6.10.06

Pöbblissití

Stundum er maður einhvern veginn úti um allt. Þá verða bloggfærslur símskeytakenndar.

- Fyrsta Mánaðarleg Hugleix í Þjóðleikhúskjallaranum heppnaðist með afbrigðum vel. Stop. Er, kannski ekki beint í tilefni af því, heldur bara, að fara í Moggaviðtal ásamt fyrrverandi formanni, í næstu viku. Við ætlum að monta Hugleik.

- Á öðrum, en samt svolítið sama, vettvangi, skrauf ég þessa grein í dag. Enda er þetta náttlega hneisa. Það er voðalega auðvelt að þykjast ætla að skila tekjuafgangi í ríkissljóð með því að klippa hundraðþúsundkalla og hálfarmilljónir af fjárframlögum, hér og hvar, og ímynda sér að enginn taki eftir því. En hinn fjársvelti heimur áhugaleiklistarinnar finnur mjög gjörla fyrir hverjum þúsundkalli. Fussumsvei.

- Bærinn er skrítinn, hann er fullur af húsum. Þó er hann enn fyllri af grasflötum sem enginn er nokkurn tíma á. Nema kannski á nóttunni þegar unglingar borgarinnar ku koma þar saman til að míga, skíta, gubba og sprauta sig, eftir því sem þeir ferkantaðri af eldri kynslóðinni vilja halda fram. Við Freigáta erum í löngum gönguferðum að skoða húsin í Vesturbænum þessa dagana. Í dag ákváðum við að taka eina svona grasflöt, þar sem pissulykt og sígarettustubbar voru í lágmarki, og brúka til skriðæfinga utandyra. Það er ekki von að vel fari, fyrir fyrstu kynslóð á mölinni. Skömm frá því að segja að þetta var í fyrsta sinn sem barnunginn fékk að hreyfa sig um úti í "náttúrunni" eftir að hún lærði að skríða. Tilraun þessi mæltist vel fyrir. Freigátan fór um á fleygiskriði og smakkaði á ýmsu gróðurkyns og einu tyggjóbréfi. Paradísarheimt.
Fljótlega kom þá að því að halda þurfti heim á leið þar sem móðurskipið hafði hreint ekki haft huxun á því að klæða barnið til útiskriðæfinga í garranum. Paradísarmissir. Einsöngstónleikar voru haldnir alla leiðina heim. Og annað slagið síðan. Kannski er að koma tönn...

- Og svo er líklega best að fara að eigin ráðum. Eftir að hafa skrifað þessa fínu og meðvituðu þunglyndisgrein er ég loxins búin að panta tíma hjá lækninum mínum til að ræða meðferðarúrræði. Einkenni undanfarið hafa svosem ekki verið mikil, og örugglega ekki mjög sýnileg. Enda er það sjálfsagt mörgum eðlilegt að vera lengi á lappir á morgnana, leikstýra ekki í októberprógramminu og finnast heimurinn farast pínulítið í hvert sinn sem maður þarf að gera eitthvað. En Minn Rétti Karakter er einfaldlega ekki þannig. Og mig langar ekki að enda með sófafílíu og veraldarfælni í þetta skiptið. Svo það er um að gera að taka í hornið á geitinni og snúa hana niður strax. Enda langar mig að sleppa við að þurfa lyf, nú hef ég huxað mér að kanna "möguleika á öðrum meðferðarúrræðum" eins og það hét í Kastljósinu í gær. Á Degi Geðheilsunnar finnst mér það bara passa.

- Stórleikarinn Smábátur brunaði norður yfir heiðar með föðurfólkinu sínu, sem upplifði sitt fyrsta Mánaðarlega hjá Hugleik í gærkveldi og var enn uppnumið af hamingju áðan. Bátinn endurheimtum við á sunnudaginn.

- Ég ætlaði alveg örugglega að tjá mig eitthvað fleira, en litla Freigátan er alltaf að vakna og gráta þannig að samning þessa pistils er búin að taka hálft kvöldið. Og ég man ekki neitt lengur. Já, ég held það sé örugglega að koma tönn.

5.10.06

Kakkalakkafaraldurshætta

Haugur manns hefur eytt síðustu sólarhringum í snjókasti um trúmál í bloggheimum. Þó svo að ég líti kommentatölur ýmissa öfundaraugum þá nenni ég ekki í þær. Er enda að vera óttalegur búddisti með aldrinum.

Í fyrrinótt dreymdi mig fullt af kakkalökkum. Það finnst mér nokkuð merkilegt, vegna þess að ég hef aldrei séð svoleiðis með berum augum. Ætli þetta sé faraldurshættan? Óttalegur subbuskapur sem hefur alltaf fylgt þessum könum, annars. Fyrst komu þeir með hermannarottur, sem voru með sogblöðkur á löppunum og gátu hlaupið upp um loft og veggi, og svo skilja þeir bara eftir sig kakkalakka þegar þeir fara. Sussumþvuss.

