13.2.10

Hvað skal?

Rannsóknarskip að jafna sig eftir þorrablót og íbúar neðrihæðar voru líka með djamm í gær svo öllum húsbúum yrði klárlega greiði gerður með því að skreppa með börnin burt fram að hádegi.

Auðvitað væru þau hæstánægð með að fara út á leikskólaróló og gætu sjálfsagt ljónast þar fram eftir degi. Við að éta sand og fara hundrað sinnum í rennibrautina. Hugsanlega yrðu líka nokkrir kettir eltir um allt hverfið.

En hann er rigningarlegur, Móðurskip ekki alveg að nenna að híma úti og ormarnir ekki lausir við kvef. Aukinheldur sem lengi hefur verið í umræðunni að við Freigáta förum eitthvert og reynum að finna náttljós í herbergið hennar, sem hún kvartar yfir að þurfa að sofa í.

Er hvíthyskjó að fara bara með börnin í Kringluna, á laugardagsmorgni?

---

Best að segja frá framhaldinu. Leitin að ljósinu bar okkur úr Kringlunni í IKEA, hvar við fundum það sem við leituðum að, í ýmsum útgáfum, og enduðum á ljómandi kjötbollum í mötuneytinu um hádegisbilið. Að því loknu hugsuðum við okkur til heimferðar og þóttumst vera búin að gefa þunna fólkinu í húsinu heilmikinn tíma til að jafna sig aðeins.

Skiptir þá engum togum að Allt í einu er annað eyrað á Hraðbát orðið fullt af blóði. Bara eins og í hryllingsmynd. Hitt eyrað er líka fullt af einhverju grænu ógeði. Móðurskip fékk taugadrullu og hryllingskast og óttaðist það versta. Það versta sem mér datt í hug var reyndar að rörið hefði losnað. Ég hélt ekkert að heilinn væri að leka út, eða neitt.

Við þrusuðum niður á læknavakt í Smáranum. Þar voru um það bil hundrað milljón manns að bíða. Loksins þegar við komumst að leist lækninum nú ekkert á útlitið. Hraðbátur, sem fram að því hafði verið hinn hressasti, varð alveg kolbrjálaður þegar átti að skoða í eyrun. Enda klárlega kominn aftur með eyrnabólgu. (Má geta þess að síðasta pensillínkúr sleppti á þriðjudaginn.) Læknirinn sendi okkur niður á háls- nef- og eyrnadeild á Borgarspítalanum. En þangað þurftum við að drífa okkur í hvínandi hvelli því þar þyrftum við að ná lækni sem væri allllveg að fara af vakt. Móðurskipið með taugadrulluna, Hraðbáturinn með blóðið í eyranu og Freigátan, sem þá var farin að þjást talsvert af afskiptaleysi, voru sem sagt rekin aftur út í rigninguna og laugardagsumferðina til að æða á milljón gegnum hálft höfuðborgarsvæðið. Það er talsvert margfalt kraftaverk að við komumst þangað, í tæka tíð og ósködduð. (Ja, allavega ekki skaddaðri en fyrir.)

Þar var eyrnapíslum Hraðbáts fram haldið, og gott betur, þar sem þarna voru til „betri græjur“, en það þýddi að það var hægt að soga út úr eyrunum á honum með eins konar míníryksugu. Það þótti honum síst þægilegra en píningarnar í Smáranum. Það er séns að allir séu orðnir heyrnalausir á háls- nef- og eyrnadeildinni.

En bestu fréttirnar voru nú þær að rörin voru á sínum stað og eyrnabólgan ekki meiri en svo að það á að athuga hvort eyrnasmyrsl duga, svo kannski sleppur gaurinn við pensillín, í þetta sinn.

Hraðbátur sofnaði á leiðinni heim. Og Móðurskip með honum þegar heim kom. Við sváfum úr okkur taugaáfallið í alveg tvo tíma. Síðan er ég búin að fara og synda 1 kílómetra og sjóða mig dálítið í heitasta pottinum í Vesturbæjarlauginni og er alveg að verða búin að jafna mig.

Ætla að klára það á Rósenberg á eftir á tónleiku með Band on stage.

