2.1.04

Hvílíkt velkom!

Ég er sumsé flutt til Reykjavíkur. Ég er farin að halda að það hafi verið misráðið.

Í fyrsta lagi. Það eru nýbúin að vera áramót þannig að unnusti minn var morgunfúll og geðvondur þegar hann þurfti að sækja mig á flugvöllinn fyrir hádegi og mátti þar að auki ekkert vera að því að tala við mig í dag sökum áramótaheita. (Mér var trúlega nær að gera ekki svona mikið grín að því hvað hann væri feitur og mikill alkóhólisti... allt þetta ár ætla ég að halda mér saman.)

Svo. Við Ásta vorum búnar að dudda við að gera íbúðina okkar sæta (og stærri...) í dag fara með mig í Kringluna til að láta mig venjast stórborginni.
Ég var ekki nema rétt byrjuð að rifja upp hversu veraldarvön ég var hérna í eina tíð, þegar dyrabjöllunni var hringt. Ásta svaraði ekki í dyrasímann heldur bara ýtti á takkann, eins og menn gera. Við vorum harla glaðar og héldum að nú værum við heldur betur að fá óvænta heimsókn. En, nei. Áður en við vissum hvaðan á okkur stóð veðrið stóðu tveir menn inni í gangi, snardópaðir, og þóttust eiga að handrukka okkur. Við urðum eiginlega harla skelkaðar og fórum í fúlustu alvöru ekki að geta gert grín að þessu fyrir alvöru fyrr en núna, fullum klukkutíma síðar.
Málum lyktaði allavega þannig að við sögðum þeim bara að fara, og það gerðu þeir. Guðmávita hversvegna, vegna þess að þeir voru alvarlega rugglaðir og hefðu getað tekið okkur í bakaríið á svipstundu.

Núna erum við að reyna að ná okkur niður yfir rauðvíni og ædoli. Ég væri alvarlega að huxa um að taka næstu flugvél heim í sveitina ef ekki væri fyrir Hugleik, blessað Bandalagið og ADSL.

Skál!

31.12.03

Á áramótum hef ég gjarnan gefið skýrslu til fjarstaddra. Hér kemur árið

2003

Síðustu áramótum fagnaði ég á Egilsstöðum, eins og næstum öllum öðrum slíkum. Strax að þeim loknum hélt ég þó á vit örlaga minna til Glaðskóga þar sem ég var í miðju kafi að hafa vetursetu. Í janúarlok þurfti ég síðan að skreppa til Frakklands til safna saman og ganga frá örlögum mínum þar. Kvaddi ég Frankaríki með örlítilli eftirsjá og huxaði sem svo að þangað vildi ég fara einhverntíma í heimsókn.
Í byrjun mars kvaddi ég síðan Glaðskóga, með engri eftirsjá, fari sá staður og allt hans hyski í fúlan pytt.

Þegar þarna var komið sögu varég sumsé komin með pjönkur mínar, sem árið höfðu hafið í þremur löndum, allar í sama landið, og flutt með öll mín örlög til föðurhúsanna. Reyndist það verða þjóðráð hið mesta.

Eins og þeir sem eitthvað hafa fylgst með pistlum undanfarin áramót vita, þá hafði ég um síðustu áramót lifað mikið til án jafnvægisskyns í rúmt ár. Ástand þetta var enn til staðar þegar ég fluttist búferlum heim í heiðardalinn. Stuttu síðar bar það þó við að ég var tekin til gagngerrar endurskoðunar á Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri. Það var skoðað, gegnumlýst, mælt og tekin sýni í nokkra daga og í ljós kom… ekki nokkur skapaður hlutur. Á heilsufari undirritaðrar fannst ekki nokkur meinsemd, utan smá misskilnings í innra eyra sem auðvelt er að halda niðri með hraustlegri framgöngu og líkamlegu atgerfi hverskonar. Öllum fyrri sjúkdómsgreiningum var þar með kastað fyrir róða og bötnun hafin skipulega.
Þarna var ég þó búin að græða eitt og hálft ár til innhverfrar íhugunar og er eflaust betri manneskja eftir.

Mikið var ég þó fegin að fara að vinna aftur, eins og eðlilegur þjóðfélagsþegn, en það gerði ég á Minjasafni Austurlands fyrir tilstilli Rannveigar nokkurrar Þórhallsdóttur sem vegna þessa og ýmiss annars viðurgjörnings á árinu skoðast
Velgjörðarmaður Ársins.
~ Fyrir hennar tilstilli og föður míns fór ég síðan að skipta mér af útgáfu hins merka tímarits “Glettings” og endaði með því að ritstýra einu tölublaði af því áður en árið var úti.
~ Áður en að því kom fór ég á Leiklistarskóla Bandalagsins, sem er alltaf sama snilldin, í þetta skipti á framhaldsnámskeið í leikritun þar sem ég skrifaði hálft leikrit sem síðan hefur legið í salti.
~ Í sumar fór ég líka að vinna í minni ágætu MA ritgerð, sem er langt komin núna.
Það varð sumsé smá ofvirkni sprenging.

