22.10.10

Kálver!

Þetta hér er það snjallasta sem ég hef heyrt lengi. Ég vona að þessi frábæra hugmynd verði að veruleika. Lífræn ofurgróðurhús. Mögulega verður til þess að við höfum eitthvað hollt að éta hérna, þó við séum á hausnum. Í tilefni þessa ætla ég (í algjöru óleyfi) að birta texta sem spáglöggur maður samdi snemma á 10. áratugnum.


SÚRKÁL
Allt er hér í niðurníðslu,
norpar þjóð með víli og voli,
útgerðin í árans kreppu,
iðnaður í kaldakoli.
Hagvöxturinn hægir á sér,
hallinn nú er
hundrað þúsund milljón krónur.
Æ, því er nú ver.

(Svo er sagt við missum bráðum Bandaríkjaher!)

Verslunin er voða lítil,
viðskiptin í skötulíki,
sölutekjur minnka mikið,
margur þó að skattinn svíki.
Alltaf rýrnar greiðslugetan,
gatið nú er
hundraðþúsundmilljón krónur,
æ, því er nú ver.

Ég held það sé að sökkva þetta skítblanka sker.

Hvað er það sem gefur gróða í hönd?
Súrkál!
Gjaldeyristekjur og viðskiptabönd?
Súrkál!
Súrkálið hagfótinn hressir best.
Og hagnaðarvonin læknar flest.
Súrkál!

Bissnessmenn þeir bjarga öllu,
byggja upp með geysisnjöllu
hugarflugi og heppni í spilum,
halda öllu í góðum skilum.
Hagvöxturinn herðir á sér,
hallanum er
snúið upp í ofsagróða
eins og vera ber.

(Og erlent fjármagn okkur gerir alla ríka hér!)

Hvað er það sem gefur gróða í hönd?
Súrkál!
Gjaldeyristekjur og viðskiptabönd?
Súrkál!
Súrkálið hagfótinn hressir best.
Og hagnaðarvonin læknar flest
Súrkál!
Súrkál!

Árni Hjartarson
Fermingarbarnamótið, Hugleikur, 1992

Þarna er sá framsýni náttúrulega að deila á allsherjarhugmyndir um að redda landinu úr skítnum með einum ofuriðnaði. Sem átti að vera álið, þá eins og nú. Þetta með kálið var náttúrulega útúrsnúningur. Bara flott af því að það var svo asnalegt.
En nú er öldin önnur. Bókstaflega. Og menn alveg að átta sig, held ég, á því að það er vissara að eiga eitthvað að éta. Meira að segja getur alveg komið sér vel að búa það til heima hjá sér. Svona til dæmis þegar fjármálabröltið fer til fjandans, eins og um daginn.

Mig langar allavega frekar að vinna í ofurgróðurhúsi heldur en álveri. Og held að það sé hollara.

21.10.10

Gerum við kannski bara of mikið?

Undirrituð dratthalaðist ekki í vinnuna fyrr en um 10-leytið. Eftir 12 tíma svefn. Er þar að auki að drepast úr leti og nennir ekki nokkrum sköpuðum hlut. Sem er hreint ekki gott. Fyrir liggja 35 blaðsíður af ritgerð, fullar að splunkunýjum og ilmandi athugasemdum frá leiðbeinanda sem gott væri nú að fara í á meðan ég man enn um hvað þær snúast síðan á fundinum okkar fyrir helgi. Aukinheldur sýnist mér þarna vera sóknarfæri á að lengja þennan kafla um allt að því helming með ekkert svo mikilli fyrirhöfn. Og það er nú alltaf frekar skemmtilegt. Þetta kemur til af öllum stöðunum þar sem stendur "útskýra betur".

Ég elllska að útskýra betur. Það þýðir... ja nákvæmlega það. Útskýra betur hvað ég er að hugsa. Ekki uppfletti nema það sé eitthvað sem ég man eftir að ég geti notað. Engin yfirlega eða lestur á þykkum doðröntum sem ég skil ekki. Bara... útskýra betur.

Eins og þetta ætti ekki að vera nóg ástæða til að maður sparki sér í gírinn þá er kynning á doktorsverkefnum eftir viku. Hvar ég ætla að tala um mitt í einhverjar... 15 mínútur, held ég. Það er ekki langur tími. Ég þarf að velja hvað ég ætla að segja af gríðarlegri kostgæfni. En svo langar mig nú líka til að hafa þetta skemmtilegt, sko. Mögulega með myndefni og svona.

Já, og daginn eftir þennan fyrirlestur rennur út frestur til að skila inn umsóknum til að tala á ráðstefnu um póstdramatískt sem/eða pólitískt leikhús í London í september næstkomandi. Líklega er þetta erfitt í að komast og svona, en væri svalt og ég verð að senda eitthvað.

