31.12.12

2012

Ókei. Hvað gerðist?

Síðasta ár hófst eins það næsta mun gera, hér í Kópavogi. Aldrei slíku vant vorum við reyndar með Smábátur heima á áramótum, en hann flaug til Flórída með móðurfólkinu sínu annan janúar og dvaldi í sólinni um tveggja vikna skeið. Og þar með hófst ferðabrjálaðasta ár í sögu fjölskyldunnar.

Ég kenndi í námskeið í háskólanum og kláraði að aðstoðarleikstýra og skrifa Þann glataða með Hugleiknum. Hann var frumsýndur... einhverntíma. Örugglega bara í byrjun febrúar, eða eitthvað? Í vor kláraðist kennslustyrkurinn sem ég var á, fékk engan styrk í doktorsritgerðina og langaði ekkert í annan vetur á stundakennaralaunum með tekjulausum sumrum á milli. Svo ég sótti um vinnu. Á Egilsstöðum. Og fékk hana.
So...there.

Þegar ég frétti það var ég á leiðinni til Frakklands með Hagaskólagenginu og Rannsóknarskip var búinn að skreppa til Rúmeníu í millitíðinni.
Og Smábátur útskrifaður úr Hagaskóla.

Á meðan við vorum í Frakklandi, nánar tiltekið Montpellier, var Smábáturinn í bænum að vinna, og var skipt á milli ættingjanna, og litlu börnin fóru með afa og ömmu að austan, vestur. Það var svo skemmtileg ferð að það var bókstaflega grátið yfir að hún væri yfirstaðin, löngu síðar.

Freigátan útskrifaðist af leikskólanum Grænatúni.

Í júlí fór ég til Chile. Hélt fyrirlestur. Fór síðan til Danmerkur. Á leiklistarhátíð NEATA með Þann glataða. Flutti síðan nánast lóðbeint til Egilsstaða þar sem ég hef verið í fjarbúð frá fjölskyldunni í allt haust. Til að byrja með í Ágúst var Árni hjá mér, en hann fór fljótlega með Róbert suður en þau litlu voru hjá mér þar til skólinn byrjaði. Ég fór síðan með þau í bæinn þegar skólinn byrjaði. Freigátan byrjaði í Snælandsskóla. Smábátur byrjaði í Fjölbraut í Ármúla.

Síðan fór ég bara austur og aftur í tímann, flutti inn í gamla herbergið mitt og fór að kenna í gamla menntaskólanum mínum. Vinna almennilega vinnu eins og allt eðlilegt fólk. (Tímabundið, út 2014.)

Já, og í lok sumars kom nýja þýðingin mín að Önnu í Grænuhlíð út. Það var nú gaman. Bók 2., Anna í Avonlea, er farin í yfirlestra og er væntanleg á vordögum.

Svo var ég í Kópavoginum í hálfan mánuð í september þar sem Rannsóknarskip þurfti að fara aðeins til Tyrklands. Eins og menn gera.

Svo er ég búin að jójóast á milli í haust, og þau einu sinni austur. Mikið verður nú gott þegar þau koma alfarið til mín í vor eða sumar.

22. desember fór síðan Sigga amma mín „yfir í sælustraffið“ eftir margra ára erfið veikindi. Mikið var hún sjálfsagt glöð að fá að halda jólin öðruvísi en liggjandi á sjúkrahúsinu, eins og undanfarin ár. Við byrjum árið 2013 á að jarða hana svo jólin hafa að hluta til farið í minningagreinaskrif og kransapælingar.

Svo er ég örugglega að gleyma einhverju sem gerðist á árinu. Örugglega mörgu.

Og þá er að bresta á með 2013. Útlit er fyrir að atvinnuástand húsfreyjunnar verði nokkuð stöðugt, nema hún klúðri einhverju geðveikt illa en flutningar annarra í fjölskyldunni standa fyrir dyrum í vor eða sumar. Planið er að gefa Egilsstöðum séns í allavega ár eða svo.
(Hin halda að þau nái mér síðan kannski í burtu aftur. Hahahahihihoooo!)

Gleðilegt ár!
Takk fyrir það gamla!


7.9.12

Og hvernig gengur svo?

Skemmst frá því að segja að Fyrirmyndardóttirin í foreldrahúsum gerir lítið annað þar en að láta þjóna sér. Réttsvo ræður við að þvo af sér leppana en lætur móður sína elda fyrir sig á hverju kvöldi. Af öðrum afrekum fyrirætluðum hefur nákvæmlega ekkert gerst. Nema, jú, ég held ég sé búin að missa einhver kíló. Svo gekk ég úr Seyðisfirði í Loðmundarfjörð um síðustu helgi í góðum félagsskap og stefnan var nú sett á Eiríksstaðahneflana um helgina, en það er spáð haugarigningu.

Svo í staðinn býst ég við að klára bara að mála fyrrverandi og verðandi herbergið mitt.

Það sem hefur gerst síðan ég gerðist grasekkja á Egilsstöðum er fyrst og fremst það að ég hef verið að vinna. Inn á milli stunda ég síðan óstjórnlega holla og heilbrigða lifnaðarhætti. Skyndibitafæði hefur ekki komið inn fyrir mínar varir síðan í síðustu bæjarferð og háttatími er fyrir ellefu öll kveld. Já, og ég hef farið út að hlaupa á hverjum degi, að undanskildum hræðilegu harðsperrudögunum tveimur eftir Loðmundarfjarðagöngu.

Í dag verður lokið við þrjár styrkumsóknir og þær helst sendar þangað sem þær eiga að fara. Að því loknu skal hlaupið reglulega langt og síðan málað og málað.

Á kvöldin þýði ég Önnu í Avonlea. En að því loknu skal skrifast áðurlofuð grein í ritrýnt tímarit.

En Egilsstaðir eru annars sælureitur á jörð. Nú skjóta menn hreindýr, fara í berjamó og gera sultur. Langt síðan maður hefur tekið svona vel eftir því hvaða árstími er. Um daginn var hið árlega fuglafyllerí. Það er þegar þrestirnir éta öll reyniberin af trjánum, eftir fyrsta frost þegar þau eru orðin gerjuð, og fljúga síðan blindfullir á stofugluggana í bænum. Þrír lágu dauðir í garðinum hjá foreldrunum mínum einn daginn, og kettirnir átu þá áður en við náðum að henda þeim.

Haustlitirnir eru líka franir að láta á sér kræla og ég get ekki beðið eftir að taka myndir af þeim. Í næstu viku er ég síðan á leiðinni suðurum að passa fjölskylduna í 10 daga eða svo. Það verður nú skemmtileg tilbreytni.

Það er annars frekar þægilegt að vera með starfið og fjölskylduna svona alveg sitthvorumegin á landinu. Ef eitthvað mætti finna að því þá er það samviskubitið á báða bóga. Vinnumegin sinni ég ekki fjölskyldunni, og fjölskyldumegin er ég ekki í vinnunni.