Í ágúst ferðaðist ég, fyrir tilstilli áðurnefndrar Rannveigar, til Dalvíkur að sjá hina dáindisgóðu uppsetningu Þorgeirs míns Tryggvasonar á Draumi á Jónsmessunótt. Þar mættu mér alveg flunkuný örlög. Ég hélt að lífið væri hætt að koma mér á óvart, en hefði ég vitað fyrr að hægt væri að landa karlmönnum með arfaslakri frammistöðu í karókí á fylleríi… ja, þá hefðum við Berglind til dæmis átt að vaða í þeim hérna á árum áður. Ég er heldur á því að lögmál heimsins hafi eitthvað breyst síðan í eina tíð.
Síðan hef ég alltént verið með annan fótinn á höfuðborgarsvæðinu.

Í haust kom síðan Leikfélag Fljótsdalshéraðs sterkt inn og setti upp Gaukshreiðrið, í hverju ég var aðstoðarleikstjóri hjá honum Oddi Bjarna, sem er indælis- og snilldar- bæði leikstjóri, og gaur almennt. Það var firna lærdómsríkt og gaman, ekki síst vegna þess að sýningin heppnaðist þvílíkt vel og fékk gargandi góða dóma. Skemmtilegt.

Nú held ég aftur áramót á Egilsstöðum og aftur hyggst ég ferðast á vit örlaga minna á nýbyrjuðu ári. (Merkilegt hvað þau virðast alltaf þvælast á undan manni hvað sem maður reynir að halda í við þau og safna þeim saman...) Í þetta sinn er þó ferðinni ekki heitið lengra en til höfuðborgarinnar. Þar hef ég hugsað mér að ferðast aðeins aftur í tímann, fara að vinna hjá Bandalagi íslenskra leikfélaga eins og forðum, leika mér við Hugleik og búa í kommúnu við hana Ástu og eiga unnusta í Hafnarfirði. Er það von mína að það verði bæði happadrjúgt og heillaríkt.
Vegabréfið mitt er útrunnið, mér líður vel yfir því, enda eru útlönd asnaleg.

Ég vil að lokum þakka þeim sem lesa samskiptin á árinu og biðja menn vel að lifa og að passa sig á flugeldunum og fylleríinu í kvöld, sérstaklega ku vera varhugavert að gera hvurutveggja í einu.
Nýju ári verður fagnað hér í kjallaranum að venju, þó hópurinn sem mætir af “mínu” fólki sé óneitanlega farinn að þynnast. Það eru vonandi góðir gleðskepir annars staðar sem hinna brottfluttu njóta.

Takk fyrir gamla árið, allesammen, gangi vel með það nýja.

29.12.03

...og 10 kílóum síðar...

Þetta voru lötustu jól mannkynssögunnar. Ládeyðan á heimilinu var svo algjör að Hugrún systir mín litaði á sér hárið út úr leiðindum, fór ekki eftir leiðbeiningunum og er nú eins og páskungi um hausinn. Þegar ég var búin að hía á hana stanslaust í sólarhring fór hún í bæinn og tók eiginlega allt draslið mitt með sér þannig að nú er ég eiginlega flutt til Reykjavíkur með allt nema sjálfa mig.

Bára systir mín var brúðarmær í hálfamerísku brúðkaupi hjá vinkonu sinni. Við vorum búnar að spá mikið í það hvort þetta yrði ekki örugglega alveg eins og í amerískri sápu, en það gerðist ekkert spennandi. Brúðurin stakk ekki af, brúðguminn kom ekki út úr skápnum og það kom enginn löngu týndur skáfrændi, sem þjáðst hafði af minnisleysi, hlaupandi inn í kirkjuna á síðustu stundu til að segja þeim að þau væru systkini. Semsagt, ekkert spennandi.

Ég er eiginlega ekki búin að vera neitt að nenna að hitta fólk, þrátt fyrir fögur fyrirheit. Fór eitt kvöld í partý og svo á ball en þar hitti ég alla og nokkra í viðbót þannig að ég ætla ekkert að vera með of mikinn móral yfir því að vera félagsskítur.

Á þessum letijólum er ég hins vegar búin að verja gífurlegum tíma til sjónvarpsgláps. Ég er t.d. búin að komast að því að Titanic hefur ekkert skánað síðan ég sá hana síðast. Englar alheimsins hefur ekkert versnað heldur. (Batnað heldur en hitt við það að vita af því að það er unnusti minn sem er eitt af löggukjánunum sem óðu út í tjörnina...)
Moulin Rouge er svakalega undarleg mynd. Ég vissi svosem ekkert við hverju ég bjóst... og hún olli mér heilabrotum. Ég veit ekki alveg hvað mér fannst. Svo horfði ég á X-Men. Alltaf gaman að stökkbreytingar- og ofurmennapælingum. Handritið frekar glatað, samt.
Svo voru náttúrulega klassíkurnar, The Muppets Chrismas Carols, The Nightmare Before Chrismas og My Fair Lady, sem standa jú alltaf fyrir sínu.

Og svo eru það náttúrulega bara áramótin.
Áramótapistillinn í ár verður náttúrulega á blogginu. Ég er búin að skrifa þá í nokkur ár og senda, ýmist fjölskyldunni eða ættingjum fyrir vestan eða bara vinum og kunningjum. Var að huxa um að birta þá gömlu hér í leiðinni, en er búin að tína þeim. Allavega, hann kemur á Gamlársdag.