13.12.08

Lóga

Ég er búin að vera miður mín í alveg nokkra daga. Um daginn rak ég augun í setningu í mogganum. Sem ég ætla ekki að hafa eftir. En hún var í frétt um einhvern barnaklámhring sem var verið að reyna að uppræta.

Ég held að einhverntíma verði samfélag mannkyns einfaldlega að taka mjög erfiða ákvörðum. Barnaníðingum þarf að lóga. Eins og hundum sem drepa fé. Það getur svosem verið að það sé hægt að venja þá af þessu en það er ekki áhættunnar virði.

Það eru einhverjir dagar síðan ég las þessa frétt. Hún var lítil og ómerkileg. En ég er ennþá með hroll. Svo les maður á nánast hverjum degi dóma sem eru að falla yfir mönnum sem hafa misnotað svo og svo mörg börn (oftast dætur sínar eða stjúpdætur) í svo og svo mörg ár. Þeir fá að fara á hótel Litla-Hraun og lifa í samfélagi hver við annan í nokkur ár. Svo sleppa þeir út og enginn veit hverjir þeir eru eða hvað þeir gera næst.

Eina vonin er að ofbeldishneigðari fangar stúti þeim.

Þetta er nú ekki jólalegt hjá mér.

12.12.08

Aðventukúr

Amoxiklav, Kavepenin, Flemoxin, Nasorex, Neseril, Parasupp. Eins gott að maður ruglist ekki á því hver á að fá hvað hve oft og í hvaða enda. Staða sjúkdómsgreininga er svona:

Móðurskip: Streptó, 1 pilla af Kavepenin þrisvar á dag meðan birgðir endast. (Og te og hálsmolar í ómældu magni.)
Freigáta: Streptó og einhverja sýkingar í kinnholum og allskonar horvaldar, Amoxiklav, 5 ml 3svar á dag, Nasorex fyrir svefninn. Og saltvatnslausn eins og hver getur í nef sér troðið þess á milli.
Kafbátur: Eyrnabólga og huxanlega streptar: Flemoxin, 5 ml 2svar á dag, Neseril fyrir svefninn dax og kvölds, Parasupp eftir þörfum. Sem og saltvatn í nef.
Rannsóknarskip: Ólæknandi flensa. Fær engin lyf.
Smábátur: Frískur eins og nýfætt lamb. Farinn til Grafarvox að passa Ingömmu sem er Ólafalaus.

Á morgun verður síðan haldið (eða allavega fulltrúar sendir) í Grafarvoginn að skera upp laufabrauð. Þá eiga líka allir að vera hættir að smita, Hugrún, svo óhætt ætti að vera að koma nálægt okkur uppúr því.

Í dag og gær er semsagt búið að eyða himinháum upphæðum í lyfsölurisana og til að bíta endanlega höfuðið af skömminni fór ég og eyddi 16000 kalli í jólahamborgarhrygginn og nokkrar jólagjafir núna eftir hádegið.

Í kvöld ætlum við Rannsóknarskip að safna okkur saman eftir veikindin og reyna að ná í skottin á sjálfum okkur með vinnurnar okkar. Ég er að vonast til að komast langt með ritgerðina mína og hann ætlar að fara yfir um milljón próf.
Rómó.

11.12.08

Streptastuð!

Hefi verið úrskurður með streptókokkasýkingu í hálsbólgu og fengið pillur. Víííí! Ég ellllska veikindi sem hægt er að lækan hratt og örugglega með pillum. Drekk te og ritgerða eins og vindurinn. Rannsóknarskip var ekki jafnheppinn. Að honum er ekkert sem læknast með lyfjum svo hann verður bara að hanga og hvíla sig.

Mig dreymir samt mest um að komast einhvern tíma til að taka til. Og jóla meira.

Fór annars um daginn í Skífuna. Í leit að DVD-inu af Jólaævintýri Prúðuleikaranna og jóladisknum með Mariu Carey sam mig hefur langað í í um 10 ár eða meira. Fann hvorugt. En gat huggað mig við hljómdiskinn úr Jólaævintýri Prúðuleikaranna og fékk mér jólaplötu með Barböru Streisand sem mamma átti og hefur alltaf verið í uppáhaldi hjá mér.

Er að verða ponkulítið stressuð yfir jólagjöfunum sem þurfa að sendast til annarra landa og landshluta. Þarf að fara að ákveða hvenær við utlum að kaupa þær. Og leggja svo á og mæla um að allir verði heilbrigðir þá. Það ætti að banna stranglega veikindi í desember.

Svo er bara rok. Lán í óláni að ég var ekki búin að dr****** til að sería svalirnar.

Pestafréttir

Þá er nú endanlega allt í volli. Móðurskip var eitthvað úldið í gærmorgun. Hraðbátur var líka eitthvað horugur svo við lögðum okkur fram að hádegi. En ekki dugði það til, vorum bæði alveg hundslöpp, ég sjálf með brjálaða hálsbólgu og hita. Rannsóknarskip kom síðan handónýtur heim úr skólanum, líka með hálsbólgu og sleppu.