Þannig að þetta gengur ekki! Bara alls ekki! Það endar með því að ég þarf að nota nasistaforritið aftur og slökkva á internetinu! Sveimérþá!

Annars eru Rannsóknarskip og Unglingabátur að detta í vetrarfrí. Í fyrsta sinn ever ætlum við ekki að fara neitt, heldur bara hanga heima, ég og þau litlu í "vinnunum" og enginn þvælingur á neinum. Ég reikna með að eiga einstaklega þrifalegt heimili að tæpri viku liðinni.

20.10.10

Gott fólk

Hóf daginn á því að hlusta á viðtal við Pál Skúlason sem var í sjónvarpinu í gær. Svo rignir inn framboðum frá góðu fólki á stjórnlagaþing. Ég er búin að ákveða að ég ætla að kjósa gott fólk þangað. Soldið klárt og velþenkjandi, almennilegt fólk sem er í góðu sambandi við sjálft sig og nennir að vinna vinnuna sína. Ég ætla ekki að afskrifa stjórnlagaþingið sem eitthvað plattform fyrir "ríka og fræga" eins og ég sé að margir eru búnir að gera. Ég neita að gera ráð fyrir að meirihluti Íslendinga séu fávitar.

Hér er tækifæri til að prófa hvernig persónukjör virkar. Ef við kjósum tóma fávita og framapotara til þessarar vinnu hefi ég hugsað mér að fara í fýlu. Sem er svosem engin breyting. Fer maður ekki í hálfgerða fýlu yfir öðrum hverjum fréttatíma, hvort sem maður vill eður ei?

Svo heldur maður bara áfram að undirbúa hreppaflutninga til Vancouver 2013. (Þ.e.a.s. ef ekki kemur heimsendir 2012 eða sólstormur 2013 sem afnemur rafmagnið. Held ég nenni ekkert að róa þangað, sko.)

Mér finnst heilmargir vera orðnir reiði-alkar. Margir urðu reiðir í október 2008 og hafa bara haldið því við. Enda alveg endalaust hægt að finna sér hluti til að verða reiður yfir, á Íslandi í dag. En fólk verður vitlaust af þessu. Það er hægt að vera í stanslausu adrenalín-rússi af pirringi og reiði yfir hvað allir séu nú vitlausir/spilltir/vondir/lélegir í sínu. En það er hægt á öllum tímum. Hver þekkir ekki allavega einn svona krónískt pirraðan kall?

Ég dett stundum í þetta. Gerði það sérstaklega fyrst eftir hrun. Þetta var bara svo góð tilfinning. Réttlát Reiði. Að fá loksins "réttmæta" ástæðu til að vera brjálaður út í þá sem maður fyrirleit fyrir. Dásamlegt rúss það.

Auðvitað er það síðan kjaftæði. Ákveðin mótsögn í því að maður kalli sig Zeitgeistara, andstæðing auðhyggju og séreignarkerfis og finnist maður síðan maklegt og réttvíst að hnýta í fólk vegna þess að það tók alla PENINGANA! Rugl.

Palli Skúla var ekkert vitlaus í þessu viðtali, frekar en fyrri daginn. Og hann benti á eitt. Við (allavega Íslendingar, mögulega Vesturheimskingjar, kannski meiraðsegja mannkynið) höfum tilhneigingu til að vaða áfram. Gera bara eitthvað. Framkvæma strax allskonar vanhugsað. Þegar samfélagið er fullt af kjaftæði, mótsögnum og bulli, eins og það hefur verið um langt skeið, þarf ekki bara að stoppa aðeins og spekúlera í því hvað þarf að gera eða gerast?
Akkúrat núna held ég að engir tveir í þjóðfélaginu séu alveg sammála um það.
Ótrúlega margir alveg brjálaðir yfir ótrúlega mörgu, samt. Og hafa ekki allir jafnhaldgóðar ástæður fyrir því. Ef ekki vill betur getur maður orðið brjálaður fyrir hönd einhvers annars.

Ég held að á Íslandi sé mestanpart gott fólk.
En mörg erum við ferlega vitlaus.
Aðallega vegna þess að við höldum alltaf að við vitum allt.
Öfugt við Sókrates.

Og nú er best að gá hvað ég þekkingu ég ætlaði að skapa mannkyninu með þrotlausum rannsóknum í dag.

19.10.10

Hvaðan koma eiginlega allar þessar frábæru hugmyndir?

Átakið „allt sem ég geri í október er Æðislegt“ er að hafa hin undarlegustu áhrif.

Jú, ég er enn með bullandi þunglyndiseinkenni. Syfjuköst sem hellast yfir mig þegar minnst varir. Kvíði fyrir ýmsu, sérstaklega öllum félagslegum samskiptum, þó ég yfirvinni það með Æðislegunni, og það er stutt í pirrurnar á mér.

