21.1.05

Eftirfarandi þykir kannski einhverjum ekkert til að gera grín að. En mér finnst það. Þannig að viðkvæmar sálir eru beðnar að hætta að lesa hér.

Líkami minn er Musteri.
Ekki nóg með það, hann er Musteri geðsjúks safnaðar úr annarri vídd.

Þegar meðlimum leiðist, þá ákveða þeir að gera musterinu einhvern fíflaskap. Fyrir einum 9 árum síðan var gúrkutíð hjá söfnuðinum. Þá ákvað hann: Hei! Látum eins og Musterið sé með MS!
8 árum síðar sungu safnaðarmeðlimir einum rómi: Nei, bara djók! og höfðu þá bætt skaðann að fullu.

Úti í Frakklandi leiddist þeim líka. Hvort það var vegna holls fæðis, nægrar heyfingar eða bara almennrar velmegunar skal ósagt látið. Þá datt söfnuðinum í hug að fara í ferðalag upp í innra eyra og gera skandal með þeim afleiðingum að Musterið valt um koll, trekk í trekk. Musterið sá við kvikindunum einu og hálfu ári seinna og komst að því hvernig bæta mætti skaðann.

Var þá kyrrt um hríð.

Nú seint á síðasta ári var söfnuðurinn geðsjúki úr vídd hrekkjapúka greinilega aðframkominn af leiðindum eina ferðina enn. Settist hann að í móðurlífi voru og bjó til þungunareinkenni. Áður en lesandinn sleppir sér í þeirri samglaðninghysteríu sem jafnan fylgir barneignum annarra, skal lesa lengra. Söfnuðurinn væri nú ekki sá húmoristi sem hann er, ef hann ætlaði að fara að búa til alvöru barneign. Hann bjó nefnilega til fúlegg. Þungun með öllu... nema vísi að barni. Ef ekki hefðu komið til nútímalæknavísindi og þartilgerð gegnumlýsingartól hefði Musterið sennilega gengið með fulla meðgöngu og eignast síðan... vatn.
Og söfnuðurinn sungið einum rómi: Nei, bara djók.

Er Musterið orðið nokkuð pirrað á þessu pakki sem í því býr og heldur helst að fremja þurfi andasæringar. Spurningin er bara hvað muni duga best? Hreinlífi og hallelújasöngur? Jóga og nýjaldarkukl? Eða skal illt með illu út reka?

Sjúkrasaga Musterisins er allavega að verða full af lygasögum.

19.1.05

Gat ekki sofnað í nótt eftir kaffidrykkju gærkvölds. Úr þeirri andvöku varð eftirfarandi:

Ýmsar tegundir áhugaleikara.

Gullaldar-Áhugaleikarinn: hefur einhvern tíma leikið í bæði Galdra-Lofti og Skugga-Sveini.
Honum þykja leikstjórar eiga að segja til um hvar maður á að standa, hvað maður á að segja og hvernig. Hann trúir ekki á hópefli, upphitanir eða jógatengdan undirbúning neins konar og þykja leiklistarnámskeið þar sem mönnum er kennt að anda með tánum vera húmbúkk. Hann hefur aldrei heyrt um nýmóðins bjánaspámenn eins og Stanislafskí eða hvað þeir nú allir heita.
Gullaldar-Áhugaleikarinn er hættur að leika þar sem hann skilur ekki asnalætin í leikstjórum nú til dax.

Ástríðufulli Áhugaleikarinn: er með leikhúsfíkn.
Hann tekur líklega þátt í öllum sviðum leikfélagsstarfsins á einhverjum tímapunkti í lífinu og þykir trúlega flest leikhúsvinna áhugaverð. Ástæða þess að hann hefur ekki sérhæft sig sem atvinnumaður í einhverju leikhústengdu er trúlega sú að hann getur ekki gert upp á milli mismunandi sviða leikhúsvinnu. Hann fengi fráhvörf ef hann ákvæði að halda sig frá starfinu í einhvern tíma, en þá ákvörðun tæki hann líklega aldrei. Honum þykir ekki lykilartiði að vera í aðalhlutverki eða áberandi við uppsetningu leiksýninga og er alveg sama hvort hann er rétt feðraður í leikskrá. Ástríðufulli áhugaleikarinn sér allt sem er í gangi í öllum leikhúsum sem hann kemst yfir og er sama hvaðan gott kemur. Hann tekur því persónulega þegar honum þykir Thalíu misþyrmt. Hann skipuleggur ennfremur sín sumarfrí og utanlandsferðir í kringum leiklistarviðburði og hátíðir.
Ástríðufulli Áhugaleikarinn fúnkerar illa í fjölskyldum, nema þá með öðrum slíkum.

