Á hinn bóginn hraðaði viðburður þessi ýmsu öðru sem var á aðgerðalistanum. Til dæmis druslaðist ég loxins til að púsla saman vagninum til að geta gefið Hraðbátum frí frá eiturgufunum, úti í svifrykinu.
Og það er eins og mig hefur alltaf grunað. Það er ekkert huxað um börn númer 2. (Þar sem ég fékk Smábátinn til umráða þegar hann var níu ára verður Freigátan mitt fyrsta barn á sínum aldri, fram að níu ára aldri, þegar hún færist allt í einu yfir í að vera annað barn. Hraðbátur verður að sama skapi annað barn fram að níu ára aldri, en þá verður hann þriðja. Hann er sem sagt ennþá annað barn. Eins og ég.)
Í fyrsta skipti sem Freigátan fór út í vagn að sofa var ég alveg á nálum og gáði að henni á um 5 mínútna fresti. Í dag setti ég Hraðbátinn í fyrsta skipti út í vagn og gleymdi honum samstundis. Því var það að þegar hann vaknaði var ég í óða önn að skipuleggja skúringar á eldhús-stofu rýminu og var búin að gera ófært út á svalir. Inn náði ég nú drengnum samt, og hann var svaka þægur og sat í ömmustólnum sínum og fylgdist með skúringunum af áhuga.
Til þess að sporna gegn ilminum af snuðasteikinni þurfti nefnilega að grípa til talsvert róttækari aðgerða en að lofta út, hafa opið út báðumegin, og spreyja vellyktandi. Ég greip m.a. til þess ráðst að skúra rækilega með Þrifi. Það dugði nú ekki til nema rétt svo. Það er allavega ennþá vel hægt að finna snuðbræðslulykt.
Ennfremur komst ég að því í dag að það er ekki jafneinfalt að leigja barnavagn og maður gæti haldið. Hef hins vegar augastað á einum góðum til kaups í Babysam. Hann er hræódýr en alveg riiiiisastór. Hraðbáturinn getur sofið í honum fram undir fermingu.
Annars er ég alvarlega húkkt á sjálfri mér þessa dagana. Þegar ég var búin með bæði langtímaverkefnin sem ég var búin að skipuleggja í fæðingarorlofinu (Harry Potter og Friends) vantaði mig eitthvað nýtt til heilarýrnunar, en slíkt er nauðsynlegt ef maður ætlar ekki að farast af leiðindum í brjóstagjöfinni. Þegar ég var búin að ná einstakri lagni við að láta tölvuna vega salt á brjóstagjafarpúðanum fór ég að lesa bloggið mitt, hverja einustu færslu frá upphafi. Mér finnst það ógeðslega skemmtilegt! Djöfull er ég fyndin! (Og hógvær.)
Svo er þetta líka alveg æsispennandi. Ég er komin þangað sem Freigátan er rétt ókomin undir...