15.2.12

Glataður texti

Sá glataði nefnist leikverk í leikstjórn divæsdívunnar Ágústu Skúladóttur sem nú er á fjölum Hugleiksins. (Eða réttara sagt á steingólfinu í mínímalrýminu úti á Eyjarslóð.) Þó því hafi verið fleygt, er ekki hægt að segja að leikritið sé eftir mig. Ég er hins vegar handritshöfundur. Til að útskýra hvernig í þessu liggur verður að segja aðeins frá vinnuaðferðinni.

Þegar ég kom inn í verkefnið var búið að ákveða viðfangsefni, ráða leikara og velja hóp. Tónlistarhöfundur var meira að segja lagður af stað í sitt ferðalag. Og hann var einnig búinn að taka saman rannsóknargrunninn í viðfangsefnið, dæmisögur Jesú. Og prenta þær út.

Það stóð aldrei til að ég færi heim með bunkann og skrifaði leikrit. Það átti að dívæsa (sem er stundum kallað að ágústa, í mínum kreðsum, í höfuðið á þessari kjörvinnuaðferð þessa leikstjóra) eins og vindurinn. Í ætt við leikhús á borð við Theatre Complicite og Berliner Ensemble, svo maður sé nú ekki að setja markið á neinn aumingjaskap. Gallinn við þær áætlanir var vissulega sá að í staðinn fyrir að hafa eitt til tíu ár með leikhóp í fullu starfi við að þróa sýninguna, höfðum við þrjá mánuði og leikhópinn aðeins til umráða á kvöldin og um helgar. Samt stóð ekkert til að stytta sér leið.

Við byrjuðum í byrjun nóvember að hittast og láta leikarana spinna og gera tilraunir með það sem þeir sáu í sögunum. Stundum voru ákveðnar sögur undir, stundum sögur með ákveðnu þema, stundum frjálst val úr þeim 28 dæmisögum sem lágu til grundvallar öllu saman. Þær lágu misvel við dramatiseringu. Sumar þeirra voru í rauninni skrifaðar eins og einþáttungar, með töluðum texta og öllusaman. Aðrar ekki. Eins og til dæmis þessi:


Súrdeig (Lúkas 13)

 Og aftur sagði hann: "Við hvað á ég að líkja Guðs ríki? Líkt er það súrdeigi, er kona tók og fól í þrem mælum mjöls, uns það sýrðist allt."

Þetta rataði reyndar ekki í sýninguna en hefði verið gaman.

Aðferðirnar sem leikstjóri notaði til að fá ýmislegt fram úr sögunum voru ýmiskonar. Stundum var spunnið með tónlist. Stundum mátti nota orð, stundum ekki. Stundum þurfti að nota ákveðin efni eða annað sem við vorum með á staðnum. Það urðu til ofboðslega fallegar stemmingar þegar klassísk, kórflutt, tónlist úr biblíuþema var sett á fóninn. Við lékum okkur líka heilmikið með málaraplast og gínuhöfuð. Allir í hópnum unnu hugmyndavinnuna. Margt af því sem verið var að gera á þessu stigi málsins er í sýningunni, en flest í allt annarri mynd. Það hefði verið mjög gaman að sjá hvað hefði gerst ef við hefðum haft svona tvö ár...

Og handritshöfundur fylgdist með, punktaði niður og spekúleraði með leikstjóra og tónlistarhöfundi, út í hið óendanlega. Fljótlega ákváðum við að þenja rýmið út fyrir hið mögulega. Sem þýddi meiri tiltekt í húsnæðinu okkar á Eyjarslóðinni heldur en áður hefur verið framin. Eins voru búninga og förðunarhönnuðir lagðir af stað áður en skrifaður var stafkrókur í handrit og það sama má segja um leikmyndarhönnun. En um svipað leyti fórum við að setja niður fyrir okkur hvað ætti að gerast í leikritinu. Grundvallaratriði eins og að sögurnar Týndi sonurinn og Týndur sauður skyldu vera miðlægar. Þarna fórum við líka að athuga hvaða sögur væru með mestum taltexta. Í kringum það fór handritið að byrja að verða til og það þróaðist þannig að mér fór að þykja spennandi að nota að mestu leyti textana beint úr biblíunni. (Reyndar örugglega gömlu þýðingunni... ég hef ekki athugað það.)

Þetta er svolítið í ætt við það sem ég hef verið að leika mér með. Í síðustu tveimur stuttverkum sem ég hef skrifað hef ég verið að nota texta annarra. Síðasta verk mitt, Ljóð fyrir níu kjóla, er samtal (eða... þrítal) úr þremur mismunandi þýðingum á síðustu einræðu Lady MacBeth. Þaráður skrifaði ég tvíleik þar sem tveir menn tala á sama tíma, það sem annar segir er eingöngu úr niðurstöðum fyrsta Þjóðfundarins sem Mauraþúfan hélt og skilgreiningar á hinum sjö eða átta himnesku dyggðum. Einhverra hluta vegna hef ég þess vegna verið að stela mikið textum úr ýmsum áttum og setja þá saman á nýjan hátt. (Já, þetta ljómar artífartlega, og er það.) Ég efast um að ég sé hætt því, heldur.

Það fór sem sagt að verða spennandi að í þeim sögum þar sem taltexti var áberandi, að fara helst ekkert út fyrir hann. Þar sem frekari útskýringa þurfti við var textinn úr sögunum sem ekki var taltexti til að byrja með lagður persónum í munn. Og svo duttu inn setningar víðar að út Biblíunni. Ungu elskendurnir eru mjög heppnir að þegar ég byrjaði að nota Ljóðaljóðin á þau var ekki nema hálfur mánuður eða svo í frumsýningu. Ó, boy, hvað það hefði nú getað orðið skemmtilegt. Og LANGT.

En það er engin munnræpa í þessu verki. Upprunalegt handrit var 16 blaðsíður. Sýningin tekur um klukkustund og tuttugu mínútur í flutningi. Það segir sig sjálft að hún gerist að miklum hluta í þöglum leik og tónlist. Ég hugsa að söngtextar séu í orðafjölda allt að því jafnumfangsmiklir og talaður texti sýningarinnar. En það var hluti af samvinnu okkar Ágústu að búa til framvinduna. Hvernig alltsaman byrjar, hvernig það endar, hvað gerist í millitíðinni.

Það er því beinlínis rangt að halda því fram að ég sé höfundur þessa verks, eða það sé eftir mig. Ég er reyndar höfundur talaðs texta í verkinu, en ólíkt mörgum, jafnvel flestum, leiksýningum sem maður sér er talaði textinn ekki hryggjarstykkið í sýningunni. Leiðina að honum þróuðum við saman, leikstjórinn Ágústa Skúladóttir, tónlistarhöfundur/-hannari Þorgeir Tryggvason og leikhópurinn allur saman. Við erum öll höfundar sýningarinnar og hún er eftir okkur. Ég er hins vegar handritshöfundur. Sem er í þessu tilfelli alls ekki það sama og höfundur.

Það er gaman að vinna svona, sem Ensemble. Það er líka mjög erfitt. Sérstaklega þegar tímapressa er á öllu saman, flestir mæta eftir langan vinnudag, nota allar helgar og þurfa að kúpla sig út úr öllu sínu daglega lífi til að taka þátt. Þá er þetta þrekvirki. En það kveikir óneitanlega í manni löngun um meira.
Morgunæfingar. 
Rými með plássi. 
Nokkur ár til þróunarvinnu.

Og svoleiðis.