Annars gerðist hið ómögulega í gær. Rannsóknarskip var eins og útspýtt hundsskinn og kláraði allt sem þarf að gerast fyrir brottför. Við eigum eingöngu eftir að taka til og klára að pakka niður. Hreinasta kraftaverk.
Annars er skrítið að pakka fyrir svona jólaferðir. Maður tekur aðallega allt sem byrjar á spari, og svo einhver inniföt. Enn undarlegra er að pakka fyrir jólaferð Smábátsins til Flórída. Stuttbuxur og hlýrabolir, sólvörn... og jólapakkar. Og fátt annað þar sem amman er búin að hóta að nota ferðina í að versla á hann öll föt í Ameríku. (Sem er heppilegt. Hann er að vaxa uppúr því þegar við keyptum á hann öll föt í Frakklandi.)
(Og ég er bjánaprik. Búin að vera svo mikið að baða Freigátuna og eitthvað að ég missti af meirihlutanum af Óskastundinni hennar Gerðar G. Jæja, hlusta bara á það á netinu á eftir yfir niðurpakkinu.)
Svo er ótrúlegasta fólk búið að vera að detta inn, undanfarna sólarhringa, og núna árdegis á ég von á mæðgunum Stefaníu, fóstru minni, og Láru, dóttur hennar. Þær þurfa reyndar að smeygja sér einhversstaðar á milli, ég er að plana að skreppa í bæði mæðraskoðun og bumbusund áður en við brennum norðurum.
Freigátan fékk frí í dag, en hún er í sálrænu áfalli. Hún fékk nefnilega niðurgang og eftir tvær kúkasprengjur undanfarna daga þá er hún komin með mjög alvarlega allsberufóbíu. Það má ekki fækka á henni fötum og alls ekki taka bleyjuna, nema með kröftugum mótmælum. Ég var alvarlega að huxa um að setja hana í meðferð hjá sálfræðingnum yfir jólin, en það tóxt nú með herkjum að baða hana áðan, með talsverðum söng og fortölum þó. En ljóst er að henni þyki kúkur og gubb alveg hroðalega ógeðslegt. Sem er skiljanlegt. En mér finnst hroðalega fyndið að hún sé farin að fatta svoleiðis svona ung. Hún gubbaði á hendurnar á sér í gubbupest um daginn og missti sig svoleiðis af hryllingi að ég vissi ekki hvert hún ætlaði. Og það var nú ekkert miðað við þegar það fór kúkur á fótinn. Eins og ég segi, ég er farin að halda að hún hafi orðið fyrir alvarlegu sálrænu áfalli.
Vonandi heldur allur óbjóður sig vandlega fjarri á næstunni.