31.3.11

Mót

Það er síðasti dagur marsmánaðar. Það þýðir að Ylfa á afmæli. Til hamingju með það. Það þýðir líka að á morgun fáum við lykla að íbúðinni sem við erum að byrja að leigja, einmitt þá. Sem minnir mig á það, ég þarf að fá reikningsnúmer leigusalans svo ég geti borgað honum péning. Svakalega margt er komið ofan í kassa heima hjá mér. Langflest af því nota ég sjaldnar en aldrei. En sumt á jólunum, samt. Ég er bara í skólanum fyrir hádegi þessa vikuna, en þessutan er ég heima hjá mér að kassast.

Þetta er alltsaman ferlega random hjá mér núna. Það er mikið að gera en allt gerist alveg ferlega hægt og svona. Ég vona að ég nenni einhverju í næstu viku. Þá verð ég líka flutt til Kópavox. Það verður nú skrítið.

En svo undarlegt sem það nú er, þá finnst mér ég verða meira miðsvæðis þar. Þó ég búi núna í 101, þá er ég eiginlega úti í horni á höfuðborgarsvæðinu og úti á nesi. Það er t.a.m. líklegra að ég nenni í Gaflaraleikhúsið úr Koppavoginum. Og í heimsóknir. Nú búa ekki lengur allir í heiminum hinumegin við miðbæinn sem maður nennir ekki að keyra gegnum.

Enda vonast ég til að verða dugleg að hljóla í skólann. Það er þessi fíni hjólastígur alla leið. Sem er talsvert skemmtilegri en akstursleiðin, sem er alveg dauðans. En, samsagt. Næstu dagar fara í að færa til dót. Sem mikið til fær síðan bara að halda áfram að vera í kössum. Bara dáldið lengi, huxa ég. Svo er ég farin að HLAKKA VERULEGA TIL að þrífa íbúðina sem við erum að flytja úr, með engu í. Það er nefnilega bara reglulega gaman að þrífa tómar íbúðir.

Ég ætlaði að reyna að koma einhverju skipulagi á hvað ég er að hugsa. Það er ekki að virka neitt.

Best að klára bara hérna, eitthvað, og hringlast svo heim til sín. Að pakka öllum útifötunum sem aldrei eru notuð úr forstofuskápnum...

30.3.11

Sníkjur og stelerí!

Kannski hefur þetta alltaf verið svona. Allavega lengi. En ég er að komast að því núna að flest sem mann vantar er hægt að fá ókeypis. Sérstaklega húsgögn. Og tæki. Það er alveg stórmerkilegt. Svo er maður líka ríkari en maður hyggur.

Til dæmis fór ég eitthvað að reyna að þrífa undan tökkunum á tölvunni minni í fyrradag, með þeim afleiðingum að m-ið, sem var búð að vera hundleiðinlegt síðan ég skipti um stað á því, af því að lyklaborði er franskt, varð ennþá leiðinlegra. Enda var ég lengi búin að pæla í að fá mér laust lyklaborð til að hafa í vinnunni. Alltíkei.

Ég hélt náttúrulega að makkar gætu bara brúkað makkalyklaborð og athugaði í makkabúðum og öðrum búðum. Tíuþúsund kall. Ókei... Datt samt í hug að athuga hvort það væri ekki alveg öruggt að það þyrfti spes lyklaborð. Datt í hug í leiðinni að tékka á hvort Bandalagið ætti eitthvað gamalt "spes" lyklaborð. (Minnug þess að það voru alltaf einhver svoleiðis að þvælast fyrir manni í geymslunni í gamla daga.) Jú, menn voru á því að makkar gætu brúkað hvað sem er. Stal lyklaborði sessunautar míns og prófaði, jú, reyndist alveg rétt. Þar að auki búin að fá vilyrði fyrir makkaborði. Auk þess sem lyklaborðið sem er heima hjá mér gæti þá bara virkað, sé það með usb, bara man það ekki, þarf að tékka.

Svo erum við að fara að flytja og svona. Unglingurinn vill losna við ofurmubluna og fá í staðinn rúm, skrifborð og fataskáp. (Ég ætla líka að leggja snyrtipinnanum til borð undir snyrtivörur og hárblásara, svo það verði stundum hægt að míga á heimilinu.) Fór á internetið. Og vitiði hvað? Þetta dót er alltsaman nær eða al ókeypis úti um allan bæ. Bara að sækja það. Ég er ekki einu sinni farin að fara í Góða hirðinn, en á von á að finna heilmargt þar. Og heilmargt þarf líka að fara þangað!

