12.5.07

Kusum

Fjölskyldan mínus Smábátur fór í dag og kaus. Í ráðhúsinu. Það er kalt úti en samt eru allir þar. Mæli engan veginn með því að reyna að vera á bíl í bænum í dag. Eða einu sinni með barnavagn. Ég er þunn, Rannsóknarskip er þreyttur eftir að hafa vaknað með Freigátunni eldsnemma í morgun. Þau eru að leggja sig.

Ég er að huxa um að setja allra fyrstu þættina af Friends í DVD-arann og gera slíkt hið sama.

Best að byrja bara aftur á þessum degi.

En gaman var í pottinum hjá henni Hrefnu í Bingópartíinu í gær.
Takk fyrir skemmtunina, allir þar.

11.5.07

Ekkjað neeeennessu!

Ég er svo þreytt/slöpp/löt.

Á að fara í partí í kvöld en er ekki að byrja að nenna á skipuleggja það. Á gólfinu situr Freigátan og rífur bók í tætlur á milli þess sem hún rífur geisladiska úr hlustrum. (Faðir hennar er að reyna að segja henni að skammast sín, en hún syngur bara til baka: "Hah hah HÆÆÆ!" Sem er frumsamið lag sem hún hefur sungið nú um hríð.

Og ég er ekki að nenna að díla við neitt. Rannsóknarskip er að fara á tónleika og ég er að sofna. En það stendur víst uppá mig að koma barnunganum í rúmið í kvöld. Því miður er Smábátur farinn norður. Annars myndi ég senda systkinin út á trampólín, og leggja mig.

Og ég er búin að komast að því hvers vegna Framsóknarflokkurinn græðir alltaf öll þessi atkvæði á lokasprettinum. Í dag er hann búinn að gefa mér bæði grænan frostpinna og kaffi. Sjálfstæðisflokkurinn er búinn að gefa mér mjólk. (Hollt, en dáldið boríng.) Aðra hef ég ekki séð eða heyrt.

Svo þar er lausnin á því fundin. Það borgar sig að gefa nammi.

Zzzzzzz

Ekkisen ekki

Ég held ekki að Eiki frændi Rannsóknarskips hafi ekki komist upp úr undankeppninni af því að hann var ekki frá Austur-Evrópu. Ég held bara að það hafi verið af sömu ástæðu og að ég hefði ekki getað pikkað þetta lag út úr lænöppi fyrr en ég var búin að heyra það svona 10 sinnum.

En ég er hrifin af þeim sem eru að taka upp þráðinn þar sem Litháar skildu við í fyrra og senda fyndna kallhópa að gera misvitleysislega hluti (með boðskap eða ekki) eins og Lettar og Ísraelar.

Tími Ljótu hálfvitanna er klárlega runninn upp. Nú skora ég á, til dæmis, Bibba að skrifa írapoppsættaðan slagara í ætt við, til dæmis, Bjór meiri bjór, og á Sævar að þýða textann á ensku, með stuðlum og höfuðstöfum. (Ja, eða ekki. Ég finn sjálfa mig vera að verða hrifnari og hrifnari af þeim sem syngja á eigin frummálum.) Og bæta svo við júróhækkun fyrir síðustu endurtekningu á viðlagi, og málið er dautt.

Ég þarf annars að láta gera eitthvað við tölvuna mína. Hún er orðin öll hæg og skrítin. Er ekki um að gera að senda hana bara aftur til föðurhúsana og láta Tölvulistamenn krukka í hana? Ætli gögnunum manns sé ekki bara óhætt í Safninu hjá símanum á meðan?

Svo langar mig í minni tölvu. 12 tommu makka með firewire. Veit einhver um einhvern sem á gamla G4, í þeirri stærð sem er ekki ónýt?

Braskibrask.

10.5.07

Skemmtiþynnka

Þegar aldurinn færist yfir fara ýmsir kvillar að gera vart við sig. Greinilegar en áður. Eitt af því sem ég hef orðið meira og meira vör við á undanförnum árum er skemmtiþynnkan. Hennar verður jafnan vart eftir náið samneyti við fólk sem hittist í tengslum við Bandalag íslenskra leikfélaga. Á slíkum samkrullum, hvort sem það heita aðalfundir, haustþing eða leikhústengd námskeið, er reyndar unnið heil ósköp. Allan daginn frá því syndsamlega snemma morgnanna og fram undir kvöldmat er hamast við fundahöld eða nám, en saman við þetta er ógurlega gaman. Það er gaman að djöflast í áhugamálinu sínu við fertugasta mann. Fá hugmyndir, framkvæma hugmyndir, slátra hugmyndum sem mönnum þykja vondar, og allt það.