Svo ég hlakka til að fá gengið mitt hingað í vor.

15.7.12

Í almennilega vinnu eins og allt eðlilegt fólk!


Varla var rafblekið þornað á pistlinum mínum um dásemdir blanka bóheimlífsins en ég fékk vinnu. Stöðu, jafnvel. Reyndar tímabundna og ekkert á neinum forstjóralaunum en titillinn er átakanlega virðulegur.

Næstu sextán mánuði verð ég „Verkefnastjóri sviðslista á Fljótsdalshéraði“ hvorki meira né minna. Með launum um hver mánaðamót, vinnuaðstöðu, persónuafslætti og sumarleyfisdögum. 

Frá og með mánaðamótum verð ég með „almennilega vinnu eins og allt eðlilegt fólk.“ Best ég hringi í Ásbjörn alþingismann. Hann vill kannski verða vinur minn á feisbúkk?

Klikkað.

Í þessu starfi eru allskonar spennandi verkefni, sum fyrirliggjandi og svo öll hin sem ég á eftir að finna uppá í samstarfi við allt góða og skemmtilega sviðslistafólkið á svæðinu og annarsstaðar. Mér finnst svolítið að það eigi að fara að borga mér fyrir, og það á reglulegum basis, það sem ég geri venjulega frílansandi eða frítt.

En sá böggull fylgir náttúrulega skammrifi að það er, eins og fyrr kom fram, á Fljótsdalshéraði. Og varð ekki ljóst fyrr en komið var fram á sumar þannig að við ákváðum að vera ekki að rótast neitt með fjölskylduna í bili og þau yrðu fyrir sunnan í vetur. Sem þýðir að ég verð ein fyrir austan. Hjá pabba og mömmu. Og ömmu. Ég ætla náttúrulega að vera dugleg að passa þau en ég reikna nú samt svona frekar með því að heima hjá mér fari alla jafna enginn að grenja í vetur. Kannski fæ ég mér meira að segja einhverja einmanalega kjallaraholu seinnipartinn í vetur. Þar sem ekkert heyrist á síðkvöldum nema sönglið í Rás 1, hvorki verður internettenging né sjónvarpstæki í húsi og ég þarf ekki að klippa neglurnar á neinum nema sjálfri mér.

Auðvitað verður erfitt að vera fjarri fjölskyldunni. Ég get eiginlega ekki einu sinni ímyndað mér hvernig það verður. En ég er samt komin með gífurlega marga draumóra um allt sem ég ætla að afreka á tímanum utan vinnutíma sem nú fer ekki í að skeina, snýta og þrasa.

Til dæmis ætla ég að:
- Æfa mig reglulega mikið á gítar, úkúlele og allt annað sem ég næ í.
- Skrifa doktorsritgerð.
- Skrifa grein í erlent, ritrýnt tímarit.
- Skrifa allann fjárann annan.
- Liggja uppí sófa, hlusta á Rás 1 og lesa bók mér til skemmtunar um miðjan dag.
- Fara í allar fjallgöngurnar með fjallgönguklúbbnum Fjallhress.
- Hlaupa, hjóla og synda á hverjum degi eins og biluð. (Missa þessi 10 kíló, btw. en það verður nú bara í hjáverkum.)
- Þýða 3. 4. og 5. bók um Önnu í Grænuhlíð.
- Vera ævinlega óaðfinnanlega til fara.
- Ráfa um skóginn.
- Heimsækja alla sem ég þekki. Oft.
- Iðka jóga.
- Vera fyrirmyndardóttirin sem annast aldraða forfeður sína af þvílíkri alúð að annað eins hefur ekki sést í veraldarsögunni.

Já, það er séns að ég standi ekki við þetta alveg allt…

Og þar sem þetta var ekki alveg planið verða næstu vikur ansi, ja skrítnar. Ég hefði líklega skipulagt mig aðeins öðruvísi ef ég hefði vitað að ég yrði að flytja búferlum á milli landshluta um mánaðamótin.
En svona er farðaplan mitt næstu vikur:

Föstudagur 20. júlí: Keflavík - London - Madrid
Laugardagur 21. júlí: Madrid - Santiago (12 tíma flug dauðans) hvar ég verð í viku á ráðstefnu. Það er vetur í Chile.
Sunnudagur 29. júlí og mánudagur 30. júlí: Santiago - Madrid - Kaupmannahöfn (12 tíma dauðasvefn á sveitahóteli nálægt Kastrup.)
Þriðjudagur 31. júlí: Lest frá Kastrup til Sönderborg hvar ég mæti beint í setningarathöfn í Sönderborgarkastala og opnunarsýningu í Sönderborgarleikhúsi en af henni er ég einmitt handritshöfundur. Svo er leiklistarhátíð, bara, áfram.
Sunnudagur 5. ágúst: Billund - Keflavík klukkan eitthvað fáránlegt um morguninn.
Þriðjudagur 7. ágúst: Reykjavík Egilsstaðir - aðra leið.
Eitthvað af fjölskyldunni verður reyndar hjá mér til að byrja með. Fer með litlu börnin í bæinn 21. ágúst og eftir það hefst Einlífi Framakonunnar.
Sem er líklegur titill á næstu færslu.

5.6.12

Möst

Allir kannast við fyrstu setninguna úr þessari ræðu. Þegar ég fór að reyna að gúggla henni á íslensku þá kemur þetta blogg tvisvar á fyrstu síðunum. (Þess vegna ætla ég ekki að skrifa hana.) Ég fann hana hins vegar á ensku og las hana vandlega, kannski í fyrsta sinn, ég man það ekki. Og varð nú bara að deila. Á frummálinu.

Gjössovel, Hótel Jörð Skakspjóts úr verkinu Sem yður þóknast:

JAQUES:
All the world's a stage,
And all the men and women merely players:
They have their exits and their entrances;
And one man in his time plays many parts,
His acts being seven ages. At first the infant,
Mewling and puking in the nurse's arms.
And then the whining school-boy, with his satchel
And shining morning face, creeping like snail
Unwillingly to school. And then the lover,
Sighing like furnace, with a woeful ballad
Made to his mistress' eyebrow. Then a soldier,
Full of strange oaths and bearded like the pard,
Jealous in honour, sudden and quick in quarrel,
Seeking the bubble reputation
Even in the cannon's mouth. And then the justice,
In fair round belly with good capon lined,
With eyes severe and beard of formal cut,
Full of wise saws and modern instances;
And so he plays his part. The sixth age shifts
Into the lean and slipper'd pantaloon,
With spectacles on nose and pouch on side,
His youthful hose, well saved, a world too wide
For his shrunk shank; and his big manly voice,
Turning again toward childish treble, pipes
And whistles in his sound. Last scene of all,
That ends this strange eventful history,
Is second childishness and mere oblivion,
Sans teeth, sans eyes, sans taste, sans everything.

