26.4.12

Hólí mólí...

Þegar maður nennir ekki að fara yfir 150 heimapróf liggur maður í tarrottinu. Og í mínum kortum eru ógurlegar breytingar þessa dagana. Einhver ógurlega mikið ný verkefni og breyttar aðstæður. Og allt frekar neikvætt, hrun, áfall, aðskilnaður... Ég er orðin skíthrædd um að ég fái bara ekkert styrk til að halda doktorsrannsóknum mínum áfram og þurfi að fara að fá mér Almennilega Vinnu eins og allt Eðlilegt Fólk.

Ömó.

Þá datt mér í hug að fyrst ég hefði ekkert heyrt í manninum mínum síðan á þriðjudaginn gæti náttúrulega verið að hann væri bara búinn að ná sér í eina latexklædda (a la rúmenska júróvísjónlagið) og væri búinn að ákveða að gerast leðurblökubóndi austur þar og koma aldrei-aldrei-aldrei heim. Það myndi vissulega skýra hrakspárnar.

Þannig að þetta gæti alveg sloppið til með styrkinn...

25.4.12

Leti, ómennska og kreppu-Ísland á reiðifylleríi

Er maðurinn latur í „eðli“ sínu? Þarf að halda honum við efnið, þræla honum út, refsa honum ef hann hagar sér ekki, selja honum drasl, ota honum útí samkeppni, gefa honum vinnu, útvega honum afþreyingu eins og hann getur í sig troðið, segja honum hvernig hann á að gera, segja, hugsa, klæða sig, tjá sig... til þess að það fari ekki allt í vitleysu?

Ég held að það sé ekki hægt að vera latur. Ég held að leti sé ekki til. Ef menn gera ekki það sem þeim er sagt að gera, þá er það út af einhverju. Þreyta er held ég algengari en við gerum okkur grein fyrir. Stundum sjá menn bara ekki tilganginn með því. Þegar þarf að rífast í unglingnum dögum saman til þess að hann taki til í viðbjóðslega lyktandi herberginu sínu, þá reikna ég með að það sé vegna þess að lyktin sé ekkert farin að angra hann að ráði. Þegar hún fer að gera það tekur hann til. (Það verður hins vegar ekki fyrr en hann flytur út af mínu heimili sem hann fær að ákveða þetta alveg sjálfur.)

Ég fór að hugsa þetta í framhaldi af umræðunum um hina Vondu Sjálfstæðismenn. Þessa sem af illgirni og almennum durgshætti settu Ísland viljandi á hausinn og ætla að gera það aftur við fyrsta tækifæri. Ja, annaðhvort það, eða þá að þeir eru eini flokkurinn sem hefur sýnt þjóðinni almennilega Velmegun og vill fá að taka aftur við af Vondu ríkisstjórninni sem ætlar að halda okkur við hungurmörkin fram eftir öldinni,  af einskærri mannvonsku, auðvitað.

Ég man alveg þegar Ingibjörg Sólrún heyktist á því að fara í formannsslag við Össur, svila sinn. Hún var eina manneskjan sem hefði mögulega getað velt Davíð Odssyni úr sessi sem forsætisráðherra, nokkrum árum fyrir einkavæðingu bankanna. Sem hefði líklega orðið til þess að vinir aðeins annarra hefðu fengið þá. Og vitiði hvað? Talandi hausarnir hétu mögulega eitthvað annað en við værum í sama skítnum.