Einn mesti lúxusinn við svona samkomur er síðan, maturinn. Í þartilgerðum matstal, hvar sem maður er staddur á landinu, birtist matur á matmálstímum. Maður þarf ekkert að hugsa um hann. Hvorki fyrir eða eftir. Við þessi töfrabrögð léttast lundir manna svo gríðarlega að í kringum hvern matmálstíma heyrir maður oftast hátt í hundrað fynd. Svo maður minnist nú ekki á allt sem maður heyrir gjarnan langt fram eftir kvöldi, og stundum fram á nótt, sé maður duglegur. Sem sagt, gríðarlegt óverdós af skemmtan. Og eftir 8 ára þvæling í kringum þetta alltsaman er ekkert lát á því hvað þetta er gaman.

En eftirá er maður líka hálftussulegur. Eftir að hafa skemmt sér af svona ógurlegu afli er maður vissulega með sumar rafhlöðurnar algjörlega endurhlaðnar. Af öðrum er búið. Alveg. Skemmtibatteríin mín eru til dæmis tóm, núna. og má þakka fyrir ef mér dettur eitthvað sniðugt í hug yfir Júróvísjón, og er þá nóg sagt. Enda kannski bara ágætt að nú liggi aðallega fyrir að klára helv... fundargerðirnar, og ekki þurfa þær nú að vera skemmtilegar.

En ég verð samt að láta fljóta með einn hroðalega góðan brandara sem ég heyrði um helgina.

Spurning: Hvað er ógeðslegra en að finna plástur í kaffinu sínu?

Svar: Helförin.

9.5.07

Ekkert mál

Biðjið og yður mun... hvað? Hlotnast? Hvað segir séra Oddur?
Það var allavega snöfurmannlega vísað á sjálfspróf handa júróvilltum. Og það er snilld. Það kom út að ég myndi halda með Andorra. Sem er lag sem ég man alveg eftir. Ég hef heyrt því fleygt að einhverjir ætli að halda með Úkraínu. Hef reyndar ekki heyrt það lag ennþá, en verð að vara alvarlega við því!

Ég hélt einu sinni með Úkraínu og hef aldrei orði jafnsvakalega full í júróvísjónpartíi. Bara hundaheppni að ég var heima hjá mér, annars lægi ég örugglega ennþá einhversstaðar áfengisdauð í eigin ælu á víðavangi.

Þetta verður annars vafalaust gaman. Á morgun er ætlunin að grilla pulsur ásamt GummaE og syni, og kannski einhverjum fleirum. Vonandi verður Freigátan orðin skárri, en hún var með svaka flensu í dag. Rannsóknarskip er líka ennþá frekar sleppilegur. Og ég veit ekki hvort ég er að byrja eða hvort ég er enn þunn frá helginni. Sem getur svosem alveg verið...

7. júní

Eftir því sem fram kemur á spánnýju bloggi Þráins, verður Listin að lifa sýnd í Þjóðleikhúsinu þann 7. júní, næstkomandi. Já, það er áður en skólinn byrjar. Nánar tiltekið daginn áður. Svo þetta verður ágætisupphitun. Svo verður enginn aðstandandi sýningarinnar á skólanum, ágæta, svo það verður hægt að byrja að rakka niður, strax á leiðinni.

(Kannski rétt að vara menn samt við því að Rannsóknarskipið mitt verður á skólanum, svo menn hemja sig kannski í kringum hann. Hann er nefnilega heitasti aðdáandi þessa verks og hefur alltaf haldið því fram að það færi í Þjóðleikhúsið. Ég tók ekki mark á honum því hann er hlutdrægur.)

Þangað til verður nú aldeilis gaman að lifa. Gaman að hafa skrifað svona dularfullt leikrit sem enginn sá, en ku samt vera... athyglisvert. (Sem getur síðan nottla þýtt hvað sem er ;-)
Þá er um að gera að vera fjarrænn á svip, brosa dulúðlega og slá um sig með artí frösum.

(Þangað til að sýningu kemur og menn sjá að auðvitað er þetta mest hreinræktaður fíflaskapur eins og fyrri daginn, og ekki að ósekju að verkið gekk lengi undir vinnuheitinu Kúkaleikritið. Endirinn er þar að auki skrifaður í sms-formi á Players yfir fótboltaleik, var að rifjast upp fyrir mér.)

Alvara lífsins

Snúum okkur þá að alvöru málsins. Það er víst á leiðinni alveg svakalega örlagarík helgi. Ekkert nema lýðræði, fram og til baka. Og allir eru nú meira en til í að leiðbeina manni með hvað á að kjósa, þó sumir af eiginhagsmunalegri hvötum en aðrir.

En með þessu er vandinn leystur:
Svona kom ég út.

Stuðningur við Sjálfstæðisflokk: 0%
Stuðningur við Framsóknarflokk: 20%
Stuðningur við Samfylkinguna: 50%
Stuðningur við Vinstri-Græna: 62.5%
Stuðningur við Frjálslynda flokkinn: 13%
Stuðningur við Íslandshreyfinguna: 40%

Hreint ekki erfitt að sjá hvorumegin miðjunnar ég er, enda segir nú bara uppeldið til sín, með það, en það kom mér á óvart að ég skuli vera svona græn. Ég er reyndar geðklofi í þeim málum, hlynnt virkjunum en frekar á móti stóriðju. Reyndar ekki út af mengun, sérstaklega, heldur vegna þess að mér þykja verksmiðjur ómanneskjulegir vinnustaðir sem gera fólk að vinnuvélum. Skoðun sem ég á alveg eftir að fóðra og koma á framfæri.