1.6.12

Misskildi mig

Ég ákvað að eyða þessum fagra föstudegi í að láta loksins verða af því að kenna sjálfri mér á Endnote. Letin og ómennskan... já og frammistöðukvíðinn, er hins vegar að grípa þannig í taumana að ég nenni því ekki alveg. Ákvað í staðinn að skrifa mig í gegnum ákveðið mál.

Nú er það þannig að ég og mín fjölskylda lifum á tekjum sem eru í kringum fátækramörkin. Höfum alltaf gert. Og okkur finnst það bara þægilegt. Við gætum sjálfsagt reynt að útvega okkur mba gráður í einhverju og störf með "stjóri" í titlinum. En við viljum heldur geta verið komin heim með krökkunum klukkan 4 á daginn, helst bæði, og leikið okkur með leikfélögunum okkar, stundað tónlist og leiklist... golf og allskonar. Tíminn er miklu mikilvægari en peningar.

Stöku sinnum fell ég þó í þá gryfju að líta á þetta sem tímabundið ástand. Það er það ekki. Þjóðfélagið þarf bókstaflega að snúast á haus til þess að störfin sem við vinnum, eða komum til með að vinna á ævinni, verði vel borguð. Við sjálf þurfum líka að hafa persónuleikaskipti ef við þykjumst einhverntíma ætla að gera eitthvað með hagnaðarsjónarmið í huga. Þannig er þetta. Það sem ég gleymi þegar ég fer að eiga draumóra um betri tíð með rjóma er einhver undarleg hugsýn um "auðvelt" líf. Við höfum alltaf getað átt þak yfir höfuðið, yfirleitt nógu stórt til að enginn þurfi að sofa í baðkarinu, enginn er svangur og við leyfum okkur allt sem okkur sýnist. Auðvitað eru engar skyndiákvarðanir teknar, útlandaferðir þurfa að skipuleggjast og útleggjast með margra mánaða eða ára fyrirvara og stundum bilar bíllinn fyrir tvöhundruðþúsundkall og þá þarf að skipta vísanu í heilt ár. En við erum ALLTAF í útlöndum. Ég hef ekki talið saman allt sem við erum að fara á þessu ári. Mest af því er reyndar vinnutengt, en það er nú sama. Hversu margir í kreppuþjóðinni fóru til Japan í fyrrasumar og ætla til Chile á þessu ári? Og þetta er alveg hægt. Börnin fá að vera í íþróttaskólum, leikjanámskeiði, tónlistarnámi... unglingurinn ætlar í heimavistarskóla. Og þetta hefur alltsaman gengið hingað til og mun gera það áfram. Við skuldum ekki einu sinni neitt að ráði.

Þess vegna á ég erfitt með að skilja sjálfa mig þegar ég dett inn í draumsýnina um lífið sem ég veit að mér myndi hundleiðast. Ef ég hef eitthvað lært um sjálfa mig á ævinni hlýtur það að vera það að þrátt fyrir kvíðaraskanir og skemmtilegheit leita ég áskoranir uppi. Ég ræðst ævinlega á garðinn þar sem hann er hæstur. Hver byrjar til dæmis í doktorsnámi með eins, þriggja og þrettán ára börn, hálfu ári eftir að fjármálakerfi landsins hrynur? Enginn sem þráir neins konar þægilegt líf.

Um árið mismælti sig kona og sagðist hafa misskilið sig. Þetta mismæli hefur hjálpað mér mikið að skilja hvenær ég er að misskilja mig. Samkvæmt kenningunni um að maðurinn hafi mjög tilhneigingu til að gera það sem hann vill þarf maður reglulega að athuga hvernig draumsýnir manns eru um lífið og tékka á því hvort þær samræmast endilega því sem manni raunverulega finnst. Ég held að eitt af því mikilvægasta sem aðgreinir manninn frá öðrum dýrategundum sé að það er hægt að telja honum trú um allskonar kjaftæði. Þetta heitir auglýsingasálfræði.

Svo er það líka blekkingin um að einhverntíma verði allt vesenið búið. Allt komist í öruggar og þægilegar skorður og maður þurfi aldrei framar að hafa fyrir neinu. En þetta er auðvitað ekkert svona. Eins og Búdda segir, það er alltaf eitthvað helvítis vesen. Og lífið er keðja tímabundinna ástanda þar sem það er aldrei neitt öruggt eða "þægilegt" í mjög langan tíma.

Ég var alveg í svona almennilegri vinnu eins og allt eðlilegt fólk einu sinni. Einn vetur. Endaði hann á minni fyrstu ferð á þunglyndislyf. Ég hafði misskilið mig og haldið að ég vildi lifa öðruvísi en ég vil í raun og veru. Þarna rugla líka rökin mann. Mann á að langa meira í starfið sem gefur meiri peninga. En lífið er of stutt til að láta sér leiðast 8 tíma á dag, 5 daga vikunnar eða meira.

Það sem vakti mig til meðvitundar í þetta sinn var það að ég var farin að hafa ógurlegar áhyggjur af næsta vetri. Ég er ekki enn komin með styrk í rannsóknina mína, er líklega búin með námslánaheimildir, efast um að ég eigi rétt á atvinnuleysisbótum og á enn tvö ár eftir til að geta klárað ritgerðina mína sæmilega. Minn elskulegur sagði þá við mig hina gullvægu setningu:

„Síðan hvenær höfum við áhyggjur af peningum?“

Þetta var mjög góð spurning. Ef ég fæ ekkert til að lifa af næsta vetur verður nefnilega staðan áhugaverð. Ekki að ég reikni með að gerast verkefnalaus. Ég er að þýða bækur og ýmislegt, kann að búa til ágætis útvarpsþætti, get skrifað greinar, haldið fyrirlestra og námskeið, ef ég fæ allt í einu tíma. Svo er auðvitað alveg í boði að mjaka ritgerðarófétinu áfram, þó enginn ætli að borga mér fyrir það.

Þannig að þegar ég áttaði mig á þessum misskilningi á sjálfri mér fór allt að birtast í réttu ljósi. Óvissuástand er nefnilega öldungis skemmtilegt og ég efast ekki á að nú finn ég næsta garð og reyni að sjálfsögðu að príla yfir hann þar sem hann er hæstur, með rafmagnsgirðingum og gaddavír!

Þetta er alveg brjálað líf.


26.4.12

Hólí mólí...

Þegar maður nennir ekki að fara yfir 150 heimapróf liggur maður í tarrottinu. Og í mínum kortum eru ógurlegar breytingar þessa dagana. Einhver ógurlega mikið ný verkefni og breyttar aðstæður. Og allt frekar neikvætt, hrun, áfall, aðskilnaður... Ég er orðin skíthrædd um að ég fái bara ekkert styrk til að halda doktorsrannsóknum mínum áfram og þurfi að fara að fá mér Almennilega Vinnu eins og allt Eðlilegt Fólk.

Ömó.