En ég er samt forvitin um þennan grundvallarmun sem er á sýn hægrimanna og vinstrimanna á mannskepnuna og samfélagið. Er það hin náttúrulega leti og ómennska sem menn trúa mismikið á? Eru margir sammála Bubba um að samfélög úti á landi verði að hafa frystihús og ákveðinn fjölda af ömurlegum og sálarmyrðandi færibandsvinnum til þess að þrífast? Ég kem sjálf frá Egilsstöðum. Ekkert frystihús. Enginn stór vinnustaður, en margir litlir. Mig langar að búa til bókabúð þar. Bærinn hefur verið að byggjast frá því um 1950 og farið ört stækkandi æ síðan. Margir niður á fjörðum eru brjálaðir. Þetta samfélag á ekki að geta verið til. Það er ekkert frystihús. Á hverju lifir þetta fólk eiginlega? spyrja menn hver annan, froðufellandi af öfund yfir því að þarna skuli fólk hafa það gott og vilja búa á meðan menn flýja firðina í massavís. Það veit fjandinn. Mamma mín vinnur hjá verkalýðsfélaginu. Pabbi minn er alltaf stofnandi einhver félög og fyrirtæki. Yfirleitt eitthvað sem vantar. Núna er hann með skrifstofuþjónustu fyrir einyrkja (vinnur mikið fyrir fjarðamenn) og tók þátt í að stofna kjötvinnslu. Það vantaði svoleiðis. Einmitt þess vegna langar mig að stofna bókabúð.

Spurningin held ég að sé, hvað viljum við að ríkisstjórn geri? Leysa Framkvæmdir allan vanda? Á að eyða miklum peningum í fá og stór dæmi?

Hvað vantar?

Það er nefnilega svo merkilegt að í kreppulandinu vantar ekkert. Það er nóg af verkefnum, nóg af fólki sem vill vinna þau. Heilmikið af allskonar orku. Við getum framleitt mat til að fæða talsvert fleira fólk en okkur sem hér búum. En, og ég hef sagt það áður, er ekki eitthvað mikið að grunnsísteminu þegar skortur á draslinu sem við fundum upp til að auðvelda okkur viðskipti, kemur í veg fyrir að við getum stundað viðskipti?

Og, jú, því er haldið vel og vandlega á lofti að hér sé allt í kaldakoli og öll þjóðin á hausnum. Já, og það þarf að taka nokkur vel valin reiðiköst yfir því hverjum það sé að kenna.

Skuldirnar á mínu heimili fóru úr svona 17 í 21 milljón árið 2008. Breytti það einhverju? Hvort tveggs einhverjar fáránlegar upphæðir sem áttu að borgast á 40 árum. pfff. Þetta er langtímaleiga. Húsnæði á Íslandi verður aldrei "eign". Okkur tókst að selja okkur uppúr skuldunum og "töpuðum" einhverjum 5 milljónum. Sem er ekkert alveg á hreinu hvort voru einhverntíma til. Og hvað? Á maður að standa á garginu yfir því að Geir H. Haarde sé hrokagikkur? Það kom mér ekki rassgat á óvart. Illa upp alið kvikindi. Vill ekki einhver hringja í mömmu hans, og málið dautt. Ég ætla að leyfa mér að yppa öxlum yfir því af sama kæruleysi og yfir hinum hípótesísku fimm milljónum sem hurfu til monní heven eða hvert sem þær fóru.

Það sem ég meina er þetta. Þurfum við ekki að fara aftur til einhverra grundvallaratriða? Þegar ríkisstjórn og stjórnarandstaða gagnrýnast á heyri ég bara svona gagg. Mig langar til að vita um hvað málið snýst.

Í hverju, nákvæmlega, felst ágreiningurinn?

Eru það sjálfstæðismenn sem vilja komast "að kjötkötlunum" til að geta legið svo í leti og ómennsku og látið hinar vinnandi stéttir þræla fyrir sig? Eða er það ríkisstjórnin sem nennir ekki að vinna vinnuna sína? Hver á vinna ríkisstjórna að vera?

Er leti og ómennska til?

Þurfum við kannski að byrja á að ræða það aðeins?

24.4.12

Fokkíng iðjusemi!

Fjandinn. Nenni ekkert að gera í vinnunni og tarrotta á internetinu, mér til skemmtunar. Og hvað kemur ekki í ljós? Tvær framtíðir í boði, báðar frekar ömurlegar en önnur þó illskárri, og hvað sker úr um hvor verður? Iðjusemi!!! Það stendur reyndar ekkert um hvort iðjusemi eða ekki leiðir til skárri útkomu þannig að ég er nú að hugsa um að hlusta bara á aðeins fleiri TED fyrirlestra og Gabor Maté þó það komi fyrirlestrinum sem ég á að vera að skrifa ekki BEINT við. En, hei, er ekki alveg rökrétt að til að skrifa góðan fyrirlestur undirbúi maður sig með því horfa á nokkra þannig?

