30.7.04

Best að setja inn meira Írland áður en ég drukkna í eigin narcissisma og /eða Eistum.

Fékk annars hlutverk í gær sem ég er ógurlega ánægð með og kemur til að kála tímanum rækilega í ágúst. Svo var lítil og falleg söngæfing í gærkvöldi á prógramminu sem Hullarar ætla að skemmta fólki með á hátíðaklúbbnum í Eistó eins og eitt kvöld. Það var nú gaman.

Allavega, hér kemur:

7. Júní.
Skrifuðum um morguninn, kl. 2 hittumst við svo fyrir framan arininn, allir kynntu sig smá og lásu eitthvað úr verkum sínum. (ég las Daginn minn, sem ég sneri einhvern tíma yfir á ensku) og svo vorum við að tala um líkamsleikhús, eða dansleikhús, upp úr greinum sem við lásum fyrir tímann. Mjög gaman, fengum t.d. verkefni, fórum út á tún og gerðum 50 sundur-saman og ýmsar hreyfilistir. Fengum líka eitt lítið skrifverkefni. Eftir kvöldmat leiklásum við síðan slatta af Beckett fyrir morgundaginn og ræddum aðeins heimspólitíkina áður er við fórum að sofa.

8. Júní.
Komst aðeins á internet í morgun. Fórum líka í smá jóga. Mjög heimilislegt að byrja á sólaræfingunni í írskri rigningu. Í dag eigum við svo að tala um Beckett og arkitektúr. (Spennandi samsetning.) Þetta er að verða mjög strangt, farið að vera vandamál að finna tíma til að þrífa sig og borða og þannig. (Svo ekki sé minnst á að blogga almennilega.) Ekki búin að ná að skrifa neitt í morgun fyrir sturtu, interneti, jóga og einhverjum fíflagangi. Grrrr…

Dagurinn reyndist allur hinn áhugaverðasti. Fengum slatta af “tixum” í gamanleik og fengum spunnum með ákveðin þemu. (Vorum allar ógurlega fyndnar. Töluðum líka slatta um af hverju konur gætu ekki verið fyndnar.) Fengum svo 15 mínútur til að skrifa stutt fynd. Fengum svo líka trix í romance og skrifuðum smá væm. Það reyndist ekkert grin. Svo fengum við föndurverkefni, eigum að búa til model af strúktúrnum á leikritinu okkar sem hefur 3 breytingar í sér… ikkuddnegin, fyrir föstudag. Í anda þess eyddum við Carrie kvöldinu í að mála. Ég málti myndaröð af sígrettum sem ég er búin að vera að huxa um síðan í Frakklandi. Fór snemma í rúmið, en las eitt leikrit sem gerist á eyju áður en ég fór að sofa. Þema morgundaxins er nebblega landslag í persónusköpun.

9. Júní.
Munstur morgnanna er farið að endurtaka sig. Reyna að skrifa og interneta án þess að missa af jóga. Er búin að skrifa í klukkutíma, Jóga í klukkutíma, og nú nenni ég ekki að interneta, er að huxa um að halda bara áfram að skrifa. Reyni að blogga pínu á morgun.

Fórum í ferð. Vöfruðum aðeins um nágrennið. Mjög heimilislegt. Alveg eins og á Vestfjörðum, nema grænna og ég sá frosk. Fékk áhugaverð verkfæri til að spekúlera í persónunum mínum, held ég geti núna gert þau minna leiðinleg með því að skoða hvaða dýr þau séu og hvernig þau láta þegar þau fylgjast með hvoru öðru þegar þau halda að hitt viti ekki af því. Spænende. Í kvöld kemur málari og heldur fyrirlestur.

Hann Charlie Tyrell talaði um abstract málverkun. (Reyndist vera einmitt sami málarinn og var að reyna að leysa ástandið í heiminum með okkur Carrie fyrsta kvöldið.) Það var ógurlega merkilegt. Mér var alveg illt í heilanum á eftir. Fór á pöbb me› Kim og Söruh og við fékkum okkur bjór til að lina overloadið.

10. júní
Í dag er tónlistarworkshop og allskyns. Aðallega fullt að lesa.
Og, ég er komin einu sinni í gegnum leikritið! Íha!
(For better or worse.) Reyndar, örugglega til nóg af rómantískum tragedíum… en, skítt meðða, geri bara eina enn og skammast mín takmarkað fyrir það. Enda er hún á ensku svo ég geri örugglega hvortsemer aldrei neitt við hana!