Þeir feðgar fóru til barnalæknis í morgun. Hraðbátur er með eyrnabólgu, enn einu sinni, en nú á að reyna að ráða niðurlögum hennar með náttúrulegum eyrnadropum úr Jurtaapótekinu, nefpústi og verkjastílum. Hann á að mæta aftur á þriðjudaginn og ef hann verður ekki batnaður í eyrunum fær hann eitthvað alveg baneitrað pensillín sem hann fær í magann af.

Ég ætla til læknis á eftir til að athuga hvort ég er með streptókokka. (En það þætti mér GOTT. Þá fengi ég allavega meðal.) En við verðum að jafna okkur á þessu hratt og örugglega. Bæði börnin búin að missa af sundinu sínu í vikunni og ætlunin er að senda allavega einhverja fulltrúa í laufabrauðsgerð til Ingu ömmu um helgina. 

Nú sofa feðgarnir. Mér er illt í hausnum og ætla að fylgja þeirra góða fordæmi.

9.12.08

Nú gerði ég heiðarlega tilraun til að byrja á ritgerðinni minni í kvöld. Búin að lesa fullt. Fá fullt af hugmyndum um hvað ég ætla að skrifa. Ekki málið. Hins vegar er ég eitthvað léleg til skroxins og nenni engan veginn að sitja á vonda eldhússtólnum fyrir framan borðtölvuna. En í henni býr eina wordið á heimilinu. Og af því að ég nenni ekki að komast að því sjálf:

Veit einhver um ókeypis og niðurhalanlegt ritgerðunarforrit fyrir makka?
Það þarf að vera hægt að gera fúttnóts. (Annars myndi ég nota text-edit.)

Vonandi kemur annar duglegur dagur á morgun.

Seríaði annars mjög duglega í dag. Heimilið lítur út eins og Guðjón Sigvalda sé að leikstýra því.

8.12.08

Þorrabyltingin

Var að frétta af fyrirætlunum um þorrabyltingu. Líst ljómandi vel á hana. Nú er ég hins vegar komin í þvílíkt jólaskap og hlakka til að halda jólalegustu jól síðan fyrir fyrir góðæriskjaftæðið.

Mér finnst fávitarnir sem allir vita hverjir eru ekki aðeins þurfa að taka ábyrgð á kreppunni heldur öllum heila lygaþvættingnum á bak við "góðærið." Ég er dauðfegin að þetta sé að baki. Og mér finnst eigendur skuldugra jeppa og flatskjáa á raðgreiðslum ekki eiga að skammast sín fyrir nokkurn skapaðan hlut. Erkifjendurnir stjórnvöld og auðjöfrar gátu nú aldeilis sameinast þegar þurfti að ljúga endalausum neyslulánum upp í allan almenning með meðaltekjur og meira. En það þurfti að halda uppi "hagvextinum" og "hjólum hafkerfisins gangandi." Ég vona að fólk láti ekki selja sér samviskubit yfir kreppunni ofan á allt hitt draslið. Við erum að tala um auglýsingaherferðir og skrum upp á milljarða á milljarða ofan af ímynduðum peningum, dyggilega stutt af góðærishjali stjórnvalda. Fullt af hámenntuðum viðskipta- og hagkerfisfræðingum sá ekki í gegnum þetta þó menn séu, einhverra hluta vegna, hver að keppast við annan um að "hafa vitað betur og varað við árum saman" núna, eitthvað.

Ég vissi allavega ekki neitt. Ég trúði því alveg að allir þessir peningar væru til en ekki eins og glópagullið í fjórðu bókinni af Harry Potter. Mér var bara alveg skítsama og fannst áhrifin sem þeir höfðu á samfélagið virkilega ömurleg. Manngildi fótum troðið og græðgin undirliggjandi í stóru sem smáu. Mikilvægustu störfin vanmetnust að launum og virðingu. Þegar ég flúði land 2001 fannst mér þjóðin stefna í að rorra bara í spikinu, sauðsleg og siðblind. Kunni landi og þjóð ekki sérlega vel söguna þegar ég var erlendis, án þess að kunna almennilega að útskýra hvað var að pirra mig svona. Þegar ég kom aftur 2003 hafði hins vegar orðið þróun. Það var komið mótvægisafl. Krúttin, mótmælendur og félagar. Hægt var að koma sér upp góðærisblindu.

En ég átti ekki von á að fá að lifa að sjá þetta taka enda. Eða að komast að því að ég ætti eina sál með svona mörgum um þessi mál. Næstum öllum í landinu, finnst mér stundum.

Svo ég kann mönnum skít og skömm fyrir góðærislygina og að stela öllum peningunum okkar. En bestu þakkir fyrir að klúðra þessu ofan í klofið á sér að meðan ég lifði.

Og þorrabyltingin verður gerð. Þannig er það bara.

...og svo snúa þau sér í hring!