Annars er það helst að rapportera að það gengur alveg sæmilega að éta ekki yfir mig við hvert tækifæri. Einnig er líkamsrækt stunduð af kappi, að kenna litlum skræfum að hjóla í brekkum útheimtir talsvert af bogri, ýtingum, lyftingum og allskyns. En hjólfærni ungmennanna fer þó stórbatnanadi með hverjum degi sem við nennum út. Svo er að koma að Háskólahlaupi! Fyrir 15. maí ætla ég að vera búin að æfa mig heilmikið. Ætla helst að hlaupa alveg 7 km. Annars gengur allt svona upp og ofan með markmiðin. Ungviðið fær að hanga heilmikið í tölvunni. Unglingurinn fær að gera næstum allt sem hann vill. Móðurskip er samt nú þegar að verða ansi slæm á taugum. Og ekkert hefur verið þrifið að ráði, en það er nú líka spáð rigningu seinnipart vikunnar.

Þarf að skreppa yfir í næstu byggingu og sækja haug af heimaprófum til yfirferðar. Það er ekki einu sinni fyndið hvað ég nenni því ekki. Eins gott að muna fögur fyrirheit um að kenna aldrei neinum neitt framar. En þegar þessi heimaprófahaugur verður frá verður ekkert eftir nema lokaprófin.

En þessi vetur var langur og strangur. Ég finn verulega fyrir eftirköstum hans. Er jafnvel farin að velta fyrir mér hvaða haugageðbilun hafi staðið að því að ég ákvað að hefja doktorsnám með eins, þriggja og þrettán ára börn á heimilinu... og hafa ekki einu sinni vit á að hætta í leikfélaginu á meðan? Eitthvað segir mér að seinna meir muni ég horfa forviða í baksýnisspegilinn og spá í hvernig ég lifði þetta nú af. En það er náttúrulega mjög gaman að gá hvað maður getur þanið sig.

Og talandi um það. Landsdómsmálið, umræður um ríkisstjórnarfundi eða ekki, og allt mögulegt er að hafa hin undarlegustu áhrif á mig. Ég er smám saman farin að hafa áhuga á stjórnun. Fram til þessa hefur mín kvíðaröskun gert það að verkum að ég verð að halda mig frá slíku eins mikið og ég mögulega get, en það er einfaldlega þetta að það virðast vera til mismunandi aðferðir.

Og ég skal ekki ljúga. Auðvitað væri dásamlegt að vera á þannig launum að maður gæti stöku sinnum verið óvinnandi heima hjá sér. Þyrfti ekki að vera með hjartað hálfpartinn í buxunum um hvort endar nái saman, vogi maður sér nú að ætla að taka þátt í akademískri umræðu ellegar menningarstarfsemi á fjölþjóðlegum vettvangi... Já, næs djobb með skrisstofu. Mögulega ekki það versta sem fyrir gæti komið.

Allavega. Eftir doktorspróf er ég að spá í að athuga hvað felst í "stjórnun." Ég væri fínn stjóri, ef ég hefði stjórn á stressi og geðbólgum. En þetta er nú ekki alveg á næstunni. Ja, nema ég fái ekki styrk til frekara doktorsnáms í bili. Þá ætla ég að gera einhvern fjandann annan. (Og hlakka reyndar pínu til. Ég er atvinnuleitarperri. Fer næstum jafn oft á atvinnuauglýsingavefi eins og fasteigna.)

Best að fara út og þenja sig 3 kílómetra. Takmark mitt í sumar er að geta hlaupið jafnlengi og það tekur að hlusta á Allt er ekkert með Jónasi og ritvélunum. Mér er alveg sama hvað ég hleyp langt, aðalmálið er að hlaupa allan tímann, stoppa aldrei og labba aldrei.

Kapísj?