8.6.07

Þakkir og þökkur

Mig langar að þakka öllum sem sáu sýninguna í gær alveg svakalega vel fyrir viðtökurnar. Og þeim sem sáu hana í kvöld, líka. Nú rignir fallegum sms-um yfir skelþunnt höfuð mitt. Takk, ástsamlegast.

Frumsýningarpartí í gær endaði niðri á Gauk á Stöng þar sem ég náði í skottið á Hundi í óskilum og sá prógramm Ljótu Hálfvitanna. Það var aldeilis ljómandi. Í dag sigldi Rannsóknarskipið norður yfir heiðar til fundar við Skólann í Svarfaðardalnum, sem er einnig þess valdandi að helmingur blogganna á linkalistanum mínum verða óvirk næstu vikuna. Smábátur er í sumarbústað með ömmu sinni um helgina, svo við Freigátan erum bara tvær að sullast heima.

Fór á skólaslit hjá Smábátnum í dag. Það var óskaplega gaman. Alltaf jafnfyndið þegar maður rext á fólk á svona foreldrasamkomum sem skilur síst í því hvernig ég fór að því að eignast barn og koma því á skólaaldur á tveimur árum. En drengurinn kom heim með allskyns listaverk frá vetrinum og frábæran vitnisburð um frábæra frammistöðu í öllu. En ekki hvað?

Nú ætla ég að horfa á marga Friends-þætti í röð og borða allt sem ég finn. Glammó.

7.6.07

Jeg er eins og jólatré...

...því taugaveiklun daxins er að snúast upp í eitt allsherjar fegrunarfyllerí. Á mér er ekki ókremborinn blettur og búið er að skipuleggja glingur til áhengis á rúmlega alla útlimi.

Best að fara aðeins út með Freigátuna áður en ég ákveð að prófa líka öll útrunnu kremin, og klippa mig. Fullmikil áhætta.

Annars kom ég við í Þjóðleikhúsinu áðan. Þar voru allir á milljón að kjúa. Og ég sat bara hjá leikurunum í smók með Hilmi Snæ. *Hársveifla og naglafæging á öxl*

Komið aððí!

Eftir að leitin að flíkum sem feldu og mjókkuðu mig bar engan árangur í gær, lagðist ég í fatahönnun. Úkoman held ég sé bara ágæt. Frumsýning í kvöld.

Annars eru þessar útlitsáhyggjur auðvitað ekkert annað en raunveruleikaflótti. Svo ég fari ekki að fá andarteppu af stressi yfir sýningunni í kvöld eða öllu sem ég þarf að gera áður en ég fer í sumarfrí í vinnunni... sem er eftir tvo og hálfan tíma. Sama tilgangi þjóna dagdraumar um Frakklandsferðina (23 stiga hiti og sól í Montpellier í dag) þó þar spili vissulega veðurþunglyndi inn í. (Er ekki verið að djóka með þessa endalausu rigningu.)

Það er undarlegt að höndla svona illa velgengni. Það ætti alveg að vera í mínum karakter að njóta athyglinnar og vera bara montin með mig og sveifla hárinu og slá um mig með bókmenntafræði og artífrösum. (Sem ég kann alveg... á reyndar erfitt með að nota án þess að háð og gæsalappir liggi um allt loft.) Ég held að fyrir einum 10 árum síðan hefði mér látið það ljómandi vel. En í aðdraganda frumsýninga, eða "hátíðar"sýninga, í seinni tíð, á því sem ég hef skrifað, verð ég eiginlega bara... stressuð og asnaleg og veit ekki hvað ég á að gera, segja eða vera. Svo verð ég pirruð og geðvond og finnst þetta alltsaman vera vesen. Og er handviss um að ÖLLUM finnist þetta alltsaman ÖMURLEGT hjá mér. Og að HEIMURINN FARIST, þá.

Dísuss, hvað maður er geðveikur. Svona er að vera með fullkomunarröskun og þunglyndu og hafa samt ekki vit á að vinna við eitthvað sem enginn sér. Sjálfsskaparvíti, nottla.

En ég er samt alveg viss um að það verður hryllilega gaman í kvöld, fyrir, á meðan og á eftir, og þeir sem finnst ÖMURLEGT fara vonandi ekkert að segja það við mig fyrr en eftir svona tvo þrjá bjóra, á Hálvitatónleikum. Og þá verð ég nú alveg farin að yppa öxlum.