Þá datt mér í hug að fyrst ég hefði ekkert heyrt í manninum mínum síðan á þriðjudaginn gæti náttúrulega verið að hann væri bara búinn að ná sér í eina latexklædda (a la rúmenska júróvísjónlagið) og væri búinn að ákveða að gerast leðurblökubóndi austur þar og koma aldrei-aldrei-aldrei heim. Það myndi vissulega skýra hrakspárnar.

Þannig að þetta gæti alveg sloppið til með styrkinn...

25.4.12

Leti, ómennska og kreppu-Ísland á reiðifylleríi

Er maðurinn latur í „eðli“ sínu? Þarf að halda honum við efnið, þræla honum út, refsa honum ef hann hagar sér ekki, selja honum drasl, ota honum útí samkeppni, gefa honum vinnu, útvega honum afþreyingu eins og hann getur í sig troðið, segja honum hvernig hann á að gera, segja, hugsa, klæða sig, tjá sig... til þess að það fari ekki allt í vitleysu?

Ég held að það sé ekki hægt að vera latur. Ég held að leti sé ekki til. Ef menn gera ekki það sem þeim er sagt að gera, þá er það út af einhverju. Þreyta er held ég algengari en við gerum okkur grein fyrir. Stundum sjá menn bara ekki tilganginn með því. Þegar þarf að rífast í unglingnum dögum saman til þess að hann taki til í viðbjóðslega lyktandi herberginu sínu, þá reikna ég með að það sé vegna þess að lyktin sé ekkert farin að angra hann að ráði. Þegar hún fer að gera það tekur hann til. (Það verður hins vegar ekki fyrr en hann flytur út af mínu heimili sem hann fær að ákveða þetta alveg sjálfur.)

Ég fór að hugsa þetta í framhaldi af umræðunum um hina Vondu Sjálfstæðismenn. Þessa sem af illgirni og almennum durgshætti settu Ísland viljandi á hausinn og ætla að gera það aftur við fyrsta tækifæri. Ja, annaðhvort það, eða þá að þeir eru eini flokkurinn sem hefur sýnt þjóðinni almennilega Velmegun og vill fá að taka aftur við af Vondu ríkisstjórninni sem ætlar að halda okkur við hungurmörkin fram eftir öldinni,  af einskærri mannvonsku, auðvitað.

Ég man alveg þegar Ingibjörg Sólrún heyktist á því að fara í formannsslag við Össur, svila sinn. Hún var eina manneskjan sem hefði mögulega getað velt Davíð Odssyni úr sessi sem forsætisráðherra, nokkrum árum fyrir einkavæðingu bankanna. Sem hefði líklega orðið til þess að vinir aðeins annarra hefðu fengið þá. Og vitiði hvað? Talandi hausarnir hétu mögulega eitthvað annað en við værum í sama skítnum.

En ég er samt forvitin um þennan grundvallarmun sem er á sýn hægrimanna og vinstrimanna á mannskepnuna og samfélagið. Er það hin náttúrulega leti og ómennska sem menn trúa mismikið á? Eru margir sammála Bubba um að samfélög úti á landi verði að hafa frystihús og ákveðinn fjölda af ömurlegum og sálarmyrðandi færibandsvinnum til þess að þrífast? Ég kem sjálf frá Egilsstöðum. Ekkert frystihús. Enginn stór vinnustaður, en margir litlir. Mig langar að búa til bókabúð þar. Bærinn hefur verið að byggjast frá því um 1950 og farið ört stækkandi æ síðan. Margir niður á fjörðum eru brjálaðir. Þetta samfélag á ekki að geta verið til. Það er ekkert frystihús. Á hverju lifir þetta fólk eiginlega? spyrja menn hver annan, froðufellandi af öfund yfir því að þarna skuli fólk hafa það gott og vilja búa á meðan menn flýja firðina í massavís. Það veit fjandinn. Mamma mín vinnur hjá verkalýðsfélaginu. Pabbi minn er alltaf stofnandi einhver félög og fyrirtæki. Yfirleitt eitthvað sem vantar. Núna er hann með skrifstofuþjónustu fyrir einyrkja (vinnur mikið fyrir fjarðamenn) og tók þátt í að stofna kjötvinnslu. Það vantaði svoleiðis. Einmitt þess vegna langar mig að stofna bókabúð.

Spurningin held ég að sé, hvað viljum við að ríkisstjórn geri? Leysa Framkvæmdir allan vanda? Á að eyða miklum peningum í fá og stór dæmi?

Hvað vantar?

Það er nefnilega svo merkilegt að í kreppulandinu vantar ekkert. Það er nóg af verkefnum, nóg af fólki sem vill vinna þau. Heilmikið af allskonar orku. Við getum framleitt mat til að fæða talsvert fleira fólk en okkur sem hér búum. En, og ég hef sagt það áður, er ekki eitthvað mikið að grunnsísteminu þegar skortur á draslinu sem við fundum upp til að auðvelda okkur viðskipti, kemur í veg fyrir að við getum stundað viðskipti?

Og, jú, því er haldið vel og vandlega á lofti að hér sé allt í kaldakoli og öll þjóðin á hausnum. Já, og það þarf að taka nokkur vel valin reiðiköst yfir því hverjum það sé að kenna.

Skuldirnar á mínu heimili fóru úr svona 17 í 21 milljón árið 2008. Breytti það einhverju? Hvort tveggs einhverjar fáránlegar upphæðir sem áttu að borgast á 40 árum. pfff. Þetta er langtímaleiga. Húsnæði á Íslandi verður aldrei "eign". Okkur tókst að selja okkur uppúr skuldunum og "töpuðum" einhverjum 5 milljónum. Sem er ekkert alveg á hreinu hvort voru einhverntíma til. Og hvað? Á maður að standa á garginu yfir því að Geir H. Haarde sé hrokagikkur? Það kom mér ekki rassgat á óvart. Illa upp alið kvikindi. Vill ekki einhver hringja í mömmu hans, og málið dautt. Ég ætla að leyfa mér að yppa öxlum yfir því af sama kæruleysi og yfir hinum hípótesísku fimm milljónum sem hurfu til monní heven eða hvert sem þær fóru.

Það sem ég meina er þetta. Þurfum við ekki að fara aftur til einhverra grundvallaratriða? Þegar ríkisstjórn og stjórnarandstaða gagnrýnast á heyri ég bara svona gagg. Mig langar til að vita um hvað málið snýst.

Í hverju, nákvæmlega, felst ágreiningurinn?

Eru það sjálfstæðismenn sem vilja komast "að kjötkötlunum" til að geta legið svo í leti og ómennsku og látið hinar vinnandi stéttir þræla fyrir sig? Eða er það ríkisstjórnin sem nennir ekki að vinna vinnuna sína? Hver á vinna ríkisstjórna að vera?

Er leti og ómennska til?

Þurfum við kannski að byrja á að ræða það aðeins?

24.4.12

Fokkíng iðjusemi!

