir að báðir synir hennar séu fæddir 24. janúar, með 8 ára millibili.

Þegar Freigátan var farin að láta bíða eftir sér og virtist ætla að sneiða hjá öllum tyllidögum og fyrirframspáðum, þá spáði ég því að hún myndi fæðast 27. janúar, sem var ljóst að yrði gangsetningardagur. Þetta gerði ég til að koma í veg fyrir að hún biði svo lengi. Mér datt ekki í hug að þetta yrði til þess að hún biði þá bara einum degi lengur. Í ljósi reynslunnar finnst mér núna rétt að hafa í huga þriðjudaginn 26. febrúar. Nú eins og þá er ég sett á föstudegi, og nema vaxtarsónar sýni eitthvað tröllbarn myndi ég fá að sjá til með startkaplana fram yfir helgina. Gangsetningardagur yrði þá 25. feb. Og gerum svo ráð fyrir einum degi betur, en ef ekkert gengur á öðrum degi gangsetningar er framkvæmdur keisaraskurður, hvað sem hver segir, á Íslandi. Svo það verður aldrei seinna en þá.

Svo er það stjörnuspekin.
Líkur á steingeit fara minnkandi með hverjum deginum. Mestar líkur eru á öðrum vatsbera. Sem, ef það er skaphöfn í ætti við Freigátunnar sem hefur tekið uppá því að syngja allan daginn og vera síknúsandi alla, er alveg ljómandi. En 19. febrúar og síðar fáum við fisk. (Og það er kannski það sem Freigátan er alltaf að meina með því að endurtaka í sífellu setninguna og bókartitilinn: "Ég vil fisk".)

Kínverskur nýjársdagur er 7. febrúar þetta árið. Þá hefst ár jarðarrottunnar. Fyrir eru í fjölskyldunni vatsrottan Rannsóknarskip og eldrottan Smábátur svo þá yrðu rottur komnar í meirihluta í fjölskyldunni. Fyrir 7. er hins vegar ennþá ár eldsvínsins. Ég minnist þess nú bara varla að ég þekki svín, svo ég viti til. Svo það væri vissulega spennandi.

Svo þarf að spekúlera í nöfnum. Ég gæti eignast 12 stelpur á einu bretti og fundið nöfn handa þeim öllum. Annað mál er með stráka. Ég er búin að tjá Rannsóknarskipinu að sú ákvörðun hvíli á hans herðum... að mestu... ég held mig þó enn við að þverneita að skíra barnið Bónda. Þó hann fæddist á bóndadaginn. En Rannsóknarskip tekur engan þátt í svona spekúleringum fyrr en barnið er fætt. Og ég myndi svo sem ekkert skíra hvaða barn sem er hvaða nafni sem er. Ég reyni að ráða eitthvað í svip og karakter, eftir því sem það er hægt. Ef ég hefði verið fyrr á ferðinni í barneignum hefði ég sjálfsagt fallið að einhverju leyti í tískugildrur og skírt einhverjum furðunefnum. (Segi kannski ekki alveg út í Vanilla Blær, en hugsanlega meira í áttina að því.) Ég hef elst frá því, en samt kannski ekki alveg út í Harðgerði og Hrollaug. Einhvers staðar mitt á milli og alveg eins í hausinn á einhverjum, eða ekki. Af nógu er að taka í minni fjölskyldu þar sem ég hef afgerandi forystu í barneignum og nafnasjóðurinn er óplægður akur. En eitthvað verður maður nú samt að skilja eftir handa systkinunum, sérstaklega þar sem ég er búin að hirða ömmu-Freigátu. Það var hins vegar bara ekki hægt annað en að byrja á að skíra í höfðuðið á henni. Hún var búin að bíða eftir barnabarni í áratugi, meira að segja búin að fara í fýlu, selja allt barnadótið og prjóna sér dúkkur sem hún kallaði barnabörnin sín. Og svo prjónaði hún föt á þær. Ég er ekki einu sinni að ljúga neitt miklu.

Freigátan kom okkur annars frekar á óvart með því að vera nokkuð horlaus í dag eftir góðan nætursvefn eftir helgi með kvef og hitavelling og var drifin í leixkólann í morgun. Nú hefur sú skipulaxbreyting verið tekin upp að Rannsóknarskipi hefur verið eftirlátinn fjölskyldubíllinn og umsjón þess að koma henni í og úr leikskóla. Ég var ekki lengur að ráða alminilega við að troða henni í bílinn, sérstaklega ekki ef við vorum ekki alveg sammála um að hún væri að fara þangað. Stundum vill hún nefnilega fá að hoppa í öllum pollunum og elta ketti í hina áttina, og hefur ekki enn masterað rökrænt samhengi hlutanna að fullu.

Svo þá er bara að vona að ég missi ekki legvatnið í strætó. En hann tek ég núna allra minna ferða, eða semsagt í skólann og bumbuspriklið. Í dag er einmitt bumbuspriklsdagur. Jóga með sundi í eftirmat og solið labb til og frá og á milli. Jólastirðnleikinn er allur á undanhaldi og vonandi verður Móðurskipið farið að brokka um bæinn eins og ekkert c fyrr en varir.

13.1.08

Hreiðrun?

Spurning hvort hreiðurgerðarstigið er að gera vart við sig?

Rannsóknarskip vann ritræpukeppnina um hvort okkar fengi að fara á höfundafund. (Lokastaða var 1-0.) Á meðan hann var í burtu gat ég engan veginn hamið mig og tók heilmikið til. (Sem sást reyndar ekkert mikið.)

Svo kom Berglind í heimsókn með fjölskylduna, færandi hendi með bakkelsi og vöggu sem Ofurlítil Duggan fær lánaða. Það var leikið sér af innlifun og fullorðna fólkið gerði heiðarlega tilraun til að spjalla eitthvað saman líka.

Að heimsókn lokinni var Móðurskipið síður en svo dottið úr stuðinu og leikstýrði allri fjölskyldunni í áskiptingum á öllum rúmum heimilisins. Eitthvað var Freigátan nú stúrin yfir að fá ekki að máta litlu vögguna, en jafnaði sig fljótlega.

Núna eru Rannsóknarskip og Smábátur í sendiferð í Nóatún, og vonandi geta þeir fengið þar fyrirframeldaðan kjúkling. Á meðan er verið að reyna að leikstýra Freigátunni í einleiknum: Dótið af gólfinu týnt upp í dótakassann. Gengur misjafnlega.

Obbslega heimilislegur sunnudagur í dag.

Var reyndar að átta mig á því að í dag eru akkúrat 2 ár síðan Freigátan átti að fæðast...
Ji, hvað ég átti eftir að bíða lennnnngi...