21.12.07

Að jóla að heiman

Í undirbúningsskyni fyrir samningu áramótapistils var ég í gærkvöldi og morgun að skanna árið. Það er greinilega nauðsynlegt að gera það, þar sem Sævar kommenterar aldrei fyrr en þremur til fimm mánuðum síðar. ;-)

Annars gerðist hið ómögulega í gær. Rannsóknarskip var eins og útspýtt hundsskinn og kláraði allt sem þarf að gerast fyrir brottför. Við eigum eingöngu eftir að taka til og klára að pakka niður. Hreinasta kraftaverk.

Annars er skrítið að pakka fyrir svona jólaferðir. Maður tekur aðallega allt sem byrjar á spari, og svo einhver inniföt. Enn undarlegra er að pakka fyrir jólaferð Smábátsins til Flórída. Stuttbuxur og hlýrabolir, sólvörn... og jólapakkar. Og fátt annað þar sem amman er búin að hóta að nota ferðina í að versla á hann öll föt í Ameríku. (Sem er heppilegt. Hann er að vaxa uppúr því þegar við keyptum á hann öll föt í Frakklandi.)

(Og ég er bjánaprik. Búin að vera svo mikið að baða Freigátuna og eitthvað að ég missti af meirihlutanum af Óskastundinni hennar Gerðar G. Jæja, hlusta bara á það á netinu á eftir yfir niðurpakkinu.)

Svo er ótrúlegasta fólk búið að vera að detta inn, undanfarna sólarhringa, og núna árdegis á ég von á mæðgunum Stefaníu, fóstru minni, og Láru, dóttur hennar. Þær þurfa reyndar að smeygja sér einhversstaðar á milli, ég er að plana að skreppa í bæði mæðraskoðun og bumbusund áður en við brennum norðurum.

Freigátan fékk frí í dag, en hún er í sálrænu áfalli. Hún fékk nefnilega niðurgang og eftir tvær kúkasprengjur undanfarna daga þá er hún komin með mjög alvarlega allsberufóbíu. Það má ekki fækka á henni fötum og alls ekki taka bleyjuna, nema með kröftugum mótmælum. Ég var alvarlega að huxa um að setja hana í meðferð hjá sálfræðingnum yfir jólin, en það tóxt nú með herkjum að baða hana áðan, með talsverðum söng og fortölum þó. En ljóst er að henni þyki kúkur og gubb alveg hroðalega ógeðslegt. Sem er skiljanlegt. En mér finnst hroðalega fyndið að hún sé farin að fatta svoleiðis svona ung. Hún gubbaði á hendurnar á sér í gubbupest um daginn og missti sig svoleiðis af hryllingi að ég vissi ekki hvert hún ætlaði. Og það var nú ekkert miðað við þegar það fór kúkur á fótinn. Eins og ég segi, ég er farin að halda að hún hafi orðið fyrir alvarlegu sálrænu áfalli. 

Vonandi heldur allur óbjóður sig vandlega fjarri á næstunni.

20.12.07

Barbapapa fæddist úti í garði

Og hann var bleikur. Seinna fæddist líka Barbamamma í sama garði. En ekki fyrr en Barbapabbi var búinn að bjarga öllum nokkrum sinnum. Og hún var svört.
Svo eignuðust þau sjö börn. Strákarnir eru í hreinum litum, gulur, rauður og blár. Stelpurnar eru í blönduðum litum, græn, appelsínugul og fjólublá. Svo er einn strákurinn svartur og loðinn. Strákarnir hafa það sér til ágætis að vera snjall vísindamaður, vænn dýravinur, þór íþróttagarpur og kær sem er listmálari. Stelpurnar eru vís, sem er bókaormur, ljóð, sem er tónlistargúrú, og fín, sem er... fín.
Það er nú alveg hægt að missa stjórn á sér í femínískri greiningu á þessu.

Barbarnir eru að hinu leytinu langt á undan sinni framtíð. Skrifaðir 1974, hafa þeir miklar áhyggjur af menguninni, umhverfinu og vilja helst að menn hætti að drepa, ekki bara hvali, heldur dýr almennt. Þeir eru hálfgerðir alfriðungar. Og leysa vandamál dýra á milli til dæmis með því að setja bara úlfinn hinumegin við ána þegar hann ætlar að fara að éta lambið. Og hann þorir ekki tilbaka.

En eitt finnst mér ógeðslegt. Í einum þættinum eru Barbarnir, eins og Frakkaskammirnar sem þeir eru, að myndast við að búa til vín. Eitthvað finnst strákunum litla berjapressan (sem stelpurnar eru nottla með) vera lítilvirk, og eftir talsverða tilaunastarfsemi bregða þeir á það ráð að breyta sér í risastórar lappir og trampa á berjunum, eins og fólk. Skemmst frá því að segja að Barbakær breytist í svakalega stóra og loðna löpp.