Fjandinn. Nenni ekkert að gera í vinnunni og tarrotta á internetinu, mér til skemmtunar. Og hvað kemur ekki í ljós? Tvær framtíðir í boði, báðar frekar ömurlegar en önnur þó illskárri, og hvað sker úr um hvor verður? Iðjusemi!!! Það stendur reyndar ekkert um hvort iðjusemi eða ekki leiðir til skárri útkomu þannig að ég er nú að hugsa um að hlusta bara á aðeins fleiri TED fyrirlestra og Gabor Maté þó það komi fyrirlestrinum sem ég á að vera að skrifa ekki BEINT við. En, hei, er ekki alveg rökrétt að til að skrifa góðan fyrirlestur undirbúi maður sig með því horfa á nokkra þannig?

Annars er það helst að rapportera að það gengur alveg sæmilega að éta ekki yfir mig við hvert tækifæri. Einnig er líkamsrækt stunduð af kappi, að kenna litlum skræfum að hjóla í brekkum útheimtir talsvert af bogri, ýtingum, lyftingum og allskyns. En hjólfærni ungmennanna fer þó stórbatnanadi með hverjum degi sem við nennum út. Svo er að koma að Háskólahlaupi! Fyrir 15. maí ætla ég að vera búin að æfa mig heilmikið. Ætla helst að hlaupa alveg 7 km. Annars gengur allt svona upp og ofan með markmiðin. Ungviðið fær að hanga heilmikið í tölvunni. Unglingurinn fær að gera næstum allt sem hann vill. Móðurskip er samt nú þegar að verða ansi slæm á taugum. Og ekkert hefur verið þrifið að ráði, en það er nú líka spáð rigningu seinnipart vikunnar.

Þarf að skreppa yfir í næstu byggingu og sækja haug af heimaprófum til yfirferðar. Það er ekki einu sinni fyndið hvað ég nenni því ekki. Eins gott að muna fögur fyrirheit um að kenna aldrei neinum neitt framar. En þegar þessi heimaprófahaugur verður frá verður ekkert eftir nema lokaprófin.

En þessi vetur var langur og strangur. Ég finn verulega fyrir eftirköstum hans. Er jafnvel farin að velta fyrir mér hvaða haugageðbilun hafi staðið að því að ég ákvað að hefja doktorsnám með eins, þriggja og þrettán ára börn á heimilinu... og hafa ekki einu sinni vit á að hætta í leikfélaginu á meðan? Eitthvað segir mér að seinna meir muni ég horfa forviða í baksýnisspegilinn og spá í hvernig ég lifði þetta nú af. En það er náttúrulega mjög gaman að gá hvað maður getur þanið sig.

Og talandi um það. Landsdómsmálið, umræður um ríkisstjórnarfundi eða ekki, og allt mögulegt er að hafa hin undarlegustu áhrif á mig. Ég er smám saman farin að hafa áhuga á stjórnun. Fram til þessa hefur mín kvíðaröskun gert það að verkum að ég verð að halda mig frá slíku eins mikið og ég mögulega get, en það er einfaldlega þetta að það virðast vera til mismunandi aðferðir.

Og ég skal ekki ljúga. Auðvitað væri dásamlegt að vera á þannig launum að maður gæti stöku sinnum verið óvinnandi heima hjá sér. Þyrfti ekki að vera með hjartað hálfpartinn í buxunum um hvort endar nái saman, vogi maður sér nú að ætla að taka þátt í akademískri umræðu ellegar menningarstarfsemi á fjölþjóðlegum vettvangi... Já, næs djobb með skrisstofu. Mögulega ekki það versta sem fyrir gæti komið.

Allavega. Eftir doktorspróf er ég að spá í að athuga hvað felst í "stjórnun." Ég væri fínn stjóri, ef ég hefði stjórn á stressi og geðbólgum. En þetta er nú ekki alveg á næstunni. Ja, nema ég fái ekki styrk til frekara doktorsnáms í bili. Þá ætla ég að gera einhvern fjandann annan. (Og hlakka reyndar pínu til. Ég er atvinnuleitarperri. Fer næstum jafn oft á atvinnuauglýsingavefi eins og fasteigna.)

Best að fara út og þenja sig 3 kílómetra. Takmark mitt í sumar er að geta hlaupið jafnlengi og það tekur að hlusta á Allt er ekkert með Jónasi og ritvélunum. Mér er alveg sama hvað ég hleyp langt, aðalmálið er að hlaupa allan tímann, stoppa aldrei og labba aldrei.

Kapísj?

21.4.12

Háleit. Markmið.

Það er kannski meiri séns í helvíti að maður standi við það sem maður ætlar sér ef maður lýsir því yfir á opinberum vettvangi. Ekki að neinn fylgist svosem með því hvernig efndirnar verða (ég meina, er Sigmundur enn á íslenska kúrnum?) en... það má reyna.

Rannsóknarskipið er í Rúmeníu. Samkvæmt fésbókarstatus var hann að hengja upp gardínur þar, áðan. Meira veit ég ekki. En ég veit að við verðum án hans fram til sunnudags næstu helgar. (Og nú er laugardagur.) Eins og ævinlega þegar hann fer að heiman hef ég afar háleit markmið fyrir tímann. Ekki veit ég hvers vegna markmiðin koma einmitt þá. Sennilega vegna þess að þá ræð ég öllu. En, allavega. Þau eru m.a.:

- Að kenna yngri börnunum að hjóla. (Alllmáttugur hvað það tekur á taugarnar, en það er allavega búið að reyna bæði í gær og dag.)
- Að kenna unglingnum að vakna sjálfur á morgnana. (Ég held hann geti það vel, Rannsóknarskip þrjóskast við að vekja hann og reka stanslaust á eftir honum þar til hann er kominn út í bíl. Ég spyr stundum hvort hann ætli að halda þessu áfram þar til drengurinn flytur að heiman... Hann vaknaði altént sjálfur á föstudaginn, eins og ekkert væri.)

- Að vera reglulega mikið úti með þau litlu til þess að litarhaftið á okkur nái af sér ljósgrænu, berklalegu slikjunni. (Búin að gera mitt allrabesta í gær og dag.)

- Ná í raðskatið á þvottaskrímslinu sem hefur haft yfirhöndina frá því fyrir stóruflensu. (Gekk vel í dag.)

- Ná undirtökum í baráttunni við Skítinn en gegn honum hefur eingöngu verið háð nauðsynlegasta varnarbarátta síðan í Stóruflensu.

- Ganga frá sosum eins og rúmmetra af hreinum þvotti... sem getur jú líka fallið undir baráttuna við áðurnefnt þvottaskrímsli.

Og síðast en ekki síst, HÆTTA AÐ ÉTA EINS OG SVÍN!

