8.4.05

Van-eirð

Er komin með óþreyju. Fullt af skemmtilegu ALVEG að fara að gerast. Samt ekki meira ALVEG en svo að fyrst þarf að bíða eftir sumrinu. Ég er gjörsamlega að gefast upp á að láta tímann líða. Og svo því sem ég þarf að gera nenni ég ekki. Finnst ekkert af því gaman.

Og svo rignir ofan í gatið á þakinu mínu (sem ég nenni ekki að láta laga) og ég á ekki túskilding með gati til að láta gera viðða (vegna þess að ég nenni ekki aukavinnum) þinglýstir pappírar með veðinu sem pabbi minn er að taka í leku íbúðinni minni eru enn hjá sýslumanni (nenni ekki að sækja þá) og eyðublaðið sem ég gleymdi að gera í skattframtalinu mínu er enn óútfyllt og óskilað (nenni ekki að reyna að komast að því hvað lántökukostnaður er) og ef ég skila ekki þessu fokkíngs blaði fæ ég ekki vaxtabætur.
Held það sé alveg ljóst að ég nenni ekki að eiga húsnæði. Ætla að skrá það á sölu. Bara nenni ekki á fasteignasöluna.

Og við vorum búin að bjóða Rússum á leiklistarhátíð á Akureyri, en nú lítur ekki út fyrir að þeir komist sökum fjárskorts í Rússlandi. Hvernig má nú líka annað vera þegar hver sótrafturinn uppaf öðrum hangir inni á lista yfir ríkustu menn Bretlands á rússneskum peningum? Eftir að Björgúlfana og Abramovitsj er greinilega bara sviðin jörð. Spurning hvort Bjólfarnir þrír og Chelsea ættu ekki að styrkja Maneken til Íslands? Samvisku sinnar vegna? Í staðinn gæti kynnir sagt, í lok farsímaræðunnar í upphafi sýningar: „Þessi sýning er í boði Chelsea!“ (Verst að þá myndu Liverpool- og Arsenal-fanatíkerar sennilega labba út...)

Og áhugaleysi alþjóðar er þvílíkt að það er ekki enn orðið fullt á eitt einasta námskeið á Leiklistarskóla Bandalaxins. Ef svo heldur sem horfir verður hann ekki einu sinni. Hvar eru til dæmis allir sem eru búnir að vera að grenja eftir byrjendanámskeiði í leikstjórn, árum saman? Þeir eru allavega ekki á skráningarlistanum. Þar eru fjórar (reyndar afar fallegar) hræður. Hop tú itt, pípúl.

Og nú ætla ég að hætta að geðvonskast. Framundan er síðasta sýningarhelgi á Patataz. Það er nú gaman.

7.4.05

Jæjah...

Það líður að lokum sýninga á Patataz. Síðustu 2 verða um helgina og þeir sem vilja sem endilegast sjá ættu að panta sér miða í síma 551 2525 eða í tölvupósti á netfangið midasala@hugleikur.is.

Annars er svo kalt að manni verður nú bara huxað til Evrópu suður. Svona næstum. Ég sveiflast annars mikið með það þessa dagana hvort ég á að reyna að skipuleggja að komast til Mónakó á leiklistarhátíð í sumar. En mér sýnist sumarið vera að verða dáldið undirlagt og sé ekki alveg hvernig ég á að koma öllu fyrir sem mig langar að gera. Svo er ég með nýjan og áður óþekktan kvilla:
Mig langar meira til að dingla mér í kringum manninn minn í sumarfríinu mínu heldur en að þvælast á allt leiklistartengt sem ég veit um!
Já, nú detta sjálfsagt mörgum allar dauðar lýs úr höfði. Jahérna og sveimérþá. Svona getur nú farið fyrir manni. (Er reyndar með mikil plön um að gera mitt besta til að Rannsóknarskipið involverist í farandsýningar framtíðar svo þetta tvennt geti farið saman, en slíkt þarf undirbúning.)

Sé fram á að byltingin, listirnar og ævintýramennskan hverfi í einhverja gífurlega úthverfarómantík með barnauppeldi og grænum baunum á næstu árum. Ójá.

6.4.05

Biðst afsökunar á bloggleysi. Er með hor í hausnum, ekki alfarið með meðvitund, stalst í vinnuna í dag, en er ekki alfarið viss nema það hafi verið örlítið misráðið.

Tröll taki horið.

4.4.05

Í mynd

Mig dreymdi svo miklar hrakfarir í nótt að ég fékk kvef. Enda, hvernig má annað vera þegar maður lendir í hrakningum í Afríku, á sjó, í IKEA, sér fluglsys og rekst á birni sem ætla að ráðast á börn, allt sömu nóttina. Og allt í einhverju undarlegu bíómyndaformi. Ekki von á öðru en að maður forskalist.

Held ég taki þessu öllusaman sem tákni og skrái mig á námskeið hjá einhverjum kvikmyndagúrúi frá útlöndum í næstu viku.

Og eins og eftir sumar aðrar helgar ætla ég að þegja þunnu hljóð um enska boltann. Óska mágum mínum til hamingju með sína menn, með nokkrum þjósti.

Svo á ég ammli á þessum skítkalda gluggaveðursdegi. Ætla ekki að gera nokkurn skapaðan hlut með það nema vera heima og reyna að afkvefast og hafa áhyggjur af þakinu mínu sem er farið að leka.