6.7.05

Sörpræs!

Barneignir og bílslys eru nokkuð sem aðeins kemur fyrir annað fólk.

Ekki satt?
Ekki satt!

Hyggst fjölga mannkyninu um nákvæmilega einn á ári komanda.
Og þá er nú vissara að fara að aka varlega.

Hið nýja fólk ku verða tilbúið til brúx um miðjan janúar og gengur undir ýmsum vinnuheitum, svo sem "JónasogJónmúli" (Árnason) og "Flugvangur" (Leikfélag Fljótsdalshéraðs-Hugleikur-Freyvangur)sem og Liverpúll. (Sem var ekki mín hugmynd.)

Hin verðandi móðir er engan veginn með andarteppu yfir fréttunum, í hvoruga áttina. En hefur þegar fengið ímugust á þeim fávitalega málheimi sem virðist tilheyra þessum málum og vill koma því á framfæri að brúki einhver orðskrípi eins og "bumbubúi" eða slíkt um ástandið verður þeim hinum sama þegar áhrínt mannorðsmissi.

Eins finnst mér rétt að geta þess að ef einhver verður vitni þess að ég missi niður um mig persónuleikann og fer að tala um sjálfa mig í þriðju persónu á smábarnamáli hefur viðkomandi fullt leyfi til að fyrirkoma aumri tilvist minni á staðnum.

Eitthvað hefur verið reynt að lesa sér til um málið, en óléttubækur ættu flestar að heita "Barneignir fyrir fábjána" og hafa svolítið fengið að fara í flugferðir um dvalarstaði þegar mér ofbýður idjótískt málfarið og ýmislegt í inntakinu.
(Um þetta eiga eftir að koma margar pirraðar færslur.)
(Ha? Skapsveiflur? Neinei, ekkert að ráði...)

Móðir Jörð hefur ekki fitnað um eitt gramm og gleymir tilvist erfingjans oft á dag, enn sem komið er. Enda kannski fullsnemmt að fara að fá taugadrullur yfir einhverju sem gerist á næsta ári. Er allavega hætt að nenna að lesa um málið. Þetta á, skilst mér, að gerast meira og minna sjálfkrafa.

Hinn verðandi faðir, Rannsóknarskip, tekur þessu öllu saman með stökustu ró, enda seint við öðru að búast á þeim bænum. Í lokin, ein snilld frá honum úr símanum í gær.

Úr umræðu um íbúðatæmingar:

Skip: Já, ég gæti þurft að verða fljótur að pakka.

Móðir Jörð: Nú? Fljótur? Kanntu það?

Skip: Jájá... það tekur bara dáldinn tíma.


Erfi barnið bæði óþolinmæði mína og rólyndi föður síns er ég hrædd um að það verði alvarlega misþroska.

5.7.05

Pallivareinníheiminum

Þá er Rannsóknarskipið lagt úr höfn, eina ferðina enn, en nú vonandi í síðasta sinn áður en hann kemur endanlega í slipp í næsta mánuði þegar sambúseta skal hafin við Tryggvagötu. Verður það nú öldungis spennandi.

Nú er ég því einsetukona í foreldrahúsum og fylgja því mikil ferðalög. Til dæmis búa foreldrar mínir nú tvö hús, hliðviðhlið, hafa sem sagt líka umsjón og eftirlit með ömmuhúsi. Og mér finnst nauðsynlegt að heimsækja það allavega einu sinni á dag, svo því leiðist ekki. Og svo býr náttúrulega ennþá internetið í kjallaranum, svo fáránlegt sem það nú er. Pallivareinníheiminum er því búinn að vera á ferð og flugi á milli híbýla sinna í dag, á milli þess sem hann hefur legið í símanum og skipulagt heimsóknir þvers og kruss. (Já, SillaogJóngunnar, það er alveg að koma að ykkur. Ég vona bara að þið séuð ekki farin eitthvurn skrattann í frí.)

Ég náði að sýna Rannsóknarskipinu sveitina mína áður en hann fór. Það var nú rétt eins ljómandi, fyrst ég var búin að gefa mér tíma til að sýna honum Norðfjörð, hvað þá annað. En hann á nú samt eftir alveg helling af Austurlandi eftir.

Og sólbaðsveðrið sem ég var búin að panta er að koma á fimmtudaginn! Og kominn fjandans tími til. Og svo er mig farið að klæja í puttana að byrja á leikritinu sem ég ætlaði að vera byrjuð á. (Já, Toggi, nú fer ég að bögga þig.) Og ég er ekki enn búin að redda mér fari vestur á firði í brúðkaupið hennar Ylfu. Allir sem ég þekki á þeim gestalista mega líka fara að eiga von á böggi frá mér.

En mikið er erfitt að vera bæði amma mín og mamma mín í einu. Ég kem aldrei til með að skilja hvernig þær fara að þessu. Heima hjá þeim báðum er allt ævinlega hreint og hornrétt. Sama hversu margir eru í heimili. Nú er ég hérna ein að hringla, og er alltaf búin að rusla til um leið og ég sný mér við. Og það finnst manni soldið áberandi hér, vegna þess að venjulega er allt hreint og hornrétt, þannig að mér finnst ég ekki gera annað en að vaska upp og gleyma að vökva blómin. Hrædd um að ég verði aldrei sami kvenkosturinn og formæður mínar.

*Andvarp* Best að fara að taka úr helv... þvottavélinni.

3.7.05

Og áfram hélt

Kynnisferð Rannsóknarskips um Austurland. Í gær gerðum við víðreist og fórum um alla firði. Rannsóknarskipi þóttu Reyðarfjörður, Eskifjörður og Neskaupstaður sætir staðir. Leiðrétti undirrituð það snarlega og áréttaði að þeir fyrrnefndu væru skítapleis og á þeim síðastnefnda byggju tómir geðsjúklingar.

En við vorum sammála um að Seyðisfjörður væri flottastur.

Í dag er síðan brostið á með aftakarigningu og ekki hundi út sigandi, hvað þá farandi í ferðalög. (Og nú er ég hrædd um að mótmælendahróin inni á Kárahnjúkum fari að sjá sitt óvænna. Skinnin. Ættu sennilegast bara að halda sig á hundraðogeinum með sitt artífart. Held Íslendingar ættu að fara að átta sig á því að artífartarnir gera málstað mótmælenda hverssemer óskaplega lítið gagn með svona stælum. Það þarf að vera eitthvað krassandi, eins og þegar leiklistarnemarnir báru á sig svínsblóð og þóttust vera dauðir! Það var áhrifaríkt! Öllum er sama um þessar hræður sem sitja uppi á hálendi og lesa ljóð. Þetta varð langur svigi.)

Hér líður síðan tíminn eins og venjulega. Allt gerist lúshægt og maður nennir engu. Um daginn fann ég morgunkorn í búri foreldra minna sem rann út árið 2001.

Ég nenni ekki að mynda mér skoðanir á því hvort Jón Ásgeir er sekur um 40 blaðsíðna ákæruþvæluna. Né heldur hvort hann reyndi við konu hins Jónsins, sem mér finnst mun alvarlegra mál. Og í sambandi við Stóra BubbaogBrynjumálið þá myndi ég, ef ég væri blaðamaður á DV reyna að grafa upp einhvern skít um hann Eirík Jónsson og gera opnugrein um það í helgarblaði. Viðtal við gamalt viðhald, eða eitthvað. Og gá hvað hann segir þá um siðareglurnar. Þetta var hint til systur minnar, ef gúrkan er enn alveg að drepa hana.

Er annars alveg að fara að hringja í fólk, skrifa leikrit og gera ýmislegt.
Alveg að fara að...