Fyrirlesturinn, sem var haldinn af þýskum tónlistarmanni sem heitir Ecky Krupp, var svakalega áhugaverður, nú veit ég ýmslegt um írska tónlist, hvaðan nafnið O’Carolan kemur, hvers vegna Írar segja að írskar sekkjapípur séu kúlli en þær skosku (hef áður heyrt rök fyrir hinu gagnstæða frá fyrrverðandi tengdaföður mínum og mörgum mörgum fleirum í Skotlandi) Hlustuðum líka á fullt af tónlist, m.a. samspil Dubliners og Pogues. Ecky talaði reyndar heldur lengi fyrir smekk kennaranna minna, það var ekki tími fyrir langa kennslustund eftir það. Föndraði helling um kvöldið, gerði einhvers konar módel af arkitektúrnum af leikritinu mínu, fattaði að það þarf alls ekki að vera í tímaröð, skrifaði stikkorð fyrir allar senurnar (21) niður á miða sem ég er búin að vera fullt að leika mér með. Huxa að ég endi á að búa til báta úr þeim. Talaði við Dóra minn, hann er að fara í Svarfaðardalinn á morgun. Fór að sofa SEINT.

11. júní.
Fórum til Dursey Island í dag og löbbuðum mjöööög langt og lengi. Gaf Elísabet eins og eitt klaustur sem hún sagði að faðir minn og bræður hans hefðu byggt. Komum heim um 5 leytið, eiginlega alveg búnar áðí. Írskri danskennslu, sem átti að vera í kvöld, frestað til að gefa okkur tíma til að skrifa. Og núna ætla ég að reyna að fara að gera það.

Skrauf allt kvöldið og bjó til báta úr miðunum mínum fyrir "kynningu" á morgun. Jóga hálftíu í fyrramálið, svo bæjarferð, eins gott, er búin með alla peningana mina, enginn tekur kort hér og enginn hraðbanki.

28.7.04

Ég heiti Siggalára og ég er "inverted" narcissisti.

Er búin að vera mikið að skoða söguna af honum Narcissosi sem drukknaði í eigin spegilmynd. Þessa dagana eru, samkvæmt mér, allir narcissistar, bara mismunandi tegundir. Neinei, alveg án gríns. Þetta disorder er mjög forvitnilegt. Alls ekki jafn klippt og skorið og ég hélt. (Fann t.d. bók sem heitir "The wisard of Oz and other narcissists"...) Og ég er alveg með þetta á heilanum og er að huxa um að búa til rannsóknarmöppu.
Svo sem eins og ég gerði fyrir Odd Bjarna um Lobotomiur um árið.

Spurningin er bara þessi: Er ekki kjánalegt að búa til rannsóknarmöppur bara svona út í bláinn?
Og ef svo er: Vantar einhvern rannsóknarmöppu um narcissisma?

26.7.04

Meira tímaflakk.

Hér kemur aðeins meira frá Írlandi:

6. júní.
Skriðum á lappir um 11 leytið, enda ekki víst að við fáum að sofa frameftir aftur í þessari dvöl. Við Carrie komum okkur fyrir í herberginu okkar, fengum morgunmat hjá írsku mömmunni okkar, henni Veroncu, sem er búin að lýsa því yfir að við megum vera úti eins lengi og við viljum á kvöldin. Svo komum við hingar í “Centrið” þar sem ég er að skrifa þetta og Carrie er að djöflast á trommusettinu, sennilega búin að fá nóg af þögninni. (Hún býr á Manhattan.) Á eftir á síðan að vera fyrirlestur um sögu sta›arins og seinni partinn í dag erum við að fara að skoða gamlar koparnámur.

