17.10.09

Að lifa október af. Dagur 17.

Það getur alveg bjargað deginum að heyra góðan kreppufrasa sem útskýrir það sem manni finnst í einni setningu. Sá eina svoleiðis hjá Grími Atlasyni í dag. "Vandinn liggur í fylleríinu, ekki timburmönnunum."

Nákvæmlega.

Góðærið var rugltíminn. Hrunið var bara það sem gerðist þegar rann af mönnum. Svo skiptist þjóðin alveg þvert í þá sem vilja beint aftur á fyllerí (fleiri álver, virkjanir, ja það sem menn kalla einu nafni "framkvæmdir" sem skapa kallastörf og tímabundinn gróða) og þá sem vilja láta sér að kenningu verða (byggja upp sæmilega stöðugt samfélag, huga að umhverfismálum og hætta í rússíbananum.)

Það vantar flokk fyrir hægri græna.

16.10.09

Að lifa október af. Dagur 16.

Berst hatrammri baráttu við samviskudrauginn. Er búin að vera að skanna yfir nokkra texta í morgun og er að verða komin með upplegg í eina "litla" ritgerð... (einhverntíma hefði maður nú samt ekki notað það lýsingarorð um 30 - 40 bls., en í samhengi við doktorshroðann er þetta nottla pínöts) og er nokkurn veginn komin með fyrirlestur sem ég á að flytja á þriðjudaginn. Nennisiggi er kominn í heimsókn og mig langar að stinga af eftir hádegi. Fara heim - út að hlaupa - í lengra bað en maður getur leyft sé með stóðið heima - spila á gítar þangað til tími er kominn til að sækja liðið á leikskólana.

En auk samviskunnar sem þvælist fyrir er komið rok og rigning. Það er talsvert laust við að ég nenni að hlaupa í þessum fjára. Eða hvað? Veðurspáin spáir áframhaldandi rigningu svo langt sem augað eygir. Og ef áætlaður árangur í kílóafækkun á að nást í október fer ekki hjá því að mar verði að galla sig upp og harka af sér, líklega alveg nokkrum sinnum.

Sé annars alveg jafnvel fram á að síga niður í 70 kílóin áður en mánuðurinn er úti. Man þegar ég fór í fyrsta sinn upp í þau. Jólaævintýri Hugleix var um þær mundir 70 blaðsíður og ég komin slatta af mánuðum á leið og orðin spikfeitari en mér þótti þægilegt. Hefði líklega lagst í yfirlið, sorgir og eilífðarsút, hefði einhver sagt mér að fjórum árum síðar ætti ég í baráttu við að koma mér NIÐUR í þennan kílóafjölda. Algjörlega ó-ólétt. Össsss.

Já, ég held að það sé bara regngallinn og pollahlaup.
Tjóar ekki að sitjog grufla, gæskan.

15.10.09

Að lifa október af. Dagur 15.

Ég mæli með því að læra að spila allavega eitt nýtt lag sem manni finnst skemmtilegt, á eitthvað hljóðfæri. Eða læra textann af því svo maður geti raulað það fyrir sjálfan sig undir stýri.

Í gítartíma í dag lærði ég til dæmis að spila "All of me" sem er afar skemmtilegur stríðsáradjass sem kennarinn var að nota til að láta okkur læra einhver rythmatrix. Og hljómatrix. Ég er hamingjusöm í sálinni en verulega illt í báðum höndunum og fer að huxa mér til gítars með mjórri háls.

Tímir einhver að lána mér "týpískan" stálstrengjagítar með mjóum hálsi?

14.10.09

Að lifa október af. Dagur 14.

Hafði ekki tíma til að láta mér detta neitt í hug í dag.

Sökudólgar: Plat-svínaflensa (sem Freigátan var með, upphófst með heilmiklum hitahvelli í gær en lognaðist svo bara niður í nokkrar kommur í dag og er sennilega engin svínaflensa) og Barack Obama.

Veit ekkert.

13.10.09

Að lifa október af. Dagur 13.

Þá er kominn tími á jólaskapið.

Ég held að ástæðan fyrir öllu stressinu í desember sé sú að menn ætla sér allt of stuttan tíma til að jóla. Í desember þarf að vinna frammúr sér (út af öllum frídögunum) kaupa jólagjafir, gera hreint, skipuleggja jólaföt, jólamat hlusta á alla jólatónlistina í einum rykk og hafa síðan líka tíma til að skemmta sér við jólahlaðborð og jólatónlist. Þetta er náttúrulega rugl. Enda kemur yfirleitt út úr þessu stressaðasti mánuður ársins sem verður sjaldnast neitt skemmtilegur og flestir eyða jólunum sofandi eftir allt hafaríið. Ég held að það sé ástæðan fyrir jólafýlunni sem heltekur marga þegar hátíðarnar nálgast. Þessi tími er alveg ömurlegur þegar ekki er tími til að njóta hans.