Þá vantar bara sjálfspróf sem ákveður fyrir mann hvað maður á að kjósa í Júróvísjón, og þá er valkvíði helgarinnar afgreiddur.

8.5.07

Frunsuhættan

leynist víða, en þó er hún trúlega hvergi jafnviðvarandi og á Bandalagsþingum. Svo maður tali nú ekki um þegar maður þarf að kyssa aukahring. Enda er ég komin með eina djúpa.

Og, talandi um að vera upptekinn af sjálfum sér. Ég gleymdi alveg að minnast á að Bandalagið er að skipta um formann. Halla mín er farin úr stjórninni, en í staðinn er kominn hann Toggi minn. Halla mín er hins vegar að flytja suður, þannig að mér finnst hún nú bara vera meira að koma en fara. Og svo er ég að öllum líkindum að hætta á skrifstofunni í haust til að mennta mig í að verða The Devil Wears Prada, og þá hættir þetta nú alltsaman að koma mér við... eða svoleiðis.

Í þessu var hringt í mig. Og ég var í símaviðtali við Fréttablaðið. Undir lok samtals kemur í ljós að viðmælandi minn er ein leikkonan mín úr Ungum mönnum á uppleið. Mikið ógurlega var það gaman. Enda virðist sá hópur bara vera úti um allt í "bransanum". Ég held að þetta viðtal verði í Fréttablaðinu á morgun. Veit einhver um einhverja góða mynd af mér? Ég get ómögulega mætt í myndatökur með þessa frunsu!

Og, svo maður plöggi meira af fjölmiðlafárinu. Ég er að fara í viðtal til Viðars Egg á eftir, í þættinum hans, Vítt og breitt, sem verður á Rás 1 milli 13 og 14. Ég held að leikararnir hafi verið á Morgunvaktinni í morgun. Ég veit að Oddur Bjarni er í prófum í guðfræðinni, svo Drottinn sé með honum, bara.

7.5.07

Skilvirkni og hámarksárangur

Þá er maður bara kominn í vinnuna, með augnlokin á hælunum og eina þá mögnuðustu timburmenn sem elstu menn muna. Ég þakka öllum fyrir allar hamingjuóskirnar og símtölin og smessin sem hefur rignt yfir mig undanfarinn sólarhring. Þetta er alvarlega kúl. Nú hef ég skrifað tvö leikrit í fullri lengd, ein míns liðs, og þau hafa bæði verið valin AÁÁ. Tilviljun? Nú fer ég að gera meira af þessu. (Sagði konan sem er að fara í nám og allskyns.)

Margir hafa verið að velta fyrir sér hvenær sýningin í Þjóðleikhúsinu verði. Án nokkurrar ábyrgðar, og án þess að um það hafi verið tekin formleg ákvörðun, þá held ég að það sé stefnt á bilið 1. - 8. júní. (Fyrir BÍL-skóla)

Á öðrum vígstöðvum gekk helgin líka alveg syngjandi vel. Freigátan var hin hamingjusamasta með ömmuna og frænkuna á Egilsstöðum og lét ekkert á sig fá að foreldrin væru fjarverandi í tvo daga. Hún lék við hvern sinn fingur þegar ég kom og sótti hana, og var bara voða glöð að koma heim líka. Meðfærilegt barn. Það er sumsé hægt að hafa hana í útláni yfir nótt, allavega hjá ömmu-Freigátu. Aldrei að vita nema menn notfæri sér það, kannski til dæmis þegar lokahelgin á Skólanum verður.

Rannsóknarskip notaði þessa fríhelgi sína til að fá flensu. Hann var þess vegna bara með hor og slef og tómt búr þegar við komum heim, svo Móðurskipið mátti byrja á að sigla hraðbyri í búðina og afla fæðu.

Mér skilst að Smábátur hafi eytt helginni á trampólíninu, ásamt hálfu hverfinu. Mikið finnst mér nú gaman hvað tölvan og DVD-ið fá mikið frí hjá honum þessa dagana. Alveg óumbeðið.

Og í viðbót: Umsögn AÁÁ dómnefndar um málið má lesa hér.

6.5.07

Djöfull er ég búin að skíta á mig núna...

...eða ekki.

Á hátíðakvöldverði í gærkveldi kom Þjóðleikhússtjórinn og tilkynnti val hver vann viðurkenninguna Athygliverðasta áhugaleiksýning ársins, og það var Leikfélag Fljótsdalshéraðs með Listina að lifa eftir Mig!

Þetta er nottla obbosslega gott leikrit sem skartar meðal annars upphafssetningunni úr fyrirsögn. Svo kom hann Oddur Bjarni Þorkelsson og bjó til þessa líka hroðalega athygliverðu sýningu úr því.

Svo við erum nú bara frekar montin, hérna á Héraðinu, í dag.