Ég er ennþá alveg eins og aumingi og við Hraðbátur hóstum í kór. En ég nenni ekki að fara með hann í einhverjar pestanámur í þessu ástandi. Er ennþá að vona að við bötnum af sjálfum okkur. Sem er kannski bjartsýni þar sem við erum búin að vera veik lengst, eða síðan á mánudag.
Smábáturinn ætlaði að vera í einhverju kirkjustarfssulli um helgina, en því var aflýst svo hann var sendur norður með engum fyrirvara í gær og ætlaði að vera viðstaddur þriggja ára afmælið hennar Kamillu systur sinnar í dag. Hann sleppur þá vonandi við þessa pest líka.
Og svona höfum við það nú, síðustu helgina okkar í Reykjavíkinni þangað til einhvern tíma í ágúst. Hóstandi og frísandi yfir júróvísjón. Um þá næstu verður brunað vestur á firði á ættarmót, svo þá er nú eins gott að allir verði orðnir frískir og hraustir. Helgina það á eftir er síðan planið að Smábátur verði kominn norður, Rannsóknarskip í Svarfaðardalinn að læra leikritun og ég með ormana austur.
En nú held ég við þurfum að panta pensíllín á línuna. En vonandi það síðasta á þessum vetri.