16.11.06

Leikfélagið Hugleikur

Fékk í dag viðurkenningu menntamálaráðherra í tilefni af degi íslenskrar tungu. Er hann vel að því komin, því útúrsnúningar, orðaleppaásláttur og reglulegt hopp á menningararfinum er jú alveg bráðnauðsynlegt til að halda menningararfinum lifandi. Hér er oggulítil frétt um málið, en vissulega mun farið mikinn á Leiklistarvefnum um leið og ég kem í vinnuna í fyrramálið. Þeir létu alveg hjá líða að minnast á þetta í kvöldfréttum sjónvarps. Fannst merkilegra að menntamálaráðherra hefði tekið vélritunarpróf. Hommar og plebbar.

En mikið hrrroðalega erum við nú montin af okkur í dag öllsömul. Til hamingju öll við.

Ég fengi hins vegar engin verðlaun sem móðir, kona, meyja né neins konar starfsmaður byggt á frammistöðu í dag. Mestan hluta dagsins var ég að reyna að þýða, pakka, láta yngra barnið þegja, eldra barnið læra og bóndann sofa úr sér næturvökur undanfarinna þýðingamikilla nátta. Var að lokum orðin bandúrill og skítkalt. Lét þá bóndann og börnin sjá um sig sjálf á meðan ég fór í heitasta bað í heimi og öll fötin mín. Og nú blogga ég í stað þess að reyna að halda áfram með þýðingaverkefnin sem fyrirséð er að koma til með að ná langt fram á nótt. Gáfulegt.

Og hvað er eiginlega að þessu fokkíng veðri?

Flass

Er að vinna geðveikt með Pixies-tónleika í sjónvarpinu. Erfitt að kunna almennilega íslensku með svona alvarlegt menntaskólaflassbakk. Siiiríuslí.

Og dagur íslenskrar tungu var að renna upp rétt í þessu. Ekki fallegt afspurnar.

15.11.06

Öll veröldin er leiksvið!

Stekkjastaur fundinn. Og kemur úr áður óhugleixku leikfélagi, held ég. Jibbíkóla!

Nú er ég nú aldeilis roggin með mig. Þá er bara að reyna að leikstýra þessu öllusaman og vonandi án tilheyrandi kvíðaraskana. Það var ljómandi í atferlismeðferðinni í gær. Við sáli komumst að því að ég var heilmikið byrjuð að "vinna í mér" (sem er reyndar orðalag sem ég þoholi ekki.) Og hún er bjartsýn á að ég þurfi ekki lyf í bili, ef ég held áfram að vera svona dugleg. Og ég fékk heimavinnu, þarf að halda dagbók um geðsveiflur. Lítið mál, það. Og gaman. Er búin að skrifa líðanir tæps sólahrhings og held þegar að þetta geti orðið grunnur í einhvers konar einþáttung. Kannski meiraðsegja þennan sem ég var alltaf að huxa um að gera með "undirtexta" í power point?

Allavega, bara eitt í einu.
Eða... allavega ekkert mjög margt.

Og það er komin umfjöllun um sýninguna á leikritinu mínu fyrir eystan á leiklist.is.

Við erum farin að mjaka einu og einu bílhlassi á nýja heimilið okkar. Sennilega reynum við að hala rúmin okkar og tannburstana yfirum á seinniparti sunnudax. (Eru einhverjir lesendur sem bráðlangar að hjálpa til, halda á ísskáp o.þ.h., eina dagstund? Í staðinn get ég alveg lánað Rannsóknarskipið í sambærilega aðstoð í óskilgreindri framtíð...) En þetta verður nú aðalflutningurinn, og við ætlum að reyna að koma sem mestu af öðru lauslegu yfirum á undan.

Freigátan sló persónulegt met í morgun og svaf alveg til átta. Þar með sváfu allir hálfa leið yfir sig, en allt slapp þetta nú til. Það rignir svoleiðis þýðingaverkefnum yfir okkur Rannsóknarskip sem aldrei fyrr. Og heyrir til undantekninga ef allavega hann þarf ekki að vinna hálfa nóttina. Og við erum enn í sjokki yfir að vera búin að eyða töttögogtveimur milljónum, að við þorum ekki að hafna verkefnum. Þó greiðslumötin segi að þetta eigi nú allt að sleppa.

Lallallah.
Geðbil.

14.11.06

Hausaveiðar

Komin með 50% leikara í þáttinn minn. Þeir eru nýir í Hugleik. Hin 50% eru í athugun og þar af eru 50% líka nýtt fólk, og ekki einu sinni úr leikfélögum mínu eða Rannsóknarskips! Færast nú kvíar út.

Ég er að fara í atferlismeðferð á eftir. Hlakka til. Text vonandi að losna eitthvað við þunglynduna.

Svo ætla ég að segja upp tryggingunni minni. Við Rannsóknarskip erum búin að láta samtryggja okkur í bak og fyrir. Á næsta ári samsköttum við svo og þá verður nú engin leið að segja til um hvar annað okkar endar og hitt byrjar. Það er nú fínt. Skuldbindingar rokka feitt og eru æði.

Er að skrifa handbók með öllu í sem leikfélög þurfa að vita. Hún verður nú þykk.

13.11.06

Komin heim

Eftir alveg hreint örskamma ferð á Austurlandið. Gaman að sjá frumsýninguna hjá LF, enda eru þau nottla með svo ofboðslega gott leikrit. Nei, í alvöru, ég er svakalega ánægð með þau. Finnst bara verst að geta ekki fylgst meira með þeim.

Svo lagðist ég í símann áðan og ákvað að veiða mér snöggvast fjóra jólasveina. Náði að landa Hurðaskelli og kannski-Stúf áður en dóttir mín sagði stopp, ekki meira símakjaftæði á mínum tíma. En nú er eins og hún sé eitthvað aðeins að róast í bili svo það er vissara að reyna að halda aðeins áfram. Árangurinn mun sjást í jóladagskrá Hugleiks sem verður í Þjóðleikhúskjallaranum 5. og 7. desember, vonandi að viðstöddu þvílíku fjölmenni. (Aldrei of snemmt að plögga.)

Best að reyna við Giljagaur.