26.12.08

RS-jólin

Þá er runninn upp þriðji dagur ofáts. Litlu ormarnir komir á kaf í jólagjafirnar af hjartans lyst og Freigátan búin að lækna alla sem eru vaknaðir eða semí- aðallega með því að skoða í eyrun á þeim.

Jólin eru sem sagt búin að vera ljómandi. Og allir sammála um að heimtur hafi verið góðar. Smábátur fékk gríðarlega mikið af fötum og bókum, þau litlu eru líka vandlega fötuð og eiga heilmikið dót og bækur líka. Eitthvað kom nú í tvíriti, en stefnt er á að fara í skila og skiptiferð áður en við förum norður. Við Rannsóknarskip erum líka hæstánægð, það er riiiisastór ólesinn jólabókaturn á náttborðum vorum.

Því miður hafa lestrarafköst nú ekki verið neitt svipuð og í meðaljólum. Litli Hraðbátskúturinn hefur nefnilega verið með rs-vírus, eyrnabólgu og magapest í kaupbæti og við erum eiginlega búin að skiptast á að halda á honum síðan á Þollák. (Með þeim afleiðingum að við réttsvo meikuðum 2 blaðsíður hvort á jólanótt. Paþþþettikk.) Það var ekki fyrr en í nótt að jólakraftaverkið gerðist og drengurinn svaf í 12 tíma í einni beit. Og allir aðrir um leið. Svo vonandi fer hann að hjarna við. Hann er allavega farinn að anda nokkurn veginn eins og fólk. Eyrun virðast líka vera að lagast, enda er hann á einhverju alveg baneitruðu pensillíni og tveimur astmapústum. En ekki er hann nú farinn að borða af neinu viti ennþá.

Í gær höfðum við okkur nú samt til Huggu frænku og átum hjá henni hangikjöt í hádeginu. Eftir það var stefnt til Ingu ömmu og Óla afa í kaffiboð, en við Hraðbátur sigldum fljótlega heim á leið vegna heilsuleysis.

Planið fyrir daginn er að endurelda hamborgarhrygginn í hádeginu (hann var fullsaltur á aðfangadagskvöld, en svaka mikið er eftir af honum svo nú ætlar hann að sjóðast í vatnsbaði.) Sem sagt, hafa fínt í hádeginu þar sem það er síðasta máltíð Smábáts heima hjá sér í bili, hann flýgur norðurum seinnipartinn. Og Rannsóknarskip og Freigáta ætla að skreppa í heimsókn til Völu vinkonu og leika við hana yfir fótboltanum.

Og þá er Rannsóknarskip komið á lappir svo nú má ég sofa "seinnivaktina" fram að hádegi! 
Jeij!

24.12.08

Jól 2008

Gleðileg jól!

Frá: Siggu Láru, Árna, Róberti, Gyðu og Friðriki



23.12.08

Jólaveiki

Og jólaveikindagrísinn í ár virðist ætla að verða Hraðbáturinn. Hann vaknaði í nótt með bullandi hita, hroðalegan hávaða í lungunum og örugglega með í eyrunum líka. Gubbaði líka alveg fullt svo Rannsóknarskip mátti standa í túrbó-heimilisstörfum um miðja nótt. Eins gott að að var ekki búið að skúra. Sá stutti á tíma hjá barnalækni um hádegisbilið.

Erum búin að vera að hlusta á rokið og jólakveðjurnar. Og nú er stubbur farinn að leggja sig hjá pabba sínum og Móðurskipið siglir í Kringluna að kaupa skemmtilegustu jólagjafirnar handa nánasta flotanum. Stóru strákarnir fara svo í skötu hjá afanum og ömmunni í Grafarvoginum á meðan við Hraðbátur skemmtum okkur hjá lækninum.

Gleðilegan Þollák.

22.12.08

Jólasveinninn Priki-Priki

Þá eru allir komnir í jóla"frí" á heimilinu, nema jólasveinninn Priki-Priki (sem er annað sjálf Freigátunnar þessi jólin.), hann fór í leikskólann í morgun. Ekki hef ég nú fundið þetta jólasveinsnafn í Sögu daganna, né heldur hef ég minnsta grun um hvaða sérkenni umræddur jólasveinn hefur. En hann hefur verið að lenda í ýmsum ævintýrum hérna innanhúss.

Annars lagðist Móðurskipið í það stórfenglega verkefni í gær að taka leikföng heimilisins til handargagns. Sortera, setja í mislitla kassa. Viðleitni til þess að það sé ekki allt of mikið af því í umferð í einu. Annars er dót á þessu heimili aðallega notað sem uppfyllingarefni. Freigátan nær sér gjarnan í þvottabala eða önnur ílát, fyllir þá af dóti og segist vera að baka köku. Jafnvel pönnuköku. Eða að fullt af dóti er sett í bala eða kassa, hún sjálf eða Hraðbáturinn settur ofaní, og þá er viðkomandi í baði. Stundum setjast þau á gólfið, hrúga dóti ofan á sig og eru "föst". Hraðbáturinn notar öll leikföng jöfnum höndum til að búa til hávaða. 

Hins vegar eru balarnir mjög spennandi leikföng og eru oft bátar eða sundlaugar. Plastdallar úr töpperverskápnum, eina kökuformið sem ég á, kökukeflið og ýmislegt fleira úr eldhúsinu er líka vinsælt. Teppi breytast mjög gjarnan í tjöld og snúrur af náttsloppum er gaman að toga á milli sín, þangað til annar missir og bæði velta um koll, öskrandi af hlátri. Nú situr Hraðbáturinn frammi í forstofu og gáir undir mottuna. Uppáhaldið hans eru lokin af barnamatskrukkunum sem ég er búin að vera að safna fyrir hann og var einmitt að setja í þartilgerðan kassa í gær.

Ég er helst á því að börnin mín aðhyllist Hjallastefnuna.

Eitthvað vorum við að hafa áhyggjur af því að jólatréð fengi ekki að vera í friði fyrir tiltektarafköstum Hraðbátsins. En nú er búið að setja það upp, reyndar ekki skreyta, en ungi maðurinn lætur sér fátt um finnast og hefur talsvert meiri áhuga á kassanum utan af því.

Tiltekt og afþurrkanir í húsinu tókst annars bara nokkurn veginn að klára í gærkvöldi. Rannsóknarskip tók eldhúsið til svo rækilegrar endurskipulagningar að ég veit ekki um neitt í því núna (sem er allt í lagi, nú er hann í fæðingarorlofi og á að eyða því á bak við eldavélina) en ég gerði skrifstofuhornið af dótaherberginu starfhæft. Og þá held ég að sé bara eftir að skúra og skreyta. Já, og versla jólagjafir í heimamenn. Og þrífa myglmund, sem átti endurkomu í þvottahúsinu í gær þegar ég var með lokaðan gluggann þar í 5 mínútur og þurrkarann í gangi.

21.12.08

Súss

Fór í hið árlega afmæli hjá Ástu í gær. Borðaði sushi og drakk hvítvín. Mér til óbóta og þynnku. Er að reyna að þykjast taka til heima hjá mér. (Og ekkert sérstaklega ofleikið hjá mér eins og sést á árangursleysi) og langar gríðarlega í meira sushi. Er búin að smitast af sush-æðinu. Ágætt í kreppunni. Hafa smekk fyrir mat sem er að mestu leyti hrísgrjón. Snjallir, Japenirnir.

Smábátur í útláni. Rannsóknarskip að horfa á fótbolta.
Af hverju sést ekkert að ég hafi verið að taka til í sólarhring?