Mér finnst vínið þeirra ekki sérlega lystaukandi.

Litlu Jólin

Rannsóknarskip er að litlujóla bekkinn sinn. Smábátur er að litlujóla í sínum skóla. Freigátan er í leixkólanum, þar sem er verið að reyna að hafa allt sem hverstaxlegast.

Og ég stend á haus ofan í ferðatöskum.

Og áðan kom hún næstum. Huxunin (Sem er einhverra hluta vegna með rödd móður minnar):
"Hvað er maður að þvælast þetta, bandóléttur um miðjan vetur?"

En svo mundi ég að mamma er búin að baka karamellutertu.

Og ferðalagið varð algjörlega vesenisins virði.

19.12.07

Kom aððí

Eftir duglegur síðustu daga nenni ég engu í dag. Ég nenni svo innilega engu að ég er eiginlega búin að liggja og lesa og sofa og hanga í allan dag og nennti ekki í nema annað M-ið.

En ég ætti svo mikið að halda forskotinu og vera byrjuð að pakka niður.
Það væri svoooo skynsamlegt...
Að þurfa ekki að gera það alltsaman á morgun...

En, jiiiii, hvað ég er innilega ekki að nenna neeeeeinu...

Nema horfa á lokaþáttinn af Americas next top model á eftir.

18.12.07

Metrómenn

Ég held sjaldnast vatni yfir Rannsóknarskipinu né heldur nokkru sem honum viðkemur. Meira að segja vinir hans úr menntaskóla eru þvílík eðalmenni, að ég verð nú bara að kjafta frá því hvað þeir ætla að gera í kvöld.

Þeir hittast reglulega, eitt þriðjudaxhádegi í mánuði. Svo ætluðu þeir að hittast einu sinni að kveldi, svona undir jólin. Menn myndu kannske ætla og óttast að þeir færu eftir vinnu, hryndu íða og týndust síðan fram á fimmtudag? En, nei, ekki aldeilis, ekki þessir. Þeir ætla að fara snemma kvelds á Tapas, borða vel og drekka menntuð rauðvín, og síðan var stungið uppá að þeir skryppu og versluðu jólagjafir handa konunum sínum í miðbænum, í framhaldinu.

Þetta finnst mér alveg gífurlega fallegt plan og með þessu liðsinni, metrógenginu með fullan magann af Tapasi og rauðvíni, vænti ég einstaklega fagurrar/smekklegrar/góðrar jólagjafar frá eiginmanninum í ár. 
Sem eru þó ekki vanar að vera af verri endanum.

Á meðan ætlum við krakkarnir að vera gífurlega dugleg að pakka inn jólagjöfunum sem eftir eru.

Merkilegt

Alltaf ætla ég jafnmikið að halda desember hátíðlegan, baka, borða, fara á minnst 2 jólahlaðborð og 3 tónleika, föndra, skreyta, hoppa og hlæja. Og ekki brext það frekar en fyrri daginn að allt í einu eru örfáir dagar til jóla og í desember hefur fátt eitt af þessu gerst.

Jólaþrif hafa að vísu verið framin, flestar jólagjafir eru komnar í hús og jafnvel búið að vöðla sottlu af þeim inní pappír. (Bæðevei, það þýðir ekkert að fara í Kringluna. Ég keypti restina af henni í morgun.) En húsið er óskreytt og huxanlega verður bara eitthvað lítið gert af því, fer eftir því hverju Rannsóknarskip og Smábátur nenna. Enda verður hér ekki nokkur hræða frá og með föstudegi og fram yfir áramót til að horfa á skrautið. Það er sem sagt komið fram yfir aðventuhuxanaháttinn, og komið að einhverju "æi, það borgar sig ekki, þetta er nú hvort sem er að verða búið...". (Skrítið að maður er alltaf farinn að huxa svoleiðis um viku áður en jólin byrja.)

Ég stóð mig að því að huxa: Jæja, ég Hlýt að geta aðventað fyrir næstu jól. Þá ætla ég nefnilega að vera í fæðingarorlofi. En svo rifjaðist upp fyrir mér hvernig er að vera heima með 10 mánaða orm... Ætli aðventun nái ekki bara sögulegu lágmarki á ári komanda.

Dagurinn aflagaðist slatta. Smábáturinn hinn veðurteppti átti að koma með flugi í morgun en komst síðan ekki fyrr en seinnipartinn. Í morgun átti ég líka að fara í mæðraskoðun, en hún frestaðist fram á föstudag. Þá var ekkert eftir annað en að leggja undir sig Kringluna, og það var gert. Svikalaust. 