Þannig er að fullorna fólkið á heimilinu ákvað að taka sig aðeins í gegn og missa nokkur kíló í framhaldi af því að versluð var ný vigt (andstyggileg, sem segir sannleikann) inn á heimilið. Á meðan Rannsóknarskip og Unglingur hafa hrópað upp árangur sigri hrósandi í hvurri vigtun, hef ég ekki misst gramm. Ekki eitt. Reyndar bara staðið í stað og Stóraflensa gerði stórt skarð í venjubundna líkamsrækt en nú þarf að fara að hlaupa og láta öllum illum látum til þess að langa flugið til Chile í sumar verði mér ekki aldurtila. Svona fyrir utan hvað væri nú gaman að komast í fagra sumarkjólinn frá henni Guðfinnu í Frakklandi í júní. Reyndar var ég ekki nema í kringum 50 kílóin þegar ég bjó síðast í Montpellier, svo það er líklega sama hvað ég geri. Kunnugir munu alltaf hugsa: "Svakalega er hún þessi orðin FEIT!" Þannig að það er alveg nó win þar. (Reyndar hef ég séð myndir af mér frá þessum tíma. Þær eru ógeðslegar. Af tvennu illu fer mér klárlega betur að vera 75 kíló en 55, verður að segjast.)

Ég ætla samt að reyna eins og ég get að missa mig ekki í ísskápinn þessi kvöld sem enginn sér til. Ég þyrfi að eiga eldhús með tímalás. Læsist þegar síðasti maður fer út eftir kvöldmat. Hefur þá þægilegu hliðarverkun að þá þarf ekkert meira að hugsa um að þrífa þar eða taka til fyrr en næsta morgun.

Jæjah. Þá er að gá hvernig gengur... Ég ætla að reyna að muna að kjafta hreinskilnislega frá því eftir viku...

24.2.12

Kenning

Amma mín hafði illar bifur á mörgum fyrirmennum. Sýslumönnum, prestum, stórbændum. Hún sagði að þeir hefðu, margir hverjir, misnotað skammlaust aðstöðu sína gagnvart sætum vinnukonum. (Þvingað þær til að gera meðsér dodo, og þvískylt, sumsé.) Svo hefði vinnumönnum verið mútað til að þykjast eiga börnin sem komu undir. Amma nefndi aldrei nein nöfn, en það kvein stundum í henni þegar farið var að tala um "siðleysið á unga fólkinu nú til dags." Þá sagði hún gjarnan frá verra siðleysi, á gömlu köllunum í gamla daga. Á kjarngóðu alþýðumáli. Amma mín skefur ekkert utanaf því, hefur aldrei gert. Þess vegna man maður líka það sem hún segir.

Ég hef aldrei vitað hver er forseti Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, áður. (Til að gæta fyllstu sanngirni, þá vissi ég nú ekkert um þetta batterí fyrr en Ísland fór á hausinn.) En konuna sem er núna gæti ég ekki pikkað útúr lænöppi. Né munað nafnið á. Hún er nefnilega ekki nærri mikið í fréttunum og Strauss Kahn var, jafnvel áður en farið var að ákæra hann fyrir kynferðislegan "misskilning" eins og það var einhversstaðar orðað.

Ólafur Skúlason var líka langsamlega meira áberandi sem biskup heldur en fyrirrennarar hans eða eftirmenn. Leiddist ekki sviðsljósið neitt.

Gilzenegger bjó í fjölmiðlum. Til að komast hjá því að vita hver hann væri þyrfti maður að henda sjónvarpinu og internetinu, auk símaskrárinnar.

Julian Assange er valdamikill maður. Margir hafa starfað fyrir Wikileaks. Og rökrétt væri að setja ljós sitt undir mæliker í þeirri vinnu, af ýmsum ástæðum. Þessi gaur er oft á forsíðum og í sjónvarpinu.

Ég þekki ekki deili á mörgum sértrúarsafnaðagúrúum. (Ja, nema ég þekki þá persónulega.) En Gunnar í Krossinum var alltaf duglegur að láta á sér bera.

Einhverntíma heyrði ég varað við því, þegar þau mál voru upp, að Guðmundi í Birginu væri ruglað saman við Mumma í Mótorsmiðjunni. Lítil hætta. Sá fyrrnefndi hafði farið mikinn í samfélaginu og barið sér á brjóst fyrir afrek sín. Af afrekum hins, þó engu minni væru, fóru ekki miklar sögur.

Ég hef ekkert alltaf verið með á hreinu hver væri utanríkisráðherra. En ráðherratíð Jóns Baldvins fór ekki framhjá neinum. Að sama skapi var alþjóð kunnugt um að hann væri í Bandaríkjunum, og síðan hann hætti í pólitík hefur hann samt gætt þess vandlega að menn fari nú ekki í grafgötur um hvað honum finnst. Ég hef ekki grænan grun um hver er sendiherra Íslands í Bandaríkjunum í dag.

Maður hlýtur að fara að velta fyrir sér, hvað er þetta með athyglissjúklinga í valdastöðum og kynferðislega misbeitningu. Athyglivert er líka að svör þeirra allra eru á einn veg þegar upp kemst. Þokukenndar og undarlegar afsakanir („...öllum geta orðið á MISTÖK...“!!! það nýjasta) og maður hefur það alveg klárt á tilfinningunni að þeir iðrist gjörða sinna andskotann og ekkert, þyki aðeins fyrir því að upp hafi komist um glæpina. Fyrir nú utan þá sem þvertaka fyrir að hafa gert nokkuð rangt eða án samþykkis.

Sumir vilja meina að þetta séu allt ímyndunarveikar kellingar og pólitísk samsæri. Já, og svo vondu fjölmiðlarnir! Ég held hins vegar að við sjáum bara blátoppinn á ísjakanum.

En nú verða menn líka að gæta þess að hengja ekki bakara fyrir smið. Þó svo að þessi dæmi séu asnalega mörg má alls ekki halda því fram að allir athyglissjúklingar í valdastöðum séu kynferðisglæpamenn. Því síður er sniðugt að leggja til að þeir séu allir hengdir upp á typpunum og flengdir á torgum.

En þetta er athyglivert. Athugunarvert, jafnvel. Getur verið að eitthvað, einhver trámu, einhver áföll í æsku, gen... ég veit það ekki, tryggeri einhvern veginn þetta tvennt í einu? Valdafýsn og óstjórn á kynferðislegri fýsn? Eða fá menn bara svona gegnumgangandi „ég-á-þetta-ég-má-þetta“ tilfinningu gagnvart öllu og öllum, við ákveðið stóra innspýtingu af sviðsljósi og völdum? Ég hef lengi verið þeirrar skoðunar að hvorki kynferðisglæpamenn né aðrir afbrotamenn, skáni við refsingu. Þetta er hins vegar verðugt rannsóknarefni fyrir sál- og/eða afbrotafræðinga.

Rannsóknin gæti heitið:
Forsíðumynd af krókódílamanninum.
Tilviljun?

Hvort einhver treystir sér ofan í þennan drullupytt mannlegrar eymdar er síðan annað mál.