En þegar ég er vakandi, með pirrur og kvíða í lágmarki, eru hugmyndirnar einhvernveginn... já, bara snjallari en venjulega. Það eru að rifjast upp allskonar sem mig hefur langað til að gera og komast í verk.

(Barnabókin Soffía mús er í augnablikinu hjá myndskreytara annars vegar og hjá bókaútgáfunni Bjarti/Veröld hins vegar, sem telur þó ekki líklegt að hún komist út fyrir jól... sem var líka bjartsýni, fyrsta skrens hefur verið tekið á íslenska textanum að Someday at Christmas, sem gaman væri að fara yfir með yrkfræðingi.... hei! Best ég sendi pabba mínum hann! Sko, hugmynd!)

Í dag rifjaðist upp hugmynd að grein annars vegar og þýðingu hins vegar... Anna í Grænuhlíð, gamla og glataða þýðingin og endurútgáfa.

Og svo fékk ég hugstrump varðandi doktorsritgerðina mína. Smíði hennar hefur farið þannig fram að ég skrifa eitthvað, hitti svo leiðbeinandann minn, hann segir mér að laga eitt og annað, ég geri það... og skrifa svo meira, og þannig áfram og áfram. Nema nú finnst ég mér vera komin í hring, einhvernveginn. Og mér finnst þetta vera afturábak. Svo það sem ég ætla að gera núna er að finna mér kennsluefni um hvernig doktorsritgerðir eiga að vera uppbyggðar og allskyns gagnleg trix. Síðan ætla ég að segja köllunum að búa til kúrs úr þessu sem eigi að vera skylda á fyrsta ári í doktorsnámi. Ef þessi háskólanefna getur ekki haldið úti svoleiðis hefur hann ekki nokkurn hlut með doktorsnám að gera. Augljóslega.

Mér hefur líklega aldrei d0ttið jafnmargt í hug á hálfum mánuði. Ég velti fyrir mér hvort sé kannski eitthvað samhengi á milli þunglyndis og snilli, eftir alltsaman. Að miklir listamenn þurfi að þjást mjög mikið. Hugmynd sem mér finnst iðnvæðing lista og skemmtana hafa svolítið hent fyrir borð.

Einu sinni fór ég á fyllerí með Árna heitnum Ibsen og ég man að við ræddum þetta heilmikið. Hann sagði mér frá því að þegar hann var að skrifa Himnaríki, sem er líklega hans fyndnasta verk, þá voru veikindi og erfiðleikar í kringum hann og hann var mjög þunglyndur. Oft sprettur líka það skemmtilegasta sem manni dettur í hug að gera út úr einhverri alveg vonlausri aðstöðu.

Og hvað með Ísland?

Þrátt fyrir að ekkert sé í fréttunum nema mínustölur og kjaftæði, þá finnst mér ég verða vör við miklu meira af snjöllum hugmyndum núna en fyrir hrun. Ásta og Auður eru búnar að búa til menningartímaritið Spássíuna. Svavar Knútur er með prógramm öll fimmtudagskvöld. Hugleikurinn minn er farinn að sýna leikrit heima hjá sér, eitthvað sem var aldrei "hægt". Hljómsveitir spretta upp eins og gorkúlur. Viðburðaprógrammið á fésbókinni minni er þannig að maður þyrfti aldrei að koma heim til sín. Fyrirlestrar, sýningar, myndlist, námskeið, hönnun á allskonar.

Líklega geta engir peningar örvað sköpunargáfuna líkt og almennilegt þunglyndi gerir.

18.10.10

Ókei. Hvaða dagur er?

Ógurlega mikið að gera. Líklega ætti maður að hætta að söngla jólalög og reyna eitthvað að skipuleggja sig. Lalalala.

Annars er ógurlega gaman á námskeiði hjá honum Þorvaldi Þorst. Ég er eiginlega alveg viss um að hann myndi ekkert vera að segja mér að skipuleggja eitt eða neitt.

Allir ætla á stjórnlagaþing. Það er nú fínt. Mikið væri nú skemmtilegt að fá svona úrval af einvalaliði sem maður mætti síðan raða inn á Alþingi og í borgarstjórnir eins og manni sýndist!

Átti annars ljómandi helgi. Fór á eina og hálfa tónleika með Band on Stage þar sem þau ábreiddu Nick Cave af mikilli snilld. Afar gaman af því. Helginni klykkt út með barnaafmæli í gær.

Rannsóknarskip og Unglingsbátur fá vetrarfrí í vikunni. Ljómandi ágætt. Þeim verður þrælað út í heimilisstörfunum.

Og mig dreymdi að ég var að fæða barn í nótt, en fæðingarhríðir hættu í miðju kafi svo ekki varð neitt úr neinu. Vona að þessi draumur hafi ekki verið um barnabókina mína.

Soffía mús á tímaflakki skal út fyrir jól!