Þetta er nú alveg ljómandi vitrun, í kreppunni.

29.3.11

„Vítamínsprautur“ eða spítt og sterar?

Icesave umræðan er í ruglinu.

Ef við borgum ekki fáum við ekki meiri lán. Og það væri GOTT!

Muniði hvað gerðist fyrir þremur árum? Við fórum alveg næstum á hausinn vegna þess að "við" vorum búin að taka meiri lán en "við" gátum borgað? Enn er verið að leika sama leikinn. Taka lán fyrir afborgunum. Til að geta borgað upp síðasta skandal á undraskömmum tíma og halda svo áfram á fylleríinu. Og ekkert að breyta kerfinu neitt. Eða hugsunarhættinum. Offitunni, heimskunni græðginni... neinei. Við ætlum að halda því öllusaman áfram. Undir þjóðrembuflagginu. Við Íslendingar erum nefnilega BEST. Í ÖLLU!

Það þarf að kötta alkann af. Á barnum. Ef hann hefur ekki vit á að hætta sjálfur.

Ekki nóg með það, fyrirmenn, póltíkusar, eru nú skammaðir fyrir að viðurkenna að við séum í skítnum! Hang on... vorum við ekki að ybba okkur niður í rassgat fyrir örfáum mánuðum vegna þess að stjórnvöld voru búin að ljúga því svo mikið að allt væri í lagi?

Fullt af fjármálastofnunum vilja ekki lána okkur nema við reiknum fyrst út hvernig við ætlum að borga. Enda eins ágætt bara.

En... obbobbobb... lánin ku vera svona líka ofurnauðsynleg! Vítamínsprautur í atvinnulífið, og svona! Þessi samlíking er ömurleg. „Vítamínsprautur“ valda engri ofþenslu. Engri geðveiki. Engum fáránlegum útvexti á undarlegum stöðum.

Vítamín gefur tilfinningu fyrir einhverju heilbrigðu og hollu. Þegar fjármagni er dælt í afmörku verkefni, yfirleitt skammsýn, umhverfismengandi og í eigu einkaaðila, þá væri nær að tala um spítt og stera. Samfélög, eins og fólk, sem gengur lengi fyrir spítti og sterum verða geðveik. Úr sér gengin. Útlifuð. Illa haldin af fíkn í endalaust meira.

Það væri nú gaman ef einhver stjórnvöld, einhversstaðar, væru til í að stinga niður hælunum og vera þversum. Hafna öllum andskotans niðurskurði á þjónustu við almenna borgara og segja hreinlega við innheimtumenn erlendra skulda: Sorrí, fjármálakerfið hrundi, við þurfum lengri tíma til að borga. Við erum ekki að fara að hífa okkur upp á hælunum á engri stundu. Við vitum að Fjármálaparadísin Ísland, Dubai norðursins var tilraun sem mistókst herfilega, og við ætlum í allt aðra átt. En við ætlum ekki að höggva heilbrigðis og menntakerfi í herðar niður. Það verður ekki gert. Svo þið getið sett það í exel og pakkað, AGS.

En því miður, það er enginn stjórnmálaflokkur eða -maður á Íslandi sem getur með réttu kennt sig við félagshyggju, hvað þá eitthvað vinstrisinnaðra. Sú ljósbláa stjórn sem nú situr yfir landinu „Telur ekki rétt að skipta sér af fjármálastofnunum.“ Bíður eftir „erlendum fjárfestum!“ Til nánari glöggvunar, erlendir fjárfestar eru þeir sem eru búnir að ræna okkar ríki og annarra. Nú bíða menn með hjartað í buxunum eftir að þeir komi aftur með spítt og stera í samfélögin, til þess að skattgreiðendur heimsþorpsins fái náðarsamlegast að vinna fyrir peningunum sem er búið að stela einu sinni. Aftur.
Frábært.

Að því sögðu þykir mér Jón Gnarr hafa komið með bestu rökin fyrir samþykkt fyrirliggjandi Icesave 3. Meirihlutinn á eftir að samþykkja þennan samning af þeirri fullkomlega eðlilegu ástæðu að við NENNUM EKKI AÐ ÞVÆLA UM ÞETTA LENGUR!

Framþróun mannkyns heldur ekki áfram fyrr en við hættum að tala um peninga.
Þetta er drasl.

Svo ég vitni í Jónas:
Tökum þetta upp á hærra plan!