4.4.09

Akkúrat....

...núna var ég að bresta í 35 ára.

Deginum eyddi ég mikið til á leikæfingu. Og svo heima með börnum og eiginmanni sem eldaði handa mér dýrindis nautakjet með innndælis meðlæti. Svo svæfðum við sitthvort barnið, feðgar horfðu á nýjasta Bond og nú erum við búin að reka þann síðasta í rúmið og erum sest fyrir framan annan þáttinn af Crow Road með rauðvínið sem við nenntum ekki að hafa með matnum og After Eight.

Fínasta ammli.

Skemmdarverk á eigum auðmanna

Málningu var skvett á húsið hann Hannesar Smárasonar. Innan við sólarhring seinna var búið að mála yfir hana.

Þetta er greinilega hið besta kreppuráð, samfélaginu til handa.

Atvinnuskapandi og um leið hugsanlega eina leiðin til að ná ránsfeng auðmanna aftur út í atvinnulífið á Íslandi.

2.4.09

HVAÐ SEM ÞAÐ KOSTAR!

Já, menn kalla eftir breytingum. Heimta siðbót og hugarfarsbyltingar NÚNA STRAX!
HVAÐ SEM ÞAÐ KOSTAR!

En hinn vestræni heimur byrjaði að velta á hægri hliðina kringum 1990. Og hefur verið á hægri siglingu til hægri síðan og nú sýnist manni sú stefna vera komin í þrot. Þá byrjar hugsunarhátturinn að velta til vinstri aftur. Hægt og rólega. Ennþá erum við samt gjörsamlega hel-hægra meginn. Nokkrar kosningar eiga eftir að koma og líða. Kreppan á eftir að hafa sinn gang. Holan er stærri en nokkurn er farið að óra fyrir og ástandið lagast ekki árið 2010. Maður þarf ekki nema að kunna ponkulítið að reikna til að sjá það. Það má þakka fyrir ef menn verða komnir nokkurn veginn á lygnan sjó kringum 2030-40 og ekkert mjög margir svelta alveg heilu hungri á milli. Atvinnuleysi og gjaldþrot eru bara pínöts-vandamál, óttast ég, miðað við það sem við eigum eftir að sjá. Og í því hefur ekkert verið hægt að gera síðan snemma árs 2006.

Menn eru ennþá svo fastir í 2007 að þeir fatta það ekki. Bara það að heimta að hugsanaháttur breytist og siðbót verði. NÚNA! Svona heimtufrekja eins og að hlutirnir eigi að gerast NÚNA STRAX og HVAÐ SEM ÞAÐ KOSTAR er ákveðnir minnisvarðar græðgisvæðingarinnar. Þó við séum að tala um frið á jörð, réttlæti öllum til handa og velþóknun meðal mannanna.

En góðir hlutir ku gerast hægt. Slæmir líka.
Sennilega á ýmislegt eftir að breytast. Hvað og hvernig?
Vissulega er gaman að spá.
Og verður spennandi að sjá.

Sjálf er ég að þróa kenningar að menn verði alltaf hálfgeðveikir í aldarbyrjun. Hrokuðu menn ekki líka yfir sig í upphafi þeirrar tuttugustu? Hvernig var þetta ekki með ósökkvanlega skipið Titanic? Og öll heimsyfirráðin og dauðann í heimstyrjöldunum tveimur? Og hrunið 1929 var nú aldeilis búið að eiga aðdraganda.
Er kannski einhver undirmeðvituð númerólógía í kringum þetta alltsaman?

En það sem menn gera hér á Íslandi AKKÚRAT NÚNA held ég að skipti minna máli en margir halda. Það tók áratugi að grafa þessa holu. Og þó Íslendingar hafi verið einna duglegastir þá eru fleiri í henni með okkur. Til dæmis Bandaríkjamenn. Og það mun taka mörg ár að skríða upp úr henni. Og það verður sennilega alveg hunderfitt. Og sennilega eru engar töfralausnir til á því.

Hugarfarsbreytingar, stjórnarfarsbreytingar, siðbætur... sennilega eiga eftir að verða margar og misjafnar. Jafnvel algjör bylting á öllu kerfinu eins og við þekkjum það. Smám saman.
En þetta verður gríðarlega langt langhlaup. Boðhlaup, jafnvel.

Mér finnst jafnvel ekkert pottþétt að ég sjái fyrir endann á afleiðingum þessarar u-beygju sem hinn vestræni heimur er að byrja að taka núna, á meðan ég lifi. Afleiðingarnar á hugsanahátt og siðferði held ég að eigi eftir að verða margvíslegar og margslungnar og "sjálfsagðir hlutir" eiga eftir að taka gríðarlegum breytingum. Sem mér finnst sjást best á því hvað menn telja sjálfsagt í dag. Hvernig er verið að taka á vandamálunum nú með afstöðu og aðferðum alheimsfrekjunnar.

Allt ÞARF að gerast STRAX! og HVAÐ SEM ÞAÐ KOSTAR!
Með sama fítonskrafti og menn sögðu: ÉG ætla að FÁ þessa EINKAÞOTU! HVAÐ SEM HÚN KOSTAR! í hittífyrra.

Árið er enn 2007.

1.4.09

Spurning dagsins

Á maður að reyna að fá sér vinnu í sumar?

Nenni ekki að byrja fyrr en í fyrsta lagi í byrjun júlí. Og þarf líklega að hætta um miðjan ágúst. (Nema Hraðbátur verðir, fyrir eitthvað kraftaverk, byrjaður á leikskóla.)

Helst eitthvað sem ég gæti bara unnið í tölvunni minni, hvar sem ég væri...

Hmmm... ætli þetta sé nú ekki bara vonlaust mál, hvort sem er?

Helst ef einhvern vantar að láta skrifa leikrit eða þýða eitthvað.
Einhver?

30.3.09

Lykt – ólykt

Eitt gott húsráð: Forðist að glutra niður rakspíraflöskum. Íbúðin hefur lyktað eins og rússneskur leigubílsstjóri síðan ég gerði mig seka um slíka flónsku, síðastliðinn laugardag. Engar skúringar eða kúkableyjur hafa náð að slá hið minnsta á fnykinn.

Því varð ég næstum hamingjusöm þegar Hraðbátur gerði sér lítið fyrir og ældi rúmlega líkamsþyngd sinni yfir hálfa íbúðina áðan. Var að vona að lyktirnar myndu núlla hvor aðra út.

Öðru er nær.
Nú er eins og hér hafi brotnað flaska af gubburakspíra.

Ég ætla á fasteignavefinn.