Á þessum annars horríka degi eru menn þó með hressasta móti og næsta hitalausir. Því er búið að skella "Göngum við í kringum" í spilarann og æfing fyrir jólaball í fullum gangi nú klukkan 10 morgunsins. Freigátukrílið er þó óskaplega föl og eymingjaleg og ekki bætir úr skák að eftir baðlausa helgi er hún komin með voða skítugt hár með horklessum. Mig dreymir þann dagdraum helstan að hún verði hitalaus í kvöld svo hægt verði að baða hana.

Það er svo merkilegt að þó horstreymi Hraðbátsins sé engu minna og hann sé jafnvel búinn að vera með meiri hita þá verður hann aldrei svona náhvítur í framan eins og Freigátan verður. Enda er hann dökkeygari og mig grunar að hann hafi eitthvað meira af vestfirska duggaraútlitinu sem stingur sér víða niður í föðurfjölskyldunni minni, meðan Freigátan virðist hafa sinn húðlit úr albínáahluta Kela móðurafa. En það líður varla sá dagur að einhver spyrji mig ekki hvort Hraðbáturinn borði mikið af gulrótum af því að hann er svo brúnn. En það gerir hann ekki. Og hefur óskaplega lítið komist út fyrir hússins dyr undanfarið vegna heimilishorsins. Og sefur ekki einu sinni úti þegar hann er frískur. Svo hann er greinilega bara svona hraustlegur á litinn frá náttúrunnar hendi.

Í dag er pensillínkúr Hraðbátsins á enda en hann enn með hor. Svo þá er nú best að fara öllu með ítrustu gát og kaupa eyrnadropa í jurtaapótekinu svo við þurfum nú ekki þriðja pennsilínkúrinn í röð fyrir jól. Og helst vil ég fá Freigátuna í lag fyrir sundið á miðvikudaginn, en hún er nú þegar búin að missa helminginn af því í horið. Mikilvægast í heimi er þó að hún verði heilbrigð þann 18. desember. Þá er jólaball á leikskólanum og Rannsóknarskipið þarf að fá sér frí í vinnunni til að fara með Hraðbát í síðasta tímann á sundnámskeiði á meðan Móðurskip er í prófi. Að þeim degi afloknum mega menn bara hora alveg eins og þeim sýnist. Báðir foreldrarnir verða komnir í frí um óákveðinn tíma. Ég er ekki enn búin að fá endanlega staðfest að Forlagið taki við mér í lokaverkefni í janúar. Kannski verður þá bara Rannsóknarskip í fæðingarorlofi og ég á atvinnuleysisbótum. Mikll og svakalegur lúxus verður það nú!

---

2 mínútum eftir að þetta var skrifað fékk ég meil. Í kjölfarið fylgdi símtal. Spennandi fréttir um lokaverkefnisritstjórn. Nú bíð ég bara eftir öðru símtali með öndina í hálsinum. Stei Tjúnd.

Meðan ég vesenaðist í þessu gerði Freigátan fallegt málverk á spegilinn úr eigin hori. Já, Íslendingar eru skapandi fólk.

7.12.08

Kæruleysi

Ég hef sjaldan verið jafn ógurlega kærulaus og skipulagslaus. Ekki bara fyrir jól heldur bara... alltaf. Tíu dagar í próf og ritgerðarskil og ég get varla sagt að ég sé byrjuð! Reynar er lestur fyrir prófið mjög vel afmarkaður. Ein bók, eitt leikrit. Og glugg í ein tvö eða þrjú í viðbót. (Þar af eitt sem ég er ekki farin að nenna að athuga hvort sé til í bókhlöðinni.) Ekki mikið en þarf nú samt að gerast og ígrundast vandlega þar sem ég þarf að vera þrjá tíma að svara spurningunum tveimur á prófinu og ég er algjörlega búin að gleyma hvernig maður gerir svoleiðis. Ritgerðin er reyndar ekki nema 8 - 12 blaðsíður. En þarf nú samt að skrifast og það tekur einhvern tíma. Og í samhengi við það þarf að lesa alveg slatta. Í nokkrum bókum sem ég veit ekki endilega hvar eru.
Það er spenna í þessu.

Og ekki fer mikið fyrir lærdómi á morgun. Freigátan er voða kvefuð svo hún verður heima hjá mér á morgun. Á tveggjabarna dögum gerir maður ekkert og eftir að Rannsóknarskip kemur heim gerir maður heldur ekkert. Ekkert af viti allavega og maður sofnar yfir því sem maður reynir að lesa.

Vitandi þetta eyddi ég nú deginum í dag samt í kæruleysi. Fékk að sofa frameftir og notfærði mér það alveg fram undir hádegi. Hékk og lék mér við fjölskylduna og horfði á Silfur Egils eftir hádegi og fór svo á tónleika Kvennakórs Reykjavíkur í Kristskirkju.

Og ætla ég að læra eitthvað í kvöld?
Ja, kannski eftir L&O SVU.