Fyrir utan gjafainnpakkningar er þá allt sem eftir er að fyrir jólin alveg einstaklega ójóló. 
Eins og:
- Að fara með föt í hreinsun
- Láta laga annað ljósið á bílnum
- Pakka niður fyrir alla

Mér finnst eiginlega meira eins og ég sé að fara í sumarfrí... 
Ef það væri nú einhvern tíma sæmilega bjart úti.

17.12.07

Mmmmoooonnntttt!

Oft hefur nú monts verið þörf, en sjaldan sem nú.

Í morgun, þegar ég var búin að ganga frá Þýðingafræðiritgerðinni, sem ég þurfti ekki að skila fyrr en á morgun, gerði ég mér örsmátt fyrir og kláraði bara lokaverkefnið í Ritstjórninni og hræðilegu skrifunum líka. Sem ég hefði ekki þurft að skila fyrr en hinn daginn. Þegar þarna var komið sögu var ennþá svo eldsnemmt morguns að ég náði að fara upp á Bandalag í kaffi og kjaftæði og ljósritun á aukadrasli sem þurfti að skilast með verkefnum, og ég náði meiraðsegja líka bæði í bókhlöðuna og Lánasjóðinn áður en ég mætti í M-jóga og -sund.

Í jóganu og sundinu voru allir, góðu heilli, með jafnvægisæfingaþema í dag. Það var djufflinum erfiðara, en vafalaust því hollara.

Eftir M vatt ég mér upp í háskóla, skilaði verkefnunum og lauk smá erindi við Nemendaskrá. Ég er sem sagt búin í skólanum!

Ekki var látið staðar numið, heldur fór ég og sótti Rannsóknarskip og við náðum að færa einn bílfarm af jólagjöfum heim, áður en við sóttum Freigátuna. Að því loknu sóttum við annað eins. Það sem eftir er af jólagjöfum verður sópað upp á morgun, en þá ætlar Móðurskipið að taka Kringluna með hælkrók og þreföldu áhlaupi.

Rannsóknarskip lauk þrifum á heimilinu í gær, (fyrir utan skrifstofuna sem enn ber nokkurn námsmerki sem stendur uppá Móðurskipið að laga).

Svo það á næstum bara eftir að pakka inn jólagjöfum og jólaskreyta smá.
Svo mega jólin bara koma...

16.12.07

Óli hass og Satan

Freigátan verður syngnari með hverjum deginum. Hún er merkilega lagviss, en skírmælgin er nú ekki alveg komin á skiljanlegt ról. Allavega ekki alltaf. 

Ólar hafa verið svolítið vinsælir undanfarið. Bæði Prik og Skans. Óli Skans hét reyndar lengi vel aldrei annað en Óli Hass.

En daginn sem Satan átti syni sjö stóð mér nú ekki alveg á sama...

Nýjasta nýtt

Mamma ætlar víst ekki að hafa Hamborgarhrygg á aðfangadaxkvöld. Vegna þess að ég sé svo ólétt og hún heldur að ég bjúgni mér til óbóta af honum. Í staðinn ætlar hún að hafa purusteik. En það er allt í lagi, við tókum nefnilega forskot á jólin í gær og borðuðum Hamborgarhrygg og tilheyrandi hjá afa og ömmu Smábátsins. Hah!

Þetta varð okkur til ógurlega mikillar orku. Allavega er Rannsóknarskip búinn að vera að hamast við að taka til í allan morgun, með dyggri aðstoð Freigátunnar, og ég er eitthvað að maukast við að mjatla saman þýðingafræðiritgerðinni og ætti að geta klárað í dag, ef duglegur halda. Er reyndar kolringluð ennþá og svitna yfir öllusaman, en ætla og skal og get bara farið í bað á eftir.

Í augnablikinu er reyndar pása. Rannsóknarskip fór að horfa á Mjög Mikilvægan Fóboltaleik, Freigátan lagði sig og ég settist í einhverri rælni fyrir framan Silfur Egils. Og er búin að komast að sömu niðurstöðu og venjulega þegar ég hlusta á þann þátt. Allir eru bjánar.

Þannig að; ætli ég haldi ekki bara áfram að ritgerða... eða leggi ringlaða hausinn á mér aðeins.

Fór annars í jóga í gær. Það var um það bil það erfiðasta sem ég hef nokkurn tíma gert. Sjitt hvað jafnvægis- og öndunar eitthvað er erfitt með ringli. En ringlið var miklu betra á eftir. Svo að á morgun ætla ég bæði í M-jóga og sund, eins og ekkert c og vera dugleg í því í vikunni og gá hvort ég næ aftur á mér hausnum fyrir jól! Enda, samkvæmt síðustu fréttum af Bárubloggi um Egilsstaðafærðina er víst vissara að vera með öll tæki og tól til að hanga á löppunum í lagi þegar þangað verður komið.

Annars finnst mér líka orðið lítið pláss til að anda, borða, eða athafna sig að innan. 
Barnið í sjálfri mér vex með ógnarhraða.