3.7.03

Nokkur orð um auglýsingar
Útvarpið er gjarnan félagi minn á verkstæðinu. Tvær útvarpsauglýsingar hafa vakið hjá mér vangaveltur.

Önnur byrjar svona:
"Ferð þú í bað reglulega? Hvenær þvoðirðu vélina í bílnum þínum AÐ INNAN síðast?"
Þessi samlíking er bara ekki alveg að ganga upp.
Í ljósi þessa "að innan" í seinni spurningunni ætti sú fyrri náttúrulega að vera "Færð þú þér stólpípu reglulega?"

Hin auglýsingin fer hryllilega í taugarnar á mér. Hún er Durex smokkaauglýsing. Ég hef heyrt einhverja umræðu um að þessi auglýsing misbjóði börnum. Auglýsandinn segir að hún geri það ekki þar sem börn skilji ekkert hvað er um að vera, þegar farið er að lýsa samfarastellingum með morgunleikfimisundirleik. Það held ég reyndar að sé alveg rétt hjá honum.
Þessi auglýsing misbýður, hins vegar, mér.

Ég var nefnilega sjálf ósköp lítið barn þegar hann Valdimar Hvaðsemhannhét var með morgunleikfimi með píanóundirleik. Alltaf þegar þessi auglýsing byrjar minnist ég morgunstúss með mömmu minni. Lykt af hafragraut í sól. Ferða í kjörbílinn klukkan hálftíu. Þessi ljúfa bernskutilfinning smýgur inn í sálina eins og hlýr sólargeisli.
En, obbobbobb, allt í einu birtist, í minni þriggja ára heimsmynd, fólk að gera dodo upp við vegg!

Það liggur við að ég bíði varanlegan andlegan skaða af, svona eftirá.
Það er verið að ríða á bernskuminningum mínum!

Fyrir svo utan það. Á ekki að vera að auglýsa smokka? Hvað varð um öryggið á oddinn? Hvað varð um smithættu á öllum fjandanum og gamla góða hræðsluáróðurinn?
Halda menn að það þurfi að auglýsa kynlíf, til að auka smokkasölu? Að menn huxi, þegar þeir hafa heyrt þessa auglýsingu, "Hei, best að sofa hjá í kvöld! (Og nota að sjálfsögðu durex smokka, þar sem þeir voru nú svo vænir að kenna mér þessa flunkunýju stellingu...)"
Einhvern veginn held ég ekki. Það er allavega fátt sem mig langar minna þegar ég nýbúin að rekast á einhver eldri hjón á fullu, í annarlegum stellingum, í bernsku minni.

Hvet alla til að sniðganga Durex í mótmælaskyni.
Gaman
Eyddi gærdeginum uppi við Glúmsstaðasel með tveimur klikkuðum þýskum videólistamönnum og meirihluta fjölskyldunnar frá Egilsstöðum í Fljótsdal. Lék mikinn, og fékk að leggja yngri "son" minn í einelti, berja hann, reka hann í burtu og eyðileggja uppáhalds dótið hans með tilþrifum. Aukinheldur eyddu þeir drengir miklum tíma í að útfæra hvernig eldri "sonur" minn gæti slasað sig á gömlum kláf þannig að úr því yrði mikill splatter með gerfiblóði og tárum. Þetta var sem sagt útuvist og holl hreyfing að mínu skapi.
Nýjustu framtíðadraumar: Að búa í Glúmsstaðaseli og Kleif í Fljótsdal og fara á milli með kláfnum.
Annars er ég að stelast í vinnunni, þjóðháttadagur í gangi og hann Sölvi búinn að setja upp eldsmiðju niðri við Tjarnarbraut. Þarf endilega að skoða það svolítið rækilega.
Jibbíkóla!

1.7.03

Allt að gerast
Var að sleppa mér í einhverri taumlausri ljóðgreiningu á bókinni 3 sólir eftir Sigurð Ingólfsson. Birtist kannski í næsta tbl. Glettings, lítist mönnum á þeim bæ svo á. Er að fara að leika í einhverri mynd lengst inni í Fljótsdal á morgun, veit eiginlega ekkert um það mál. Þarf hins vegar að aka þangað sjálf, hef ekki keyrt bíl í tæplega 2 ár þannig að nú borgar sig fyrir vegfarendur að fara varlega!
Alltsaman mjög spennandi.
Og svo er kominn júlí! Hvenær gerðist það? MA ritgerð enn ólokið, sinfónían "Hver tók ostinn minn" ósamin og eitthundraðþúsund leikrit ókláruð. Hvað er þetta eiginlega með sumur? Þau endast alltaf svo illa.
Nú skal tekið skurk í þessu öllu saman... um leið og tími gefst...