Er annars öll að klára að jafna mig eftir síðustu helgi. Held ég. Sem passar akkúrat vegna þess að í kvöld ætla ég á Þetta mánaðarlega í Þjollanum, við milljónta mann, að mér heyrist, og ætla vissulega að bjóða öðru geðstropunarkasti heim með allavega einum bjóri. Í vinnslu er enn pistillinn um þunn-glindið, sem fjallar um hví áfengi er eitur þunglyndissjúklinga... Ja, ég gæti reynt að kalla þetta rannsóknarvinnu?

Í alvöru talað er þetta farið að minna sjálfa mig á röksemdirnar sem ég brúkaði fyrir reykingum, hér í eina tíð. Svo hætti ég bara að reykja þegar ég varð ólétt... og það er bara miklu betra að gera það ekki. Svo þarf ég sennilega að komast endanlega að því hvað er miklu betra fyrir mig að drekka ekki, og hætta því. Svo endar sennilega með því að ég verð orðin fanatískari en amma mín fyrir westan. Og það er nú slatti.

Enn sem komið er stunda ég þó stöku bjór og einstöku fyllerí. En ég er að sjá betur og betur hvað ég geri geðheilsu minni með því, til lengri og skemmri. Og það sem ég geri geðheilsu minni geri ég líka fjölskyldunni minni.

Ætla ég ennþá að drekka áfengi í kvöld? Hmmmm...

3.10.06

Strop

Þetta mánaðarlega hjá Hugleik í Þjóðleikhúskjallaranum í kvöld. Líka fimmtudaxkvöld. Ekki missa af.

Annars þarf ég að gera játningu. Ég er nefnilega perri. Öfugt við flesta þunglyndissjúklinga finnst mér fátt skemmtilegra en atvinnuleit. Nema ef vera skyldi húsnæðisleit. Ég er ein af þeim sem fíla fasteignasjónvarpið í tætlur. Svo ekki sé nú minnst á fasteignablaðið. Og nú er svo komið að eigindur Imbu-Skjálfar hafa lýst yfir áhuga á að fá húsnæðið til eigin afnota. Og ég er himinlifandi.

Nú hef ég Alvöru-Ástæðu fyrir að hanga á fasteignavefnum. Er búin að stofna eignamöppu og í henni eru 17 íbúðir sem margar koma sterklega til greina. En næsta mál er hins vegar að safna saman pappírum í greiðslumat. Er minni perri fyrir því. Samt soldill. Það er nefnilega hægt að setja þær í möppu.

Er annars enn að jafna mig eftir helgina. Er að brugga annan þunglyndispistil sem fjallar um þunglyndi og áfengisneyslu. Hann á að heita Þunn-Glindi. Wittí? Ha?

Allt er á suðupunkti. Smábátur og Rannsóknarskip eru á leiðinni í frumraunirnar sínar í Þjóðleikhúskjallaranum. Ég ætla ekki fyrr en á fimmtudaginn. Þá fær Hugga Móða nú aldeilis að sýna hvað í sér býr.

Allavega, ég ætla að halda áfram að skoða myndirnar af öllum íbúðunum sem mig langar í, og andvarpa frygðarlega.

2.10.06

Gísli, Eiríkur og...

Helgi var eytt á haustfundi Bandalaxins á Selfossi. M.a. þetta gerðist:

- Lokaðist inni í lyftu við 6. mann. Þetta var reyndar svona nýmóðinsleg og gegnsæ lyfta, þannig að við gátum bara veifað þeim sem voru fyrir utan. Við sáum líka þegar maðurinn kom og ætlaði að opna fyrir okkur, gat það ekki í fyrstu tilraun og sagði þá: Bíðiði aðeins.
Það fannst okkur nú fyndið.

- Fékk powerpoint-heilkenni. Hér eftir kem ég aldrei til með að tjá mig neitt án kraftbendils. Það kom meira að segja upp hugmynd um að setja undirtexta í næsta leikstjórnarverkefni upp á glærur og hafa hann í bakgrunninum.

- Við Kraftbendill hönnuðum saman leiðbeiningar til hjálpar litlum og lösnum leikfélögum. Ég er voða stolt af því.

Auðvitað gerðist síðan fullt og hellingur af öðru. Heilinn minn er enn í suðupunkti yfir öllu sem mig langar að gera í vinnunni, auk þess sem aðalstjórn Hugleiks var öll á staðnum á tímabili og hún ákvað eitthvað... þarf að rifja upp hvað það var.

Leikfélag Selfoss er höfðingi heim að sækja. Það er greinilega gaman í þeirra bekk. Mikið af dásamlegu fólki , fleiri kynslóðir af paunkurum og allskyns. Þeim til heiðurs er ég með þjóðsöng Leikfélags Selfoss á heilanum í dag:

Geng ég bæjargöngin inn
og rek ég mig á vegginn.
Ég er eins og jólatré
því ég er í hreppsnefndinni.

(Ykkur finnst þessi texti kannski ekki meika neinn sens? Engar áhyggjur, hann gerir það ekki.)

Og svo er þunglyndispistillinn minn búinn að fá þessar líka fínu viðtökur. Takk fyrir þær. Ég fór nú bara næstum að grenja. Og ég vil benda mönnum ennfremur á bloggið hennar Heiðu, en hún er einmitt að hefja þunglyndismeðferð og ætlar að vera dugleg að skrifa um þann bardaga.