11.2.10

Maybe I Should Have

Ágætis mynd. Merkilegt að sjá hvernig Tortola lítur út. Annars kom svo sem ekki margt í henni á óvart. Landslagsklámið og fjallkonan pirruðu mig pínu, þó mér þættu Fjallabræður flottir. Mér finnst einhvernveginn póllinn að það megi ekki FARA SVONA með OKKUR af því að VIÐ búum í svo FLOTTU LANDI, ómerkilegur. Athugum að við erum ekki fyrsta þjóðin sem fávitar setja á hausinn. Suður- Ameríka, til dæmis, meira og minna.

En ef fávitaskapurinn á Íslandi verður til að vekja athygli, á norðurhveli, á þeirri geðbilun sem heimskapítalisminn er, þá er hann vel þess virði. Þó maður þurfi eiginlega að gubba eftir hvern fréttatíma þessa dagana. Þannig að væmið landslag, Þingvellir og sjálfstæðistáknmyndir eiga ekkert frekar uppá pallborðið hjá mér nú en endranær. Mér finnst þjóðarhugtakið ekkert merkilegt og fátt hafa orðið heimsbyggðinni og þróun mannkyns til meiri trafala. Nema kannski trúarbrögðin og peningakerfið.

Allt um það. Maybe I should have er samt skemmtileg ferðasaga. Stundum hefði ég viljað sjá Gunnar spyrja meiri og erfiðari spurninga. Og það sem mig langaði ekki að sjá Björgólfi Thor heilsað að sjómannasið... En þessi mynd var ekki gerð til að fullnægja manni neitt. Frekar til að vekja spurningar. Eiginlega var þetta bara byrjunin. Gunnar þyrfti að fá meiri styrki undireins til að halda áfram ferðinni. Hún er bara rétt að byrja. Hann þyrfti til dæmis kannski ekkert að fara svo langt í næstu mynd. Bara í bankana og heim til Hrunkónganna. Og Davíðs, kannski.

Ef einhver er að hugsa um að bíða eftir DVD-inu mæli ég tvímælalaust með dobbúl fítjör.
Maybe I should have og Capitalism, A Love Story. Í þessari röð. Ef menn eru ekki búnir að fá nóg eftir það má síðan bæta Zeitgeist Addendum við. Eftir þann þríleik held ég að menn hljóti að stimpla sig út úr peningakerfinu. ;)

Annars er það merkilegt að þó Geir H. Haarde hafi þótt gera fátt í eftirhruninu, þá virðist hann nú samt vera helsti frasasmiður þess. Guð blessi Ísland, Maybe I should have.
Hann virðist allavega eiga titlana á hrunmyndunum...

10.2.10

Frekir kallar!

Nú þykja þeim sem mig þekkja það líklega mikil tíðindi, sem það vissulega eru, að ég er farin að brúka íþróttasal Háskóla Íslands 6 sinnum í viku. Og ég er ekki einu sinni að ljúga þessu eða ýkja neitt. þrjú hádegi í viku er leikfimi, tvisvar í viku er jóga og einu sinni í viku leigjum við hérna á þriðju hæð í Gimli salinn og djöflumst í einhverjum bolta. Það er algjör snilld að vera farin að nota þetta hús. Þangað til í haust var þetta eina háskólabyggingin sem ég hafði aldrei komið inn í.

En eitt böggar.

Þegar kallar eru í tímanum á undan djöflast þeir alveg þangað til tíminn er örugglega búinn. Oftast þarf að hringja á þá. Við konur bíðum úti á gangi, prúðar og kurteisar eins og reglur mannasiða kveða á um. Sveittir strákar ryðjast úr. Oft illyrmislegir á svip. Heilsa aldrei. Hvað þá að þeir biðjist afsökunar á að hafa farið fram yfir tímann. Fyrir þeim er gangurinn tómur, þó þar sé ekki þverfótandi fyrir kellingum á leið í jóga. Á fimmtudögum er stelpubolti. Þær hætta alltaf á réttum tíma, að sjálfsdáðum. Heilsa meiraðsegja á leiðinni út. Kinka allavega svona kolli og meðtaka söfnuðinn sem á veginum verður.