6.6.07

Ekkert miklu nær

Fór í Hringluna í gær. Eyddi syndsamlegum fjárhæðum. Aðallega í barnafatadeildum. Freigátan á nú fleiri alklæðnaði til útlandafarar en hún kemur nokkurn tíma til með að brúka. Ég fann eina flík á sjálfa mig, sem er þeim eiginleikum gædd að hún er utanyfir og felur bæði ömmuhandleggi og feita rassa. Gerir sumsé "úreld" dræsuátfitt aftur nýtileg. Svo fór ég heim og mátaði, er enn feit í þeim öllum, svo ég er engu nær.

Er þar að auki á leið til tannlæknis. Þessi dagur sökkar.

5.6.07

Feitan

Það er rigning í Reykjavík. Líka í Montpellier. Og ég er ekki enn búin að leggja í að fara og máta kínverska kjóla fyrir sýninguna í Þjóðleikhúsinu. Og veit ekki einu sinni hvort ég legg í það. Ég er hrrroðalega illa haldin af feitunni þessa dagana. Kannski enda ég bara í Kringlunni að leita að einhverju sem teygist... og mjókkar mann. Reyndar, kannski ágætis aðhald í þessu kínverska sem gefur ekki baun eftir... nema maður verði bara eins og rúllupylsa? Svo gæti alltsaman rifnað á rasssaumunum á leiðinni á Þjóðleikhússviðið... það væri nú hreint ekki gaman. Samt ferlega týpískt. Kannski maður öjlist niður í kínverskubúð í dag eða á morgun og máti. Þá stærstu og feitustu.

Annars dæmigert að vera með feituna í fyrsta sinn í mörg ár sem maður sér fram á að þurfa að troða sér í bikini. Þá sprettur appelsínuhúðin auðvitað alveg eins og laufið á trjánum og hverjar gallabuxurnar á fætur öðrum hlaupa í þvotti. Jæjajæja. Ég verð með fallegan mann með mér og sæt börn og vei hverjum þeim sem þykist eitthvað ætla að fara að horfa fram hjá allri þeirri fegurð og á feitu lærin á mér.

Freigátan hefur eignast ótrúlega sætt vegabréf, og passar annarra fjölskyldumeðlima fundust einnig, eftir mikla og dramatíska leit. (Nákvæmlega þar sem þeir áttu að vera, og búið var að leita að þeim, oft.) Í dag skulu ökuskírteini okkar hjónanna færast í nútímalegra horf, ef okkur skyldi detta í hug að leigja okkur bíl, einn eða tvo daga, í Frakklandinu.

Allur undirbúningur að klárast, enda eins gott, ég ætla að senda Rannsóknarskip á bifreiðinni norður á skóla, Smábáturinn verður mest af þeim tíma hist og her í útláni, en við Freigáta verðum heima að pakka og þrífa með dyggri aðstoð Ba frænku.

4.6.07

Plön og planleysi

Það er 25 stiga hiti í Montpellier. Þar er líka óstjórnlega mikið af mat sem ég ætla að borða á meðan ég verð þar. Ég ætla, til dæmis, að borða: Foie gras, geitaost, pizzu með eggi, crépes með öllu, óteljandi salöt og brauð með allskonar kæfum. Svo eitthvað sé nefnt. Og Yop. Ég þarf líka að leita uppi haug af veitingastöðum og bakaríum sem ég hélt uppá og prófa líka helling af nýjum.

Ég er hins vegar ekki farin að tala við barnapíur út af sýningunni á fimmtudaginn. Né heldur er ég almennilega farin að huxa um í hverju ég ætla að vera. Ég er ekki heldur búin að ákveða endanlega hvernig ég hef skólavikuna, en ég held helst að ég sendi Rannsóknarskipið bara norður á bílnum og verði heima hjá mér að pakka fyrir utanlandsferðina ógurlegu. Og hanga. (Að eins miklu leyti og það verður nú hægt, í fullu starfi með Freigátuna.) En heiðarlegar tilraunir til hangs verða gerðar, jájá.

Oj hvað ég er að verða löt.
Og hlakka til þegar, annað hvort, góða veðrið kemur til mín, eða ég fer til þess.