15.2.12

Glataður texti

Sá glataði nefnist leikverk í leikstjórn divæsdívunnar Ágústu Skúladóttur sem nú er á fjölum Hugleiksins. (Eða réttara sagt á steingólfinu í mínímalrýminu úti á Eyjarslóð.) Þó því hafi verið fleygt, er ekki hægt að segja að leikritið sé eftir mig. Ég er hins vegar handritshöfundur. Til að útskýra hvernig í þessu liggur verður að segja aðeins frá vinnuaðferðinni.

Þegar ég kom inn í verkefnið var búið að ákveða viðfangsefni, ráða leikara og velja hóp. Tónlistarhöfundur var meira að segja lagður af stað í sitt ferðalag. Og hann var einnig búinn að taka saman rannsóknargrunninn í viðfangsefnið, dæmisögur Jesú. Og prenta þær út.

Það stóð aldrei til að ég færi heim með bunkann og skrifaði leikrit. Það átti að dívæsa (sem er stundum kallað að ágústa, í mínum kreðsum, í höfuðið á þessari kjörvinnuaðferð þessa leikstjóra) eins og vindurinn. Í ætt við leikhús á borð við Theatre Complicite og Berliner Ensemble, svo maður sé nú ekki að setja markið á neinn aumingjaskap. Gallinn við þær áætlanir var vissulega sá að í staðinn fyrir að hafa eitt til tíu ár með leikhóp í fullu starfi við að þróa sýninguna, höfðum við þrjá mánuði og leikhópinn aðeins til umráða á kvöldin og um helgar. Samt stóð ekkert til að stytta sér leið.

Við byrjuðum í byrjun nóvember að hittast og láta leikarana spinna og gera tilraunir með það sem þeir sáu í sögunum. Stundum voru ákveðnar sögur undir, stundum sögur með ákveðnu þema, stundum frjálst val úr þeim 28 dæmisögum sem lágu til grundvallar öllu saman. Þær lágu misvel við dramatiseringu. Sumar þeirra voru í rauninni skrifaðar eins og einþáttungar, með töluðum texta og öllusaman. Aðrar ekki. Eins og til dæmis þessi:


Súrdeig (Lúkas 13)

 Og aftur sagði hann: "Við hvað á ég að líkja Guðs ríki? Líkt er það súrdeigi, er kona tók og fól í þrem mælum mjöls, uns það sýrðist allt."

Þetta rataði reyndar ekki í sýninguna en hefði verið gaman.

Aðferðirnar sem leikstjóri notaði til að fá ýmislegt fram úr sögunum voru ýmiskonar. Stundum var spunnið með tónlist. Stundum mátti nota orð, stundum ekki. Stundum þurfti að nota ákveðin efni eða annað sem við vorum með á staðnum. Það urðu til ofboðslega fallegar stemmingar þegar klassísk, kórflutt, tónlist úr biblíuþema var sett á fóninn. Við lékum okkur líka heilmikið með málaraplast og gínuhöfuð. Allir í hópnum unnu hugmyndavinnuna. Margt af því sem verið var að gera á þessu stigi málsins er í sýningunni, en flest í allt annarri mynd. Það hefði verið mjög gaman að sjá hvað hefði gerst ef við hefðum haft svona tvö ár...

Og handritshöfundur fylgdist með, punktaði niður og spekúleraði með leikstjóra og tónlistarhöfundi, út í hið óendanlega. Fljótlega ákváðum við að þenja rýmið út fyrir hið mögulega. Sem þýddi meiri tiltekt í húsnæðinu okkar á Eyjarslóðinni heldur en áður hefur verið framin. Eins voru búninga og förðunarhönnuðir lagðir af stað áður en skrifaður var stafkrókur í handrit og það sama má segja um leikmyndarhönnun. En um svipað leyti fórum við að setja niður fyrir okkur hvað ætti að gerast í leikritinu. Grundvallaratriði eins og að sögurnar Týndi sonurinn og Týndur sauður skyldu vera miðlægar. Þarna fórum við líka að athuga hvaða sögur væru með mestum taltexta. Í kringum það fór handritið að byrja að verða til og það þróaðist þannig að mér fór að þykja spennandi að nota að mestu leyti textana beint úr biblíunni. (Reyndar örugglega gömlu þýðingunni... ég hef ekki athugað það.)

Þetta er svolítið í ætt við það sem ég hef verið að leika mér með. Í síðustu tveimur stuttverkum sem ég hef skrifað hef ég verið að nota texta annarra. Síðasta verk mitt, Ljóð fyrir níu kjóla, er samtal (eða... þrítal) úr þremur mismunandi þýðingum á síðustu einræðu Lady MacBeth. Þaráður skrifaði ég tvíleik þar sem tveir menn tala á sama tíma, það sem annar segir er eingöngu úr niðurstöðum fyrsta Þjóðfundarins sem Mauraþúfan hélt og skilgreiningar á hinum sjö eða átta himnesku dyggðum. Einhverra hluta vegna hef ég þess vegna verið að stela mikið textum úr ýmsum áttum og setja þá saman á nýjan hátt. (Já, þetta ljómar artífartlega, og er það.) Ég efast um að ég sé hætt því, heldur.

Það fór sem sagt að verða spennandi að í þeim sögum þar sem taltexti var áberandi, að fara helst ekkert út fyrir hann. Þar sem frekari útskýringa þurfti við var textinn úr sögunum sem ekki var taltexti til að byrja með lagður persónum í munn. Og svo duttu inn setningar víðar að út Biblíunni. Ungu elskendurnir eru mjög heppnir að þegar ég byrjaði að nota Ljóðaljóðin á þau var ekki nema hálfur mánuður eða svo í frumsýningu. Ó, boy, hvað það hefði nú getað orðið skemmtilegt. Og LANGT.

En það er engin munnræpa í þessu verki. Upprunalegt handrit var 16 blaðsíður. Sýningin tekur um klukkustund og tuttugu mínútur í flutningi. Það segir sig sjálft að hún gerist að miklum hluta í þöglum leik og tónlist. Ég hugsa að söngtextar séu í orðafjölda allt að því jafnumfangsmiklir og talaður texti sýningarinnar. En það var hluti af samvinnu okkar Ágústu að búa til framvinduna. Hvernig alltsaman byrjar, hvernig það endar, hvað gerist í millitíðinni.

Það er því beinlínis rangt að halda því fram að ég sé höfundur þessa verks, eða það sé eftir mig. Ég er reyndar höfundur talaðs texta í verkinu, en ólíkt mörgum, jafnvel flestum, leiksýningum sem maður sér er talaði textinn ekki hryggjarstykkið í sýningunni. Leiðina að honum þróuðum við saman, leikstjórinn Ágústa Skúladóttir, tónlistarhöfundur/-hannari Þorgeir Tryggvason og leikhópurinn allur saman. Við erum öll höfundar sýningarinnar og hún er eftir okkur. Ég er hins vegar handritshöfundur. Sem er í þessu tilfelli alls ekki það sama og höfundur.