Keppnis-Áhugaleikarinn: vinnur af engu minni ástríðu með sínu félagi en sá ástríðufulli.
Hann vill veg síns félags sem mestan og bestan og tekur allri neikvæðri gagnrýni á störf sinna manna sem persónulega móðgun. Hann sér stundum sýningar hjá öðrum, en lætur sér ævinlega fátt um finnast. Hann nálgast hvert leikár eins og deildarkeppni í boltanum og ef uppsetning hans félags fær slæma dóma er það náttúrulega dómaraskandall.
Keppnis-Áhugaleikarinn er mikið fyrir verðlaunaveitingar hvers konar, svo framarlega sem hans félag vinnur.

Bitri Áhugaleikarinn: er tvenns konar.
Bitru áhugaleikararnir eiga það sameiginlegt að hafa mjög skýrar hugmyndir um að sum hlutverk og störf séu merkilegri en önnur þegar kemur að leikhúsvinnu. Merkilegheit hlutverka fara í þeirra huga eftir setningafjölda í handriti, síður en nærveru á sviði eða vægi persónu. Bitru áhugaleikararnir hafa ekki endilega mikinn áhuga á leikhúsi, en hafa talsverða minniháttarkennd og nota leikfélögin sem leið til að láta klappa sjálfstrausti sínu á rassinn.

a) Vanleikarinn: mætir á fyrsta samlestur, en gerir sér far um að vera ósýnilegur. Hann langar innst inni óskaplega mikið að vera með, og helst áberandi, en hræðist fátt meira en að verða sér til skammar. Á fyrsta samlestri heldur hann sig nálægt þeim sem hann þekkir vel, gefur sig ekki á tal við neinn annan og forðast leikstjórann eins og heitan eldinn. Hann les og gerir það sem hann er beðinn að gera vel og vandlega, en tilþrifalítið. Vanleikarinn er ólíklegur til að fá þau hlutverk eða störf sem honum þykja merkilegust þar sem sá sem reynir að vera ósýnilegur í herbergi fullu af athyglisþurfandi fólki er það jafnan.

b) Ofleikarinn: kemur með nokkrum gassagangi inn á samlesturinn, vindur sér að leikstjóranum og spyr hvort hann muni ekki eftir sér. Ofleikarinn var nefnilega statisti í kvikmynd sem leikstjórinn lék aðalhlutverk í fyrir einum fimmtán árum. Líklega man leikstjórinn tilvist þessa einstaklings með nokkrum hryllingi. Ofleikarinn les og gerir æfingar með þvílíku offorsi að hann skilur fæst af því sem hann er að lesa og leika og er ævinlega einn á sviðinu, þótt hann sé það ekki. Ofleikarinn fær líklega heldur aldrei stjörnurulluna sem hann vonast eftir, af augljósum ástæðum, og rekst illa í statistahóp.

Bitru Áhugaleikaranna bíða trúlega þau örlög að fá aldrei þá viðurkenningu sem þeir sækjast eftir, og að hætta síðan að "koma nálægt þessu" eftir nokkurra ára vinnu við statistahlutverk og annað sem þeim finnst eiginlega fyrir neðan sína virðingu með bitru muldri um að vanþakklæti séu heimsins laun.

Prímadonníski Áhugaleikarinn:
mætir ekki á fyrsta samlestur. Hann bíður eftir að það sé hringt í sig. Það þýðir ekkert að bjóða honum smáhlutverk, nema kannski ef einhver mjög frægur hefur leikið það í Myndinni. Hann kemur ekki nálægt annarri vinnu innan félaxins þar sem það er einfaldlega langt fyrir neðan hans virðingu, en er hrókur alls fagnaðar við mannfagnaði hverskonar. Hann er einnig nokkuð líklegur til að leggja fyrir sig leikstjórn.

Óviljandi áhugleikarinn:
er stjörnuleikari af guðs náð.
Hann hefur engan áhuga á leiklist, en brillerar í hvert sinn sem hann stígur á svið. Það er hringt í hann hvert einasta leikár og hann grátbeðinn að taka að sér aðalhlutverk, en hann lætur ekki til leiðast nema hann hafi nákvæmilega ekkert betra að gera. Hann hefur líklega mörg önnur áhugamál sem honum þykja merkilegri. Þá sjaldan hann er með fær hann glimmrandi dóma, en lætur sér frekar fátt um finnast, þar sem honum finnst þetta eiginlega hálfgerð tímasóun. Félagsskapurinn þykir honum "svo sem allt í lagi" en það er meira gaman í golfinu, rótaríinu eða kirkjukórnum, og fjölskyldan er honum mikilvægari.