Það eru kallar í salnum á eftir öllum tímunum sem ég er í. Jóga endar á slökun og íhugun. Ja, eða á að gera það. En svona síðustu fimm mínúturnar af tímanum eru kallarnir farnir að naga þröskuldinn og eiga í háværum hrókasamræðum frammi á gangi, um hvort „kellingarnar“ séu nú ekki að verða búnar að „hvíla sig“.

Á eftir öllum tímum fara kallar í bolta. Byrja samstundis og þeir sleppa inn í salinn. Kvensurnar, margar hverjar 50+ eiga fótum fjör að launa. Kallar eru mættir, blindir og heyrnarlausir af frekju og testósteróneitrun.

Sé nú haft í huga að frekja og testósteróneitrun hefir nýverið sett þjóðfélagið á hausinn, væri þá ekki kannski íhugandi hvort karlmenn úr hinu óstjórnlega vitiborna hámenningarsamfélagi æðstu menntastofnunar landsins gengju á undan með góðu fordæmi, tækjumannasiðina með sér í íþróttahúsið og slökuðu á í boltanum, svona rétt þessar 2-4 mínútur sem konur á aldri við mæður þeirra og ömmur væru að GANGA FRÁ FOKKÍNG JÓGADÝNUNUM SÍNUM?!?

9.2.10

Stefnum á fjöldagjaldþrot!

Svo er hægt að gera fleira en að hætta að versla við glæpamenn. Það er hægt að hætta að vinna fyrir glæpamenn.

Það hafa jú alltaf þótt sjálfsögð mannréttindi hvers manns í hinum vestræna heimi að gerast launaþræll hjá einhverju gullrassgati og þræla myrkranna á milli á mislélegum skítalaunum við að gera himnaföður fyrirtækisins að milljarðera. Geta með því réttsvo dregið fram lífið og er um leið gert skiljanlegt að halda skuli maður kjafti. Æðislegt. Meiriháttar.

Hvernig væri nú að svelta mafíurnar frá öllum hliðum? Vinna ekki, eða allavega illa, hjá þeim?
Atvinnuleysisgrýlunni og gjaldþrotsdraugnum er gjarnan veifað þessa dagana. Haldið yfir höfði þrælanna eins og fallöxi þannig að þeir æmti hvorki né skræmti á meðan svíðingarnir taka á þá í ósmurt.

En gjaldþrot er ekki dauðinn. Og fjöldagjaldþrot? Tja, ef 70% þjóðarinnar þurfa að hætta að borga 80% skuldanna, þá eru bankarnir komnir í vandræði.

Og þá fyrst verða völdin að einhverju leyti komin til blanka meirihlutans. Þá er séns í helvíti að það verði farið að gera eitthvað.

Á Íslandi eru peningar nefnilega mikilvægari en fólk.

Farin á Maybe I Should Have.

8.2.10

Nýtt lýðveldi

Hvernig væri að blanki meirihlutinn segði sig úr lögum við "gamla Ísland"?

Að fyrirmynd útrásarvíkinganna sem hafa stundað að búa til eignarhaldsfélög sem þeir skilja skuldirnar eftir í? Nú er "gamla Ísland" að drukkna í erlendum lánum. Svíðingar eiga flesta banka og stórfyrirtæki... Ég er næstum viss um að Njörður P. lumar á drögum að nýrri stjórnarskrá. Páll Skúlason verði forseti og alvaldur, til að byrja með. (Verst að hann hefur örugglega ekki nokkurn áhuga á því, blessaður.)

Það er mikið tönnlast á því að mesti fjársjóður þjóðarinnar felist í mannauð og náttúruauðlindum. Tökum náttúruauðlindirnar og förum með okkur sjálf, mannauðinn. Hirðum heilbrigðiskerfið og menntakerfið, að fyrirmynd útrásarvíkinga, og annað fémætt úr gamla Íslandi. Skiljum þá síðan bara eftir, með allt á hælunum. Vissulega verður til svartur listi yfir þá sem ekki fá að koma með. Til grundvallar því mætti leggja alla sem nefndir eru á nafn í rannsóknarskýrslunni, til að byrja með.

Erlendir lánadrottnar geta síðan bara hundelt pakkið til Tortóla til að innheimta skuldirnar. Almenningur á Nýja Íslandi þarf þá ekkert að gera nema glotta í kampinn.

Það væri nú gaman.