Ég er að hugsa um að fara að skipuleggja jólagjafainnkaup. Þau eru skemmtileg ef maður hefur tíma í þau. Svo er líka kreppa og alveg fáránlegt að bíða með þau þangað til ofurkaupmenn eru búnir að kýla upp verðið. Í ár ætla ég líka að gaumgæfa þau vel og vandlega og sneiða hjá öllum glæpamönnum með 60% markaðshlutdeildir og afskriftir. Kaupa bækur beint frá útgefendum, annað dót helst beint frá hönnuðum eða þá frá ponkulitlum smáseljendum sem eru ekki skyldir eða tengdir Bónusfeðgum eða öðrum stórgrósserum á neinn hátt. Byrji maður snemma getur maður líka pælt vel og vandlega í því hvað stórfjölskylduna vantar/langar í. (Ásta vinkona ætti að halda námskeið á þessum tíma. Hún er sérfræðingur í að velja gjafir sem maður var búinn að gleyma að mann vantaði, en hitta ævinlega beint í mark.) Best er að klára að pakka inn áður en október er úti.

Svo er ekki úr vegi að fara að láta eitt og eitt jólalegt lag detta inn á playlistann. Ég kem ævinlega út úr jólunum án þess að hafa heyrt helminginn af uppáhalds jólalögunum mínum. (Og hafandi heyrt allt of mikið af öðrum.) Þá má flokka jólatónlistina í fyrirjóla og hájóla tónlist. Diskurinn úr Jólaævintýri Hugleiks er til dæmis næstum því ekkert jólalegur og er fínn í október. Það sama má segja um jóladiskaúrval Hraunsins, ef maður á eitthvað af þeim. Allskonar jólarokk er líka alveg fínt, núna. Og núna fer líka að koma tíminn fyrir hið árlega áhorf á The Nightmare Before Christmas. (The Muppets Christmas Carols og It's a Wonderful Life þurfa síðan að vera á dagskránni einhverntíma á árinu.)

Með þessu skipulagi ætti desember að vera laus í jólaglögg, aðventutónleika eins og menn geta í sig troðið og dúll.

Ráð dagsins er sem sagt: Að byrja að jóla!

12.10.09

Að lifa október af. Dagur 12.

Brúkaðu alla gagnrýni á sem uppbyggilegastan hátt. Reiknaðu aldrei með því að neins konar neikvæðni sé beint persónulega í þinn garð, heldur skrifaðu hana alfarið á dagsform viðkomandi. (Hvaðan hún kemur yfirleitt hvort sem er.)

Ég held að gagnrýni hvers konar sé erfiðari viðureignar í október en aðra mánuði. Eftir að ég fór að "rannsaka" málið sé ég betur og betur hvað margir eru krumpaðir í október. Það er sem sagt ekki bara ég.

Svo er ég líka heldur betur búin að þurfa að taka á þessu. Er að vinna verkefnislýsinguna mína í styrkumsóknina mína í hundraðog umptánda sinn. Fékk í gærkvöldi, og fæ örugglega aftur í dag, yfirferð frá leiðbeinendum mínum með millllljón athugasemdum þar sem þeir segja aftur og aftur að ég þurfi að útskýra betur hvað ég er að meina og skauta ekki yfir hlutina með einhverju akademísku djargoni og kjaftæði. (Sem er snúið. Ég er ekki allsstaðar búin að ákveða hvað ég meina.)

En málið er auðvitað það að þeir vita hvað þeir eru að tala um. Hafa endalausa reynslu í styrkumsóknaferlum og eru ákveðnir í að láta mig gera þetta eins ljómandi, glimmrandi vel og ég mögulega get, svo ég eigi hugsanlega séns í helvíti að fá einhvern pening, þrátt fyrir að hafa ekki nema mjög óljósar hugmyndir um hvað ég er að byrja að gera. Eiginlega ætti ég ekki einu sinni að reyna við þessa styrkumsóknavinnu fyrr en í vor, og þarf líklega að gera þetta aftur þá, en þá verð ég líka komin í gríðarlega góða þjálfun.

Svo nú er málið að taka á honum stóra sínum og brúka athugasemdirnar til þess sem þær eru og forðast að hugsa:
"Kræst, ég er fáviti."
Eða taka þá á þeim með því að belgja út kassann og hugsa tilbaka:
"Ég er það ekki neitt. Ég er að vinna í FJÓRÐU, FOKKÍNG, HÁSKÓLAGRÁÐUNNI MINNI!"

(Þó svo að menntahroki sé annars alla jafna undirrót alls ills í heiminum og skyldi hvergi finnast undir eðlilegum kringumstæðum, auðvitað.)

---

Jahérnahér. Svo klikka ég alveg á því að tjá mig um Margt smátt sem var um helgina. Mar er ekki sérlega obbsesst af fortíðinni. Allavega, það var, gott og gaman og æði. Einstaklega mörg flott stuttverk á boðstólnum, innlend sem færeysk. Gestrisni Leiklistarfélags Seltjarnarness í þeirra ágæta félagsheimili rokkaði feitt. Og Norðmenn ætla kannski að vera með næst. Hvernig væri að rukka þá umm svona 2000 milljóna þátttökugjald? ;)