Það er gaman að vinna svona, sem Ensemble. Það er líka mjög erfitt. Sérstaklega þegar tímapressa er á öllu saman, flestir mæta eftir langan vinnudag, nota allar helgar og þurfa að kúpla sig út úr öllu sínu daglega lífi til að taka þátt. Þá er þetta þrekvirki. En það kveikir óneitanlega í manni löngun um meira.
Morgunæfingar. 
Rými með plássi. 
Nokkur ár til þróunarvinnu.

Og svoleiðis.

19.1.12

Don't you want me babe? (Or ELSE!)

Undanfarið hef ég verið að lenda í því að heyra aftur tónlist sem mér þótti rómantísk, í æsku. Með batnandi enskukunnáttu og vaxandi reynslu af lífinu hefur síðan ýmislegt... annað komið í ljós.

Byrjum á Police.

„Every breath you take,
every move you make,
every bond you brake (!)
every step you take,
I'll be watching you.“

Hallóóó, eltihrellir... og mögulega mannræningi. Ég hef ekki enn getað litið fjölskyldumanninn og jógaiðkandann Sting réttu auga eftir að ég áttaði mig á merkingu þessa texta. Undir engilblíðri raust og fagurri melódíu hljómar bara: „Oh, can't you see? You belong to me!“

Sæll! Minnir mann á gaurinn sem tjaldaði í garðinum hjá Eivöru og skildi ekki að hún var ekki kærastan hanns. *hryll*

Önnur rómantíks perla féll af stallinum í september. Þetta kom í útvarpinu þegar við hjónin vorum á leið til London í haust. Í fyrstu varð ég harla kát og rómantísk. Svo fór ég að hlusta:

„Follow me, everything's all right,
I'll be the one to tuck you in at night,
and if you wanna leave I can guarantee
that you won't find nobody else like me.“ !!!!!

Hallóóóó, geðsjúki megalómeiníak með föðurkomplexa.

Hlustið á allan textann, þeir sem þora.
Og takið eftir því að betri maður er ekki til... og hún er með samviskubit yfir einhverju... sem þessi mikilmennskubrjálaði yfirráðaseggur myndi fyrirgefa henni, einn manna! (En þá er nú líka eins gott að hana fari ekki einu sinni að LANGA burt!)

Um daginn hrundi enn ein eitís-perlan.
Don't. Don't you want me?
You know I can't believe it when I hear that you won't see me. (!)
Don't don't you want me?
You know I don't believe you when you say that you don't need me. (!)
It's much too late to find,
so you think you've changed your mind?
You better change it back or we will both be sorry! !!!!!!!!!

Halllóóóó, allt ofantalið plús líklega morðingi!

Mammamía.
Eitís: Ekki sérlega góður áratugur fyrir konur. (Allavega ekki ef þær ætluðu að voga sér að dömpa einhverjum... lífshættulegt, mögulega.)

En sem betur fer er þetta nú ekki allt í voða. Alphaville hefndi sín bara á dræsunni sem dömpaði þeim með því að slá í gegn í Japan.
Ekki dýpst í heimi, en allavega nokkurn veginn laust við hótanir og kúgun.
Sjúkk.17.1.12

Mikið lifandi skelfingar óssköp er gaman...


Það er dáldið að gera. En það er nú bara best. Nú kenni ég. Og þegar maður ætti að vera að skrifa niður það sem rétt væri að segja í næsta tíma er best að hanga á feisbúkk, skrifa leikrit, Youtuba af sér félagsheimilið og þegar maður finnur sér ekki fleira til? Jú, einhversstaðar átt'ég blogg.

Ekki laust við samt að það sé horft ofurlitlum löngunaraugum til síðkvöldanna eftir viku af febrúar þegar fer að verða ráðrúm til að gleyma sér í hyldýpum sjónvarpsdagskrárinnar, æfa sig á úkúlele og vera ekki stöðugt samviskubit yfir vanrækslu á fjölskyldu og heimilishaldi.

En það skal þó upplýst að gríðarlega hefur nú verið gaman í félaxheimilinu hjá Hugleiknum með henni Ágústu Skúla. Við erum búin að ryðjast um dæmisögur Bifflíunnar eins og naut í flagi, rífa allt úr sambandi og samhengi og búa til eitthvað allt annað. Og eins og segir í gömlu Legó auglýsingunni: „What it is is beautiful.“
Það gengur nefnilega vel.
Og þetta verður mergjað.
Afkvæmið heitir „Sá glataði“ og verður frumsýndur 3. eða 4. nóvember. Nánari upplýsingar fara bráðlega að birtast á hugleikur.is.

Svo mörg voru þau orð.

Af öðrum vígstöðvum er það helst að frétta að sá elsti er nýkominn frá Flórída, er í prófum og er spekúlerar í framhaldsskólum. Ýmsir hafa verið nefndir, talsvert um heimavistir. Mér heyrast Laugar vera jafnvel að breytast í Laugavatn, en það er nú bara janúar ennþá og margar hugmyndir gætu átt eftir að fæðast fyrir vorið. Ég skil þessa heimavistarlöngun afar vel. Það sem var ekki horft augum öfundar til þeirra sem voru svo heppnir að eiga ekki forfeður á Egilsstöðum eða nágrenni, á sínum tíma. Það er kannski vegna þess að mér auðnaðist aldrei að prófa það, en ég er haldin þeirri bjargföstu sannfæringu að heimavistarbúskapur sé í senn skemmtilegur og þroskandi.

Yngstu börnin tvö greindust með streptókokka á dögunum. Hraðbátur var í alvöru lasin, Freigátan var bara einkennalaust. Bæði fengu pensilín, og hann að auki eyrnameðal og astmalyf og nú hressast allir óðfluga. Enda eru þau byrjuð á sundnámskeiði í Kópavogslaug og þá er nú vissara að vera við hestaheilsu.

Annars horfi ég nú til himins á hverjum morgni og er farin að leyfa mér að hlakka til hækkandi sólar með allskonar útivistargúmmilaði. Brostið hefur á með líkamsræktaáráttu á nýjan leik og í bland við áframhaldandi kólestrólleysi er ég að vonast til að skríða niður fyrir efri mörk kjörþyngdar fyrir vorið.
Og svo er bara komið nóg af þessu myrkri.

Eitt það góða við svona fáránlega annasama tíma er að hlakka til þegar um hægist. Síðan kemur alltaf eitthvað annað í staðinn og það hægist aldrei neitt um neitt. Þó er farinn að pirra mig tíminn sem ég eyði í afþreyingargláp og Facebook. Það er bjánalegt að vera ósofinn og illa hvíldur og eyða svo tímanum og orkunni í eitthvað svona húmbúkk, sem skilur ekkert eftir sig en er samt ekki hvíld. Ætti maður ekki frekar bara að nota tímann og vera meira sofandi? Eða glápa útí loftið og spila á úkúlele?

Ég spyr nú bara sisvona
eins og fávís kona.

En nú þarf að gera eitthvað.