17.9.09

Peningana eða lífið?

Ef ég væri ekki frétta- og samfélagsumræðufíkill, þá hefði ég ekki hugmynd um að það væri kreppa. Ekki frekar en að ég fann góðærið á eigin skinni. Það var líka bara í fréttunum. Meðan góðærið var í fréttunum var hins vegar húmanisma- og vitsmunakreppa í landinu. Peningarnir voru lífið og það var hægt að ljúga hverju sem var. Svo framarlega sem að á bak við orðin væru (raunverulegir eða upplognir) peningar. Það voru til nógir peningar og þar með var óþarfi að reikna með því að einhver ætti bágt á landinu. Þeir sem ekki sáu hvað allt var ljómandi glimmrandi æðislegt voru bara afturhaldskommatittir, atvinnumótmælendur og svoleiðis landráðamenn.

En nú hefur snúist íðí. Engir peningar og allt í volli. Eða hvað?

Eftir að menn komust að því að hér hefur ekki verið sagt satt orð um ástand mála í nokkur ár, og ekki til skitinn fimmeyringur í landinu, eru menn tortryggnir. Margir grenja um "hina ÓGURLEGU tortryggni" sem er ríkjandi í samfélaginu. Já, alveg ferlegt að menn skuli vera farnir að hugsa sjálfstætt, ræða málin og hættir að láta selja sér sannleikann á tólfþúsundníutíuogníu í BT eða Kúnígúnd! Svakalegt, maður!
Og nú má aftur tala um þá sem minna mega sín í samfélaginu. Jafnvel hjálpa þeim! Reyndar snýst umræðan nú ferlega mikið um það að þeir sem voru allan tímann með lélegar tekjur (af því að það mátti ekki hækka þær í góðærinu af því að þá kæmi verðbólgan) eigi að borga brúsann fyrir þá sem misstu sig í bruðlinu. Og þaðan kemur líklega hinn ógurlegi hræðsluáróður sem nú dynur á manni hvívetna.

Hin ráðandi stétt sem áður hétu góðærisplebbar og nú eiga bágt að vera "skuldarar" virðast vera með umræðuna í vasanum. Á meðan seljum við orkuveiturnar okkar og dönsum eftir reglum alþjóðagjaldeyrismafíunnar sem virðist ekki geta kreist meira út úr Suður-Ameríku og hefur snúið sér hingað norður.

Í dag er brostið á með húmanísku og vitsmunalegu góðæri á Íslandi. Aukinheldur er að verða vitundarvakning á glæpum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og annarra glæpafyrirtækja á vegum Bandaríkjanna. Mikið væri nú hroðalega gaman ef, ofan á allar aðrar góðar fréttir, að Ísland yrði nú litla blindskerið sem AGS strandaði á? Jafnvel í eitt skipti fyrir öll?

Lifi Kreppan!
Lifi Byltingin!
Húrrah!

15.9.09

Ljótu húsin úr góðærunum.

Hvað er þetta með arkítektúr á uppgangstímum? Það er eins og þá fái menn alltaf ljótuköst. Hanna ljótar og ferkanntaðar byggingar, gersneyddar allri hlýju og "mannleika". Á háskólasvæðinu er til dæmis greinilega aðeins byggt á brjáluðum uppgangstímum. Eins og t.d. 2007. Enda var bætt rækilega í ljótubyggingasafnið sem er að myndast á háskólasvæðinu. Það væri hægt að setja upp sögu ljóts arkítektúrs á uppgangstímum hérna á svæðinu og fara í kynnisferðir með túrista.

Glerbrjálæðið 2007 er líka soldið spes, sérstaklega í ljósi umræðunnar um gegnsæi. Athugist að aðeins sést út úr glerhýsunum. Ekki inn. Í fundaherberginu í Gimli, sem er úr ógagnsæju gleri frá gólfi til lofts, langar mig alltaf að leika við hvern minn fingur eins og Monty Burns í Simpsons, horfa yfir lýðinn utandyra og segja: Yes, yes. Work, my minions. Work!

14.9.09

Vistabönd og átthagafjötrar?

Mikið hrikalega fer í taugarnar á mér þegar höfuðborgarbúar grenja nú yfir því að geta ekki selt fasteignirnar sínar í hvaða viku sem þeim sýnist.

Við hvaða veruleika halda menn að allir utan höfuðborgarsvæðisins, og sumir í Hafnarfirði og Mosfellsbæ, hafi búið undanfarna áratugi? Hafi menn gerst svo djarfir að versla sér húseignir á þessum stöðum þá er eins gott að menn treysti sér til að búa í þeim ævilangt. (Svo fremi sem menn eru ekki reknir úr þeim vegna snjóflóðahættu, með skít og kanil í bætur.) Og þannig hefur það alltaf verið. Svo sést einhver vísir að sömu þróun á höfuðborgarsvæðinu og þá liggur bara allt grenjandi um vistabönd og áttahagafjötra og líkir sér við undirmálsmenn bændaveldis fyrri alda?

Fuh.
Skrattinn vorkenni...