Stuttu síðar: Fann gítar, meira að segja af réttri tegund, og reyndi að laga hann. Fann strengi í staðinn fyrir þá sem vantaði, en skrúfurnar eru stirðar og ein brotin. Vatnar saumavélarolíu og töng. Þarf að komast eftir því hvernig maður segir “töng” á ensku…

Kvöld:
Málin aðeins farin að skýrast. Ég er búin að koma prjóninu mínu fyrir við arininn, til dæmis. Við fengum að vita að formlegar kennslustundir verða á milli 2 og 5 á daginn, á morgnana á að vera hljótt í Centrinu svo við getum skrifað hér ef við viljum. Svo fengum við ágætan fyrirlestur um sögu nágrennisins hérna með myndasýningu og svo fórum við í gædaðan göngutúr um nágrennið, m.a. kirkjugarðinn og skoðuðum gamlar koparnámur í nágrenninu. Og nú var Elísabet með okkur, er loxins búin að hitta hana, og já, hún reyndist vera Elísabet Jökuls. þægilegt að þurfa ekki alltaf að tala ensku, og hún fylgist líka með fótboltanum. Sagði mér t.d. þær miður skemmtilegu fréttir að Englendingar hefðu tekið okkar menn í félagsheimilin í gær, 6-1.

Þegar við komum aftur "til byggða" var grillveisla í gangi fyrir utan einn pöbbinn til styrktar Tjernobyl-börnum (upplífgandi að vita að það eru ekki allir búnir að gleyma þeim). Írar eru greinilega ekki allir jafn kátir með reykingabannið á börunum sínum. Núna er t.d. fyrsta setningin þegar maður segist koma frá Íslandi ekki lengur “Ó, ég hef aldrei hitt neinn frá Íslandi áður!” Heldur: “Má reykja á börunum þar?” Það voru sumsé hamborgarar, bjór og umræður um reykingar í kvöldmat.

Svo sáum við uppfærslu Trish (kona sem býr hér í Centrinu) á leikritinu “Ekki ég” eftir Beckett og höfðum smá umræður um það. Svo fengum við afhentan greinapakka (sem gefur lesefni í kúrsum hjá Guðna Elíssyni ekkert eftir) og fyrirmæli um að lesa tvær greinar fyrir tímann á morgun. þær voru báðar um dansleikhús og ekkert léttmeti, svosem. Þannig að við sátum hérna áðan, ógurlega penar og prúðar og gerðum heimavinnuna okkar fyrir framan arininn. Soldið eins og að vera í klaustri.

Um daginn heyrði ég svolítið sem ég hef oft heyrt áður.

Það er nefnilega þannig að ef maður er einn af þessum fáu Íslendningum sem ekki er alinn upp við sjó, þá fær maður oft framan í sig eitthvað á þessa leið "Ekki gæti ég hugsað mér að búa bara einhvers staðar sem ég sé ekki sjóinn!" og svo horfa menn á mann með nokkurri furðu í svipnum, eins og þeir séu að velta því fyrir sér hvernig manni hafi nú dottið í hug að alast upp á Egilsstöðum, eins og ekkert væri. (Pabbi minn segir þetta meira að segja reglulega, búinn að búa á Egilsstöðum í 40 ár.) Yfirleitt hefur mér nú bara þótt gaman að þessu kommenti, eins og öllu öðru sem verður til þess að fólk veiti mér athygli.

Um daginn var ég síðan að ráfa í Hafnarfirðinum, eins og maður gerir, og fór að horfa á sjóinn og skipin. Jújú, alveg... tja... sjór og skip, svo sem eins og þau eru, og í því samhengi fór ég að huxa um mitt uppvaxtarumhverfi og vitið í því að vilja alltaf að umhverfið sem maður býr við sé eins.

Ef ég nú til dæmis gæti ekki huxað mér að búa annars staðar en þar sem er fljót, beljur, tún og/eða skógur væri mér óneitanlega þröngt stakkur skorinn varðandi búsetu. Þar að auki væri maður líklega talinn illa klikkaður, færi maður að halda slíku fram.

Já, það er margt skrítið í kýrhausnum.

25.7.04

Útvarpsþátturinn minn fór á öldur ljósvakans í gær (eftir því sem ég best veit, gleymdi að hlusta) og verður endurfluttur einhvern tíma á þriðjudaginn (veit ekki hvenær) og svo er hægta að lesa hann hér. Sá næsti verður síðan fluttur þann 11. september og ég er strax farin að skemmta mér við að skrifa hann.

Fór á æfingu á Krádplíser hjá Reykvíska listaleikhúsinu, gargandi snilld, frumsýning í dag, mæli með henni. Stútungasaga í Heiðmörk í gær hjá leikfélaginu Sýni (um, eða hvernig menn vilja beygja það) og varir mínar eru síld þangað til ég er búin að skrifa umfjöllun fyrir leiklist.is.