Síðast en alls ekki síst;
Hvíslarinn/kaffikonan: er ævinlega kvenkyns.
Hún býður sig fram í að hvísla, vera í varastjórn, sauma búninga (ath. sauma, ekki hanna) og sjá um kaffið. Hún setur ljós sitt undir mæliker og sópar búningsherbergið þegar enginn sér til. Fáir átta sig á því, en hún er hryggjarsúlan í félaginu. Hún gerir allt sem enginn annar nennir að gera með bros á vör og móðurleg í viðmóti. Leikarar fá jafnan matarást á þessari konu, en gleyma tilvist hennar um leið og þeir eru búnir að borða. Þetta er tvímælalaust göfuglyndasti einstaklingur félagsins. Hún er líklega liðtækur leikari, en erfitt kann að reynast að draga hana á svið. Hún er "konan sem kyndir ofninn minn", gerir ævinlega gott úr öllu, þó það gleymist iðulega að setja nafnið hennar í leikskrána, og er aldrei bitur.

Tekið skal fram að engin þessara steríótýpa er byggð á raunverulegum manneskjum og flestir passa líklega í fleiri en einn flokk. Held til dæmis að ég sjálf hafi element úr þeim öllum, nema þeim Óviljandi og Kaffikonunni. Mig dreymir um að öðlast göfuglyndi og jafnaðargeð Kaffikonunnar með aldrinum.

18.1.05

Mig er búið að vera að dreyma endalausa spennandi splatterdrauma undanfarið. Fyrir hverju ætli það sé t.d. að dreyma:

- Ógeðslega gruggugt baðvatn
- Að maður sé að kreista blóð úr rottum
- Endalaust mikinn snjó, inni, sem aðrir eru að moka
- Litla rauða og marga flugelda út um allt

Og allt þetta, ásamt með ýmsu fleiru mis-ógeðslegu, gerist í myrkri. Og þetta eru samt ekki martraðir. Er ævinlega pollróleg bæði á meðan og þegar ég vakna frá þessum skemmtilegheitum.

Mér hefur sýnst meginreglan í draumaráðningum sé sú að viðbjæðir séu fyrir góðu, en fátt veit á verra en hvolpar, kettlingar og sæt smábörn.
Komandi tíð ætti því að verða öll hin besta.
Sko. Þegar manni dettur ekki í hug vitleysa til að blogga um nema í mesta lagi annan hvern dag er andleysið ekkert smá allsráðandi. En það er það bara.

Enda á skrifgleðin víst að vera að fara í ýmislegt annað þessa dagana... ekki að hún sé endilega að gera það. En núna er samt loxins upprunninn sá tími að ég get ekki fundið mér neitt til afsökunar lengur fyrir því að vera ekki að skrifa leikrit/útvarpsþætti/annað uppbyggilegt. Vinnuaðstaðan bíður heima og rykfellur. Verkefnaskortur er jafnan allsráðandi frá 1 á daginn til ca. 7-8 á kvöldin.

Það er líklega ekki til zetunnar boðið.
Þá er bara að reyna að hafa áhuga á einhverju.

16.1.05

Enn ein tíðindasmá helgi að syngja sitt síðasta. Mismenningarleg.
Horfði á ædolið hjá Nönnu. Okkur sýndist margt og mismikið og veltum fyrir okkur að mæta einhvern tíma í Smáralindina og sitja á fremsta bekk með prjónana. (Og eyrnatappa.) Og huxuðum ennfremur um að stofna Gallerí Prjón.

Á laugardaginn fór ég á einleikaratónleika hjá litlusystur. Hún er orðin svo flínk að spila á gullklósettið sitt að puttarnir á henni sjást varla þegar hún spilar hratt. Og smá plögg, ofursinfónían Hver tók ostinn minn verður flutt í Borgarleikhúsinu þann 2. febrúar (miðvikudaxkvöld) klukkan 10.

Á laugardaxkvöld hummaði ég fram af mér partí hjá sömu systur sökum almennrar leti og horfði í staðinn á sjónvarpið í þágu bágstaddra. Og þótti það nokkuð á mig lagt. Hver er meiningin með því að hrúga saman mest pirrandi fólki í íslensku sjónvarpi og nota það fyrir kynna? Reyndar verð ég að segja að Gísli Marteinn finnst mér blátt áfram viðkunnanlegur við hliðina á Bingóskrípinu. Mér finnst fólk á kókaíni óskemmtilegt.
Finnst ég allavega hafa lagt mitt að mörkum fyrir bágstadda við Indlandshaf bara með því að pína mig yfir þessu.

Og nú verð ég að fara að hætta að fjalla um sjónvarpið. Þetta er að verða alvarlega paþþettikk. Gallinn er bara sá að ég nenni ómögulega að eiga líf þessa dagana, nema í algjörri mýflugumynd. Fer vonandi að lagast með hækkandi sól og meiri Hugleik.